11.11.1970
Neðri deild: 16. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

75. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Frá því 1959 hafa þær reglur gilt, að sauðfjárböðun, almenn sauðfjárböðun um land allt, skuli fara fram á tímabilinu 15. okt. til 1. marz, og í öðru lagi, að ekki sé skylt að baða nema annað hvert ár. Áður giltu þær reglur, að baða skyldi á hverju ári, og voru búnar að gilda lengi, en þessu var breytt 1959, og töldu sumir þá óvarlegt að slaka á þessum ákvæðum, þ. e. að baða ekki á hverjum vetri. Nú eru liðin 10 ár, og virðist það hafa sýnt sig, að það nægi alveg til að halda niðri venjulegum óþrifum á sauðfé að baða annað hvert ár, ef það er gert eftir settum reglum og undir því eftirliti, sem gilt hefur nú síðasta áratug.

Nú er lagt til, að tvær breytingar verði gerðar á böðunarreglunum, þannig að baða skuli á tímabilinu 1. nóv. til 15. marz, þ. e. að frestur sá til að ljúka böðun á vetri framlengist til 15. marz frá 1. marz, og í öðru lagi, að böðun þurfi ekki að fara fram á vetrinum 1970–1971. Þessar breytingar á lögum um sauðfjárbaðanir eru komnar frá landbrn. og hafa verið gerðar vegna áskorana bæði frá Búnaðarþingi og einstökum mönnum, sem hafa talið mikilsvert að geta losnað við böðun á þessum vetri af ýmsum ástæðum, sem þeir hafa fært til, m. a. vegna erfiðleika margra bænda við búskap af völdum harðæris og eldgosa. Búnaðarþing hafði þetta mál með höndum á s. l. vetri og lagði til, að böðun félli niður í vetur, og fleiri atriði vildi Búnaðarþing, að tekin væru til athugunar í sambandi við þetta mál. I;g átti tal við yfirdýralækni um þetta, þar sem mér fannst vera nokkuð hæpið að slaka á þessum ákvæðum, sem hafa gefizt vel, en hann taldi sig vera algerlega samþykkan því, sem fram kemur í þessu frv.

Á þingskjölum sé ég, að komið hefur fram í Ed. frv. til laga um breytingar á böðunarlögunum frá Páli Þorsteinssyni, þar sem lagt er til, að fleiri breytingar verði gerðar á lögunum en hér er lagt til. Hins vegar gengur hans frv. í sömu átt, að því er snertir þau atriði, sem þetta frv. fjallar um. Í öðru lagi er hér brtt. frá þremur þm., sem lögð hefur verið fram í dag — eða a. m. k. hefur hana ekki borið fyrir mín augu fyrr. Þeir vilja gera tvær breytingar á þessu frv. Þess ber að geta, að landbn. taldi nauðsynlegt að hraða afgreiðslu þessa máls úr n., vegna þess að nú er komið nokkuð fram á þann tíma, sem l. gera ráð fyrir, að böðun geti hafizt, og þess vegna yrði bændum að vera ljóst, áður en til baðana kæmi yfirleitt, ef breytingar yrðu gerðar. Af þeim ástæðum flýtti ég fundi í landbn. til þess að afgreiða þetta mál, en því miður voru ekki nema sumir landbnm. á þeim fundi, en meiri hluti var þó sammála um að mæla með frv. óbreyttu. Ég hef litið hér á brtt. frá Stefáni Valgeirssyni o. fl. varðandi þetta, og mér þykir dálítið einkennilegt, að einmitt hann, sem er í landbn., mætti ekki á þessum fundi, án þess að hann boðaði nokkur forföll, þar sem hann hafði í hyggju að bera fram brtt. En hvað um það. Hann á náttúrlega rétt á því að koma með sína brtt. þrátt fyrir það, en fljótt á litið sé ég ekki ástæðu til þess að samþykkja hana. Og varðandi þær brtt., sem komið hafa fram í Ed., þá ræddi ég þær sérstaklega við yfirdýralækni, og hann taldi sig mótfallinn þeim.

Að sjálfsögðu verður ekkert um það sagt á þessu stigi málsins, hvort Ed. kann að gera einhverjar breytingar við þá afgreiðslu, sem Nd. gerir á þessu frv., og verður það þá tekið fyrir aftur öðru sinni, ef þetta kemur til n. En ég vil leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt og afgreiðslu þess verði hraðað, svo að bændur viti, hvort þær breytingar ná lagagildi, sem hér er lagt til, eða ekki.