03.04.1971
Efri deild: 90. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég mun leyfa mér að mæla hér fyrir nál. minni hl. fjhn. um frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt, sem hér er til umr. Nál. okkar er prentað á þskj. 762. Minni hl. skipa auk mín þeir Björn Jónsson, hv. 4. þm. Norðurl. e., og Steingrímur Hermannsson, hv. 3. þm. Vestf. Niðurstaða okkar er sú, sem frá er greint á þskj. 762. Þar kemur fram, að aðaltillaga okkar er að vísa málinu frá með rökstuddri dagskrá.

Forsögu þessa máls, hygg ég, að allir hv. þdm. þekki, en hún er sú, að í apríl 1969 skipaði hæstv. fjmrh. embættismannanefnd, er hafði það verkefni að athuga skattgreiðslur fyrirtækja með tilliti til þess, að skattgreiðslur þeirra yrðu svipaðar og í öðrum EFTA-ríkjum. Þessi nefnd mun hafa skilað skýrslu til ráðh. snemma á síðasta ári. Sú skýrsla fjallaði aðeins um l. um tekju- og eignarskatt, og frv. hafði n. samið um skattlagningu fyrirtækja að þessu leyti. Þetta frv. mun hafa verið til meðferðar á hv. Alþ. í fyrravetur, en náði þá ekki fram að ganga. Ástæðan mun aðallega hafa verið sú, eftir því sem mér er tjáð — ég var ekki hér á Alþ. þá — að Alþ. hafði litið svo á, að athuga þyrfti skattamál fyrirtækjanna fremur í heild. Það næsta, sem mun hafa gerzt, var það, að út var gefið nýtt erindisbréf til þessara embættismanna, og skyldi nú athuga skattalögin, framkvæma á þeim heildarathugun, er hefði tvennt að markmiði, annars vegar að gera skattkerfið sem einfaldast og hins vegar að breyta ákvæðum l. um tekjuskatt og eignarskatt fyrirtækja og einstaklinga, eins og n. teldi sanngjarnt og eðlilegt. Vona ég, að hér sé ekki rangt farið með efni þessara bréfa, sem ég hef þó ekki sjálfur undir höndum. Þess sjást þó engin merki á Alþ., að þessi embættismannanefnd hafi unnið að endurskoðun skattalaga á þessum grundvelli. Aftur á móti hefur hún enn á ný unnið að því að endurskoða og endurbæta það frv., sem varð að steini hér á Alþ. í fyrra. Þetta frv. var lagt fram í nýjum búningi í febr. s.l., að því er mig minnir.

Ég hef hér með höndum bréf, sem raunar hefur fyrr verið vitnað til í þessum umr., frá samtökum atvinnurekenda — stærstu samtökum atvinnurekenda í landinu, Félagi ísl. iðnrekenda, Landssambandi iðnaðarmanna, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Verzlunarráði Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands, fimm stærstu landssamböndum atvinnurekenda, þar sem þessi samtök segja, að að undangenginni athugun sé það samdóma álit þeirra, að fresta beri lögfestingu frv. í verulegum atriðum, að því er tekur til ákvæða þess, er varða skattlagningu atvinnurekstrar. Og þeir rekja ástæðurnar fyrir þessari afstöðu sinni og segja þar í fyrsta málslið, með leyfi hæstv. forseta: Samtökin telja nauðsyn á, að endurskoðun l. um tekjuskatt og eignarskatt og l. um tekjustofna sveitarfélaga fylgist að. Frá sjónarmiði fyrirtækisins eru tekjuútsvar og tekjuskattur raunar sami skatturinn, en ráðstöfunin aðeins misjöfn Þetta mál tengist þá spurningunni um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og á hvern hátt fullnægja eigi tekjuþörf þeirra síðarnefndu. Það snertir svo aftur álögur aðstöðugjalda og fasteignaskatta, en þessi gjöld til sveitarfélaganna skipta fyrirtæki almennt miklu meira máli en tekjuskattur til ríkissjóðs. Er því lagt til, að málið verði afgr. í einni heild.

