11.02.1971
Neðri deild: 46. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (1336)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. vék í lok ræðu sinnar almennt að skattkerfinu í heild og ýmsum atriðum þess. Þær hugleiðingar hans voru á margan hátt athyglisverðar, og ég get tekið undir ýmis atriði, sem þar komu fram hjá honum eins og t.d. um tvísköttun hjóna, en þetta yfirlit, sem hæstv. ráðh. dró upp í ræðulokin, var mér ný sönnun þess, að heppilegasta vinnuaðferðin í þessu máli sé að endurskoða skattkerfið í heild eins og þegar er byrjað á, en taka ekki sérstaklega út úr einstaka þætti þess, eins og hér er gert, og afgreiða þá sérstaklega, nema um alveg nauðsynlegar tímabundnar breytingar sé að ræða. Við höfum talsverða reynslu af þessu í sambandi við fræðslulöggjöfina, sem hefur verið til endurskoðunar á undanförnum árum. Það hafa verið tekin út úr henni víss atriði og þau endurskoðuð, en það hefur svo komið í ljós eftir 1–2 missiri, að þetta var orðið ófullkomið vegna endurskoðunar á öðrum atriðum og þess vegna varð að taka þessi mál fyrir að nýju. Ég nefni t.d. menntaskólafrv. eða menntaskólalögin, sem voru afgreidd á síðasta Alþ. Undirbúningur þeirra virtist vera mjög rækilegur, og þetta mál lá fyrir tveimur þingum, en samt heyrum við það nú í sambandi við frv. um menntamál, sem liggja fyrir Alþ., að það sé orðið nauðsynlegt að endurskoða menntaskólalögin að nýju og taka þau fyrir hér á Alþ. mjög fljótlega.

Eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðh., á þetta frv. rætur sínar að rekja til aðildar Íslands að EFTA. Í tilefni af aðild Íslands að EFTA þótti eðlilegt og sjálfsagt að láta fara fram athugun á því, hvort íslenzk fyrirtæki byggju við lakari skattakjör en sambærileg fyrirtæki í EFTA-löndunum, og að gera breytingu á skattlagningu fyrirtækja hér á landi með tilliti til þess, að skattakjörin yrðu ekki lakari hér en í hinum EFTA-löndunum. Á þessu máli fór fram allmikil athugun, en eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðh., reyndist allur samanburður í þessum efnum frekar erfiður, vegna þess að bæði eru skattaákvæði mismunandi í einstökum löndum og aðstaða fyrirtækja líka misjöfn. Þetta gerir allan samanburð erfiðan, en niðurstaðan varð samt sú í stuttu máli, að skattakjör fyrirtækja hér á landi mundu ekki vera lakari almennt en fyrirtækja í umræddum löndum og þó sízt af öllu í sambandi við tekju- og eignarskattinn. Það virtist koma helzt í ljós, að það væri munur á fyrningarreglum hér og í þessum löndum og íslenzk fyrirtæki byggju við óhagstæðari aðstöðu í þeim efnum að vissu marki. Þetta virtist þó ekki stafa nema að nokkru leyti af skattalögunum sjálfum, heldur af því, að þær tíðu gengisfellingar, sem hér hafa verið, hafa á margan hátt kippt fótum undan þeim reglum, sem eru um fyrningar í núgildandi skattalögum, og þess vegna var nauðsynlegt að endurskoða skattalögin með tilliti til fyrningarákvæðanna. Á þetta hefur verið bent af okkur framsóknarmönnum. Bæði var flutt frv. á þingi í fyrra og aftur nú á þessu þingi um það að miða fyrningar við endurkaupsverð, en það mundi verða mikilvæg lagfæring einmitt í sambandi við það atriði, sem ég minntist nú á.

En niðurstaðan varð sem sé sú af þessari athugun, að skattakjör fyrirtækja hér væru yfirleitt ekki lakari en í EFTA- löndunum og jafnvel að sumu leyti hagstæðari, a.m.k. í sambandi við tekju- og eignarskattinn. Það má líka segja í stuttu máli um það frv., sem hér liggur fyrir, að það breytir ekki verulega aðstöðu fyrirtækjanna skattalega séð, þannig að ég held, að það megi nokkurn veginn fullyrða, að skattakjör þeirra mundu ekki breytast neitt að ráði til batnaðar, nema síður sé, með því frv., sem hér liggur fyrir, og skal ég gera nokkurn samanburð á því.

