31.03.1971
Efri deild: 84. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir hv. d., á sér nokkuð langa sögu. Árið 1969 var skipuð embættismannanefnd til þess að athuga skattalega aðstöðu fyrirtækja hér á landi með það í huga, að kannað yrði, hvort skattaleg staða þeirra væri erfiðari en í öðrum EFTA-löndum, og til þess að gera till. um breytingar, sem gerði þau samkeppnisfær miðað við fyrirtæki EFTA-landanna; þessi nefndarskipun var með hugsanlega aðild að EFTA í huga. Nefndin skilaði till. að breytingum á tekju- og eignarskattslögunum, sem lagðar voru fyrir síðasta þing seint á því þingi, og þar var ekki um lokatill. að ræða, en hins vegar um veigamikil atriði, sem talið var rétt að sýna og fá viðbrögð við, og tók ég það þá sérstaklega fram, að ekki væri ætlazt til þess, að endanleg afgreiðsla málsins yrði á því þingi. Til þess að auðvelda hv. alþm. að fylgjast með málinu og framvindu þess, þá var ákveðið, að fulltrúar fjhn. Alþ. fengju aðstöðu til þess að fylgjast með áframhaldandi starfi embættismannanefndarinnar bæði með það í huga að skoða frv. og þær till., sem í því fólust nánar, og jafnframt til að fylgjast með framvindu málsins, því að eftir síðasta þing var víkkað mjög starfssvið embættismannanefndarinnar. Jafnhliða því að ljúka verkefni sínu varðandi sköttun atvinnurekstrar í sambandi við EFTA-aðild var nefndinni falið að framkvæma heildarathugun á skattkerfinu með það í huga að gera það einfaldara í sniðum og umsvifaminna, þ.e. takmarka ekki eingöngu starf sitt við skattlagningu atvinnurekstrar, heldur taka skattkerfið í heild til endurskoðunar með þetta sjónarmið í huga.

Síðan hefur verið unnið samfellt að þessu máli, og nokkru eftir áramót var frv. lagt fyrir hv. Nd. um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt, en það frv. var enn sem fyrr að mestu leyti takmarkað við sköttun atvinnurekstrarins jafnhliða því, að þar var að finna ýmsar breytingar á skattalögunum almennt einkum með hliðsjón af frv., sem legið höfðu fyrir Alþ. bæði í þessari hv. d. og Nd. á síðasta þingi og ég óskaði eftir, að skattalaganefndin sérstaklega tæki til meðferðar. Heildarathugun málsins er hins vegar enn ekki lokið, og er unnið áfram að henni. Þó að skattalaganefndin hafi gert ýmsar athuganir og ýmsum bráðabirgðatill. hafi verið hreyft, sem komið hefur verið á framfæri við mig, þá liggur enn ekki fyrir heildarrammi að lausn málsins. Aftur á móti hefur það verið talið mikils virði — og var það bæði skoðun mín og n. einnig — að málið yrði sýnt og fengin afgreiðsla hér á hinu háa Alþ. á þeim þætti þess, sem liggur nú fyrir, en það er um álagningu tekjuskatts á félagsrekstur fyrst og fremst, því að þar koma við sögu mjög mikilvæg atriði, sem hafa áhrif á stefnuna í þessum málum, hvað varðar athugun skattkerfisins í heild, því að eftir er enn að athuga vissa þætti, fyrst og fremst þá, sem snúa að sveitarfélögunum og hafa auðvitað mjög mikla þýðingu fyrir atvinnureksturinn, og einnig er að verulegu leyti eftir að athuga skattamál einstaklinga og hvernig haga skuli ýmsum grundvallaratriðum varðandi skattkerfið í heild, m.a. skiptingu skattstofna milli ríkis og sveitarfélaga. Allt þetta er viðfangsefni, sem þarf að sinna.

