29.03.1971
Neðri deild: 75. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef gefið út sérstakt nál., sem ekki er komið úr prentun enn, en verður væntanlega útbýtt nú innan stundar. Ég hef einnig flutt við frv. nokkrar brtt., og þeim hefur heldur ekki verið útbýtt, en ég mun nú gera grein hér fyrir þeim, um leið og ég geri grein fyrir afstöðu minni til málsins almennt.

Fyrir rétt rúmlega ári hlutaðist hæstv. ríkisstj. til um það, að lagt var hér fyrir Alþ. frv. um breytingar á tekju- og eignarskattslögum. Það frv. náði ekki fram að ganga, og enn hefur ríkisstj. lagt fyrir Alþ. frv. um sama efni — það frv., sem hér liggur nú fyrir til afgreiðslu og er í meginatriðum svipað hinu fyrra. Frv. fjallar í stuttu máli um skattlagningu fyrirtækja. Umfram það er tiltölulega mjög lítið um breytingar í þessu frv. Eins og fram kom hér í framsöguræðu formanns fjhn., þá hefur fjhn. eða meiri hl. fjhn. gert á frv. allverulegar breytingar, en þó er það mitt mat, að þó að þær breytingar kynnu að verða samþykktar, standi eftir sú meginstefna, sem mörkuð var í frv., eins og það kom frá hæstv. ríkisstj.

En hver eru þá meginatriðin? Hver eru þá meginstefnuatriðin, sem er að finna í þessu frv., sem varðar breytingar á skattlagningu fyrirtækja? Jú, aðalbreytingin er sú að mínum dómi, að það er lagt til að hækka allverulega fyrningar eða afskriftir af eignum í atvinnurekstri. Þó er þessu þannig fyrir komið, að hér verður ekki um að ræða hækkaða fyrningu, t.d. hjá sjávarútvegsfyrirtækjum, en það mun ekki verða mikill munur frá gildandi reglum, þó verður fremur um lækkun að ræða í einstaka tilfellum á leyfðum fyrningum. En hækkunin á hinum leyfðu fyrningum verður aðallega í verzlunarrekstri og í rekstri ýmiss konar þjónustustofnana. Það mætti t.d. nefna skrifstofuhúsnæði og íbúðarhúsnæði, ef um er að ræða leiguhúsnæði til hótelrekstrar, húseignir tryggingafélaga eða annað þess háttar. Atvinnurekstur af þessu tagi mundi fá mun meiri fyrningarafskriftir en hingað til hafa verið leyfðar. Þessi meginregla stefnir því að því að létta sköttum af þessum aðilum til ríkisins. Það kemur greinilega fram í grg. frv., að ýmsar tegundir atvinnurekstrar í landinu hafi búið við mjög hagstæðar fyrningarafskriftir eins og t.d. fyrirtæki sjávarútvegs, flugfélög og ýmis fleiri fyrirtæki, og á því er enginn vafi, að þessi fullyrðing er rétt. Þessir aðilar hafa mátt draga frá tekjum sínum árlega mjög verulega fjárhæð vegna hárra afskriftareglna. En í grg. þessa frv. segir jafnframt, að með því sé að því stefnt að gera allar greinar atvinnurekstrarins í landinu — allar hinar mismunandi tegundir af atvinnurekstri — jafnar gagnvart fyrningarreglum, en það skuli ekki vera áfram slíkur mismunur, sem nú sé gildandi. Þetta þýðir auðvitað það, að þeir, sem hafa búið við hinar lægri fyrningarreglur, eiga að hækka, fyrst hinir, sem búið hafa við hinar hagstæðu reglur, eiga ekki að lækka — a.m.k. ekki neitt að ráði.

Þá er að gera sér aðeins grein fyrir því, hvernig hefur staðið á því, að við höfum haft þann hátt á á undanförnum árum að heimila vissum tegundum atvinnurekstrar hærri fyrningarafskriftir en öðrum. Hvernig hefur t.d. staðið á því, að við höfum heimilað fiskiskipum eða slíkum rekstri fyrningarafskriftir, sem nema allt að 20% á ári fyrstu árin, og ýmiss konar fiskvinnslustöðvum á sama tíma og við höfum ekki leyft verzlunarrekstri, sem átt hefur t.d. stórhýsi hérna við Austurstræti, að afskrifa fasteign sína nema tiltölulega lágt eða um 2% eða svo á ári? Hver er ástæðan? Ástæðan, sem alltaf hefur verið talið, að lægi til þessa, er sú, að í okkar útgerðarrekstri og ýmsum fleiri tegundum af atvinnurekstri er fólgin mikil áhætta, miklar breytingar á afkomu frá ári til árs, mikil og hröð umskipti. Einnig hefur verið hér um að ræða undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, sem löggjafinn hefur beinlínis viljað stuðla að, að gæti haft sæmilega afkomu, a.m.k. með þessari reglu.

