30.03.1971
Neðri deild: 77. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (1357)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 5. þm. Austf. að flytja brtt. við 29. gr. frv. á þá leið, að skattvísitalan skuli framvegis miðast við framfærsluvísitöluna. Eins og kunnugt er, hefur það ákvæði gilt um skattvísitöluna að undanförnu, að hún hefur verið ákveðin af fjmrh., og ég ætla ekki að fara að rifja það upp, hvernig það hefur verið gert, vegna þess að ég er búinn að gera það svo margoft hér í d. og raunar víðar. En í frv. er sú breyting gerð á þessu, að framvegis skuli skattvísitalan ákveðin á Alþ. við afgreiðslu fjárlaga.

Við flm. þessarar till. teljum, að það sé langeðlilegasta og heppilegasta aðferðin, að ákvörðun skattvísitölunnar fari eftir ákveðinni reglu og tryggi það, að skattar hækki ekki, nema rauntekjur hafi raunverulega aukizt. Þessi regla er áreiðanlega mjög sanngjörn, þ.e. að miða skattvísitöluna við framfærsluvísitölu, enda held ég, að það sé eiginlega meðal merkustu till., sem hafa komið fram frá hæstv. núv. forsrh. og hæstv. núv. fjmrh., þótt vafalaust hafi margt frá þeim komið, síðan þeir sem ungir þm. fluttu upphaflega till. um það á Alþ., að skattvísitalan yrði ákveðin með þessum hætti, og áttu þá sinn þátt í því, að hún var tekin í lög 1953 og gilti næstu árin á eftir. Því miður var horfið frá þessari reglu, þegar ný skattalög voru sett 1960, en þá hafði hvorugur þeirra með þessi mál að gera, og hygg ég, að það hafi verið fyrrv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, sem ákvað að fella þessa reglu niður og láta þetta alveg óbundið. Það gafst svo illa að láta skattstigann standa óbreyttan, að á árinu 1964 var svo komið, að skattarnir voru orðnir svo háir, að sérfræðingar ríkisstj. í efnahagsmálum, þ. á m. einn af núv. aðalbankastjórum Landsbankans, lögðu það til, að mönnum yrði veitt tveggja ára lán til þess að greiða skatta, og þá var það, að sú regla var tekin upp, sem nú hefur verið í gildi, að fjmrh. ætti að ákveða skattvísitöluna hverju sinni, og þá treystu menn á það, sérstaklega eftir að núv, fjmrh. hafði tekið við stjórn þessara mála og ekki sízt eftir að núv. forsrh. hafði tekið við sinni stöðu, að nú yrði tekin upp þessi góða gamla regla þeirra að miða skattvísitöluna við framfærsluvísitöluna, og þess vegna treystir maður alveg sérstaklega á það, að þessi till. fái nú góðar undirtektir.

Hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir því, þegar hann mælti með því, að ákvæði um frádrátt í sambandi við vísitölu yrðu felld inn í þetta frv., að samkvæmt útreikningi, sem hann hefði falið Efnahagsstofnuninni að gera, hefðu almennar verkamannatekjur á s.l. ári ekki orðið nema 192 þús. kr. Og þetta var þannig fundið út, að það var miðað við fyrsta taxta Dagsbrúnar og 15% eftirvinnu, og þá komu ekki út nema 192 þús. kr. á ári. Það taldi hæstv. ráðh., að væri almennt verkamannakaup, og áleit þess vegna, að þar sem frádráttur hjóna er samkvæmt þessu frv. 188 þús. kr., þá væri nokkurn veginn gengið til móts við þá gömlu yfirlýsingu ríkisstj. að undanþiggja almennar launatekjur tekjuskatti. Nú má að sjálfsögðu reikna þetta út með ýmsum hætti. Og það, sem hefur að sjálfsögðu mest að segja í þessum efnum, er það, hverjar atvinnutekjurnar hafa orðið á því ári, sem skattarnir eiga að leggjast á.

Nú hef ég í dag átt viðtal við forstöðumann Efnahagsstofnunarinnar og spurt hann að því, hvað hann teldi, að hefðu verið svona meðalatvinnutekjur verkamanna á s.l. ári, og í svörum sínum mun hann hafa fylgt þeim útreikningum um þetta efni, sem hann hefur látið hæstv. viðskrh. og landbrh. í té og þeir hafa notað í greinum, sem þeir hafa skrifað um þessi mál. Forstöðumaður Efnahagsstofnunar sagði að sjálfsögðu, að það væri dálítið erfitt að áætla þetta, vegna þess að skattframtöl fyrir s.l. ár liggja enn ekki fyrir, en samkvæmt þeim útreikningum, sem hann hefur farið eftir, þegar hann hefur verið að reikna út kaupgjaldið fyrir landbrh. eða almennar atvinnutekjur verkamanna — þeir hafa reiknað það út fyrir viðskrh. og landbrh. — þá hefur niðurstaðan hjá honum orðið sú, að meðalatvinnutekjur verkamanna á s.l. ári hefðu ekki orðið 192 þús. kr., heldur 327 þús. kr., og það telur hann, að sé nokkurn veginn meðaltal atvinnutekna giftra verkamanna um land allt á s.l. ári. Að sjálfsögðu eru margir fyrir ofan þetta með hærri tekjur og svo aðrir lægri, en meðaltalið taldi hann, að væri 327 þús. kr., en ekki 192 þús. kr., eins og fjmrh. hefur miðað við, þegar hann hefur reiknað úr skattvísitölu. Nú sjáum við það, að ef atvinnutekjur verkamanna á s.l. ári hafa verið í kringum 327 þús. kr., þá hljóta þeir að lenda í mjög háum skatti miðað við þá vísitölu, sem nú hefur verið ákveðin.