Mér virðist t.d. við lauslega athugun, að tekjuskatturinn, sem fyrirtækin eiga að greiða, muni vera nokkuð svipaður samkv. þeirri reglu, sem hér er tekin upp, og samkv. þeim ákvæðum, sem eru í skattalögum nú. Ákvæðin í skattalögum nú eru þannig, að fyrirtæki fær skattfrjálsan frádrátt frá tekjum allt að 10% af hlutafé eða stofnfé, sem takmarkast við útborgaðan arð, og auk þess fær það að leggja 25% skattfrjálst í varasjóð. Á það, sem eftir er, eru lögð 20%, en það svarar til þess, að fyrirtækið greiði um 13% skatt af hreinum tekjum — skattskyldum tekjum. Samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, er reiknað með, að fyrirtækið greiði 15% í skatt af því fé, sem fer til arðsúthlutunar eða leggja í arðjöfnunarsjóð. Það má reikna með því, að félögin fylgi yfirleitt þeirri reglu, en þar sem þessi 15% verða frádráttarhæf, þá eru það raunverulega um 13%, sem fyrirtækið greiðir í skatt af skattskyldum tekjum eða hreinum tekjum eða svo að segja sömu upphæðina og það greiðir samkv. gildandi skattalögum, þannig að í sambandi við tekjuskattinn er engin breyting — eða svo sýnist mér — á stöðu félaganna með þessu frv. frá því, sem er í gildandi skattalögum. Þetta helzt nokkurn veginn óbreytt.

En það er að vísu rétt, að eignarskatturinn lækkar verulega á fyrirtækjum samkv. þessu frv., en eignarskatturinn er nú lítið tilfinnanlegur tekjustofn, eins og sést á því, að í fjárl. er reiknað með því, að heildartekjur ríkissjóðs af eignarskatti á fyrirtækjum verði ekki nema 50 millj. kr. á þessu ári, svo að þar er ekki um neina stóra upphæð að ræða; þó að þessi skattur lækki eitthvað eru ekki í því fólgin nein sérstök hlunnindi fyrir fyrirtækin. Það eru margir aðrir skattar, sem eru alveg eins tilfinnanlegir og eignarskatturinn eða jafnvel fremur, t.d. smáskattar, sem hafa verið lagðir á og eru orðnir nokkuð stórir núna. Það má t.d. minna á það, að iðnlánasjóðsgjaldið, sem iðnfyrirtækin greiða, er áætlað, að nemi 40 millj. kr. á þessu ári eða nærri því jafnhárri upphæð og eignarskatturinn allur.

Þó að verulegar breytingar séu gerðar á fyrningarreglum, þá leiða þær ekki til þess í heild, að fyrirtækin fái öllu betri aðstöðu til fyrningar. Það kemur fram hér einmitt í grg. frv., að staða sjávarútvegs, fiskiðnaðar og samgangna verði nokkurn veginn óbreytt í þessum efnum, en hitt er rétt, að aðstaða verzlunar og iðnaðar batnar. Í grg. frv. segir svo um þetta atriði á bls. 14, með leyfi hæstv. forseta:

„Gildandi lög leyfa mjög öra fyrningu af ýmsum tegundum eigna, svo sem skipum, fiskvinnslustöðvum, flugvélum og fleiri eignum. Eru þær fyrningarheimildir, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, einungis litlu rýmri að því er þessar eignir varðar en gildandi lög gera ráð fyrir.“

Þannig að gagnvart þessum atvinnurekstri er hér ekki um neinar stórfelldar breytingar að ræða — eða a.m.k. mjög litla breytingu í þá átt að bæta aðstöðu þessara atvinnugreina, og það halda jafnvel sumir því fram, að t.d. aðstaða sjávarútvegsins batni ekki. Aftur á móti er það rétt, að fyrningaraðstaða verzlunar- og iðnaðarfyrirtækja verður betri samkv. frv. en hún er nú. En ef framlengt er t.d. bráðabirgðaákvæði, sem sett var í lög í fyrra, má segja, að það sé kannske ekki um mjög stórfellda breytingu hjá þessum aðilum að ræða, þannig að það skipti mjög miklu máli. En þó get ég lýst því sem minni skoðun, að ég mundi telja, að það væri heppilegt að setja nýjar fyrningarreglur og láta það ganga fyrir öðrum endurbótum á skattalöggjöfinni og þá fyrst og fremst með tilliti til þeirra gengislækkana, sem hér hafa orðið á undanförnum árum og hafa eiginlega kippt grunninum undan þeim fyrningarreglum, sem eru í núgildandi skattalögum, nema eitthvert tillit sé tekið til þess, hversu mjög endurkaupsverðið hefur hækkað frá því, sem gert er ráð fyrir í afskriftum margra fyrirtækja.