En lítum þá aftur á hinn þáttinn, sem eru afskriftareglur, t.d. afskriftir á verzlunar- eða skrifstofuhúsnæði. Skyldi nokkur halda því fram, að það hafi verið brýn þörf á því að heimila eigendum að verzlunarhúsnæði eða skrifstofuhúsnæði að afskrifa á undanförnum árum eignir sínar meira til skatts en þeir hafa haft heimildir til? Ætli reynslan hafi ekki sýnt það, að þessir aðilar hafi átt gott með það að losa sig við sínar eignir, ef þeir óskuðu eftir, ekki aðeins á skráðu verði, heldur á margföldu verði? Það er líka mikill munur á því, hvort um er að ræða verzlunarhús hér við Austurstræti eða t.d. síldarverksmiðjubyggingu austur á Raufarhöfn. Jafnvel þó að verzlunin hér við Austurstræti þyrfti að hætta rekstri, þá er enginn vafi á því, að hún gæti auðveldlega losað sig við sína fasteign á fullu verði og líklega vel það til annars konar rekstrar en til verzlunar. Húsnæðið í því tilfelli er nothæft til margs konar rekstrar, en ekki aðeins til verzlunarrekstrar. En hvað verður um síldarverksmiðju austur á Raufarhöfn, þegar hún hættir að vera síldarverksmiðja? Hvað skyldi þá verða um verðmæti þeirrar eignar? Og jafnvel þó að menn gerðu samanburð á fasteignum hér í Reykjavík. Hvað verður úr frystihúsi hér í Reykjavík eins og Sænska frystihúsinu, þegar það hættir að vera frystihús? Að mínum dómi er hér mikill munur á, þegar ákveða á fyrningarreglur fyrir áhættusaman rekstur, en þó þýðingarmikinn fyrir þjóðarbúskapinn — rekstur, sem er þess eðlis, að hann er tiltölulega mjög bundinn við hina fyrirhuguðu rekstraraðferð, eða fyrir rekstur t.d. á húsnæði, sem rekið er almennt sem skrifstofuhúsnæði, hótelhúsnæði eða eitthvað annað af því tagi. Að mínum dómi er því ekkert, sem kallar á það að hækka fyrningarreglur eða hækka lögleyfða fyrningu á verzlunarhúsnæði, skrifstofuhúsnæði, hótelhúsnæði eða öðru slíku frá því, sem verið hefur, og það eru engin rök fyrir því að hækka þessar heimildir til þessara aðila, þó að hægt sé að benda á það, að t.d. sjávarútvegurinn hafi notið hlunninda með miklum fyrningarafskriftum á undanförnum árum.

En það er augljóst, að hæstv. ríkisstj. lítur allt öðruvísi á þetta mál. Hún telur, að hér sé um brýna þörf að ræða á því að létta sköttum af verzlun og ýmiss konar þjónustugreinum í landinu og — eins og hún segir svo fallega — að gera þessa aðila jafna hinum, sem búa við þessar afskaplega hagstæðu reglur eins og sjávarútvegurinn. Ég hef þá hér í nokkrum orðum gert grein fyrir einu af aðalatriðunum í þessu frv. ríkisstj. um breytingu á skattalögum.

Ég kem þá að öðru atriðinu. Með frv. er gert ráð fyrir því, að hlutafélög og önnur félög, sem hafa með höndum atvinnurekstur, geti nú stofnað hjá sér svonefndan arðjöfnunarsjóð, og ef þessi félög standa þannig í sínum rekstri eftir árið, að það verði um verulegan hagnað að ræða eða nokkurn hagnað, þá getur viðkomandi félag lagt allan hagnaðinn í þennan arðjöfnunarsjóð og á þá að greiða af þessum hagnaði, sem fór í arðjöfnunarsjóðinn, aðeins 15% í skatt til ríkisins eða það sama og hlutafélögin hafa borgað til þessa af þeim hlutanum, sem ekki fór í varasjóð. Hins vegar eiga þessi félög ekki að borga af þessu fé, sem fer í arðjöfnunarsjóð eina einustu krónu til viðkomandi sveitarfélags, en hingað til hafa þau þurft að greiða til sveitarfélaganna tekjuútsvar, ef um rekstrarafgang var að ræða.

