29.03.1971
Neðri deild: 75. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. úr því, sem orðið er, en hv. 12. þm. Reykv. gaf aðeins tilefni til þess, þar sem hann, eins og hv. 4. þm. Reykv. gat um réttilega, sló því föstu hér áðan, eins og venja er hjá hv. stjórnarsinnum, að okkar afstaða væri neikvæð. En um leið sagði þessi hv. 12. þm. Reykv., að gagnrýni stjórnarandstöðu og atvinnurekenda gengi í sömu átt. Enda þótt það sé rétt hjá hv. 12. þm. Reykv., að hlutafjáreign sé sparnaðarform, þá er það líka rétt, að það hefur ekki verið sambærilegt í tíð núverandi valdhafa að eiga hlutafé í sæmilegu fyrirtæki og eiga sparifé, sem hefur rýrnað með hverju ári, sem hefur liðið. Það er lika ljóst, að enda þótt þessi breyting verði gerð á skattafyrirkomulagi, þá tryggir það ekki öryggi atvinnurekstrarins í landinu, ef þeirri efnahagsmálastefnu verður framfylgt, sem núverandi valdhafar hafa mótað. Það er breytt efnahagsmálastefna ein, sem getur tryggt öryggi atvinnurekstrarins í landinu, en ekki það form á útborguðum arði, sem fyrirtækin greiða til sinna hluthafa. Eins og hv. 12. þm. Reykv. sagði, er það ríkt í fari okkar Íslendinga að vilja ná fjármagninu til okkar sjálfra og til eigin neyzlu.