Nokkru eftir að þetta frv. var lagt hér fyrir hið háa Alþ., var lagt fram erindi frá samtökum atvinnuveganna, þar sem nánast var lagzt gegn því, að þetta frv. fengi afgreiðslu. Ég að sjálfsögðu hefði að óbreyttum aðstæðum í því efni ekki talið eðlilegt að afgreiða málið, því að það fjallar fyrst og fremst um skattamál atvinnurekstrarins, og því var fjarri öllu lagi að fara að afgreiða það í andstöðu við heildarsamtök þeirra, sem öll stóðu að því máli. Það kom hins vegar í ljós við meðferð málsins í hv. Nd., að það var auðið að samrýma það sjónarmið samtaka atvinnuveganna, sem þau höfðu lagt áherzlu á í sérstökum till. sínum, sem þau lögðu fram, og þau sjónarmið, sem liggja að baki þessu frv. á þann veg, að síðan hafa atvinnurekendasamtökin lagt áherzlu á það, að frv. í því formi, sem það nú er, nái fram að ganga. Og það er ástæðan til þess, að ég tel æskilegt, að Alþ. fallist á málið í því formi, sem það nú er.

Ég vil taka það hér fram, eins og ég gerði í hv. Nd., að frv. var lagt þar fram eins og embættismannanefndin gekk frá því, og ég tók það þar skýrt fram, að ég hefði ekkert við það að athuga, að á því yrðu gerðar breytingar, svo lengi sem þær breytingar beindust í þá átt, sem fólst innan þess meginramma, sem embættismannanefndinni var settur með þeim tveimur erindisbréfum, sem henni voru í hendur fengin. Þar var að finna hina pólitísku stefnumótun á því markmiði, sem skattalögin áttu að ná, en vitanlega er hægt að ná því markmiði með mismunandi hætti, og ég tel ekkert við það að athuga og á engan hátt niðrandi fyrir mig, þó að það hafi orðið niðurstaðan, að frv. hafi verið breytt í mjög veigamiklum atriðum hér við athugun Alþ., bæði við nánari athugun fjhn. og þó ekki hvað sízt í sambandi við till. samtaka atvinnuveganna. Enda hafa bæði ég og embættismannanefndin haft aðstöðu til þess að fylgjast með allri meðferð þess máls, og ég hef efnislega ekkert við þær breytingar að athuga, sem hv. Nd. hefur gert á frv. í samræmi við þessa athugun, né við þetta samstarf og samráð við samtök atvinnuveganna og tel það mjög vel farið, að það er skoðun samtaka atvinnurekstrarins, að náðst hafi fram sá tilgangur, sem frv. var ætlað að ná eftir þær breytingar, sem gerðar hafa verið í hv. Nd.

Það eru nokkrar grundvallarreglur, sem settar voru, svo sem ég gat um í sambandi við gerð þessa frv., sem vinna embættismannanefndarinnar beindist að. Það var í fyrsta lagi eins og ég gat um að samræma skattabyrði atvinnurekstrar hérlendis því, sem gerist í öðrum EFTA-löndum. Það var í öðru lagi að örva myndun eigin fjármagns í fyrirtækjum, sem allir munu sammála um, að sé allt of lítið yfirleitt. Það var í þriðja lagi að auðvelda samruna fyrirtækja, en skattalög hér hafa komið í veg fyrir það, að hægt væri að koma á samruna og samvinnu fyrirtækja, sem gera má ráð fyrir, að geti orðið í allstórum stíl, af því að það þurfi að skapa stærri rekstrareiningar til þess að fá betri samkeppnisaðstöðu. Og það var í fjórða lagi, að jafnhliða því, sem aukið væri fjármagn í fyrirtækjunum, þá var það talin brýn nauðsyn, að fé yrði ekki tekið út úr fyrirtækjunum nema í formi hæfilegs arðs af því fé, sem menn hefðu í þau lagt.

Ég mun nú gera grein fyrir helztu atriðum frv. og þá ekki hvað sízt með hliðsjón af þeim breytingum, sem gerðar voru á því í hv. Nd. Frv. sjálft, eins og það upphaflega lá hér fyrir, hafa menn haft til athugunar í alllangan tíma, og sé ég því ekki ástæðu til þess að rekja það í einstökum atriðum, heldur fremur að gera grein fyrir þeim höfuðatriðum, sem einkenna það, og þá fyrst og fremst þeim breytingum, sem orðið hafa á frv. í Nd. og sem ekki er víst, að hv. þdm. hér hafi gert sér til hlítar grein fyrir.