Hér er því um það að ræða, að það er verið að opna leið til þess, að ýmiss konar félagsrekstur í atvinnurekstri þarf ekki að greiða gjöld, sem hann hefur þurft að greiða hingað til, t.d. til sveitarfélaganna. Að vísu er þessu þannig fyrir komið, að þetta á að gilda um fimm ára skeið hjá viðkomandi félagi. Þegar félagið er búið að hafa í sínum arðjöfnunarsjóði þennan rekstrarafgang sinn í fimm ár, þá skal hann aftur á ný koma til skattlagningar eftir þar til settum reglum, en þó ekki allt féð. Við þetta er nú í fyrsta lagi það að athuga, að hér er augljóslega verulega gengið á rétt sveitarfélaganna. En um leið og þetta er gert, þá gerist annað. Það vita allir, að um leið og sveitarfélögin eru svipt möguleikum, sem þau hafa haft til tekjuöflunar, þá ákveða þau að ná tekjum sínum inn með öðrum hætti og þá velja þau auðvitað þá leiðina, sem þeim stendur opin og þau hafa þurft að beita í sumum tilfellum, að þau leggja hærri útsvör á einstaklinga en þau hefðu annars gert. Hér er því stefnt að því að létta gjöldum af vissum tegundum í atvinnurekstri, þó að það sé hins vegar alveg séð og vitað, að það jafngildir því að hækka gjöld að sama skapi á einstaklingunum. En reglurnar um þennan arðjöfnunarsjóð eru býsna einkennilegar í ýmsu fleira en þessu. Þessi arðjöfnunarsjóður er byggður upp með þeim hætti, að viðkomandi félög, sem stofna hjá sér arðjöfnunarsjóð, fá sérstaka aðstöðu til þess að greiða hluthöfum sínum arð út úr félögunum umfram það, sem verið hefur. Og til þess að auðvelda þetta enn frekar er sett sú regla, að þó að félag í atvinnurekstri greiði hjónum allt að 60 þús. kr. í arð af hlutabréfum, þá þurfa hjónin ekki að borga tekjuskatt af tekjum, sem fengnar eru með þessum hætti. M.ö.o., þegar hlutabréfaeigandi aflar sér tekna með því að eiga hlutabréf og vinnur þá tiltölulega lítið fyrir þeim tekjum, eins og menn þekkja, þá eru slíkar tekjur skattfrjálsar að vissu marki. En ef menn púla fyrir þessum tekjum og vinna sér inn með hörðum höndum tekjur upp á 60 þús. kr., þá skulu þær skattleggjast. Það er sú regla, sem á að gilda um hinn almenna launamann.

Hér er sem sé tekin upp sú furðulega regla, að það er farið að ætla hlutabréfunum persónufrádrátt, 30 þús. kr. á hvern einstakling skattfrjálst út á arð af hlutabréfum og 60 þús. kr. út á hjónin, en þeir hafa þó í seinni umferð málsins fellt það niður, að síðan áttu að koma 15 þús. kr. skattfrjálsar með þessum hætti út á hvert barn. Það var fellt niður við nánari athugun. Þetta er afskaplega skemmtileg regla að taka hér upp sérstakan persónufrádrátt fyrir hlutabréf á sama tíma sem allir kvarta í landinu undan því, að hinn almenni persónufrádráttur fyrir lifandi einstaklinga sé of lágur.

Það er mjög greinilegt, að með þessari reglu er verið að skipta félögum í landinu í tvo hópa. Reyndar er það greinilega gert í frv., því að annar hópurinn heitir A-félög og hinn heitir B-félög. Og A-félögin — þessi, sem mynda arðjöfnunarsjóð, — eiga alveg greinilega, eins og sagt hefur verið í umr. um málið, að teljast opin félög, en B-félögin eru raunverulega lokuð félög. Hvað meina menn með þessum opnu félögum og lokuðu félögum? Opnu félögin, A-félögin, mynda menn, þegar þeir eru nokkurn veginn vissir um það, að félagsreksturinn muni gefa gróða Ef félagsreksturinn í formi hlutafélags gefur gróða, þá þarf að reyna að koma gróðanum undan skatti, setja hann í arðjöfnunarsjóð og fá tækifæri til að deila honum út til mannanna, sem eiga hlutalélögin. En um B-félögin, hin lokuðu, gildir það, að þar er um að ræða þá skattlagningu á félögum, sem gilt hefur til þessa, en hún er sú, að hlutafélög hafa mátt leggja í svonefndan varasjóð 25% af ágóða sínum, en með því skilyrði, að þessi ágóði, sem fór í varasjóðinn, ætti að vera bundinn í rekstri félagsins áfram og ekki mætti úthluta honum sem arði til eigenda félagsins. Skattfríðindin voru veitt með þeirri röksemd, að það þyrfti að efla fjárhag fyrirtækjanna og leyfa þeim að leggja fé til hliðar í varasjóð, án þess að félögin þyrftu að greiða skatt af því, gegn því meginskilyrði, að féð yrði áfram í rekstri félagsins, en færi ekki út til eigendanna. Það hefur sem sé ekki dugað mönnum að hafa þessi lokuðu hlutafélög, sem aðeins áttu að hafa leyfi til þess að leggja fé í varasjóð — varasjóð, sem síðan átti að vera bundinn hjá félögunum og þjóna markmiðum félaganna. Nei, það vitanlega dugir ekki þeim, sem myndar félag fyrst og fremst í sambandi við einhvern skyndigróða. Gróðanum þarf að koma út og helzt með þeim hætti, að menn borgi minna af þeim gróða, en ef hann hefði komið fram með venjulegum og eðlilegum hætti hjá einstaklingunum.