Þá er komið að mikilvægu atriði, sem varðar fyrirtækin og ég dreg mjög í efa, að sé til bóta, nema síður sé. Það er lagt til, að varasjóðirnir verði alveg felldir niður, en eins og ég gat um áðan, þá hafa fyrirtæki nú rétt til þess að draga frá 25% af hreinum arði og leggja í varasjóð, sem verður fastur í fyrirtækinu, nema um taprekstur sé að ræða, þá má nota varasjóðinn til að greiða hann. Ákvæðin um varasjóðshlunnindin voru sett á sínum tíma, til þess að fyrirtækin gætu byggt upp sitt eigið fjármagn, en það hefur kannske einna helzt skort á í íslenzkum atvinnurekstri, að fyrirtækin gætu komið sér upp eigin fjármagni. Varasjóðirnir hafa komið að mjög verulegu haldi í þeim efnum, þó að hins vegar hafi hinar tíðu gengisfellingar, sem hér hafa orðið á undanförnum árum, orðið til þess að rýra mjög gildi þeirra. En það er ekki löggjöfinni sjálfri að kenna, og hið sama mundi náttúrlega eiga sér stað, þó að einhverjum öðrum sjóðum yrði komið upp við fyrirtækin, t.d. arðjöfnunarsjóði, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. En það, sem á að koma í stað varasjóðsins og vega upp á móti honum, er það, að félögin eiga að hafa heimild til þess að borga út ótakmarkaðan arð eða leggja hann í arðjöfnunarsjóð, og manni skilst, að það sé þá fyrst og fremst arðjöfnunarsjóður, sem eigi að koma fyrirtækjunum að því haldi, sem varasjóðurinn var áður. En eins og frá frv. er gengið, þá er engin trygging fyrir því, að það verði nokkurt fé lagt í arðjöfnunarsjóðinn, heldur verði allur arðurinn borgaður út.

Jafnframt er það. ákvæði í frv., að þetta varasjóðsframlag, sem greitt er, megi ekki vera í sjóðnum lengur en í 5 ár. Þá verður það skattskylt að nýju, og verður þá að borga af því 20% tekjuskatt, þannig að það má telja nokkurn veginn víst, að þetta fé verður aldrei inni í arðjöfnunarsjóðnum — það, sem í hann verður lagt — nema 5 ár í senn. Og það er ekki nein trygging fyrir því, að hann verði t.d. jafnstór og varasjóðirnir ættu þó að verða, ef sú heimild verður notuð, og þess vegna er samkv. þessu minni trygging fyrir því, að það safnist eitthvert fé fyrir í fyrirtækinu, sem það geti notað í rekstur sinn. Það er að vísu rétt, að það er reiknað með því, að það komi hér í staðinn, að vegna þess að leyfð sé há útborgun á arði og svo sérstök skatthlunnindi í sambandi við það, þá verði menn fúsari til að kaupa hlutabréf í félögunum en áður var og þannig fái félagið eigið fjármagn til umráða. En eins og játað er í grg. frv. á bls. 27, þá er ekki nein trygging fyrir því, að svo verði, að aukin hlutabréfakaup komi í stað varasjóðsins. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það var meginsjónarmið í nefndu frv. að efla áhuga manna á því að leggja fé í hlutafélög, en slíkt er óhugsandi, nema arðgreiðslur geti verið verulegar. Það er að vísu matsatriði, að hve miklu leyti innstreymi fjár í hlutafélög með aukinni hlutafjársöfnun kemur í stað útstreymis í formi arðgreiðslna, ef þessi leið er farin, en svo virðist sem skoðanir manna og reynsla í nágrannalöndunum bendi til þess, að sú stefna, sem mörkuð var með frv., væri til nokkurra bóta.“

Ég álít, að það sé rétt af þeim, sem hafa samið þessa grg. að orða þetta með slíkri varfærni. En það, sem maður veit, er það, að varasjóðurinn hverfur og það 25% framlag, sem í hann hefur farið, en í staðinn kemur arðjöfnunarsjóður, sem er alveg óljóst, hver muni verða. Það getur farið svo, að hann verði sama og enginn vegna þess, að félögin noti sér heimildina til að borga arðinn allan út eða tekjurnar allar. Þetta fé á ekki að staðnæmast hjá fyrirtækinu nema í 5 ár — það, sem lagt er í arðjöfnunarsjóðinn — sem þýðir það, að það verður þá skattskylt að nýju, og það þýðir það að sjálfsögðu, að það verður þá borgað út sem arður, ef ekki þarf að nota það í tapgreiðslur, en arðjöfnunarsjóð má nota á tvennan hátt, þ.e. til þess að greiða arð og til þess að mæta tapi. En ef tap verður ekki, þá má reikna með því, að arðjöfnunarsjóðurinn verði borgaður út sem arður á þennan hátt, þegar 5 ára tímabilinu lýkur.

