29.03.1971
Neðri deild: 75. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (1344)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að stytta mál mitt eftir föngum, þó að það hafi mörg atriði komið fram, sem vert væri að leggja áherzlu á, en ræða aðeins meginatriði málsins.

Þegar ég Lagði frv. fram í háttv. d., þá gerði ég grein fyrir því, að frv. væri samið af embættismönnum eða embættismannanefnd, sem hefði fengið ákveðið verkefni, sem hér hefur verið lýst, enda skilgreint nánar og réttilega af ýmsum öðrum háttv. þm. hér í d. Þess vegna tók ég það fram í upphafi, að það væri ekkert sáluhjálparatriði frá minni hendi, að þetta frv. yrði afgreitt óbreytt. Ég óskaði eltir, að það næði afgreiðslu, en hins vegar lagði ég áherzlu á, að frv. yrði afgreitt með hliðsjón af þeim grundvallarreglum, sem settar hefðu verið í þeim tveimur erindisbréfum, sem skattamálanefndin fékk frá mér, og það er vissulega rétt, sem háttv. síðasti ræðumaður, frsm. 1. minni hl. n., 4. þm. Reykv., lagði hér áherzlu á og bent er á í nál. hans og hans flokksbróður, að það beri brýna nauðsyn til þess að fá heildarmynd af öllu þessu máli. Því var það, sem ég lagði fyrir n. á s.l. vori að hefja heildarendurskoðun skattalaganna — ekki aðeins skattalaga um atvinnureksturinn, heldur einnig bæði varðandi hina mörgu skatta almennt, sem hvíla á atvinnurekstrinum, og skattalöggjöfina í heild, eins og erindisbréfið ber með sér.

Það er alveg rétt, að n. hefur ekki komizt yfir þetta verkefni. Hins vegar hefur hún samið frv. það, sem hér liggur fyrir, og hún hefur jafnframt skilað áliti um fjölmörg önnur atriði, sem hún telur, að þurfi að taka til meðferðar, en leggur áherzlu á, að hún telji nauðsynlegt að fá vissa stefnumörkun frá Alþ., sem felst í þessu frv., sem nú liggur fyrir, til þess raunverulega að geta byggt á þeim grunni framhaldsathuganir og tillögur í skattamálunum í heild — ekki hvað sízt, hvað varðar atvinnureksturinn. Af þessum sökum get ég ekki fallizt á það sjónarmið háttv. 4. þm. Reykv. og þann rökstuðning fyrir dagskrártill., að vegna þess að málið liggi ekki fyrir í heild hér á Alþ., þá sé eðlilegt að fresta því öllu án þess að gefa nokkra vísbendingu um það til þeirra manna, sem eiga að annast framhaldsathugun málsins, eftir hvaða sjónarmiðum þeir skulu vinna í málinu. Þess vegna tel ég, að það séu ekki rök fyrir því að fresta frv. af þessum ástæðum, heldur beri að leggja áherzlu á það, að málið nái fram að ganga.

Það hefur verið lögð á það áherzla hér af báðum talsmönnum minni hl. fjhn., að atvinnurekendur hafi óskað eftir þeirri málsmeðferð, sem þeir hafa lagt hér til, að yrði á höfð, að málinu í heild yrði frestað, þar sem það væru svo mörg atriði, sem væru óljós, og málið væri efnislega þannig, eins og það lægi fyrir, að það væri rétt, að því yrði frestað, og það hefur verið vitnað í bréf, sem réttilega er með farið, að sent var fjhn., þar sem þessi ábending var borin fram. Það hefði að sjálfsögðu verið fjarri mínum huga að fara að knýja þetta mál hér í gegn á háttv. Alþ., ef atvinnurekendasamtökin hefðu verið almennt á móti málinu, því að eins og háttv. þm. er kunnugt um, hefur áhersla verið lögð á það m.a. af háttv. stjórnarandstæðingum, þegar EFTA-málin voru rædd, að það yrði að vinda bráðan bug að því að koma skattalegri aðstöðu fyrirtækja í það horf, að þau gætu verið samkeppnishæf innan EFTA. Á þetta held ég, að stjórnarandstæðingar almennt hafi lagt ríka áherzlu. Nú hefur það hins vegar gerzt, sem ekki hefur verið skýrt frá hér á Alþ. — og ekki hefur verið lesið neitt bréf varðandi það efni, að þessir sömu atvinnurekendur hafa lagt á það ríka áherzlu, að málið næði fram að ganga, og ég vil leyfa mér, herra forseti, að lesa hér bréf, sem mér barst um þetta efni 19. þ. m., svo hljóðandi:

Undirrituð landssamtök atvinnuveganna, sem haft hafa til umsagnar frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt, leggja áherzlu á, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Fulltrúar samtakanna hafa átt ítarlegar viðræður við formann fjhn. Nd. Alþ. og fulltrúa embættismannanefndar þeirrar, sem stóð að samningu frv., og treysta samtökin því, að árangur þeirra viðræðna verði sá, að á frv. verði gerðar þær breytingar, sem samtökin telja viðunandi. Sérstaklega vilja samtökin benda á, að aðild Íslands að EFTA geri breytingar á skattalögunum brýnni og með þeim sé unnt að efna að nokkru þau fyrirheit, sem gefin voru í sambandi við inngöngu Íslands í EFTA. Undir þetta skrifa Félag íslenzkra iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna, Landssamband íslenzkra útvegsmanna, Verzlunarráð Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands. Þannig horfir málið á allt annan veg við.

Það kann að vera, að þetta hljómi nokkuð ankannalega, en sannleikurinn í málinu er sá, að það, sem gerzt hefur í þessu efni, og það, sem ég lagði áherzlu á, að gerðist, og var í fullu samráði við mig gert, var, að hafnar voru ítarlegar viðræður við fulltrúa frá þessum samtökum, sem sérstaklega höfðu kannað frv. og þær till., sem nú liggja frammi frá háttv. meiri hl. fjhn. og eru afleiðing þessarar athugunar og þessarar samræmingar á skoðunum annars vegar rn. og meiri hl. fjhn. og hins vegar allra þessara vinnuveitendasamtaka. Ég hygg, að Samband íslenzkra samvinnufélaga hafi einnig látið í ljós sömu skoðun um þetta efni, eftir að þessi athugun fór fram, og ég tel það á engan hátt niðrandi fyrir mig sem ráðh., þó að þessu frv. hafi verið breitt.

Ég lýsti því í upphafi, að tilgangurinn væri að ná fram vissum höfuðmarkmiðum, en ekki nákvæmlega, hvernig þeim yrði bezt náð. Það var hægt að hugsa sér, eins og ég gat þá um, ýmsar leiðir að því marki, og það hefur tekizt að samræma þessi sjónarmið, þannig að því fer víðs fjarri, að þær fullyrðingar standist, sem komið hafa fram í þessum umræðum, að hér væri verið að stefna gegn hagsmunum atvinnuveganna, en hins vegar verið að vinna í þágu einhverra hlutabréfaeigenda, sem mér er satt að segja — ég er það treggáfaður — ómögulegt að skilja, þ.e. hvernig hægt er að skilja að hagsmuni atvinnurekstrarins og þeirra, sem eiga atvinnureksturinn, en það er annað mál. Það hins vegar liggur ljóst fyrir, að þessar breytingar, sem nú eru gerðar á frv., eru það mikið í samræmi við óskir þessara heildarsamtaka, sem báðir háttv. frsm., sem hér hafa talað, hafa lagt áherzlu á, að bæri að hafa hliðsjón af og með í ráðum, að þessi samtök leggja nú á það áherzlu, að frv. nái fram að ganga, og ég vænti þess í rauninni, að háttv. 4. þm. Reykv. sjái eftir þessar upplýsingar ástæðu til að taka till. sína aftur um það að vísa málinu frá. Það er a.m.k. horfin þessi grundvallarröksemd, að hér sé ekki verið að bera fram óskir atvinnurekenda.