Fyrst eftir að frv. kom fram, stóð heilmikið til hjá hv. stjórnarliðum. Fjhn. beggja d. skyldu vinna saman að athugun þessa máls, sem svo mikilsvert var kallað. Hæstv. fjmrh. hafði svo mikið við, að hann fór með þetta mál til Nd. til þess að leggja það þar fram — hið eina, hygg ég, af hans málum og það nokkrum dögum eftir, að hér höfðu staðið nokkrar umr. og aðfinnslur komið fram um þá miklu mismunun í verkefnaskiptingu, sem þá var milli d., þar sem hv. Ed. hafði verið aðgerðalítil og verkefnalítil um nokkurt skeið einmitt rétt áður en þetta frv. kom fram. Var í því sambandi talið, að kostir tvískiptingar þingsins eða deildaskiptingar væru ekki nýttir, sem þó vitanlega væri sjálfsagt að gera, meðan deildaskiptingin er, þ.e. áður en Alþ. verður gert að einni málstofu. En sameiginlegan fund héldu fjhn. beggja þd. mjög skömmu eftir útbýtingu frv. Það var alllangur fundur, stóð heilan morgun. Þar mættu helztu menn þeirrar nefndar, sem frv. höfðu samið, ríkisskattstjóri og ráðuneytisstjórinn í fjmrn. a.m.k. Ég man það, en ég man ekki, hvort fleiri voru þar, og það komu þar fram ýmsar gagnlegar upplýsingar. Það skal viðurkennt. En jafnframt kom þar fram talsvert ákveðin gagnrýni á einstök ákvæði frv. frá nm. mjög mörgum — ekki einungis okkur stjórnarandstæðingum, heldur einnig frá öðrum.

Svo kom áðurnefnt bréf atvinnurekendasamtakanna, sem ég minntist á hér áðan. Þá virtist sem ýmsum brygði í brún, sem kannske er ekki furða, því að samtök þau, sem helzt átti að liðsinna með þessari lagasetningu, sögðu einfaldlega: Nei takk. Svona l. viljum við ekki, og þau sögðu meira: Það liggur ekkert á. Frv. á ekki að taka gildi fyrr en við álagningu á árinu 1972. Sýnist því ekki brýn nauðsyn að ljúka afgreiðslu þess á því Alþ., sem nú situr. Þetta sögðu þessi samtök og bentu svo á, að þau vildu láta athuga þessi mál í heild, en ekki taka einstaka þætti þeirra út úr. Við þennan atburð riðluðust fylkingarnar, og okkur Ed.-mönnum var þakkað fyrir komuna. Þá héldum við ýmsir, að þar með væri málið úr sögunni og embættismennirnir yrðu sendir heim öðru sinni til þess að vanda verkið betur og vinna verk sín meira í samræmi við það embættisbréf, sem þeim hafði verið sent.

En svo upplýsist það hér fyrir nokkrum dögum rétt fyrir þingslitin, að málið er síður en svo úr sögunni, heldur hefur meiri hl. hv. fjhn. Nd. setið við löngum stundum að reyna að gera þetta frv. þannig úr garði, að einhver von væri til þess, að a.m.k. þeir, sem því var ætlað að liðsinna, hefðu ekki manna mest á móti því, og nú er þetta frv. komið hér í verulega breyttri mynd og — að ég hygg — nú í nokkuð betri búningi en upphaflega var. Ég held það, þó að ég sé nú ekki viss um það að öllu leyti. Eitt meginatriði er þó enn óbreytt. Það er eitt atriði í upphaflega frv., sem hefur staðizt alla endurskoðun, og það er það, að arður af hlutabréfum skuli vera skattfrjáls upp að vissu marki, sem nánar er tilgreint í frv. Það eru 30 þús. kr. hjá einstaklingum og 60 þús. kr. hjá hjónum, sem telja fram saman. Á þessu eru nokkrar takmarkanir, eins og hér hefur verið drepið á. Aldrei má frádráttur vegna arðs af hlutabréfum nema meira en 10% af hlutafjáreign skattþegns í hverju einstöku hlutafélagi, eins og segir í 9. gr. á þskj. 722. Það virðist því, að hv. stjórnarliðar hafi getað hugsað sér að breyta nánast öllum ákvæðum upphaflega frv. nema þessu og hér sé kjarni málsins því fundinn.