Ég óttast það mjög, að þessi nýja aðferð, sem hér er tekin upp, verði ekki til þess að auka fjármagn hjá fyrirtækjunum, heldur miklu síður, og fólgin sé meiri trygging í varasjóðsleiðinni og frekar ætti að styrkja hana. Og ég hygg, að það komi líka fram í áliti margra skattfróðra manna, að þeir séu tortryggnir á þessa nýju leið. Ég sé það í þeim plöggum, sem hafa legið fyrir n., að ríkisskattstjóri, sem er manna kunnugastur þessum málum, er með hugmyndir um það, að því er mér skilst, að í stað arðjöfnunarsjóðs eða við hliðina á honum komi sérstakur fjárfestingarsjóður hjá fyrirtækjunum, og það álít ég hugmynd, sem mjög eigi að taka til athugunar í sambandi við þessi mál, því að ef við ætlum að byggja upp heilbrigðan og traustan atvinnurekstur í landinu, þá verðum við að miða að því, að sem mest safnist fyrir af fjármagni hjá fyrirtækjunum, eins og ætlunin er með varasjóðnum og átt hefur sér stað með honum. En engin trygging er fyrir því með því að fara út á þá braut, sem hér er gert ráð fyrir, að það seljist svo eða svo mikið af hlutabréfum, vegna þess að arðurinn sé aukinn. Og sízt af öllu finnst mér, að það sé trygging fyrir þessu, ef engin breyting á sér stað á hlutafélagalögunum. Ég held, að þetta geti ýtt undir það, að hlutafélögin — sérstaklega þau, sem gefa sæmilegan arð — lokist og eigendurnir haldi fast í þau hlutabréf, sem fyrir eru, og leyfi ekki sölu á nýjum bréfum, þegar meiri hluti hefur náðst.

Þetta liti strax öðruvísi út, ef hlutafélagalögunum yrði breytt þannig, að þau félög, sem nytu þessara hlunninda, væru skyldug til þess að hafa stöðugt til sölu hlutabréf á opnum markaði — á kaupþingi. Þess vegna finnst mér það, að sé farið á annað borð inn á þá braut, sem hér er lagt til, þá þurfi alveg jafnhliða að koma fram gagnger endurskoðun og breyting á lögum um hlutafélög og sú breyting verði að vera fólgin í því, að þau verði opnuð, en nú eru langsamlega flest hlutafélög lokuð og sérstaklega þau, sem skila sæmilegum arði, vegna þess að þeir aðilar, sem eiga hlutabréfin í þessum félögum, vilja ekki sleppa þeim og vilja ekki hleypa nýjum hluthöfum að.

Það kemur svo til viðbótar, að samkv. þessu frv. er lagður nýr skattur á eitt rekstrarformið, sem fyrir er í landinu, þ.e. samvinnufélögin, en í 19. gr. er gert ráð fyrir því, að þau verði að borga skatt af vöxtum, sem þau greiða þeim, sem eiga fé í stofnsjóði. Slíkur skattur er ekki til nú, og hann getur reynzt mjög verulegur — a.m.k. hjá þeim félögum, þar sem er um verulega stofnsjóði að ræða. Ég vil nú ekki halda því fram, að hér sé raunverulega um neinn ásetning að ræða í því að skattleggja samvinnufélögin með þessum hætti, heldur held ég, að þetta stafi af einhverjum misskilningi og þetta muni þess vegna verða leiðrétt í n., ef niðurstaðan verður sú, að frv. nái fram að ganga. En náttúrlega gildir alveg sama um vexti, sem félag greiðir af innstæðu í stofnsjóði, og af fé annarra aðila, sem það hefur með höndum.

Niðurstaða mín er sem sé í stuttu máli sú um þetta frv., að í því séu ekki fólgnar neinar þær breytingar, sem bæti að ráði aðstöðu atvinnufyrirtækjanna skattalega séð frá því, sem nú er, nema síður sé, og þar á ég við þá breytingu að fella niður varasjóðina og auka arðsúthlutun og framlag í arðjöfnunarsjóð. Ég dreg það mjög í efa, að það muni reynast til bóta fyrir fyrirtækin, og a.m.k. er ástæða til þess, að fyrirtækjunum, bæði í einkarekstri og samvinnurekstri, verði gefinn kostur á að skoða þetta atriði mjög niður í kjölinn, áður en Alþ. mótar endanlega stefnu í sambandi við það. Ég hef orðið var við það, að hjá ýmsum fyrirtækjum ríkir ótrú á þessari nýju leið. Ég efa það ekki, að það vakir fyrir hæstv. fjmrh. og þeim, sem hafa samið þetta frv., að stuðla að því, að þetta verði til þess að auka fjármagn hjá fyrirtækjunum. En ég dreg hins vegar í efa, að þeir hafi komizt að réttri niðurstöðu í þeim efnum og þess vegna sé ástæða fyrir þá að íhuga málið að nýju — til þess þá líka að hafa nægan tíma, vegna þess að það er hvort sem er ekki gert ráð fyrir því, að þetta frv., þó að það verði að l. nú, taki gildi fyrr en á næsta ári, og þess vegna þyrfti það ekki að tefjast neitt við það, þó að a.m.k. meginatriði þess væru látin bíða haustþingsins og endanleg afstaða tekin þá.