Það er mín skoðun, að sú regla, sem gilt hefur um varasjóðsframlag hjá hlutafélögum, hafi verið mikil fríðindi fyrir slík félög og vissulega gert þeim það mögulegt að byggja upp myndarlega rekstrarsjóði án allt of mikillar skattlagningar, ef um raunverulegan hagnað hefði verið að ræða í félaginu. Ég álít því, að sú regla, sem þar gilti, hafi verið nægilega góð fyrir félögin, og hún var byggð upp á eðlilegum grundvelli, þar sem að því var stefnt, að féð yrði áfram í félögunum og þjónaði markmiði þeirra, en ekki að hinu, að hægt væri að ná þessu fé út aftur bakdyramegin, án skattlagningar. Reglan um arðjöfnunarsjóð, tel ég, að sé því röng — að hún stefni í ranga átt. En það er rétt að vekja athygli á því, að það kemur fram í grg. þessa frv., að einn megintilgangurinn með frv. af hálfu þeirra, sem að frv. standa, er einmitt þessi, eins og sagt er, að örva menn til þess að eignast hlutabréf í hlutafélögum og auðvelda það, að hægt sé að greiða mönnum arð út úr hlutafélögunum.

Ég veit, að því er stundum haldið fram, að það sé ástæða til þess að veita nokkur skattfríðindi vegna arðgreiðslna úr hlutafélögunum til hlutabréfaeigenda, til þess að arður af slíkum innstæðum, eins og menn eiga þær í formi hlutabréfa, njóti svipaðra réttinda og arður af sparifjáreign nýtur nú, en eins og kunnugt er, gilda þær reglur, að vextir af sparifé njóta skattfríðinda, en hér er algjörlega ólíku jafnað saman. Það má vissulega deila um það, hvort það sé rétt að undanþiggja vexti af sparifé skattlagningu. Það má deila um það, hvort það sé rétt. En spariféð er háð hinum miklu verðsveiflum, og við vitum, að reynslan hefur verið sú, að sparifjáreigendur hafa raunverulega verið að tapa fé á undanförnum árum vegna verðlagsþróunarinnar í landinu, en allt önnur regla gildir um verðmæti hlutabréfanna. Sannleikurinn er sá, að hlutabréfaeign í sæmilegum félögum þarf ekki að verðrýrna með hækkandi verðlagi. Það er eins líklegt, að þau hækki í verði með hækkandi verðlagi, vegna þess að hlutabréfin eru í rauninni ákveðin ávísun á þær eignir, sem viðkomandi félag á. Þess vegna þykir líka full ástæða til þess að gefa út með vissu millibili svonefnd jöfnunarhlutabréf eða margfalda að stofnverði í mörgum tilvikum upphaflegt nafnverð hlutabréfanna. Engu slíku er vitanlega til að dreifa um sparifjárinnstæður manna. Það er því engin ástæða til þess að mínum dómi að veita skattfríðindi út á arð, sem greiddur er af hlutabréfum, þótt veitt séu skattfríðindi út á vexti af sparifjárinnstæðu.

Ég hef þá minnzt hér á nokkur aðalatriði þeirra breytinga, sem er raunverulega að finna í þessu frv. Ein breytingin enn á skattlagningarreglunum er í frv. Þó er það svo, að eftir breytingar þær, sem fjhn. hefur gert á frv., er ekki orðið um mikla breytingu að ræða frá reglunum, sem í gildi hafa verið, en það er um skattlagningu á söluhagnaði af eignum. Nokkrar breytingar eru þó gerðar í þessum efnum frá gildandi reglum, en eins og ég segi, eru þær ekki orðnar miklar. Þó er það greinilegt, að t.d. fyrir skipaeigendur, sem iðulega þurfa að skipta um skip og það af mjög eðlilegum ástæðum oft og tíðum, verða hinar nýju reglur óhagstæðari en hinar eldri og að mínum dómi óréttlátari. En með hinum nýju reglum verður þó um það að ræða, að í ýmsum tilfellum verður nokkur hluti söluhagnaðar, sem fram kemur við sölu á fasteignum, sem menn hafa átt um nokkurt árabil, skattskyldur umfram það, sem verið hefur. Ég tel fyrir mitt leyti, að það kæmi vel til mála að taka upp reglur, sem ganga í þessa átt, en ég álít, að þá þurfi að ganga til verks af miklu meiri röggsemi en gert er í þeim till., sem liggja fyrir með þessu frv. Það er enginn vafi á því, að í okkar landi eru til ýmsar eignasölur, sem ég hygg, að flestum fyndist vera ástæða til að skattleggja að meira eða minna leyti, en ekki eru skattlagðar nú og ekki á að skattleggja samkv. þessu frv., þó að breytingar séu gerðar í þessum efnum. Við skulum t.d. taka lóðasölu. Til eru aðilar, sem eiga dýrmætar lóðir t.d. hér í Reykjavík og selja þær stundum með gífurlega miklum hagnaði — stundum svo að skiptir tugum milljóna í sambandi við sölu á einstökum lóðum. Það er ekki gert ráð fyrir því að taka þann hagnað til skattlagningar, sem þar væri um að ræða, en hins vegar er gert ráð fyrir því að skattleggja að vissum hluta þann hagnað, sem til félli reikningslega séð, ef um væri að ræða sölu á húsi, sem menn hefðu átt í fjögur ár.