Það er að vísu rétt, að skattlagningu eða fyrningarreglum félaga er nokkuð breytt. Á því var mikil nauðsyn. Ég skal alveg viðurkenna það, og þá nauðsyn höfðum við viðurkennt t.d. með því að flytja um þetta frv. Ég stóð hér að flutningi frv. um það efni á þessu þingi, þannig að ekki situr á mér að mótmæla því, að þörf sé breytinga á fyrningarreglunum. Hingað til hefur verið viðurkennd sú röskun, sem verðbólgan veldur, með því, að annað veifið hafa þessi mál verið endurskoðuð af Alþ., en ég hef ekki neitt við það að athuga, þó að þessum reglum út af fyrir sig sé breytt, þannig að þær geti gilt til nokkru lengri tíma en tíðkazt hefur um skeið. Ég verð að segja það, að mér finnst það óheppileg vinnubrögð og ekki rökrétt að slita þennan tiltölulega litla þátt út úr skattadæminu og ætla sér að afgreiða hann einan út af fyrir sig. Svo margt annað hefur þó áhrif í umræddu dæmi, bæði aðrir skattar og önnur gjöld, hvernig þau verða, og eins líka hitt, hvar fyrirhugað sé að afla þeirra tekna, sem þarna tapast ríkissjóði, því að ef atvinnureksturinn á að hagnast á breytingunni, þá hlýtur ríkissjóður að tapa einhverju af því, sem hann hefur hingað til fengið í hendur.

Af yfirliti, sem lagt var fram í fjhn. á fundi hennar í fyrradag, má sjá það, að á árinu 1960 var hundraðshluti félaga í heild tekju- og eignarskatta 40.6%. Samsvarandi tala 1970 er 17.9%. Það hefur meira en helmingslækkun orðið þar. Á sama hátt hafa þá einstaklingar axlað aukinn hlut af þessum byrðum. Prósenta þeirra hefur hækkað á umræddu tímabili úr 59.4% í 82.l%. Þetta þýðir, að ef prósentan hefði ekki breytzt á tímabilinu, þá hefði hlutur einstaklinga í þessum gjöldum ekki verið 881.6 millj. kr. eins og hann varð 1970, heldur mundi hann hafa orðið 637 millj. kr. Hér hefur því orðið tilfærsla, sem nemur 250 millj. kr., frá félögum og yfir á einstaklinga á þessu 10 ára tímabili til viðbótar við marghækkaðan söluskatt, sem hefur hækkað, að ég hygg, úr 440 millj. kr. 1960 í 3400 millj. kr. árið 1970, þ.e. söluskatturinn hefur hækkað á tímabilinu um þrjá milljarða, og fleira af þessu tagi hafa einstaklingarnir í landinu orðið að taka á sig. Mér finnst það alveg lágmarkskrafa, að áður en þetta hlutfall verður enn þá skert með þessari lagasetningu, þá verði það athugað, hvaðan á að afla teknanna, nema ráðgert sé að spara svo í ríkisrekstrinum, að þessara tekna verði ekki lengur þörf. Ef það er hugsunin, þá væri náttúrlega sjálfsagt, að frá því yrði sagt, hvernig það yrði gert. Það væri betur seint en ekki, ef hæstv. ríkisstj. léti það verða sitt síðasta verk kannske að sinni að benda á það, hvar þessar fjárhæðir mætti spara.