Þetta er það, sem mér finnst ég vilji segja um fyrirtækin í sambandi við þetta frv. En ég kem þá að því, sem mér finnst í raun og veru, að sé meginefni frv. — því, sem hafi í sér fólgna mesta stefnubreytingu frá því, sem nú er. Það er í fyrsta lagi það, að gert er ráð fyrir, að hlutabréfaeigendur fái arð, sem þeir fái greiddan — að vissu marki skattfrjálsan. Einstaklingar eiga að fá slíkan arð skattfrjálsan allt að 30 þús. kr., og hjón eiga að fá hann skattfrjálsan — 60 þús. kr. hjá hjónum og 15 þús. kr. á barn. Í öðru lagi, sem ég reyndar er búinn að víkja að áður, er gert ráð fyrir að auðvelda félögum að stórauka arðgreiðslur frá því, sem nú er. Það er stefnt að því. Og þetta tvennt verður til þess og á að verða til þess að stórbæta aðstöðu þeirra, sem eiga hlutabréf, og er að sjálfsögðu vafalaust gert til að örva sölu á hlutabréfum, en verður samt til þess að skapa þessum mönnum sérstaka forréttindaaðstöðu, þannig að þeir fá þarna verulegar tekjur — arð af hlutabréfum skattfrjálsan auk þess, sem á að hækka arðinn.

Rökin fyrir þessu eru þau, að það eigi að gefa sem sambærilegasta aðstöðu hlutafjár og sparifjár, en ég held, að það sé mjög rangt í þessu tilfelli að bera saman aðstöðu hlutafjár og sparifjár, enda minnist ég þess, að þegar einn af greindustu hagfræðingum landsins las plagg um þetta efni, þá varð honum að orði: „Ég held, að þetta sé nú bara ekki prenthæft hjá félögum mínum,“ og svo hló hann mikið á eftir. En þetta liggur í því, sem öllum ætti að vera ljóst, að hlutafé heldur verðgildi sínu, þó að verðbólga aukist, því að eignirnar, sem standa á bak við það, hækka að sama skapi. Ef verðbólga aftur á móti á sér stað, rýrnar spariféð. Verðbólgan rýrir ekki gildi hlutafjárins, heldur helzt það stöðugt eftir sem áður með tilliti til þess, að þær eignir, sem eru á bak við það, aukast að verðgildi, a.m.k. krónulega séð á sama hátt. Aftur á móti verður óumdeilanlega rýrnun á sparifénu. Og það er þessi mikli munur, sem menn verða að gera sér grein fyrir í þessu sambandi.

Svo er ekki búið verr að hlutafénu en svo, að samkv. gildandi l. fá fyrirtæki rétt til að draga frá af hreinum tekjum 10% af hlutafé eða stofnfé. Það þýðir það, að þau geta skattfrjálst borgað 10% vexti af hlutafénu. Aftur á móti eru almennir innlánsvextir nú í bönkum ekki nema 7% og hæst 9%. Þannig að hvað þetta snertir, er jafn vel séð fyrir þeim. Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. skaut inn í, að þessir vextir af hlutafénu eru skattskyldir, en hlutabréfin eru ekki skattfrjáls eins og sparifjáreign, og þar kemur til sögunnar þessi mikli munur, sem ég minntist á áðan, að á verðbólgutímum, eins og hér hafa verið, rýrnar hlutafé ekki að verði, þó að verðbólga aukist, en aftur verður óumdeilanlega mikil rýrnun á sparifénu.

Það má vel vera — og ég skal ekki mæla beinlínis á móti því, að það sé ekki rétt að bæta aðstöðu hlutabréfaeigenda að einhverju leyti. En ég álít það fjarri öllu lagi að ætla að leggja aðstöðu þeirra til jafns við þá aðstöðu, sem sparifjáreigendur þurfa við að búa. Eins og ég sagði nú áðan, þá getur það komið til athugunar að einhverju vissu marki að bæta aðstöðu hlutafjáreigenda, en ég tel mér ekki fært að fylgja því að veita hlutabréfaeigendum skattfrjálsan frádrátt á arði af hlutabréfum á sama tíma og skattþegnum almennt og þá sérstaklega launafólki er ekki skammtaður hærri frádráttur en gert er ráð fyrir í þessu frv., og mun ég nú víkja nánar að því.