Ég álít, að þær reglur, sem settar eru upp í þessu frv., séu mjög hæpnar og það sé ekki ástæða til að taka þær upp, nema farið sé í það mjög gaumgæfilega að skattleggja yfirleitt söluhagnað af eignum, þar sem hann er alveg óumdeilanlega fyrir hendi. En því verður ekki neitað, að það er býsna erfitt að koma þeim reglum fyrir, svo að sanngjarnt sé, á slíkum verðbreytingatímum eins og hafa gengið hér yfir um alllangan tíma.

Ég hef þá vikið hér nokkrum orðum að aðalbreytingunum, sem er að finna að mínum dómi í þessu skattamálafrv., og aðalröksemdin fyrir þeim er sem sé þessi, að það þurfi að létta sköttum af fyrirtækjum, en skattar einstaklinga verða að bíða, eins og þeir eru. Það er ekki tími til þess að taka upp þann hluta skattamálanna, sem snýr að sveitarfélögunum í landinu, en þar er þó um mjög verulega skattlagningu að ræða, en það þykir þurfa að lækka skatta á ýmsum félögum, eins og ég hef gert hér að umtalsefni.

Það væri þá kannske fróðlegt í þessum efnum að líta á fyrirliggjandi tölur um það, hvaða skatt félög yfirleitt greiða í atvinnurekstri á Íslandi, eins og nú standa sakir. Hvernig er þessu háttað við skattlagningu? Og það mætti kannske minnast á einnig um leið, hvað einstaklingar í landinu borga í tekju- og eignarskatt. Ég hef fengið hér nokkrar upplýsingar frá yfirvöldum um þessi efni. Þessi tafla, sem ég hef hér fyrir framan mig, sýnir skattgreiðslur einstaklinga annars vegar og félaga hins vegar á árabilinu 1960–1970 eða á aðalstarfstíma núverandi ríkisstj. Árið 1960 greiddu öll félög í landinu, sem skatt greiða til ríkisins, rétt tæpar 30 millj. kr. eða 29.6 millj. kr. í tekjuskatt. Það sama ár greiddu einstaklingar í tekjuskatt — allir einstaklingar í landinu — 33.7 millj. kr. eða aðeins hærri upphæð en félögin, þetta var árið 1960 í upphafi viðreisnar. Hlutföllin voru þá þannig, að einstaklingar greiddu af tekjuskattinum 53.2%, en atvinnureksturinn 46.8%. En hvernig er þessu varið nú? Á árinu 1970 borga öll félög í landinu í tekjuskatt 152.1 millj. kr. eða 16.5% af öllum tekjuskattinum, en einstaklingarnir borga þá orðið 771.5 millj. kr. eða 83.5%. M.ö.o. hefur tekjuskattur félaga í landinu á þessu tímabili verið að lækka úr 46.8% niður í 16.5%, en tekjuskattur einstaklinga hefur verið að hækka úr 53.2% upp í 83.5%. En þó segja sjálfar tölurnar auðvitað miklu merkari sögu en nokkurn tíma prósentutalan í þessum efnum. Á þessu tímabili hefur tekjuskattur félaga í landinu rétt um það bil sexfaldazt, en tekjuskattur einstaklinganna í landinu er orðinn tuttugu og tvisvar sinnum hærri. Þar hefur orðið stígandi í, en þrátt fyrir þessa þróun segir hæstv. ríkisstj. nú, að allt sé í lagi með tekjuskattinn hjá einstaklingum — hann má eiga sig, það þarf ekki að endurskoða hann í bili, hann má liggja óbreyttur, en það er lífsnauðsyn að lækka skattinn enn meir á fyrirtækjum í landinu.