En síðustu verk Alþ. þessa dagana benda ekki til þess, að fjárþörf ríkissjóðs verði minni í framtíðinni en hún hefur verið fram að þessu. Alþ. er í þann veginn að afgreiða l. um almannatryggingar, sem á að fjármagna á næsta ári og munu auka byrðar ríkissjóðs um 200–300 millj. kr. Það var verið að ákveða nýja kennaramenntun hér í gær, sem áreiðanlega kostar mikið fjármagn, og fleira mætti til tína, er ástæða þætti til. En þessir hlutir hafa, hygg ég, ekkert verið athugaðir. Í fjhn. Ed. bað einn hv. nm. um það, þegar fyrsti sameiginlegi fundur n. var haldinn fyrir um það bil mánuði síðan, að það yrði upplýst, hvaða skattatilfærslu þetta frv. mundi hafa í för með sér — við skulum segja að öðrum ástæðum óbreyttum — hvað áætlað væri, að þessi breyting gæti numið miklum fjárhæðum og sparað félögunum mikið í tekjuskatti og eignarskatti. Ráðuneytisstjóri fjmrn. sagði, að það væri ekki mikið verk að upplýsa þetta og tók þessu vel. Þessar upplýsingar voru ekki komnar í fyrradag, þegar fjhn. Ed. hélt á fund. Þá gekk sami maður, hv. 4. þm. Norðurl. e., enn eftir því að fá þessar upplýsingar. Enn var því vel tekið og þeim lofað samdægurs. Ég hef ekki séð þessar upplýsingar. Það má vera, að þær séu komnar, en það upplýsist hér... (Gripið fram í: Þær eru ókomnar.) Ókomnar. Já, þær eru ókomnar og verða okkur þá ekki að miklu gagni a.m.k. við þessa umr., hvað sem síðar verður. Stjórnarflokkamenn í hv. Nd. hafa engar áhyggjur af þessu. Þá virðist ekkert varða um þetta. Þeir vildu bara samþykkja frv. og gerðu það án þess að vita neitt um afleiðingar þess. Þegar það er nú upplýst, að lítið verk er að láta þessar tölur hér í té, þá vil ég nú leyfa mér að fara fram á það enn þá einu sinni, að hæstv. fjmrh. hlutist til um það, að við getum fengið að sjá þessar upplýsingar, áður en frv. verður að l., og ég vona, að hann sjái sér fært að verða við þessu.

Menn hafa margir lengi verið sammála um það, að einn helzti ókostur við atvinnurekstur hér á landi væri sá, að þeir, sem hann stunda, hefðu ekki yfir nægilegu eigin fjármagni að ráða. Það þyrfti að haga skattareglum þannig, að þennan vankant mætti laga. En mér sýnist, að þetta frv. miði ekki nema að óverulegu leyti að þessu. Það, sem fyrirtækin vantar, er eigið fé, en ekki fyrst og fremst hlutafé, sem þau verða að greiða af arð svipað og vexti af lánsfé. Höfuðvandi félaganna hefur enn fremur verið sá, að rekstur þeirra hefur í mjög mörgum tilfellum ekki skilað arði, þannig að þau verða jafnt eftir þessa breytingu sem fyrir hana í vandræðum með að greiða fjármagnskostnaðinn, og þá skiptir ekki máli, hvort hann er kallaður vextir eða arður af hlutafé. Iðnrekendur hafa nýlega haldið og lokið ársþingi sínu. Í upphafi þess þings hélt formaður samtakanna ræðu. Þar segir hann, með leyfi hæstv. forseta:

Hinn 1. nóv. s.l. var sett á verðstöðvun og vísitölu haldið í skefjum með geysilegri niðurgreiðslu á nokkrum vörum, sem mikil áhrif höfðu á vísitölu framfærslukostnaðar. Fæst iðnfyrirtæki höfðu að fullu reiknað inn í verðlag á framleiðsluvörum sínum þær kostnaðarhækkanir, sem komnar voru til framkvæmda eða komu til framkvæmda eftir setningu verðstöðvunarlaganna. Er því svo komið, að afkoma þeirra hefur versnað mjög á árinu þrátt fyrir það, að framleiðsla iðnaðarins hefur aukizt verulega. Er því fyrirsjáanlegt, að fjöldi fyrirtækja stefnir nú beint í taprekstur með þeim uggvænlegu afleiðingum, sem slíkt hlýtur að hafa fyrir fyrirtækin sjálf og þá, sem hjá þeim vinna. Það er iðnrekendum því mikið áhyggjuefni, hver þróun verðlagsmála og kaupgjaldsmála hefur verið síðustu mánuðina og hverrar þróunar megi vænta á komandi hausti, þegar verðstöðvunarlögin renna út og nýir kjarasamningar verða teknir upp.