Eins og hæstv. fjmrh. minntist á, var það loforð núv. ríkisstj., þegar hún kom til valda, að almennar launatekjur skyldu vera skattfrjálsar. Hvernig er nú staðið við það í þessu frv.? Jú, samkv. þeim frádráttum á skattstigum, sem þar eru ákveðnir, þá lítur þetta þannig út, að af því, sem er umfram 185 þús. kr. skattskyldar tekjur, þá verður skattgreiðandi að greiða 30% í útsvar og 9% í skatt eða um 40%. M.ö.o. af þeim skattskyldum tekjum, sem eru umfram 185 þús. kr., verður hann að greiða um 40% í skatt samkv. þeirri reglu, sem er mótuð í þessu frv., eða skattstigum og frádráttarreglum, sem eru í þessu frv. Af því, sem er umfram 250 þús. kr. skattskyldar tekjur, á að greiða 30% í útsvar og 18% í tekjuskatt eða samanlagt 48%. Og loks af því, sem er umfram 292 þús. kr. skattskyldar tekjur, greiðast 30% í útsvar og 27% í tekjuskatt eða samtals 57%. Menn þurfa ekki að hafa í skattskyldar tekjur nema 185 þús. kr. til þess að greiða 40% af því í útsvar og tekjuskatt, og ef þeir komast upp í 250 þús. kr. skattskyldar tekjur, þá verða þeir að greiða 40% af því, sem eftir er, og eru áður búnir að greiða verulega upphæð samt, og af því, sem er umfram 292 þús. kr., verða menn að greiða 57% í útsvar og tekjuskatt.

Nú skulum við íhuga, hvernig muni verða háttað tekjum hjá láglaunastéttum landsins, og ég hef hér til samanburðar skýrslur Hagtíðinda um brúttótekjur á árinu 1969. Ég ætla aðeins að nefna sem dæmi eina stétt, og það eru ófaglærðir verkamenn í fiskvinnslu. Hagstofan hefur yfirlit yfir framtöl 1145 framteljenda, og af þeim hafa á árinu 1969 — ég tek fram, að hér er eingöngu um að ræða kvænta framteljendur. — Ég verð að biðjast afsökunar. Ég hef hérna ruglazt á línu og verð þess vegna að endurtaka þetta. Í Hagtíðindum er að finna yfirlit yfir framtal kvæntra verkamanna við fiskvinnslu eða starfsmanna við fiskvinnslu. Þetta yfirlit nær til 1614 framteljenda, og af þeim hafa 663 haft á árinu 1969 brúttótekjur á milli 250–349 þús. kr., en 356 hafa haft tekjur yfir 350 þús. kr. og meira. Hér er að sjálfsögðu um brúttótekjur að ræða, en ekki skattskyldar, og kemur þess vegna fleira til frádráttar. Nú er reiknað með því í fjárl., að tekjur hafi almennt orðið 20% hærri á síðasta ári en árinu 1969, og e.t.v. hafa þær orðið enn meiri vegna þess, að atvinnuástandið hefur verið betra og menn þess vegna haft meiri vinnu en á hinu árinu. En mér sýnist, að það sé ljóst samkv. þessu, að svo að segja öll sú kauphækkun, sem menn hafa fengið á síðasta ári, muni lenda a.m.k. í 40% samanlögðum tekjuskatti og útsvari og í langflestum tilfellum mun leggjast á þetta 57% sameiginlegur skattur, þ.e. tekjuskattur og útsvar, þannig að tekinn sé í langflestum tilfellum um það bil helmingur af þessari launauppbót, sem þeir fengu á síðasta ári, í skatt á þessu ári og í mörgum tilfellum talsvert meira.

Meðan láglaunafólki er ekki skammtaður meiri frádráttur en hér er gert ráð fyrir eða hagstæðari skattstigar, þá finnst mér, að það sé ekki hægt að vera því samþykkur, að hlutabréfaeigendur fái verulega aukinn frádrátt umfram aðra á sínum tekjum, eins og gert er ráð fyrir í frv. Mér finnst, að það væri lágmarkskrafa, ef ætti að fara inn á þá braut að bæta hlutabréfaeigendum þetta upp, þá yrði a.m.k. að veita hinum almenna skattgreiðanda og ekki sízt láglaunafólkinu hagstæðari kjör en gert er ráð fyrir í þessu frv. Það geta nú allir líka séð, hversu fjarstætt það er, að ríkisstj. standi við það loforð sitt að undanþiggja almennar launatekjur skatti, þegar skattþegnar verða að borga 40% skatt af öllu því, sem er umfram 185 þús. kr., 48% skatt af öllu því, sem er umfram 250 þús. kr. skattskyldar tekjur, og 57% af því, sem er umfram 292 þús. kr. skattskyldar tekjur. Hér er um tekjur að ræða, sem láglaunafólk í landinu yfirleitt hefur og þarf að hafa, ef það á að geta lifað við mannsæmandi lífskjör. Þess vegna fer svo fjarri því, að samkv. þessu frv. sé staðið við þetta fyrirheit ríkisstj. að undanþiggja almennar launatekjur skatti. Þær eru skattlagðar eins og hátekjur, eins og hér er gert ráð fyrir. Og mér finnst, að hæstv. ríkisstj. geti ekki boðið upp á það, að meðan hún býr ekki betur að láglaunafólkinu en þetta, veiti hún hlutabréfaeigendum alveg sérstök frádráttarhlunnindi, jafnvel þó að það gæti átt rétt á sér að einhverju leyti undir öðrum kringumstæðum.