Ég sé ekki ástæðu til þess að eyða mörgum orðum að þeim brtt., sem meiri hl. fjhn. leggur fram, en aðeins fara um þær örfáum orðum. Þau atriði, sem n. aðallega breytir, eru efnislega ekki mörg. Þó að þau hafi áhrif á allflestar greinar frv., þá er þar að verulegu leyti um endurbreytingar og samræmingar að ræða, sem leiða af grundvallarbreytingunum. Það atriði að fella niður ákvæðið um að skerða frádrátt giftrar konu tel ég algert aukaatriði. Ég lýsti því yfir við 1. umr. málsins, að skoðun mín væri sú, að það ætti að aðskilja algerlega sameiginleg framtöl hjóna, þannig að hvort sem kona ynni úti eða ekki, þá yrðu þau sjálfstæðir skattgreiðendur, þannig að það skiptir auðvitað engu máli, þó að þessi tölul. falli niður.

Um sameignarfélögin er það að segja, að ég tel, að nefndin hafi — þó að hún hafi látið sameignarfélög haldast áfram sem sjálfstæða skattaðila — sett þær hömlur á starfsemi þeirra, sem ég tel viðunandi miðað við það, sem é lýsti í framsöguræðu minni við 1. umr. málsins. Ég sagðist þá ekki telja viðunandi það ástand, sem nú er, þ.e. hversu mikið misrétti er á milli sameignarfélaga annars vegar og einkarekstrar og hlutafélaga hins vegar.

Meginbreytingarnar, sem hér eru gerðar, eru á formi hlutafélaganna, þ.e. að gefinn er kostur á því, að hlutafélög geti verið með tvennu móti. Annars vegar eru félög, sem halda áfram að vera með sama hætti og hlutafélög eru nú. Það kom í ljós, að atvinnurekendur lögðu á það verulega áherzlu, að sú leið yrði höfð opin. En að hinu leytinu er það fyrirkomulag, sem ég tel einnig mjög mikilvægt og raunar er nú haldið fram, að sé eitthvert sérstakt hugsjónamál, að nái fram að ganga, þ.e. að félög séu með arðjöfnunarsjóðsfyrirkomulagi, sem felur í sér möguleika til þess að borga arð á annan hátt en gert hefur verið til þessa. Og þar sem báðum þessum leiðum er haldið opnum, þá tel ég, að fullkomlega sé náð þeim tilgangi, sem eðlilegur er í rauninni, að atvinnureksturinn geti valið um, hvora leiðina hann vill fara til þess að byggja sig upp.

Hugsunin í frv., eins og það var í upphafi, var eingöngu sú að reyna að tryggja það að halda fjármagni í félögum eða að laða nýtt fjármagn að félögunum með því, að það væri mögulegt að greiða arð, og til þess að auðvelda þetta enn þá frekar var tekin upp þessi skattfrjálsa heimild, sem nú hefur verið takmörkuð, og ég tel vera til bóta, að hafi verið takmörkuð, en tel hins vegar höfuðnauðsyn að halda. Mér er óskiljanlegt, hvernig hægt er að hafa uppi þann áróður gegn þessari hugmynd, sem hér hefur komið fram frá báðum háttv. frsm. minni hl. n., sem að öðru leyti ræða báðir málin mjög málefnalega, og ég hef almennt ekkert út á þeirra málflutning að setja. En ég skil ekki, að menn skuli ekki átta sig á því, að ef við ætlum að koma á opnum verðbréfamarkaði og kaupþingi og ef við ætlum að laða fjármagn að atvinnurekstrinum, þá verðum við að hafa möguleika á því að hafa þetta arðjöfnunarsjóðsfyrirkomulag og örva þátttöku í atvinnurekstri með því að veita það takmarkaða skattfrelsi, sem hér er um að ræða. Annars safnast ekki fé til atvinnurekstrarins — a.m.k. ekki með almennri þátttöku. Og það hefur verið ákveðið, eins og menn vita, og samþykkt hér á hinu háa Alþ. að efna til kaupþings, en það verður þá að sjálfsögðu að skapa skilyrði til þess, að einhver verðbréf verði þar til sölu.