Það er auðvitað enginn vafi á því, að hver sá, sem kynnti sér skattgreiðslur félaga á Íslandi og ber saman tekju- og eignarskattsgreiðslur félaga hér og í nágrannalöndunum og greiðslu þeirra til ríkisins í þessu formi, þ.e. í formi tekjuskatts og eignarskatts af heildartekjunum, sem ríkissjóður heimtar til sín á hverju ári, sannfærist um það, að félögin hér á landi borga sáralitla skatta, það er sannleikurinn í málinu — sáralitla skatta. Það var engin þörf á því — og er engin þörf á því að rífa upp skattareglurnar vegna félaga. Enda verður sannleikurinn í málinu sá, þegar litið er á heildina, að þær breyt., sem hér er um að ræða, munu ekki vega þungt. En það er auðvitað alveg rétt, að hverjar tuttugu, þrjátíu eða fjörutíu millj. kr., sem sparaðar verða í skattgreiðslum félaga — sá sparnaður kemur aðallega til nokkurra aðila, sem reka verzlun og skrifstofuhúsnæði eða leiguhúsnæði til almennings — geta orðið talsvert góðar fyrir þá, sem fá þetta í hendur og fá sína skatta gerða léttbærari.

Það er vitanlega mesta fjarstæða að halda því fram, að það sé þörf á því að gera þessar skattalagabreytingar, sem hér er um að ræða, vegna EFTA-aðildar, eins og sagt er, til þess að atvinnureksturinn hér á Íslandi verði betur samkeppnisfær á erlendum mörkuðum. Allt slíkt er vitanlega hreinasta fjarstæða. Í fyrsta lagi er það nú svo, að þáttur þeirra, sem hér eiga að njóta, í útflutningi er ekki mikill. Þó að ég hafi sagt þetta um skattlagninguna almennt, þá er ekki þar með sagt, að atvinnurekstur á Íslandi yfirleitt borgi ekki talsvert mikið í skatta, þegar allt kemur saman. Hann borgar ekki mikið í tekjuskatt og ekki mikið í eignarskatt, en það er rétt, að það eru til óteljandi skattar í alls konar formi, sem liggja býsna þungt á atvinnurekstrinum í landinu og mjög misjafnlega. Það væri mikil þörf á því að taka skattamálin sem heild til athugunar, en þetta fikt, sem hér er verið að viðhafa í sambandi við tekju- og eignarskattinn í þá átt að lækka hann enn hjá þessum aðilum, er í rauninni ómerkilegt fikt. Enda var það býsna eftirtektarvert, að þegar fulltrúar helztu samtaka atvinnurekenda í landinu höfðu kynnt sér þetta frv. ríkisstj. og sendu fjhn. þessarar hv. d. umsögn sína um málið, þá kom það í ljós, að fulltrúar þessara samtaka atvinnurekenda, þ.e. Félags ísl. iðnrekenda, Landssambands iðnaðarmanna, Landssambands ísl. útvegsmanna, Verzlunarráðs Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands, komust að þeirri niðurstöðu eins og segir í þeirra bréfi, að að undangenginni athugun sé það samdóma álit þessara aðila, að fresta beri lögfestingu frv. í flestum atriðum, að því er tekur til þeirra ákvæða þess, er varða skattlagningu atvinnurekstrar. Þessir aðilar sáu það, að í sjálfu sér var hér ekki fyrir þá um merkilegt mál að ræða. Það gat verið svo fyrir nokkra einstaklinga, sem gætu þá sloppið við þá lágu skatta, sem þeir hafa greitt, en þessir fulltrúar samtaka atvinnurekenda bentu réttilega á það, að það væri nauðsynlegt að taka skattlagningarmálin fyrir sem heild, þ.e. skattgreiðslur til bæjar- og sveitarfélaga og skatta til ríkisins, bæði tekju- og eignarskatt og fjöldamarga aðra skatta, sem atvinnureksturinn verður að greiða.

Það þyrfti auðvitað heldur ekki langt að fara, ef maður spyrði sjálfan sig miðað við þá reynslu, sem maður hefur fengið hér á hinu hv. Alþ. að undanförnu, hvort hér væri um einhverja verulega bót að ræða fyrir atvinnureksturinn í landinu almennt séð og hvort verið væri að létta af honum einhverjum fjárhæðum. Hvaðan ætlar þá hæstv. fjmrh. að fá tekjur í staðinn? Hann er vanur að minnast á það, ef eitthvað á af honum að taka, að hann vilji fá eitthvað annað í staðinn. En hann minnist ekki á nokkurn skapaðan hlut annan í staðinn. Ég hygg, að það stafi af því, að hér er ekki um neinar stórar fjárfúlgur að ræða í sjálfu sér, en stefnan, sem kemur fram í frv., er að mínum dómi röng, og það er verið að reyna að hygla þeim, sem sízt er ástæða til að hygla, en hins vegar eru afskiptin af skattamálum hinna, sem mestu máli skiptir þó að lita eftir með og öll yfirbyggingin hvílir á, ekki mikil í þessu frv.