En það er þetta, eins og ég er búinn að víkja að áður, sem er raunverulega höfuðefni í frv., þ.e. að veita hlutabréfaeigendum sérstök skattfríðindi og auka arðtekjur hjá fyrirtækjum til þeirra. Þetta er það, sem má segja, að sé verulega nýtt í frv., og er til marks um þá stefnubreytingu, sem hæstv. ráðh. var að tala um. En mér finnst hún ekki tímabær undir þeim kringumstæðum, þegar búið er jafnilla að láglaunafólki og gert er ráð fyrir með þeim frádráttarreglum samkv. skattstigum, sem eru í frv. Auk þess dreg ég líka mjög í efa, eins og ég hef áður sagt, að þetta verði til þess að auka fjármagn í fyrirtækjunum, heldur óttast ég miklu frekar, að þetta geti orðið til hins gagnstæða.

Í frv. er svo að finna fjöldamörg atriði önnur, eins og hæstv. ráðh. vék að og gerði rækilega grein fyrir. Vafalaust eru ýmis af þessum ákvæðum til bóta, sum umdeilanleg og önnur alls ekki. Eitt af þeim atriðum, sem ég heyri, að mjög er deilt um — og ég skal játa, að ég hef eiginlega ekki næga þekkingu til að dæma um — er, hvort eigi að fella niður sameignarfélagaformið, eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég heyri því haldið fram af mörgum mönnum, sem eiga að þekkja vel til þessara mála, að þeir telja sameignarfyrirkomulagið henta vel í vissum atvinnurekstri og samvinnu vissra fyrirtækja, t.d. verktaka, og þess vegna hefði því verið beitt í vaxandi mæli. Hitt er vafalaust rétt, eins og bent er á í grg. þessa frv., að það má finna ýmsa ágalla á þessu fyrirkomulagi, eins og það er nú, og m.a. vegna þess, að það skortir alveg um það lagasetningu. Ég held, að það megi bæta úr þessu með því að setja sérstök lög um sameignarfélögin og það sé hugsanlegt, að það sé réttari leið en leggja þau alveg niður. En með þessu frv. er eiginlega stefnt að því að binda sig alveg við eitt rekstrarform, þ.e. hlutafélögin. Sameignarfélögin eru alveg lögð niður og einkarekstur, þar sem einstaklingur rekur einn fyrirtæki, fær ekki nein þau hlunnindi, sem hlutafélagið fær.

Ég er nú svo mikill einkarekstrarmaður, að ég væri alveg til í það að veita einstaklingi, sem rekur sitt fyrirtæki vel, svipuð hlunnindi og hlutafélag hefur eftir því, sem því verður við komið. Og ég sé t.d., að í þeim till., sem ríkisskattstjóri hefur gert um fjárfestingarsjóðinn, þá virðist mér, að hann geri ráð fyrir því, að ósvikið einkafyrirtæki eigi að fá að mynda sinn eigin fjárfestingarsjóð alveg eins og hlutafélög. Mér skilst á því, sem kemur fram í því, sem ég hef séð frá honum, en hins vegar hef ég ekki séð sjálfar till., sem hann gerði um þetta efni. Hlutafélagaformið á vafalaust við undir mörgum kringumstæðum og er sjálfsagt að veita því eðlileg hlunnindi. En mér finnst, að það sama eigi að gilda um önnur rekstrarform og hreinan einkarekstur ekkert síður en þau. Ég er eiginlega þeirrar skoðunar, að öll þessi rekstrarform, einkarekstur, hlutafélög, samvinnufélög og ríkisfyrirtæki, eigi að búa við sem jafnasta aðstöðu og fá að keppa innbyrðis og sýna það, hvert hæfast er.