Ég legg á það ríka áherzlu, að það er algjör misskilningur, að það hafi verið vegna andstöðu ríkisstj., að ekki hafi verið beinlínis kveðið svo á í frv., eins og það liggur fyrir, að aðeins opin hlutafélög hefðu möguleika til að velja A-liðinn. Því fer víðs fjarri. Ríkisstj. hefur engin afskipti haft af því máli, og samning frv. hefur algerlega byggzt á samvinnu milli meiri hl. fjhn. annars vegar og embættismannanna og fulltrúa atvinnurekstrarins hins vegar, og vitanlega geta þá allir haldið sínum félögum lokuðum, sem vilja, eins og frá þessu formi er gengið, og mér er það óskiljanlegt, að það að hafa opin hlutafélög eða að hafa möguleika til að bjóða út hlutabréf verði til þess að draga fé út úr atvinnurekstrinum. Það get ég með engu móti skilið.

Það vill nú svo til, af því að það er verið að tala um þessa auðkýfinga, sem hér sé verið að hugsa um, en ekki atvinnureksturinn, að það er einmitt þvert á móti. Ég hygg, að það hafi verið andstaða gegn því að opna félögin, að menn hafi í mörgum tilfellum alls ekki kært sig um arðjöfnunarleiðina, vegna þess að þeir hafi ekki kært sig um að taka fleiri menn inn í félögin. Nú þá það. Þá er sjálfsagt, að menn fái rétt til þess að halda sínum félögum lokuðum að þessu leyti. En hugsunin með þessu er einmitt sú að geta stofnað stór félög og geta haft almennt hlutabréfaútboð. Og ég held, að það sé alveg ljóst, að ef við ætlum að keppa á hinum stóra markaði innan EFTA-landanna og vera samkeppnisfærir, þá verðum við að fá miklu stærri rekstrareiningar en eru nú hér, og við fáum ekki þær rekstrareiningar nema með því móti, að við fáum almenna þátttöku fólks í því að leggja fram fé til þessara félaga.

Það vill nú svo einkennilega til, að þau félög, sem mundu falla undir þetta, að ég hygg, mjög sjálfkrafa eftir eigin ósk, eru einmitt félög almennra borgara og það oft og tíðum mjög efnalítils fólks –félög, sem hafa verið að rísa upp nú síðustu árin. Það einkennilega hefur sem sé gerzt, og ég segi það gleðilega, að víða — og ekki hvað sízt úti á landsbyggðinni — hafa risið upp félög um atvinnurekstur, þar sem svo að segja hver maður er þátttakandi og hefur eignazt hlutabréf. Og því í ósköpunum má ekki láta þessa menn, sem nota sitt sparifé á þennan hátt, njóta einhverra fríðinda? Ég held, að það sé miklu fremur þetta fólk, sem nýtur fríðinda samkvæmt þessum heimildum, sem hér er um að ræða, en einhverjir sérstakir auðugir verðbréfaeigendur, sem hafa engra hagsmuna að gæta í rekstri félaganna, sem þeir eru að leggja fé í. Það eru fyrst og fremst lokuðu félögin, þar sem eru fáir eigendur, eða fjölskyldufélög, sem kannske óska að vera það áfram, og þá er ekkert við því að segja.