Það er ekki líklegt, að þessi spá sé röng — því miður. Og ég hygg því, að menn þurfi ekki að óbreyttu að hafa miklar áhyggjur af arðgreiðslum hlutafélaga í þessum greinum. Og þessi félög þurfa áreiðanlega fremur á einhverju öðru að halda en því, að einstaklingar, sem hlutabréf eiga í þeim, fái þau undanþegin skatti. Félögin þurfa meira eigið fjármagn; það er alveg rétt. En þessar reglur miða ekki að því.

Eins og ég gat um áðan, var það hlutverk embættismannanefndarinnar að bera skattareglur á Íslandi saman við það, sem tíðkast í grannlöndunum í þessum efnum. Það var upplýst í n., eins og hv. form. hennar gerði grein fyrir hér áðan, að hvergi í nálægum löndum nyti arður af hlutabréfum slíkra hlunninda, sem hér er ráðgert að veita honum, svo að fordæmi fyrir þessu eru a.m.k. ekki þaðan. Þetta er heimatilbúið. Það þarf svo sem ekki endilega að vera verra fyrir það. Ég er sammála hv. 10. þm. Reykv. um það. En athuga verður þó og gera sér grein fyrir því, hvort þessi tilhögun eykur sparnað eða er líkleg til að auka sparnað í landinu eða það fjármagn, sem fyrirtækjum er tiltækt. Við núverandi aðstæður er gangur málsins yfirleitt sá, að fólk, sem fjármagn hefur aflögu, leggur það inn í banka eða kaupir spariskírteini hæstv. fjmrh. Hæstv. fjmrh. og Alþ. ver þeim hluta sparifjárins, sem þangað kemur, til framkvæmda, og Alþ. hefur hlutdeild í því að nokkru, en bankarnir og peningastofnanirnar lána fyrst og fremst atvinnurekstrinum það fjármagn, sem frá sparifjáreigendunum kemur. Þessa hringrás þekkja allir hv. alþm., og sparifjármyndun, held ég, að ekki muni vaxa, þótt arður af hlutabréfum verði skattfrjáls — a.m.k. ekki, meðan engin trygging er fyrir því, að hlutabréfin beri arð. Og séu ummæli formanns Félags ísl. iðnrekenda, sem ég áðan greindi frá, höfð í huga og séu menn þeirrar skoðunar, eins og ég er, að þar sé rétt frá greint, þá er ekki líklegt, að svo skipist mál í næstu framtíð, að mikils arðs sé að vænta frá þeim hlutafélögum a.m.k., sem í iðnrekstrinum starfa.

Í fjhn. var enn fremur spjallað um það, hver væru skattakjörin í sambandi við sparifé og hlutafé, og hv. 10. þm. Reykv. gerði mjög glögga grein fyrir því hér, hvert okkar álit, að ég held flestra, ef ekki allra, er á þeim málum, og ég skal ekki endurtaka það, sérstaklega ekki ef ég má minna á það, að ekki alls fyrir löngu fóru einmitt nokkrar umr. um þetta efni hér fram; ég lýsti þar minni skoðun og ætla ekki að endurtaka hana. En niðurstaðan af þeim hugleiðingum er auðvitað sú, að það halli sízt á hlutaféð í þessum samanburði. Það hallar ekki á það. Þvert á móti. Og ef þessi lagaákvæði verða sett, sem hér eru til umræðu, þá verður bilið enn þá breiðara, eins og hv. 10. þm. Reykv. réttilega gat um.

Í þessu frv. eru nokkur minni háttar ákvæði, sem eru vafalaust til einhverra bóta, ef þau eru skoðuð ein út al fyrir sig. Þar vil ég t.d. nefna ákvæði 1. gr. frv., sem fjallar um skattfrjálsar tekjur giftrar konu, sem vinnur við fyrirtæki, sem hjónin — annað hvort eða bæði — eiga eða reka, þar sem þessi frádráttur er hækkaður úr 15 þús. kr., sem búið er að standa æðilengi og hefur náttúrlega úrelzt eins og önnur ákvæði, sem miðuð eru við tilteknar tölur, upp í 47 þús. kr. miðað við núverandi skattareglur. Þetta tryggir það raunar, að þessi frádráttur haldi velli, þó að verðbólga ríki áfram, þar sem kveðið er svo á, að hann skuli ávallt vera sem svarar 1/4, hluta persónufrádráttar hjóna. Sama vil ég leyfa mér að segja um rýmkun ákvæðanna í 2. gr., sem fjallar um skattlagningu barna innan 16 ára aldurs. Þar er nokkur rýmkun og sjálfsagt að fagna því út af fyrir sig, en þetta eru auðvitað hrein smáatriði.

