01.04.1971
Neðri deild: 81. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

213. mál, náttúruvernd

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég get verið stuttorður, því að ég get í raun og veru skrifað undir margt af því, sem tveir hv. þm., sem talað hafa í þessu máli, hafa sagt, bæði um vinnubrögðin við þetta mál og málefnið yfir höfuð. En ég vil samt segja örfá orð til þess að gera grein fyrir afstöðu minni.

Ég minntist á það við 1. umr. hér í d. um daginn, að ég vildi gera tilraun til þess að fá náttúruverndarsjóðinn settan aftur inn í frv. og ég vildi ekki trúa því þá, að það væri ekki mögulegt. En ég hef nú sannfært mig um, að þetta er ekki hægt. Staðan í þinginu er þannig, að þess er ekki kostur og þess vegna tek ég það ráð, að ég flyt ekki brtt. um það efni né önnur efni, sem ég þó hefði viljað gjarnan gera.

Ég álít, að í þessu frv. séu stór nýmæli, sem ganga í rétta átt, og því sé þetta frv, þrátt fyrir allt sigur, talsverður sigur, umtalsverður sigur fyrir náttúruverndina og náttúruverndarmenn. Ég hef því mikinn áhuga fyrir því, að það verði gert að lögum. Ég nefni aðeins örfá atriði til þess að rökstyðja þessa skoðun mína.

Í fyrsta lagi verður sett upp náttúruverndarþing og með því er meiningin að samræma kraftana í náttúruverndarmálum og setja eins konar vörð um landið, ef við mættum segja svo, sameina kraftana til þess. Ég hef ekki trú á því, að jafnslysahætt verði í þessum málum framvegis og verið hefur, ef þessi stofnun kemst á fót. Ég álít því, að þetta sé mjög stórt atriði. Þá fær náttúruverndarráð framkvæmdastjóra og nokkra aðstoð, sem ríkissjóður kostar. Þetta er miklu stærra atriði en menn e. t. v. í fljótu bragði geta gert sér grein fyrir: að fá framkvæmdaafl á vegum náttúruverndarráðsins, og mun þetta gera miklu meira en að vega upp á móti þeirri smásmugulegu skemmd, sem gerð hefur verið á afli náttúruverndarráðs í hv. Ed. og aðrir hafa gert að umtalsefni. Ég hygg, að þetta muni verða til þess, að ráðið verði þrátt fyrir allt mun sterkara en áður.

Náttúruverndarnefndir verða kosnar heima fyrir með öðrum og heppilegri hætti en áður hefur verið og þar með virkjað afl í héruðunum, vona ég. Þá vil ég nefna, að eftir þessu frv. er skylt að hanna allar stórframkvæmdir í landinu í samráði við náttúruverndarráð. Þetta álít ég stórfellt grundvallarmál og mikinn sigur. Enn eru stórum fyllri og sterkari ákvæði um friðunarsvæði, fólkvanga og þjóðgarða í þessu frv. en í gildandi lögum, sem ættu að geta komið að miklu liði í þeirri skipulegu sókn, sem þarf að verða til þess að afla útivistarsvæða fyrir þéttbýlið, og þau mál verður að flétta inn í náttúruverndarmálin og það er í raun og veru meginstefna þessa frv. Hún er að flétta þetta tvennt saman og má heita, að náðst hafi verulegir áfangar á þeirri leið.

Þá er í þessu frv. bannað að þvergirða vegna sumarbústaða í ár og vötn eins og tíðkazt hefur hér, en komið er allt of langt þeirri þróun. Enn fremur er í þessu frv. ákvæði um að skipuleggja byggð sumarbústaða og má sannarlega ekki seinna vera, að því máli sé skipað með lögum. Mjög verulega eru hert öll ákvæði, sem miða að góðri umgengni við landið, og hér hefur einnig verið sett inn í Ed. — og það er nú það eina, sem mér finnst, að Ed. hafi gert til bóta, — ákvæði um samstarf sveitarfélaga um fólkvanga, hvernig því skuli hagað. Þetta er mjög gott ákvæði og afar þýðingarmikið, m. a. vegna þess, að það verður notað við að setja upp stóra fólkvanginn á Reykjanesi, sem á að ná alla leið úr Elliðaárvogi á Krýsuvíkurberg og öll sveitarfélög á Reykjanesskaganum ætla sér að standa saman um. Þetta mál hefur staðið fast, vegna þess að of flókið hefur reynzt að fást við það og vantar samstarfsreglur, en þær koma með þessu frv. Vona ég þá, að þetta mikilfenglega mál fái skrið. En hér er um afar stórt mál að ræða, vegna þess að komist þessi hugmynd í framkvæmd undanbragðalaust, sem ég tel að hljóti nú að verða, þá verður hér svo til í miðri höfuðborginni þjóðgarður eða fólkvangur af þeirri tegund, sem fágætt má telja, hvar sem leitað er.

Ég tek undir, að það var mikið tjón, að 11. gr. var skemmd í Ed., en hún er óframkvæmanleg eins og hún er, svo að ég veit ekki, hvort hún gerir í sjálfu sér svo mikinn skaða, og ég vil því alls ekki setja hana fyrir mig. Tel ég augljóst mál, að ég verð margfaldur lögbrjótur innan stutts tíma, ef þessi grein verður í lögum. Ég held, að hún sé óframkvæmanleg. Ég get vel skilið grundvallarhugsunina í henni, og það er erfitt að finna í þessu miðlun. Ég mun reyna að fara eftir henni eins og öðrum lögum, en ég veit, að mér mun ekki takast það. Það var skaði, að friðlýsingarvald náttúruverndarráðs var skert, en ég hef gert það að umtalsefni og skal ekki hafa fleiri orð um það.

Ég vil svo að þessum orðum sögðum, ásamt mínum félögum úr menntmn. Nd., eindregið biðja menn að hjálpa til við, að þetta frv. geti orðið að lögum.