En þessi almennu félög með almennu hlutabréfaútboði eru félögin, sem þarf að örva og þarf að koma á fót í íslenzku atvinnulífi. Félög hafa verið mynduð hér, og það hefur oft verið á það bent, með alveg fáránlega litlu hlutafé, og m.a.s. meginhlutinn af atvinnurekstrinum eða hlutafélögunum er byggður upp með alveg fáránlega litlu hlutafé svo litlu, að það hafa verið nokkrir tugir þúsunda kannske í hlutafélagi, sem á stóreignir. Þetta er auðvitað alveg fráleitt með öllu. Síðan er hugsunin sú að reyna að leysa allan vandann með lánsfé í stað þess, eins og erlendis gerist, þar sem atvinnurekstur er orðinn þroskaður, að þar er einmitt boðið út aukið hlutafé. Það eru þessir möguleikar, sem hér er verið að skapa og fólkið í landinu er sjálft farið að finna fyrir, að þarf að vera til. Ótalmörg dæmi má nefna um, að það hefur gerzt nú á síðustu árum einmitt á þeim stöðum, þar sem við atvinnuörðugleika hefur verið að stríða, að hinn almenni borgari hefur gerzt hluthafi til að hjálpa til við að halda atvinnurekstri í gangi. Það er til hagsbóta fyrir þetta fólk — ekki hvað sízt, en ekki fyrir eitthvert ópersónulegt hlutafé.

Og það er nú eiginlega svo óskiljanleg kenning, að maður áttar sig ekki á, hvað á bak við liggur, að það sé þegar farið að tala um, að hér sé um að ræða fríðindi hlutabréfa, en ekki fólksins. Ég get ekki hugsað mér þann möguleika, að það sé ekki fólk, sem á hlutabréfin, alveg eins og það er fólk, sem á sparifé. Það finnur enginn að því, og ég tel það alveg sjálfsagt að halda við skattfrelsi sparifjár, og það má þó gera ráð fyrir, að það séu margir ríkir menn sem eiga mikið sparifé, og það talar enginn um að það sé neitt óeðlilegt við það. Þó að það eigi að heita svo, að nokkur verðtrygging sé í hlutabréfaeign, þá er það nú því miður svo, að það er ákaflega mikill fjöldi hlutafélaga hér á Íslandi, sem ekki hefur gengið betur en svo, að þau hafa ekki getað borgað út nokkurn arð. Og við skulum gera okkur grein fyrir því, að sá er munurinn á hlutabréfaeign og sparifjáreign, þegar er verið að bera það saman, að menn eiga undir högg að sækja, hvort þeir geta losnað við hlutabréf aftur, og þeir geta ekki losað þetta fé sitt, þegar þeim þóknast, því fer víðs fjarri. Það er bundið, en hins vegar geta menn þó ráðstafað sparifé sínu eftir vild. Það er frjálst. Betur að það væri svo að allur rekstur á Íslandi ætti það bjarta framtíð fyrir sér, að það væri alltaf hægt að greiða arð, hvort sem er 10% eða meira — það er gert ráð fyrir því, að það sé hámarkstalan, sem hér er um að ræða.

En mér er í rauninni alveg óskiljanleg þessi afstaða hv. þm., þ.e. að það skuli vera gert að höfuðatriði í þessu máli, að það sé vegna einhverrar baráttu fyrir auðuga hlutabréfaeigendur, sem ekki komi atvinnurekstrinum neitt við, að hér er verið að opna möguleika til þess, að hinn almenni hlutafjáreigandi geti fengið einhvern arð af sínu hlutafé og það með skattfrjálsum hætti. Ég legg áherzlu á það og endurtek það, að það er ekkert á bak við þessa hugsun annað en það að greiða fyrir því, að hér geti myndazt hlutafélag með öðrum hætti, hér geti risið upp stór hlutafélög með almennri þátttöku og fjármagnið sé laðað að atvinnurekstrinum, og það var eitt af því, sem embættismannanefndinni var falið í sínu umboði að leitast við að gera. Jafnframt var lögð áherzla á það, að með óeðlilegum hætti væri dregið fé út úr atvinnurekstri, enda eru ákvæði um það í þessu frv., sem vinna gegn því.

Um fyrningarnar virðist ekki vera í rauninni neinn ágreiningur, og ef hann er nokkur, þá er það það, að hv. framsóknarmenn vilja ganga lengra en gert er ráð fyrir í þessu frv., vegna þess að það er lagt til, að alltaf verði lagt til grundvallar endurmatsverð eigna, sem hefur verið útskýrt, en ekki er hægt að koma í framkvæmd í eitt skipti fyrir öll, heldur verður að gerast í áföngum með ákvörðun Alþ. hverju sinni, og ég sé því ekki ástæðu til þess að ræða það mál sérstaklega.