Eins og ég gat um, tel ég, að frv. stefni eftir þessar breytingar allar í þá átt, sem til var ætlazt, og sé því ekkert við það að athuga almennt séð, eins og það liggur fyrir eftir meðferð í Nd. En það voru nokkur meginatriði í frv., eins og það lá fyrir í upphafi, sem atvinnurekendasamtökin voru óánægð með. Stefnubreytingar frv., eins og það liggur nú fyrir, frá gildandi lögum eru í meginefnum þessar: Breytt er fyrningum í atvinnurekstri. Það er meira svigrúm fyrir atvinnurekanda til að fyrna eignir sínar, og það er gert með sérstökum flýtifyrningum, sem leyft er að nota, þegar betur árar, og er það nýmæli. Það er jafnframt gert ráð fyrir endurmati á eignum til fyrningar vegna verðhækkana, en á það hefur verið bent og reyndar legið frv. fyrir um það hér á Alþ., að rétt væri að taka upp endurmat eigna miðað við endurmatsverð þeirra hverju sinni eða réttara sagt að fyrna þær miðað við endurmatsverð. Það er ekki tæknilega auðið að gera. Það er gert ráð fyrir því, að þær verði endurmetnar nú, eftir að þessi Íög taka gildi og endurmat hlutafjár eigi sér þá stað einnig, en hins vegar verði það á valdi Alþ., hvenær veittur verði aftur réttur til endurmats á eignunum, og fer það svo sem verið hefur að sjálfsögðu eftir því, hversu örar verðbreytingar verða.

Þá er sú veigamikla breyting gerð, að allur atvinnurekstur í landinu er nú gerður jafn, að því er varðar fyrningar, en þó er mismunað tegundum eigna, þannig t.d. að skip og fleiri framleiðslutæki eru fyrnd hraðar. Skiptir þá ekki meginmáli, hver á þær, en aftur á móti hafa sérstakar flýtifyrningarreglur verið notaðar við þessar eignir hingað til, ef svo má segja, hafa þær verið fyrndar mun hraðar en gert er í öðrum atvinnurekstri, en eftir aðildina að EFTA verður óumflýjanlegt að veita svipaða aðstöðu atvinnurekstrinum í landinu almennt og þá ekki hvað sízt iðnaðinum, sem ekki hefur notið þessara fríðinda. Í frv., eins og það var lagt fram, var gert ráð fyrir því, að söluhagnaður væri alltaf skattlagður um vissa prósentu eða 25%. Það hefur orðið niðurstaðan við meðferð málsins í Nd., að söluhagnaður verði ekki skattlagður með þessum hætti, og skattlagningin miðist aðeins við það, að hafi menn út úr eignunum við sölu meira en eðlilegar fyrningar leyfa, þá verði það skattlagt, þ.e. að menn geti ekki notfært sér um of hinar öru fyrningar, ef þær hafa verið notaðar til eignaauka, heldur verði að greiða skatt af þeim. Eins og hv. þdm. er kunnugt, hafa hingað til gilt þær reglur, sem áfram verða í gildi, að með þessum takmörkunum má eftir eignarhald um tiltekið árabil selja bæði lausafé og fasteignir án þess að greiða af því söluandvirði nokkurn skatt.

Þá hefur verið nokkur ágreiningur um, hvernig ætti að fara með sameignarfélög. Þau hafa hingað til notið algerlega óeðlilegra skattfríðinda. Þetta eru félög, sem enginn hemill er á, og menn geta í rauninni tekið fé út úr eftir vild, en hafa notið mun betri meðferðar skattalega séð en einkarekstur, og í frv. var gert ráð fyrir því, að þau yrðu afnumin sem sjálfstæður skattaðili. Á það hefur ekki verið talið hægt að fallast, og Nd. hefur samþykkt, að sameignarfélögin verði áfram skattaðili, en hins vegar eru sett á þau verulegar hömlur, þannig að þau verða að vera skráð, hafa formlegan félagssamning og uppfylla viss skilyrði til þess að njóta fríðinda þeirra, sem skattalögin gera ráð fyrir, en því miður er ekki til enn þá nein löggjöf um sameignarfélög hliðstætt hlutafélögum, og það er því aðeins í þessum ákvæðum skattalaganna, sem er að finna þessar hömlur. Hins vegar hefur verið lögð á það rík áherzla, þar sem til eru mörg sameignarfélög í landinu, að þetta form fengi að halda sér, og eftir atvikum hef ég talið viðhlítandi að fallast á, að svo verði með þessum hömlum, sem hafa þó verið settar á sameignarfélögin í hv. Nd.