Það er enginn vafi á því, að sú stefna, sem fram hefur komið hjá hæstv. ríkisstj. í skattamálum almennt séð á undanförnum árum, er mjög fjandsamleg almennu launafólki í landinu. Sé gerður samanburður á skattlagningu ríkisins á árinu 1960, þegar ríkisstj. byrjaði að framkvæma sína efnahagsmálastefnu, og á skattheimtu ríkisins nú, kemur í ljós, að skattabyrðin hefur verið að færast í sívaxandi mæli af herðum þeirra, sem hafa haft hæstar tekjur í landinu, frá atvinnurekstrinum í landinu og yfir á herðar hins almenna launamanns og alveg sérstaklega yfir á herðar láglaunamannsins í landinu. Árið 1960 var heildarsöluskatturinn rétt um 440 millj. kr. Nú er hann kominn upp í 3400 millj. kr. — 3.4 milljarða. Það er búið á þessu tímabili að færa söluskattinn yfir á allar lífsnauðsynjar manna og láta á þann hátt láglaunamanninn í landinu borga til ríkissjóðs miklu meira hlutfallslega en hann gerði áður. Á sama tíma hefur átt sér stað nokkur lækkun á tollum, en nálega eingöngu á allra hæstu tollunum, þ.e. á þeim varningi, sem helzt varð yfirleitt flokkaður undir það að teljast til lúxus. Slíkir tollar hafa verið lækkaðir, en raunverulega hafa tollar á lífsnauðsynjum hækkað vegna þeirra verðsveiflna, sem átt hafa sér stað í landinu með gengislækkunum. Með stórfelldri hækkun á verði lífsnauðsynjanna hefur óbreyttur tollstigi raunverulega orkað þannig, að um hækkun hefur verið að ræða á þessum tollgreiðslum. Á þessu tímabili hafa líka nefskattar hækkað stórlega, t.d. lífeyrissjóðsgjald, gjald til almannatrygginga eða sjúkrasamlagsgjöld og önnur slík gjöld, sem nú eru orðin verulega tilfinnanleg fyrir tekjulágt fólk — og miklu tilfinnanlegra nú en áður.

Ég hafði hér áður gert grein fyrir því, hvernig tilfærslan hefur átt sér stað í sambandi við tekju- og eignarskattinn. Tekju- og eignarskatturinn á hinu almenna launafólki hefur farið stórhækkandi á sama tíma sem tekju- og eignarskatturinn hefur raunverulega farið lækkandi jafnt og þétt hjá atvinnurekstrinum í landinu. Hér hefur verið um alveg ákveðna stefnu að ræða af hálfu ríkisstj. Hún hefur beinlínis stefnt að því að færa til skattabyrðina, og hún er enn að vinna að þessari stefnu sinni m.a. með þessu frv. Hún vill gera einstaka fyrirtækjum, sem t.d. eru sérstaklega stofnuð til gróðaöflunar, kleift að skjóta sér undan eðlilegri skattgreiðslu, og hún miðar að því að verðlauna hlutabréfaeigendur á sama tíma sem gjöldin munu halda áfram að hækka á almennu launafólki. Ég tel, að það hefði einmitt þurft nú að taka til endurskoðunar skattamálastefnuna sem heild, alla þætti skattamálanna — ekki aðeins reglurnar um tekju- og eignarskatt, því að það er vitanlega algjörlega ófullnægjandi endurskoðun á þessu máli, sem aðeins nær til þess þáttar.

Ég skal koma hér að þeim aðalbrtt., sem ég flyt við frv. Ég vil fyrst segja það, að við Alþb.-menn styðjum till. um það, að þessu máli verði vísað frá. Við álítum, að það væri réttasta afgreiðslan, en vegna þess, að við vitum það, að það yrðu mjög litlar líkur til þess úr því, sem komið er, að ríkisstj. gefi sig í málinu — við reiknum með því, að málið haldi áfram - þá hef ég flutt hér nokkrar brtt. við frv. og skal nú gera grein fyrir þeim.

Fyrsta brtt., sem ég flyt, er við 10. gr. frv., sem fjallar um 13. gr. l. sjálfra. Þar legg ég til, að bætt verði við 13. gr. l. nýjum staflið. En í þessari gr. eru taldar upp ýmsar tekjur eða greiðslur, sem skattþegnar fá, sem draga má frá skattskyldum tekjum, þ.e. tekjur, sem eiga að vera skattfrjálsar. Ég legg til, að bætt verði við staflið, sem er á þessa leið: „Allar bætur, sem greiddar eru samkv. l. um almannatryggingar, svo og atvinnuleysisbætur.“ Það er skoðun okkar, að það eigi ekki að leggja tekjuskatt á þær bætur, sem menn fá úr almannatryggingunum og heldur ekki á atvinnuleysisbætur. Þeir, sem fá einhverjar tekjur greiddar sem atvinnuleysisbætur, hafa auðvitað orðið fyrir allverulegum áföllum á árinu, og við teljum því, að það eigi ekki að skattleggja þessar tekjur sérstaklega.