Það hefur verið á það bent, sem er rétt, að skattur fyrirtækja væri almennt ekki þungur hér á Íslandi, þ.e. tekjuskattur, og ég skal fúslega játa það, að það er margt annað, sem þarf hér að lagfæra, og ég benti á það í frumræðu minni við 1. umr. þessa máls, að tekjuskatturinn væri hér ekki hár almennt á atvinnurekstri, og hann er almennt ekki heldur hár hér á einstaklingum. Ég vil vekja athygli á því, að það, sem hv. 4. þm. Austf. sagði um, hversu gengið hefði á hlutdeild félaga í heildartekjuskattsgreiðslum, sannar auðvitað ekkert um það, sem hann vildi sanna, að þetta hefðu verið einhver sérstök aukin fríðindi atvinnurekstrarins á kostnað annarra skattgreiðenda, heldur sannar það það, sem ég segi, að því miður sé óskemmtilegt, og það er, að atvinnureksturinn virðist ekki hafa borið það sama úr býtum, eins og hann hefur áður gert, vegna þess að allt frá 1963 hefur verið lagt á atvinnureksturinn eftir nákvæmlega sömu álagningarreglu. Það er því ekki vegna breytinga á skattalögum, sem atvinnureksturinn ekki borgar hærra en hann gerir nú miðað við árið 1962 og 1963. Þetta er nauðsynlegt að leggja áherzlu á. Það er eingöngu vegna þess, að atvinnureksturinn hefur átt við erfiðleika að stríða, og það kemur engum á óvart, sem þar þekkir til. Áfallaárin 1967 og 1968 og fram á árið 1969 hefur atvinnureksturinn búið við mikla erfiðleika. Og þetta er eina skýringin á því, að atvinnureksturinn greiðir ekki hærra framlag til ríkisins en hér er um að ræða. Sannleikurinn er sá, eins og við vitum, að beinir skattar eru almennt ekki háir hér á Íslandi miðað við óbeinu skattana. Það eru um 12% af ríkistekjunum, sem eru beinir skattar, og það hefur haldizt nokkurn veginn óbreytt allt frá því 1958.

Þá er eitt atriði, sem lögð hefur verið áherzla á í þessu máli, og það er skattvísitalan, og ég skal ekki eyða mörgum orðum að því, það er búið að ræða það svo oft hér. Ég legg aðeins áherzlu á það enn einu sinni, að það hefur aldrei verið gengið út frá því og var ekki gengið út frá því í frv. því, sem við Jóhann Hafstein fluttum á sínum tíma, að það væri framfærsluvísitalan, sem ætti að leggja hér til grundvallar um ákvörðun á hækkun persónufrádráttar, heldur það, hvort breyting hefði orðið á kaupgjaldi, þannig að menn vegna breytinga á kaupgjaldi þyrftu ekki að greiða hlutfallslega hærri skatt en þeir áður höfðu greitt. En það er alveg rétt, og mér dettur ekki í hug að mótmæla því, og ég hef áður sagt það hér, að árin 1967 og 1968 og fram á árið 1969 var vegna fjárhagsörðugleika ekki fyrst og fremst ríkisins, heldur ekki síður sveitarfélaganna, skattvísitalan ekki notuð að fullu. Þetta hef ég fullkomlega viðurkennt. Fram til ársins 1967 eða ársins 1968 var hún notuð að fullu þannig, að hún vó ekki aðeins upp hækkun á kaupvísitölu, heldur einnig framfærsluvísitölu og rúmlega það.

