04.03.1971
Efri deild: 57. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (1307)

230. mál, Iðnþróunarstofnun Íslands

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég get tekið undir margt af því, sem hæstv. síðasti ræðumaður sagði, að það fylgja því alltaf nokkur vandkvæði að hafa stjórn stofnunar stóra. Slík stjórn verður að sjálfsögðu, eins og ég sagði, til þess, að það þarf að setja stofnuninni framkvæmdastjórn innan vébanda þessarar stofnunar, en það held ég að hafi gefizt nokkuð vel einmitt hjá Rannsóknaráði ríkisins. En það er eitt atriði, sem ég vil alveg sérstaklega tjá mig um, og það er það, sem ræðumaður vék að og taldi vafasamt, að ráðh. væri formaður ráðs eins og Iðnþróunarráðs. Hann taldi, að stofnanirnar ættu að hafa meira sjálfstæði utan rn., en á síðari tímum hefði það færzt meira í vöxt, að senda þyrfti málefnin í rn. og þau tefðust þar á ótrúlegasta hátt.

Ég er alveg sannfærður um það af þeirri reynslu, sem ég hef, að hér leika lausum hala með allt of mikið sjálfræði of margar stofnanir, sem eiga að vera undir miklu sterkari stjórn af hálfu rn. en er í dag, og það er eitt af því, sem getur leitt til þess, að ráðh. — hverjir sem eru — veiti t. d. forstöðu svona stóru ráði eins og þessu. Það er ekki samkv. minni uppástungu eða minni löngun, að ég er formaður í þessu Iðnþróunarráði, enda er það ekki sniðið fyrir einstaka menn, heldur fyrir framtíðina. Ég get þó vel sagt það í fullri hreinskilni, að það var skoðun iðnþróunarráðsmanna, sem um þetta fjölluðu, að einmitt það, að ráðh. veitti forustu Iðnþróunarráði, sem starfað hefur fram að þessu, hefði að verulegu leyti getað leitt til þess, að það hefði haft meiri áhrif á stefnuna í iðnþróunarmálum og iðnaðarmálum en ella hefði orðið. Þetta hefur borið áður á góma.

Ég veit, að það eru um þetta nokkuð skiptar skoðanir, en ég tek sem dæmi Búnaðarfélag Íslands, sem er algerlega kostað af ríkisfé. Mér finnst, að sú stofnun sé allt of sjálfstæð og undir of lítilli stjórn af hálfu stjórnvalda eftir því, sem ég bezt veit til og get áttað mig á þeim málum. Sama mætti e. t. v. segja um Fiskifélag Íslands, og svona mætti lengi telja. Menn segja, að það eigi ekki að færa valdið of mikið á einn stað, en hitt er líka alveg fráleitt, að stofnanir, sem ætlazt er til að séu að meira eða minna leyti — eða öllu leyti — kostaðar af ríkisfé, verði að vera undir handarjaðri þeirra stjórnvalda, sem á hverjum tíma fara með ríkisstj. í umboði Alþ. Þetta er mín skoðun á þessu máli.

Að öðru leyti veit ég ósköp vel, að einmitt stjórnin á Rannsóknaráði ríkisins hefur verið nokkuð gagnrýnd, en það var náttúrlega miklu stærra í sniðum á þeim tíma, þar sem voru allir atvinnuvegirnir í einu lagi. Mér finnst af minni reynslu af starfsemi í Iðnþróunarráði, að það ætti að geta verið iðnþróuninni í landinu til styrktar, þó að svo stórt ráð verði sett á laggirnar, og það mundu engu að síður nást meiri tengsl en ella á milli ýmissa aðila, og ég tel mikils virði fyrir iðnaðinn, að menn hafi aðstöðu til þess — ef menn hafa vilja til þess — að fylgjast með því, sem er að gerast, og leggja viðkomandi atvinnugrein, hvort sem það er iðnaður eða aðrar atvinnugreinar, lið. Ef til vill verður sett upp fiskimálaráð; ég veit ekki, hvað það mundi heita.

Rannsóknaráð er að vísu í endurskoðun. Við vitum ekki, hvernig þeirri endurskoðun lýkur, en sú endurskoðun kynni að fela í sér, þegar niðurstöður hennar liggja fyrir, einhverja vísbendingu um hentara form á þessu sviði. En ég vek athygli á því, að hér er í raun og veru ekki um neina breytingu að ræða frá því, sem verið hefur, og ég hef ekki haft nokkur tengsl við stjórn Iðnaðarmálastofnunar Íslands. Hún hefur aldrei við mig talað, sú stjórn. Mér hefur ekki fundizt ástæða til þess að kveðja hana á minn fund sérstaklega, sem ég hefði getað gert, en hún er nú orðin hluti af þessu Iðnþróunarráði, sem gert er ráð fyrir, að iðnrh. veiti forstöðu. Stjórn Iðnaðarmálastofnunar Íslands býr yfir þeirri reynslu, sem hún hefur öðlazt á þeim tíma, sem stofnunin hefur starfað, og þess vegna hef ég talið, að þetta gæti orðið til bóta, og auk þessara tveggja stofnana, Iðnaðarmálastofnunar Íslands og Iðnþróunarráðs, þá eru aðrir aðilar tengdir þar við eins og framkvæmdanefndin, sem við viljum heldur kalla Rannsóknaráð ríkisins, en við hana hefur iðnrn. haft mjög náin tengsl á mörgum sviðum, þó að ekkert hafi verið lögbundið eða ákveðið um það, heldur bara eðli málsins samkvæmt.

En eins og ég sagði áðan, mun ég ekki verða sá, sem leggur neina megináherzlu á afgreiðslu málsins og allra sízt endilega í því formi, sem það er núna. Ef mönnum finnst þörf á brtt., er sjálfsagt að taka það til athugunar, og ég sé nú strax nokkur mistök í 8. lið 2. gr., en þar stendur, að markmið Iðnþróunarstofnunar sé m. a.: Að vinna að öðrum iðnþróunarmálum eftir því, sem Iðnþróunarráð ákveður hverju sinni. Þarna átti rn. að vera líka, og er auðvelt að bæta því þar inn í, eftir ákvörðun iðnrn. og Iðnþróunarráðs, en það hefur fallið niður, og við getum auðveldlega lagað það.

Eins og ég sagði strax, þá skil ég þessi sjónarmið, sem hv. þm. setti fram. Ég veit, að hann er ýmissa hluta vegna kunnugur starfsemi Iðnaðarmálastofnunarinnar og einnig iðnrn., og er ég þess alveg fullviss, að þær aths., sem fram eru settar af hans hálfu, eru fram settar af góðum hug til málsins og ekki til þess að spilla fyrir afgreiðslu þess eða tefja. Þess er ég fullviss.