29.03.1971
Neðri deild: 75. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. Það er alveg þarflaust, og meginatriði þess, sem ég hefði viljað sagt hafa, hefur hv. 12. þm. Reykv. mælt hér. Ég hef ekkert við það að athuga, sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði, og get tekið undir það, sem hann sagði um skattlagningu ríkisfyrirtækja og ýmis önnur atriði í því sambandi og sömuleiðis verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem ég lagði áherzlu á við 1. umr. málsins, að væri eitt af þeim verkefnum, sem nú þyrfti einmitt að vinna að. Vissulega er það rétt hjá honum, að ef skertir verða tekjustofnar sveitarfélaganna, þá getur verið þörf á því að sjá fyrir því með einhverjum hætti, annaðhvort með því að ríkið taki á sig ákveðnar skyldur eða með því að ríkið láti að einhverju leyti af hendi tekjustofna. Og það kann vel að vera, að í framtíðinni verði það svo, að sveitarfélögin t.d. fengju beinu skattana. Meginhlutinn af þeirra tekjustofnum núna eru útsvörin. Það er yfirgnæfandi hluti af þeirra tekjum, og það má segja, að það sé óeðlilegt, að tveir aðilar, ríki og sveitarfélög, séu með samkynja tekjuöflun eins og nú á sér stað.

Það, sem kom mér til þess að standa hér upp, var raunar aðeins það að leiðrétta það, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði um bréf það, sem ég las frá samtökum atvinnuveganna. Ég vil ekki láta í ljós neitt um það, hvaða hvatir hafa legið því að baki; það má hv. þm. gera sjálfur eftir því, sem hann vill. Ég hins vegar hef ekki haft nokkur minnstu áhrif á það sjálfur, að þetta bréf var sent, hvorki fyrra né sí$ara bréfið, þannig að ég tek ekkert til mín í því efni, né heldur hef ég ráðið því, að fjársterkir hlutabréfaeigendur hafi ráðið þannig lögum og lofum hjá þessum fjöldasamtökum. Það þykir mér heldur ósennilegt, og ég held, að það sé ómakleg ásökun hjá hv. þm., sem hann eigi erfitt með að standa við. En það, sem var misskilningurinn hjá hv. þm., var það, að það ber ekki að skilja þetta bréf forystumanna atvinnuveganna þannig, að þeir hafi engan áhuga, eins og hann orðaði það, á því, að áfram verði haldið endurskoðun skattalaganna. Þeir taka það skýrt fram, að þeir telji þetta vera mikilvægt spor í áttina og marki stefnuna, eins og ég gat um áðan í ræðu minni, að ég teldi, að væri það jákvæða við þetta mál, þ.e. að með því fengist þó mörkuð viss stefna hjá Alþ., sem væri mjög mikils virði fyrir þá, sem eiga að halda áfram endurskoðun skattalaganna, endurskoðun á sköttum bæði til ríkis og sveitarfélaga. Þannig fengist einhver stefnumörkun, en Alþ. léti ekki alltaf málið liggja hjá sér, þó að allir þættir þess í einu komi ekki til Alþ. Þetta er það, sem atvinnurekendurnir eiga við, en alls ekki það, að þeir hafi ekki áhuga á, að það séu endurskoðaðir þeir liðir, sem hv. þm. gat alveg réttilega um, að nauðsynlegt væri að endurskoða. Það hygg ég, að allir séu sammála um.

Ég er honum innilega sammála um, að það sé allt nauðsynlegt, og mér sýnist, að okkur beri ekki annað í milli um meðferð málsins en það, að hann vill láta það allt bíða, en atvinnurekendurnir — og það er einnig mín skoðun — vilja afgreiða þennan þátt málsins og láta þá ákvörðun Alþ. marka stefnuna í því, hvernig framhald eigi að verða á þessum málum í heild. Það má svo fyrirgefa hv. þm. það, þó að hann hafi gleymt því, að skattar hafi viðgengizt í tíð annarra ríkisstj. en þeirrar, sem nú er við völd. Það er alveg rétt, að það er svo langt, síðan hún kom til valda, að það er kannske von, að hv. framsóknarmenn hafi gleymt því, að nokkrir skattar hafi þá verið til, en ég er nú hræddur um, að leiti þeir vel — og báðir þeir mætu þm., sem hér töluðu, eru sagnfróðir menn — þá munu þeir komast að raun um, að þá voru líka til skattar á Íslandi.