En á þeim erfiðleikaárum, sem eftir það komu, var í rauninni ekki um að ræða nema tvennt, annaðhvort að draga úr skattvísitöluhækkuninni eða afla tekna með öðru móti. Hefði sú leið verið farin, sem auðvitað mátti fara, að hafa skattvísitöluna með þeim hætti, sem hv. 4. þm. Reykv. hefur haldið fram, að fylgja framfærsluvísitölunni, þá hygg ég, að óhætt sé að segja, að það hefði skapað algert öngþveiti hjá fjölda sveitarfélaga og ríkið hefði auðvitað orðið að fara aðra leið til skattlagningar. Það má vel vera, að sú leið hefði verið heppilegri; ég skal ekkert segja um það. En þar sem nú á að ákveða útsvörin eftir skattvísitölu, þá hefði niðurstaðan orðið sú, að það hefði orðið að beita álagi á útsvörin í sama mæli og skattvísitalan hefði hækkað. Nú er það hins vegar svo, þegar farið er að birta aftur í lofti, að skattvísitalan hefur verið ákveðin hærri en hækkun tekna á árinu 1970, hvort heldur litið er til meðalkauphækkana á árinu eða hækkunar á framfærsluvísitölu. Skattvísitalan hefur nú hækkað um 20%, og það er töluvert hærra en bæði hækkun á framfærsluvísitölu, sem hv. 4. þm. Reykv. vill láta fylgja, og kauphækkanir þær, sem orðið hafa að meðaltali á árinu 1970.

Hitt held ég, að liggi í augum uppi — og á það hef ég Lagt áherzlu æ ofan í æ, að auðvitað hljóta skattar að hækka með auknum tekjum. Þá hljóta skattar að hækka í krónutölu, hvernig í ósköpunum ætti annað að vera. Og ég skil ekki, að nokkrum manni hafi dottið annað í hug. Það er aðeins hlutfallið, sem á ekki að raskast. Og þegar verið er að tala um það, eins og nú hefur verið gert, að það sé skipulega unnið að því að fresta því að leggja fram skattskrár, af því að ríkisstj. sé hrædd við, að það komi fram, að skattar hækki, þá mótmæli ég því algerlega. Till. um það er hér komin inn af tæknilegum ástæðum og fyrir atbeina skattayfirvalda, sem á þetta hafa bent, vegna breytinga, sem orðið hafa á og hv. frsm. fjhn. vék hér að í dag, en ekki vegna þess að ríkisstj. af ótta við skattskrár ákveði það, hvað mikið eigi að lengja þennan frest; því fer víðs fjarri. Og þessu til sönnunar skal ég aðeins minna á það, að ég hef sjálfur flutt hér í Alþ. frv. fyrir skömmu um það að auka fyrirframinnheimtu opinberra gjalda vegna þess, að gjöldin mundu hækka það mikið, og það er ósköp eðlilegt, að gjöldin hækki mikið, þegar tekjur manna hafa hækkað jafnmikið á s.l. ári og raun ber vitni um. Það verður auðvitað ekki étið upp með neinni skattvísitölu.