Ég vil einnig benda á það, að þær reglur, sem eru í frv. um skattlagningu söluhagnaðar, eru mjög umdeildar hjá atvinnurekendum og þess vegna væri ærin ástæða til þess að íhuga þær betur. Og sama gildir um fjöldamörg önnur atriði eða ákvæði í frv. Þau eru þannig vaxin, að þau þarfnast áreiðanlega nánari athugunar, og sérstaklega finnst mér, að það eigi að gefa þeim aðilum, sem við þessi lög eiga að búa, þ.e. atvinnurekendunum, og svo að sjálfsögðu líka skattgreiðendum yfirleitt, aðstöðu til að kynna sér vel þær nýjungar, sem frv. fjallar um. Þess vegna fyndist mér það engin goðgá, þó að ýmis meginatriði þessa frv. væru látin bíða og ekki tekin afstaða til þeirra á Alþ., fyrr en við tökum afstöðu til heildarendurskoðunar á skattkerfinu sjálfu, eins og nú er verið að vinna að. Og a.m.k. væri alveg óhætt að láta þetta bíða haustþingsins, þar sem þetta frv., ef að lögum verður, á hvort eð er ekki að taka gildi fyrr en í byrjun næsta árs.

Ég vil svo að síðustu víkja að því, sem hæstv. ráðh. ræddi aðallega í niðurlagi ræðu sinnar og ég er á vissan hátt búinn að taka undir. Ég álít, að hann hafi hafizt handa um mjög athyglisvert verk, þegar hann fól embættismannanefndinni að endurskoða skattkerfið í heild. Ég tel slíka endurskoðun nauðsynlega af mörgum ástæðum, og ég held, að hún þurfi ekki að taka svo gífurlega langan tíma, kannske 1–2 ár — ekki meira. En vegna þess, að þannig er hafin heildarendurskoðun á skattkerfinu, þá finnst mér það mjög vafasamt að taka einstök atriði út úr eins og hér og ætla að setja um þau lög án samhengis við aðrar breytingar, sem kunna að verða gerðar.

Og mér finnst, og ég vil sérstaklega árétta það, sem ég er áður búinn að segja, að meðan hæstv. fjmrh. treystir sér ekki til þess að skammta láglaunafólkinu betri skattakjör en gert er ráð fyrir í þessu frv., þá finnst mér það röng stefna að koma á sama tíma með kröfur um sérstök skattfríðindi fyrir hlutabréfaeigendur, en langflestir þeirra eru áreiðanlega í hópi þeirra manna í þjóðfélaginu, sem frekar verður að telja vel stæða en hitt. Þó að einhverjir láglaunamenn kunni að eiga einhver hlutabréf, þá verður sá frádráttur, sem þeir fá, vafalaust svo litill, að hann munar þá ekki neinu, og ég hygg, að þeir séu mjög fáir, sem eru svo stórir hlutabréfaeigendur, að þeir muni njóta góðs af ákvæðum þessa frv. Hins vegar getur það alltaf verið nauðsynlegt í sambandi við skattalögin eins og önnur lög, að þó að sjálfur kjarninn sé látinn bíða, þá séu kannske gerðar á þeim aðkallandi breytingar tímabundnar, og í sambandi við skattalögin finnst mér vera tvö atriði, sem sérstaklega þyrfti að taka til meðferðar hér á þessu þingi og ætti að taka út úr og afgreiða sérstaklega, en það eru leiðréttingar á fyrningarreglunum með tilliti til þeirrar verðbólguþróunar, sem hér hefur verið á undanförnum árum og krefst þess, að það verði gerðar einhverjar breytingar á, þó að ekki verði nema til bráðabirgða eins og í fyrra. Sömuleiðis finnst mér það líka nauðsynlegt í samræmi við það frv., sem hér er flutt, að gerðar séu meiri leiðréttingar á skattvísitölunni en gert er ráð fyrir í þessu frv., þ.e. frádrættirnir verði hækkaðir og skattstigunum breytt þannig, að a.m.k. skattakjör láglaunastéttanna verði verulega betri en þau verða á þessu ári, ef þær reglur ná fram að ganga, sem eru í þessu frv.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð mín fleiri að sinni. En ég vil aðeins láta þá skoðun uppi, áður en ég lýk máli mínu, að ég tel, að hæstv. ráðh. hafi tekið upp rétt vinnubrögð með því að gefa þn. eða mönnum úr þn. kost á því að fylgjast með undirbúningi þessa máls. Ég held, að slíkt ætti að gerast miklu oftar, því að það vill nú vera þannig, að slík mál koma oft ekki inn á þingið fyrr en seint og um síðir — jafnvel ekki fyrr en undir þinglok — og þá hafa þn. takmarkaðan tíma til þess að kynna sér þau, svo að vel sé, en þó að það kunni að vera ýmis ágreiningur, eins og reyndar hefur komið fram hjá mér, um þau atriði, sem eru í þessu frv., þá höfum við, sem erum í stjórnarandstöðunni, haft miklu betri aðstöðu til að átta okkur á þessum atriðum en við hefðum haft, ef við þyrftum að fara að kynna okkur efni þessa frv. fyrst nú.