Þá kemur að því atriðinu, sem er eitt grundvallaratriði frv., eins og það var lagt fram, að gert var ráð fyrir, að varasjóðsskipulagið yrði lagt niður og tekinn upp svokallaður arðjöfnunarsjóður, sem notaður yrði til þess að standa undir hallarekstri félaga og greiða arð af því fé, sem í félögin væri lagt, og sá sjóður mátti standa inni í fimm ár hjá félaginu. Þá varð mikil andstaða hjá atvinnurekendasamtökunum gegn því, að öllum atvinnurekstri yrði skipað að koma sinni skipan mála í þetta horf, en hugsunin með arðjöfnunarfyrirkomulaginu var sú að nota þessa aðferð til að laða aukið fjármagn inn í atvinnureksturinn og þá m.a. með það í huga að koma á frjálsum verðbréfamarkaði, sem óhugsandi er að koma á, nema möguleiki til slíkrar arðgjafar sé fyrir hendi og til séu opin hlutafélög, sem ekki er um að ræða í dag eða a.m.k. að sáralitlu leyti. Og af þessum ástæðum var þessu skipulagi félaganna breytt. Nú er niðurstaðan sú, að félögunum er leyft að velja, hvort formið sem er, annaðhvort arðjöfnunarsjóðinn með þeim kvöðum og réttindum, sem því skipulagi fylgja, eða þá að fylgja gömlu reglunni og hafa rétt til þess að leggja í varasjóð og hafa heimild til 10% skattfrjáls frádráttar, en það er það, sem ekki gildir hjá hluthöfunum. Þetta er sem sé frjálst val, sem er niðurstaðan úr þessum athugunum.

Samhliða þessu nýja skattformi hlutafélaga, sem ég gat um varðandi arðjöfnunarsjóðinn, þá fylgir sú till. í frv., að tekið yrði upp nokkurt skattfrelsi á hlutafé. Þetta var tiltölulega frjálst í frv., eins og það var upphaflega. Nú hafa í meðferð hv. Nd. –og tel ég það til bóta — verið settar á þetta ákveðnar hömlur. Bæði hafa verið felld niður þau fríðindi, sem gert var ráð fyrir, að börn gætu notið í þessu sambandi sem eigendur hlutabréfa, og í öðru lagi eru sett þau takmörk á þessar arðgreiðslur, að þær megi aldrei fara yfir 10% og auk þess aldrei yfir 30 þús. kr. á einstakling eða 60 þús. kr. fyrir hjón. Hér þarf því að vera um verulega hlutabréfaeign að ræða, til þess að þessi fríðindi verði nokkur að ráði, en aftur á móti álít ég, að þetta sé grundvallaratriði sem hvati fyrir fólk — og ekki sízt þá fyrir hinn almenna borgara — til að leggja fé í atvinnurekstur, eins og tíðkast í stórum stíl erlendis, þar sem atvinnulífið er orðið mjög þróað og fólk vant því að fjárfesta í góðum hlutabréfum.

Ef ekki eru fyrir hendi fríðindi sem þessi, þar sem hér er vissulega um áhættusama ráðstöfun fjár að ræða, þá er þess lítil von, að almenn þátttaka verði í atvinnurekstri. Það má gera ráð fyrir því, að nú verði einmitt þörf á því á næstunni að koma af stað miklu stærri félögum en áður hafa verið hér, sem þurfa á miklu fjármagni að halda, og það vill einnig svo til, sem hv. þm. mun mörgum kunnugt um, að víðs vegar um landið eru að rísa upp fyrirtæki einmitt þar sem fjármagn er lítið, þar sem svo að segja hver einasti íbúi tiltekinna byggðarlaga leggur fram fjármagn til þess að koma á Laggirnar vissum atvinnurekstri í byggðarlaginu. Það er vitanlega síður en svo, að með þessu ákvæði sé verið að hlynna að einhverju auðvaldi, eins og gjarna er látið í veðri vaka. Það má eins segja, að svo sé með sparifé. Það eru engar hömlur settar á réttindi til skattfrjáls sparifjár, þ.e. hvað menn eiga mikið sparifé skattfrjálst í banka. Og í þessum tilfellum, þ.e. varðandi þau félög, sem helzt kæmu til með að njóta þessa hér, t.d. eftir að verðbréfamarkaðurinn kemur til, sem hefur verið ákveðið að koma á laggirnar, svo fljótt sem auðið er, má gera ráð fyrir, að það verði hinn almenni sparifjáreigandi, skuldabréfaeigandi eða hlutabréfaeigandi, sem geti þarna notið þessara æskilegu fríðinda.