Þá vil ég líka nefna í þessum flokki ákvæði, sem til bóta mega teljast, þ.e. ákvæði 24. gr., sem kveða á um það, að skattstjórum sé skylt að rökstyðja úrskurði sína og senda kærendum í ábyrgðarbréfi. Þetta hygg ég, að sé tvímælalaust til bóta og ríkisskattstjóri upplýsti okkur um það á fundinum, sem hann kom á hjá okkur, að allar horfur væru á því, að einmitt þessi tilhögun mundi draga úr þeirri miklu vinnu, sem er við embætti hans út af úrskurðum, sem þarfnast endurmats m.a. vegna þess, að þeir eru ekki rökstuddir í upphafi. Sjálfsagt mætti tína til fleiri atriði úr þessu máli.

Ég get t.d. leyft mér að minna á það, að ákvæðin um skattlagningu á söluhagnaði af eignum munu vera betri en þau voru í upphaflega frv., enda virðist verk og aðgerðir fjhn. hv. Nd. aðallega hafa beinzt í þá átt að breyta frv. í átt til gildandi skattalaga. Svo hygg ég, að hafi einnig verið um þetta ákvæði og það sé nú betra en það áður var.

En þetta eru aukaatriði. Meginmálið er hins vegar það, að nú er orðið fyllilega tímabært og raunar tvímælalaust óhjákvæmilegt, að fram verði Íátin fara strax heildarendurskoðun á öllum lögboðnum álögum, hvort sem þau renna til ríkissjóðs, sveitarfélaganna, opinberra stofnana eða sjóða. Þess vegna er það að okkar mati í minni hl. algerlega fráleitt, að einstakir og takmarkaðir þættir skattamála séu teknir til sérstakrar athugunar svona, fyrr en þessari endurskoðun er lokið. Og þess vegna er það, sem við, er að nál. stöndum á þskj. 762, erum andvígir málinu í heild og höfum borið fram rökst. dagskrá, sem kveður á um það, að þessi endurskoðun skuli fram fara og við munum verða á móti þessu máli. Það var bent á það hér við 1. umr. — og ég get vísað til þess að mestu — bæði af hv. 1. þm. Norðurl. v. og af hv. 4. þm. Norðurl. e., að við, sem að minni hl. stöndum, teljum, að alla þessa mynd beri að skoða í heild. Það má e.t.v. líkja þessu öllu saman við það, þegar forfeður okkar voru að búa upp á hest — þá mátti ekki hallast á. Ef pinkill var tekinn af öðrum klakknum, þá varð annaðhvort að gera að bæta þar öðrum pinkli á eða létta á hinum megin. Þessum málum er einmitt þennan veg farið, að samhengis og samræmis verður að gæta. Það er því okkar skoðun, að gefa ætti embættismannanefndinni kost á að ljúka ætlunarverki sínu, þ.e. að endurskoða myndina í heild, t.d. áður en Alþ. kemur næst saman. Það er enginn skaði skeður, þó að eftir því verði beðið. Þessi lög eiga, hvort eð er, ekki að koma til framkvæmda fyrr en við næstu skattaálagningu.

