01.04.1971
Neðri deild: 81. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

213. mál, náttúruvernd

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Kjaran fyrir þessa alvarlegu og heitu ræðu, sem hann flutti um þetta mikilsverða málefni hér. Eins og heyra mátti á máli hans, þá er hann mjög óánægður með ýmsar breytingar, sem gerðar hafa verið á upphaflega frv. um þetta efni, bæði breytingar, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert, og breytingar, sem gerðar voru í Ed. Alþ. Og ég er honum algerlega sammála um þessa afstöðu. Engu að síður hef ég skrifað undir nál., þar sem lagt er til, að frv. verði samþykkt óbreytt að heita má, en ég skrifa undir það með fyrirvara, vegna þess að ég sé ástæðu til þess að mótmæla þeim vinnubrögðum, sem alþm. er ætlað að sætta sig við þessa síðustu daga Alþ. Hv. þm. Birgir Kjaran sagði vafalaust réttilega, að þetta mál hefði verið grandskoðað og fengið góða athugun og hefði farið gegnum margþættan hreinsunareld. En þetta gerðist ekki í menntmn. þessarar hv. d. Okkur var ætlað að afgreiða þetta frv. á einni klukkustund, — á einni einustu klukkustund — frumvarpsbálk um ákaflega veigamikið mál. Hið upphaflega frv. var sem kunnugt er lagt fram á síðasta þingi fyrir tilstilli menntmn. þessarar hv. d. En í haust gerðist það, að ríkisstj. tók þetta mál til sín og hún skilaði því ekki frá sér aftur, þrátt fyrir ítrekaðan eftirrekstur, fyrr en alllöngu eftir áramót. Síðan hefur það legið í Ed. í athugun, sem vafalaust hefur verið málefnaleg og nauðsynleg, en okkur er sá tími eftir skilinn, að það var ætlazt til þess, að við afgreiddum það úr menntmn. Nd. á einni klukkustund, til þess að ekki væri hægt að segja, að það stæði á okkur og þess vegna hefði frv. ekki verið afgreitt. Svona vinnubrögð ná auðvitað ekki nokkurri átt og þetta eru vinnubrögð, sem þm. eiga hreinlega ekki að sætta sig við. En svona vinnubrögðum er ætlazt til að þm. uni í sambandi við fjölmörg mjög veigamikil mál á síðustu dögum þingsins. Og þetta er raunar þeim mun alvarlegra, sem ég er sannfærður um, að eins og Alþ. er nú saman sett, þá hefði verið hægt að samþykkja þetta frv. eða afgreiða það í miklu betri mynd en við gerum, ef alþm. hefðu fengið að vinna að því á eðlilegan hátt og láta á það reyna, um hvað væri meiri hl. og um hvað ekki hér í þinginu.

Í menntmn. Nd. eru t. d. þrír af höfundum þessa frv., í þeirra hópi tveir af forustumönnum úr stjórnarliðinu, bv. þm. Birgir Kjaran og hv. þm. Benedikt Gröndal. Ég gat ekki betur á þeim heyrt í n. en þeir væru andvígir þeim breytingum, sem hæstv. ríkisstj. lét gera, þ. e. a. s. að svipta náttúruverndarráð tekjustofnum og gera allar ákvarðanir náttúruverndarráðs í sambandi við friðlýsingu háðar samþykki menntmrn. Ég er sannfærður um það, að ef ráðrúm hefði gefizt til þess að flytja um það brtt. eða koma þessu í upphaflegt form, þá hefði verið meiri hl. fyrir því hér á Alþ. Og það er óneitanlega hart að verða að una því, að þannig sé staðið að vinnubrögðum, að Alþ. fái ekki komið fram sínum eigin vilja.

Ég vil einnig draga mjög í efa, að það sé raunverulegur meiri hl. fyrir sumum þeim breytingum, sem gerðar voru í Ed. Hv. þm. Birgir Kjaran minntist á sumar, en mig langar að minnast hér á eina breytingu, sem gerð var á 11. gr. frv. Eins og það var lagt fyrir þing, þá er þar að finna þessar setningar, með leyfi hæstv. forseta:

„Gangandi fólki er heimil för um óræktuð lönd manna og dvöl þar í því skyni að njóta náttúrunnar, enda hafi dvöl manna þar ekki í för með sér óhagræði fyrir landeigendur eða aðra rétthafa að landinu. Sé land girt, er aðeins heimilt að fara um hlið á girðingunni.“

Þarna eru ákvæði, sem sett eru frá sjónarmiði gangandi fólks. En hvernig var þessu breytt? Þessu var breytt þannig:

„Gangandi fólki er því aðeins heimil för um eignarlönd manna, að þau séu óræktuð og ógirt og að dvöl manna þar hafi ekki í för með sér ónæði fyrir búpening né óhagræði fyrir rétthala að landinu.“

Þarna er viðhorfinu snúið við. Þarna er litið á málið frá sjónarmiði svo kallaðra eigenda, þeirra, sem hafa girt, og eftir þessum ákvæðum er anzi viða hreinlega bannað að fara um landið okkar. Það er ekki hægt að fara um landið nema framkvæma lögbrot eða leggja í einhver óhemjuleg ferðalög til þess að fá tilskilin leyfi í einhverjum órafjarska stundum. Það er líklega hart á því, að það sé hægt að komast upp á Esju samkv. ákvæðum þessara laga. Og þetta er ekkert smámál, vegna þess að eitt meginatriði náttúruverndar er að tryggja samband fólksins við landið, samskipti þjóðarinnar við landið. Og einmitt þess vegna þurfa í svona löggjöf að vera sérstök ákvæði, sem tryggja rétt manna til þess að fara um land sitt og njóta þess. Ég lít á þetta sem mjög veigamikið atriði. Þrátt fyrir þetta er ég sammála hv. þm. Birgi Kjaran um það, að í þessu frv., jafnlimlest og það er, eru mörg veigamikil atriði, sem eru til bóta. Og ég skil ákaflega vel þá menn, sem eru áhugasamir um þessi mál og telja sig bera ábyrgð á því, að einhverju þoki þar fram, að þeir beygi sig fyrir þeim vinnubrögðum, sem ég var að lýsa hér áðan, jafnósæmileg og þau eru. Ég segi fyrir mig, ég hefði svo sem gjarnan getað flutt brtt. við þetta frv. Ég er ósköp vanur því að flytja hér brtt., sem menn fella, og kippi mér ekki sérstaklega mikið upp við það. En þarna var ég hins vegar í þeirri aðstöðu að verða að flytja brtt., sem ég vissi að mundu fá minna fylgi en þær eiga í raun og veru á þinginu, og með því gerði maður málefninu að sjálfsögðu ekki gagn. Ég tel, að meðferð þessa máls, sú reynsla, sem við höfum af því hér í þinginu og var að lýsa hér áðan, þurfi að vera þeim mönnum sem síðar verða kosnir hér á þing, hvöt til þess að breyta þeim herfilegu vinnubrögðum, sem þm. er ætlað að una í lok þinga. Ég veit, að hjá öðrum þjóðþingum gilda ákvæði, sem eiga að tryggja það, að þm. hafi eðlilegan tíma til að fjalla um mál og slík ákvæði verður óhjákvæmilega að festa í þingsköp hér á landi einnig, svo að við gerum okkur ekki seka um það að taka þátt í nefndarstörfum, sem eru í rauninni ekkert annað en skrípaleikur.