Ég vil taka það fram, að í þessum tilfellum, sem ég var að nefna, þá var miðað við það, sem kallað er í Hagtíðindum kvæntir verkamenn, en það er eingöngu miðað við tekjur þeirra, en ekki tekjur, sem unglingar á vegum þeirra kunna að afla sér eða konan kann að vinna sérstaklega fyrir, heldur eingöngu þær tekjur, sem verkamaðurinn sjálfur hefur unnið sér inn. Við sjáum það, að ef atvinnutekjur verkamanns hafa orðið á s.l. ári um 330 þús. kr. og hann fær frádrátt fyrir sig og sína konu, sem er 188 þús. kr., þá er æðimikið, sem er þar umfram. Á fyrstu 62 þús. kr., sem eru umfram þetta, leggst 9% skattur. Á það, sem er umfram þessar 62 þús. kr., leggst 18% tekjuskattur, og á það, sem er umfram 104 þús. kr. af skattskyldum tekjum, leggjast 27%, þannig að það kemur mjög verulegur tekjuskattur á verkamann, sem hefur haft þessar tekjur. En þó lítur þetta miklu verr út, þegar menn snúa sér að útsvarinu, því að þar er frádráttur hjóna ekki nema 84 þús. kr. af 327 þús. kr., og eftir að komið er upp í 100 þús. kr. af skattskyldum tekjum, þá verður að greiða 30% í útsvar, þannig að af a.m.k. helmingi af þeim atvinnutekjum, sem umræddur verkamaður hefur haft á s.l. ári, verður hann að greiða um 30% í útsvar og af verulegum hluta þeirra 18% tekjuskatt og í sumum tilfellum 27%. Þannig að þessir menn verða að greiða mjög stóran hluta sinna tekna á s.l. ári í tekjuskatt — um 50% og jafnvel upp í 60%. Það sést vel á þessu, hversu fjarri öllu lagi það er, að sú skattvísitala, sem hæstv. fjmrh. og ríkisstj. hafa ákveðið, fullnægi því loforði að undanþiggja almennar launatekjur tekjuskatti og útsvari.

Ég vil jafnframt taka það fram, að jafnvel þótt fallizt væri á þær till., sem hér liggja fyrir, þá mundi það mark hvergi nærri nást; að umræddur verkamaður með þessar tekjur verði alveg undanþeginn tekjuskatti og eignarskatti, en þrátt fyrir það yrði um mjög verulega lækkun að ræða, því að samkvæmt þessari till. mundi skattvísitalan í ár verða 196 stig í stað þess, að hún hefur verið ákveðin 168 stig af ríkisstj. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkarnir og þá sérstaklega fjmrh. fallist á þá till., sem hér liggur fyrir, sérstaklega eftir að það var upplýst, að almennar verkamannatekjur á s.l. ári hafi ekki verið 192 þús. kr., eins og hann hélt, þegar hann reiknaði út skattvísitöluna, heldur hafi þær alltaf verið í kringum 327 þús. kr. samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Efnahagsstofnuninni. Ég held, að þessar upplýsingar hljóti að breyta svo miklu, að hæstv. fjmrh. sjái, að það er sanngjarnt að fallast á þessar till., og ég tala nú ekki um, þegar hann rifjar upp sínar gömlu æskuhugsjónir í sambandi við þessi mál um það, hvernig eigi að reikna út skattvísitöluna, þá hlýtur hann að veita þessari till. fúslega stuðning sinn.

Og ég þarf svo ekki að rifja það upp, sem ég hef reyndar áður gert, hvílík ósanngirni og óréttlæti það er, ef láglaunafólkinu og t.d. verkamönnunum í þessu tilfelli er neitað um þessa leiðréttingu á skattvísitölunni á sama tíma sem samþykkt eru mjög veruleg skattfríðindi til handa hlutabréfaeigendum, sem a.m.k. mjög margir tilheyra ekki láglaunastéttum landsins. Það hefði, ég skal viðurkenna það, litið miklu betur út og átt meiri rétt á sér að veita hlutabréfaeigendum þessi fríðindi, ef tekið hefði verið eðlilegt tillit til einstaklinganna og til láglaunastéttanna og miðstéttarfólksins með því að breyta skattvísitölunni í það horf, sem hér er lagt til. En verði það ekki gert, þá er ekki hægt að líta á það öðruvísi en sem fyllsta óréttlæti að veita sumum mikil skattfríðindi á sama tíma og álögur á láglaunafólki og fólki með miðlungstekjur, álögur á verkamönnum, bændum og sjómönnum, eru stórhækkaðar vegna þess, að ranglega er gengið frá skattvísitölunni.