24.03.1971
Efri deild: 73. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

230. mál, Iðnþróunarstofnun Íslands

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem hæstv. iðnrh. sagði hér, að við 1. umr. tók hann það fram, að hann væri ekki að sækjast eftir því að hafa fyrirkomulagið, eins og frv. gerði ráð fyrir, að ráðh. væri formaður n. og ég veit það, að það er alveg rétt hjá honum. Ég vil þá líka gjarnan lýsa yfir því hér, að brtt. mín er ekki flutt til þess að losna við þennan hæstv. ráðh. úr þessari stjórn. Það verður að reyna aðrar leiðir til þess en að flytja brtt. við þetta frv. — og þær gefast vonandi.

En mér finnst það ekki breyta eðli málsins beint, þó að hér sé orðið um ráðgefandi n. að ræða. Ég átti sæti í n., sem fjallaði um frv., og mér finnst ástæða til þess að bera þessa brtt. undir atkvæði jafnt fyrir því, þó að þessi breyting hafi á orðið, því að hér er um stofnun að ræða, sem á að gefa ráð til þess að efla iðnaðinn — ráð, sem iðnrh., hver sem hann nú verður, á að þiggja, en ekki gefa sjálfum sér þau. Hitt vil ég segja, að ég stend að þeirri brtt., sem iðnn. gerir um stjórn þessa ráðs. Það var í upphaflega frv. ekki gert ráð fyrir því, að þarna væru tilnefndir menn eftir ákveðnum leiðum. N. tók að nokkru til greina ábendingar, sem komu frá samtökum þeirra, sem þetta ráð sérstaklega varðar, þannig að hún gerði ráð fyrir því, að það skyldu vera jafnan tveir frá þeim, en meiri hlutinn aftur skipaður eftir öðrum leiðum, og það finnst mér eðlileg málsmeðferð. Ég tek undir það, sem hæstv. ráðh. sagði um það hér áðan, og stend þar af leiðandi með eða að þeirri brtt., sem hv. iðnn. gerir um þetta atriði.