24.03.1971
Efri deild: 73. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (1310)

230. mál, Iðnþróunarstofnun Íslands

Frsm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. til l. um Iðnþróunarstofnun Íslands, sem er 230. mál Ed., hefur verið til athugunar hjá iðnn. Á þskj. 619 mælir n. með samþykkt frv., en einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. Á þskj. 620 flytur iðnn. brtt. við frv., sem ég kem að síðar. Tilgangur frv., sem flutt er af hæstv. iðnrh., er raunverulega að sameina Iðnaðarmálastofnun Íslands og Iðnþróunarráð í þeim tilgangi að efla íslenzkan iðnað og íslenzka iðnþróun. Frv. er samið af n., sem skipuð var Braga Hannessyni bankastjóra, Pétri Péturssyni, forstjóra Álafoss, og Sveini Björnssyni, framkvæmdastjóra Iðnaðarmálastofnunar Íslands.

Samkv. 1. gr. frv. er ákvæði um, að Iðnþróunarstofnun Íslands sé sjálfstæð stofnun undir stjórn iðnrn. 2. gr. fjallar um markmið stofnunarinnar í 8 liðum. Þar leggur n. til, að bætt verði við 9. lið svohljóðandi: Að aðstoða hugvitsama einstaklinga og félög við það að koma á framfæri (hanna og vernda) tækninýjungum, sem gætu stuðlað að bættri eða nýrri framleiðslu á sviði iðnaðar. Í 3. gr. eru taldir upp þeir aðilar, sem eiga að tilnefna menn í stjórn stofnunarinnar, en henni er ætlað að koma saman tvisvar á ári. Iðnn. þótti réttara, að hér væri um ráðgefandi aðila að ræða, en ekki stjórn, og flytur nefndin um það brtt. svohljóðandi: Iðnþróunarráð skal vera ráðgefandi aðili fyrir Iðnþróunarstofnun Íslands. Skal það skipað af iðnrh. til fjögurra ára í senn, en hann er jafnframt formaður ráðsins. Lagafrv. gerir ráð fyrir, að ráðh., sem fer með iðnaðarmál, verði formaður Iðnþróunarráðs. Um þetta urðu umr. í n., en meiri hl. taldi þetta nauðsyn til þess að skapa sem bezt tengsl við iðnrn. Aðrir nm. töldu þetta hins vegar galla á frv. Samkv. 4. gr. er gert ráð fyrir, að iðnrh. skipi fimm manna framkvæmdastjórn úr hópi iðnþróunarráðsmanna og einnig formann úr þeirra hópi. Iðnn. gerir þá brtt., að tveir af þessum fimm séu skipaðir samkv. tilnefningu Iðnþróunarráðs. Þá leggur n. til í brtt. sínum, að framkvæmdastjórn skuli gera ársskýrslu um störf Iðnþróunarstofnunar Íslands.

Iðnn. sendi lagafrv. þetta til umsagnar öllum þeim aðilum, sem sæti skulu eiga í ráðgjafarnefndinni. Umsagnir, sem bárust, voru allar mjög jákvæðar. Félagasamtök og stofnanir, sem eru talin upp sem aðilar að Iðnþróunarstofnuninni, ná í eðli sínu yfir mjög sundurleit svið og eru mörg nokkuð fjarlæg iðnþróun, að því er sýnist fljótt á litið. Umsögn Seðlabankans um lagafrv. þetta lýsir þó mætavel, hversu nauðsynlegt er, að ólíkir aðilar skiptist á skoðunum — ekki sízt við frekari framþróun okkar íslenzka iðnaðar. Í umsögn Seðlabankans segir svo m. a., með leyfi hæstv. forseta: „Seðlabanki Íslands hefur frá upphafi átt aðild að Iðnþróunarráði, sem skipað var af iðnrh. í jan. 1967. Teljum vér, að það hafi reynzt mjög gagnlegur vettvangur fyrir umræður og skoðanaskipti milli stofnana um iðnþróunarmál.“ Enn fremur segir í sama bréfi: „Teljum vér vafalítið, að sú endurskipulagning, sem hér er stefnt að, sé til verulegra bóta og muni hafa í för með sér betri samræmingu, að því er varðar stefnuna í iðnþróunarmálum.“

Ég sagði áðan, að þetta frv. yrði sent öllum þeim aðilum, sem við köllum ráðgjafarnefnd, til umsagnar. Félag ísl. iðnrekenda lét getið nokkurra breyt., sem gera þyrfti, og telur, að þarna megi samræma þessa nýju Iðnþróunarstofnun og rannsóknastofnanir iðnaðarins og byggingariðnaðarins og Iðnaðarmálastofnun Íslands. Einnig telja þeir og réttara, að ráðh. skipi aðeins einn mann. Hinir fimm séu tilnefndir af framkvæmdanefndarmönnum. Landssamband iðnaðarmanna telur, að tryggja beri, að Landssamband iðnaðarmanna og Félag ísl. iðnrekenda skuli alltaf eiga sína menn í framkvæmdastjórninni. Þetta taldi meiri hl. n. ekki rétt að ganga inn á. Þetta frv. á fullan rétt á sér og getur orðið íslenzkum iðnaði lyftistöng í framtíðinni. Iðnn. mælir því með samþykkt frv. með þeim breyt., sem n. flytur á þskj. 620.