Þá eru einnig í frv. till., sem auðvelda algeran samruna fyrirtækja, sem nú getur orðið skv. frv. án þess, að um nokkra sérstaka skattlagningu sé að ræða. Þá verða sett skýrari ákvæði og reyndar breytt ákvæðum varðandi mat á birgðum við uppgjör þeirra til skatts. Þá er að finna í frv. verulega breytingu á eignarskatti, þar sem hann er lækkaður mjög verulega, og ber að skilja þá breytingu með hliðsjón af því, sem að er stefnt með fasteignagjöldum og kemur fram í sambandi við tillögur um fjáröflun til sveitarfélaga. Jafnframt verður að skilja þessa till. og þessa miklu lækkun, sem gerð er þarna á eignarskattinum, út frá þeim stóru breytingum, sem verða á mati fasteigna til eignarskatts.

Nú ætla ég að víkja að nokkrum atriðum frv., sem ekki sérstaklega snerta atvinnureksturinn, en skipta þó nokkru máli. Í frv. er lagt til, að skattfrádráttur giftrar konu, sem vinnur við fyrirtæki bónda síns, verði aukinn mjög verulega frá því, sem nú er. Hann er nú aðeins 15 þús. kr., og hafa komið fram till. á Alþingi um, að þessi frádráttur verði aukinn, og er gengið hér til móts við þær óskir með þessari till.

Gert er ráð fyrir því, að fæði manna, sem vinna utan heimilissveitar, og hluti úr fæði, sem þeir fá hjá atvinnurekanda innan heimilissveitar, sé skattfrjálst. Áður hefur þetta skattfrelsi gilt um fæði sjómanna. En það eru vitanlega margir aðrir, sem vinna utan sinna heimilissveita.

Þá er gert ráð fyrir því, að hækkað verði verulega það skuldamark, sem er í gildandi lögum, um skattfrelsi sparifjár. Það er aðeins 200 þús. kr. í gildandi lögum, en gert er ráð fyrir því, að það verði núna metið eftir því, hversu há eða lág lán húsnæðismálastjórnar eru, en þau munu nú vera 600 þús. kr. Það mun hafa legið fyrir þinginu frv. um það að hækka þetta mark í 600 þús. kr., en ég held, að sú viðmiðun sé þó enn þá eðlilegri að miða það við hámarkslán húsnæðismálastjórnarinnar, eins og þau eru á hverjum tíma, til þess að það þurfi ekki stöðugt að vera að breyta þessari fjárhæð.

Eins og ég áður gat um, þá er eignarskattsprósentan lækkuð mjög verulega, en jafnframt hættir eignarskatturinn að vera frádráttarbær. Er þessi till. miðuð við þá forsendu, að eignarútsvör verði felld niður að öllu leyti. Er gert ráð fyrir, að fasteignagjöldin verði hækkuð, þegar kemur að tekjustofnum sveitarfélaga, og er því ástæðulaust að hafa einnig eignarútsvör, er renni til sveitarfélaganna. Er miklum mun einfaldara og eðlilegra að taka aðeins eitt gjald, sem greitt er af fasteignum. Ákveðnar till. um þetta er að sjálfsögðu ekki að finna nú, enda eiga þær ekki við í þessu frv., en till. hér er gerð með hliðsjón af því, sem fyrirhugað er í þessum efnum varðandi sveitarfélög.

Þá er lagður til sérstakur frádráttur einstæðra foreldra, er halda heimili fyrir börn sín. Hann er aukinn um 50%.