Önnur brtt. mín er við 13. gr. frv. og fjallar um breytingar á persónufrádrætti. Þar legg ég til, að persónufrádráttur fyrir einstakling hækki úr 80 þús. kr. í 156 þús. kr. Í frv. ríkisstj. er gert ráð fyrir því, að talan 80 þús. hækki upp í 134 þús. Þá legg ég einnig til, að persónufrádráttur hjóna hækki úr 112 þús. kr. í 220 þús. kr. Og einnig legg ég til, að í þeim tilvikum, sem hjón telja fram hvort í sínu lagi, þá fái þau leyfi til þess að draga frá tekjum sínum persónufrádrátt eins og um einstakling væri að ræða, en ekki hálfan hjónafrádrátt, eins og verið hefur. Í þessari till. er einnig lagt til, að frádráttur fyrir hvert barn verði 35 þús. kr. Og síðan er lagt til að hækka allverulega persónufrádrátt með börnum einstæðra foreldra. Till. mínar í þessum efnum eru við það miðaðar í aðalatriðum, að persónufrádrátturinn hækki nú í réttu hlutfalli við hækkun á framfærslukostnaði, sem orðið hefur, síðan þær grunntölur voru ákveðnar, sem í l. eru. En í frv. ríkisstj. er gert ráð fyrir því, að persónufrádrátturinn hækki nokkru minna en sem nemur hækkun á framfærslukostnaði á þessu tímabili. Þó er í mínum till. Lagt til að hækka bæði frádrátt með börnum almennt og eins sérstaklega frádrátt með börnum einstæðra foreldra talsvert miklu meira en sem þessari verðhækkun nemur.

Þriðja brtt. mín er við 42. gr. l., en þar legg ég til, að tekin verði upp viðbót svo hljóðandi: „Auk þeirrar rannsóknar á skattframtölum, sem um er rætt í 2. og 3. mgr. þessarar gr., skal árlega gerð sérstök ítarleg rannsókn á skattframtölum, samkvæmt útdrætti, sem Hagstofa Íslands lætur gera. Lágmarkstala þeirra framtala, sem þannig eru dregin út, skal vera 10% af framtölum atvinnurekenda og 5% af framtölum annarra.“ Ég þarf ekki að gera grein fyrir þessari till. í löngu máli. Ég tel alveg sjálfsagt að slá því föstu í lögunum, að til viðbótar þeirri almennu athugun, sem á sér stað á skattstofnunum, fari fram sérstök ítarleg athugun á þeim framtölum, sem dregin eru út af Hagstofu Íslands eftir sérstökum reglum fyrst og fremst með það í huga, að slíkar reglur mundu veita stóraukið aðhald fyrir alla þá, sem telja fram.

Fjórða till. mín er við 25. gr. frv., sem fjallar um 52. gr. l., en þar legg ég til, að verði bætt við nýjum tölulið, sem hljóði þannig: „Ef skattþegn hættir störfum eða hefur náð 70 ára aldri og sýnt þykir, að tekjur hans muni lækka verulega frá því, sem verið hefur.“ Hér er um það að ræða að veita skattayfirvöldum heimild til þess að lækka verulega skatt á þeim aðilum, sem sannanlega hafa hætt störfum eða hafa náð 70 ára aldri, og sýnt þykir, að tekjur lækki verulega hjá. Það er alkunna, að þeir aðilar, sem verða af ýmsum ástæðum að hætta störfum, eiga oft í miklum erfiðleikum með að greiða háa skatta frá árinu á undan, og ég tel, að það sé nauðsynlegt að setja reglur um það, að í öllum slíkum tilfellum sé heimild til að lækka skattana, þegar menn hætta að hafa nokkrar teljandi tekjur, og þetta gildi einnig um þá, sem orðnir eru 70 ára og eldri, og það þykir nokkurn veginn sannað mál, að tekjur þeirra muni lækka verulega.

Fimmta og síðasta brtt. mín er svo við 26. gr. frv., en þar legg ég til, að skattvísitalan, sem orkar á persónufrádráttinn og þrep skattstigans, verði látin fylgja hreyfingum framfærsluvísitölunnar.

Þessi atriði, sem ég hef hér flutt brtt. um, tel ég vera þess eðlis, að það sé í rauninni ekki stætt á öðru en að taka þessi atriði öll fyrir, ef á að gera hér breytingar á skattalögunum. Mér er þó ljóst, að hér hefði þurft að flytja brtt. um miklu fleiri atriði skattalaganna, en sé ekki ástæðu til þess að gera það hér a.m.k. á þessu stigi málsins. Ég skal svo láta lokið ræðu minni um málið. Eins og fram hefur komið í henni, erum við Alþb.-menn á móti frv. og teljum, að eðlilegast væri að vísa því frá og taka síðan skattamálin fyrir til gaumgæfilegrar endurskoðunar sem heild, en ekki aðeins þennan eina þátt, sem frv. fjallar um. En fáist það ekki fram að vísa málinu frá, þá teljum við þó, að miklu máli skipti að reyna að fá fram þær leiðréttingar, sem felast í þeim brtt., sem ég flyt og ég hel gert grein fyrir.