Varðandi einstakar brtt., sem fluttar hafa verið hér af hv. 4. þm. Austf., skal ég ekki verða margorður. Ég held, að það sé sameiginlegt með þeim öllum, að út af fyrir sig eru þær nytsamleg mál, en ég held, að það megi segja um þær allar, að þær séu þess eðlis, að það sé illmögulegt — jafnvel formsins vegna — að afgreiða þær nú við þessa meðferð skattalaga, heldur sé eðlilegt, að þær bíði haustsins. Og það eru ýmsar ástæður, sem valda því, sem ég skal hér ekki víkja að. Ég vil þó minna á eitt atriði, sem hefur veigamikla þýðingu, og það er hækkunin á persónufrádrættinum, sem er að forminu til ekki hægt að framkvæma með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir í till. hv. þm., vegna þess að ekki er um leið verið að breyta tekjustofnalögum sveitarfélaga. Ef á að hækka grunntöluna, sem nú á að vera 100, þá mundi það leiða til þess, að það mundi tapast samsvarandi upphæð í frádrætti fyrir almenning vegna útsvara. Þetta er aðeins eitt dæmi, sem ég nefni, en önnur dæmi um till. hans yrðu að öðru leyti hliðstæð, t.d. till. hans um úrtak fyrir skattayfirvöld til þess að hafa eftirlit með skattframtölum, sem er fráleitt með öllu og skattrannsóknarstjóri hefur bent á og vakið athygli á, að mundi stórkostlega torvelda eðlilegt skatteftirlit í landinu.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. vék hér að till. eða frv., sem hann hafði flutt um skattfríðindi fyrir eldra fólk eða það, sem komið er yfir 67 ára eða 70 ára aldur; það hefur oft áður verið rætt hér á þingi. Ég tel rétt, að þetta mál sé athugað. Ekki í því formi, sem hann flytur það, vegna þess að það er, eins og hv. frsm. meiri hl. fjhn. ræddi um, útilokað með öllu, að skattyfirvöld geti haft eftirlit með slíku og enda ósanngjarnt í fyllsta máta. Þótt maður hafi atvinnurekstur, þá er ekki víst, að hann búi við neitt betri hag en annar eldri maður, sem hefur e.t.v. mjög háan lífeyri eða tekjur úr öðrum áttum, þannig að það atriði kemur auðvitað ekki til álita, en miðað við það, að heimild er nú til þess í tekjustofnalögum sveitarfélaga, sem ýmis sveitarfélög nota, að ívilna þessu eldra fólki, þá mundi ég telja æskilegt, að hv. fjhn. taki það mál til meðferðar á milli umr. Ég hygg, að það sé hægt að gera það með mjög skaplegum hætti án þess, að það leiði til neinna vandræða og geti þar varla verið um veruleg fjárhagsatriði að ræða.

Herra forseti. Það er auðvitað margt, sem hefði verið æskilegt að ræða í þessu máli, en ég sé ekki ástæðu til þess. Ég vitna aftur til þess bréfs, sem ég las upp frá heildarsamtökum vinnuveitenda, að þeir óska eftir því, að frv, í því formi, sem það er nú, nái fram að ganga. Og það er með það í huga, sem ég hefði lagt áherzlu á, að frv. yrði samþ., og ég tel ekki nema gott, að það hefur tekið þeim breytingum, sem hér hafa verið á því gerðar, þar sem það er skoðun atvinnurekstrarins, að þær séu til bóta og verði til eflingar atvinnurekstrinum og auðveldi samkeppnisaðstöðu hans innan EFTA.

Ég legg jafnframt áherzlu á það, að áfram verður að halda heildarendurskoðun skattalöggjafarinnar og þetta er auðvitað ekki nema ein hlið á því máli, og er þar algerlega sammála þeim sjónarmiðum, sem komu fram hjá hv. 4. þm. Reykv., að öll þau atriði, sem hann vék að, þarf að athuga, því að það eru allt drættir í þessari sömu mynd, sem við þurfum að draga til þess að fá út úr því fullkomna heildarmynd af því skattkerfi, sem við þurfum að stefna að. Það þarf að gera víðtækar breytingar á íslenzkri skattalöggjöf; það hef ég lagt áherzlu á. Það þarf að gera hana einfaldari og fella niður ótalmarga smáskatta, og það þarf að sjálfsögðu að hafa hliðsjón ekki aðeins af tekjuskattinum, heldur ekki síður útsvörunum, sem eru að mörgu leyti þyngri baggi bæði á einstaklingum og atvinnurekstri, enda ekki að undra, þar sem það er aðaltekjustofn sveitarfélaganna, eins og nú horfir málum. Og ég er sammála því, að það hefði auðvitað verið æskilegast, að þetta dæmi hefði allt getað legið hér ljóst fyrir, en með hliðsjón af þeim rökum, sem vinnuveitendur benda á og ég get algerlega fallizt á, að það sé æskilegt að marka stefnuna, sem fylgja eigi í þessu máli, og hún sé skynsamlega mörkuð í því frv., sem nú liggur fyrir, með þeim breytingum, sem meiri hl. fjhn. hefur á því gert, þá vil ég mæla með því við hv. d., að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem hv. fjhn. leggur til.