Þá verða í frv. strangari ákvæði til að koma í veg fyrir, að fjármagn streymi út úr fyrirtækjum með málamyndagjörningum án skattlagningar og sérstaklega vegna viðskipta tengdra aðila við fyrirtækin, en þess hefur nokkuð orðið vart, að það hafi verið með nokkuð óeðlilegum hætti, hvernig viðskipti fjölskyldufyrirtækja hafa verið, en með þessum reglum, sem nú eru settar í frv., er gert ráð fyrir, að ef um nokkur óeðlileg viðskipti er að ræða milli fyrirtækisins og einstaklinganna að þessu leyti, þá sé það ekki leyft.

Þá er að finna hér í þessu frv. breytingu varðandi skattvísitölu, sem hefur verið mjög umdeilt mál. Ákvörðun um hana er tekin úr höndum fjmrh., og gert er ráð fyrir því, að við samþykkt fjárlaga hverju sinni, ákveði Alþ. sjálft, hver skattvísitalan skuli verða. Það hefur verið mjög umdeilt, við hvað ætti að miða skattvísitölu, og skal ég ekki fara út í þá sálma hér. Með því að færa þetta vald í hendur Alþ. þá er það að sjálfsögðu sérstakt mál hverju sinni að meta það, hvað fært þykir að hafa skattvísitöluna háa, vegna þess að þetta er eitt af atriðunum, sem eðlilegt er, að marki stefnuna hverju sinni um það, með hverjum hætti eigi að skattleggja borgarana, þ.e. hvort eigi að veita þeim meiri eða minni fríðindi í beinum sköttum og þá taka skattana með öðrum hætti, ef á auknu fé þarf að halda. Það er eðlilegt, að það verði þess vegna í samhengi við fjárlagasetninguna að ákveða tekjuskattana fyrir hvert ár.

Hér er að vísu um vandamál að ræða, þar sem þetta hefur áhrif á útsvörin, og það má segja, að það sé dálítið varasamt að tengja þetta mál saman svo sem gert hefur verið, en það kemur þá til athugunar, þegar tekjustofnamál sveitarfélaga verða hér til meðferðar, þegar þar að kemur. Menn gera ráð fyrir, að það verði á næsta þingi. Að því verður að stefna varðandi skattamálin í heild, að endurskoðun þeirra verði lokið fyrir næsta þing, þannig að það verði hægt að afgreiða málið það snemma, að heildarmyndin liggi fyrir við skattlagningu á árinu 1972, en það er gert ráð fyrir því, að þetta frv. taki gildi um næstu áramót, og getur það valdið margvíslegum vandkvæðum, ef ekki verður þá búið að setja dæmið upp í heild — einnig að því er sveitarfélögin varðar.

Þá var sú breyting gerð í hv. Nd., að auknar kröfur eru gerðar til meðferðar skattstjóra á kærum skattþegna, þannig að úrskurðir þeirra skuli vera rökstuddir. Það gildir nú um úrskurði ríkisskattanefndar, en ekki úrskurði skattstjóra, og skattbreytingar allar skulu tilkynntar með ábyrgðarbréfum. Jafnframt er nauðsynlegt að innheimta gjalda geti hafizt í samræmi við það, hvenær skrár um gjöld eru lagðar fram, og þess vegna er skattstjóra ætlaður nokkru rýmri tími til að undirbúa þetta en verið hefur, til þess að hægt sé að innheimta eftir eðlilegri og réttri álagningu, en ekki þurfi stórfelldar breytingar að koma til eftir á.

Í frv., eins og það var lagt fyrir hv. Nd., verða settar takmarkanir á skattfríðindi þeirra giftu kvenna, sem vinna utan heimilis. Það kom fram andstaða gegn þessu í hv. Nd., og taldi ég því eðlilegast, að málið yrði látið niður falla, vegna þess að það á ekki að koma til framkvæmda, hvort sem er, fyrr en við skattlagningu á næsta ári, og skiptir því ekki máli. Hins vegar vil ég taka það fram hér, sem ég lýsti yfir í hv. Nd., að mín skoðun er sú, að það eigi að stefna að því, að um einstaklingsskattlagningu verði í öllum tilfellum að ræða, hvort sem konan vinnur utan heimilis eða innan þess, og tekjum hjónanna verði þá skipt niður á milli þeirra, en þetta kostar að sjálfsögðu endurskoðun á öllum skatt- og útsvarsstigum. Og þess vegna er sú till. ekki gerð hér, þar sem endanlega hefur ekki verið gengið frá tekjustofnamálum sveitarfélaga.

Það eru ýmis önnur atriði, sem er að finna í þessu frv., sem ég tel ekki ástæðu til þess að rekja hér, en verða að sjálfsögðu skoðuð í þeirri hv. n., sem málið fær til meðferðar. Flest þeirra frv., sem hafa legið fyrir Alþ. á síðustu þingum, hafa verið tekin til meðferðar í sambandi við þetta frv. og langflestum þeirra gerð efnislega jákvæð skil, þannig að gengið hefur verið til móts við þau að meira eða minna leyti.

Ég held, að ég hafi ekki gert grein fyrir þeirri breytingu, sem gerð var við síðustu umræðu í hv. Nd., þ.e. gert var ráð fyrir sérstökum hlunnindum varðandi tekjur barna, sem eru innan 16 ára aldurs, og jafnframt voru veitt sérstök fríðindi þeim, sem eru komnir yfir 67 ára aldur. Í tekjustofnalögum sveitarfélaga er gert ráð fyrir því, að hægt sé að undanþiggja slíkt fólk útsvari eða veita því sérstök fríðindi a.m.k. í útsvörum. Það er ekki í skattalögum, en talið er nokkuð sanngjarnt að veita hér nokkur fríðindi að þessu leyti, þótt að vísu megi segja, að þetta geti verið umdeilanlegt mál, þar sem ekki er tekið neitt tillit til þess, hversu tekjuháir þessir aðilar eru, og það er erfitt og raunar illframkvæmanlegt, en hugmyndir um þetta hafa áður legið hér fyrir í frv., enda var þetta einróma samþykkt í hv. Nd.

Ég get farið mjög fljótt yfir sögu og mun að sjálfsögðu ræða þetta mál nánar, ef tilefni gefst til eftir umræður hv. þm. Ég legg á það ríka áherzlu, að hér er aðeins að finna þátt í stóru og miklu vandamáli, og heildarendurskoðun skattalöggjafarinnar er hin brýnasta nauðsyn, og henni verður að halda áfram með öllum tiltækum ráðum, og eins og ég gat um í upphafi máls míns, tel ég, að beri að stefna að því, að henni verði lokið það snemma, að hægt verði að miða álagningu skatta á árinu 1972 við heildarlöggjöf um nýtt skattkerfi, og þá þurfa að sjálfsögðu sveitarfélögin einnig að hafa fengið sína meðferð. Þar blandast einnig inn í annað dæmi, sem að vísu er vandasamt, og ég skal ekki segja, hvort hægt verður að ljúka í tæka tíð, en er mjög nátengt þessu, og það er verkaskipting ríkis og sveitarfélaga, sem nú er í brennipunkti og miklar umræður eru um, og ég hef fyrir mitt leyti tjáð mig reiðubúinn til samvinnu við Samband ísl. sveitarfélaga um breytingar í þeim efnum, eftir því sem ástæða þykir til bæði varðandi verkefni og tekjustofna. Allt þetta þarf að athuga í heild, til þess að málið geti fengið eðlilega afgreiðslu, og jafnframt vil ég Íeggja áherzlu á það, að ég hef Lagt till. fyrir þetta þing um staðgreiðslukerfi skatta, en ekki hefur hún fengið sérstaka afgreiðslu hér fremur en á síðasta þingi. Ég tel það vera háð því, að það takist að gera skattkerfið einfaldara, hvort staðgreiðslukerfi skatta verði talið hér til bóta eða ekki. Og einmitt með hliðsjón af að gera það mögulegt, sem ég tel almennt séð, að væri æskilegt, að taka upp staðgreiðslukerfi skatta er nauðsynlegt að gera skattkerfið allt miklu einfaldara og líka með hliðsjón al heildarendurskoðun, sem ég hef getið um. Jafnframt má í því sambandi losna við ótal smáskatta, sem eru til trafala og valda bæði mikilli fyrirhöfn og kostnaði, en margir þeirra skipta ekki miklum fjárhæðum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessa umræðu mína lengri, en legg til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.