Eins og ég held, að mönnum hljóti að hafa orðið ljóst, sem hlýddu á framsöguræðu hv. 10. þm. Reykv., frsm. meiri hl. í þessu máli, þá eru ýmsir hlutir í þessu, sem hann telur, að orki tvímælis, og þá alveg sérstaklega ákvæðin um skattfrelsi arðs af hlutabréfaeign, og hann a.m.k. fellst ekki á þann rökstuðning, sem fyrir því er talinn, að það þurfi að jafna aðstöðuna milli mismunandi sparnaðarforma. Hann taldi þvert á móti, að bilið mundi breikka, ef þessi ákvæði yrðu lögfest. Ég hygg, að það verði ekki auðvelt að svipta burtu þessari þoku úr hans huga, því að ég hygg, að þetta sé mjög rétt skoðað, og ef um einhverja þoku er að tefla í þessu tilviki, þá sé hún annars staðar. En það líkaði mér illa í málflutningi hv. 10. þm. Reykv., þó að mér líkaði margt vei, sem hann sagði, og það væri margt rétt af því, þegar hann fór að gera grein fyrir því, hvers vegna hann vildi ekki breyta þessum ákvæðum, sem hann teldi þó, að stefndu í ranga átt. Og hann tilgreindi fyrir því, að ég hygg, þrjár ástæður — kannske fleiri — sem ég skrifaði niður hjá mér, og mig langar til þess að gera þær að umtalsefni í örstuttu máli.

Fyrsta ástæðan og sú, sem hann taldi fyrst, var það, hvernig á stendur í þinginu. Ég held, að svona ástæðu sé bara ekki hægt að viðurkenna. Það er búið að gera allt of mikið af því, finnst mér, á þessum síðustu dögum að teygja menn til að samþykkja hin og þessi mál vegna þess, hvernig á stendur í þinginu. En það, hvernig á stendur í þinginu, er m.ö.o. það, að alþm. hafa ekki tíma til að athuga þau lög, sem þeir þó ætla sér að setja. Þegar svo við það bætist, að hér er um að ræða Lagasetningu, sem engin þörf er á, sem engin nauður rekur til að setja nú, þá á heldur ekki að gera það og allra sízt að gera það þannig, að menn séu með opin augun fyrir því, að það, sem þeir eru að gera, sé rangt.

Þá var önnur ástæðan sú, að ríkisskattstjóri benti okkur á í n., að í 15. gr. væri komið ákvæði, sem setti talsvert undir þann leka, sem hv. 10. þm. Reykv. gerði að umtalsefni og taldi, að vissulega mundi verða fyrir hendi eftir nýju reglunum. En þessi varnagli er sá, eins og hann gat um, að ef samið er um skipti í fjármálum með hætti, sem er verulega frábrugðinn því, sem gerist almennt í slíkum viðskiptum, þá skuli verðmæti, sem án slíkra samninga hefðu runnið til annars aðilans, en gera það ekki vegna samningsins, teljast honum til tekna. (Gripið fram í: Og hver á nú að hafa eftirlit með þessu?) Ja, væntanlega skattstjórar. Ætli það ekki? Ætli það verði ekki nokkur skriffinnska, sem fylgir þessari breytingu, ef menn þurfa til viðbótar við allt það skatteftirlit, sem er þó fullerfitt fyrir, að fara að gera sér grein fyrir því, hvort einstaklingar eða félög hafa samið um skipti sín í fjármálum á þann hátt, sem er verulega frábrugðinn því, sem almennt gerist í þessum viðskiptum, eða ekki. Ég hélt, að verkefni þessara mætu embættismanna væri alveg nægilegt fyrir, þó að þessu væri ekki bætt á þá líka.

Og hv. 10. þm. Reykv. svaraði þessu nú raunar sjálfur og sýndi fram á fánýti þessa ákvæðis, þannig að ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að því, en ég held, að hér sé engan veginn girt fyrir það, að svo geti orðið sem hv. 10. þm. Reykv. var að hugsa sér, að ýmsum atvinnurekstri yrði dreift í smáhlutafélög til þess eins að njóta þessara skattfríðinda. Það er hins vegar alveg rétt, eins og hann greindi frá, þó að það skipti auðvitað engu máli fyrir þetta ákvæði, eins og það stendur eftir, þegar við erum að tala um það, að þetta var nokkuð lagað í Nd. Þetta var náttúrlega alveg galopið, eins og það kom frá embættismannanefndinni, og hefði auðveldlega getað leitt til þess, að stórir hlutafjáreigendur í litlum hlutafélögum hefðu algerlega getað gert út af við þau. Það er þó búið að setja þá reglu í fyrsta lagi, að skattfrelsið er lækkað úr 20% niður í 10%. Það er enn fremur hætt að reikna börnum persónufrádrátt í sambandi við hlutafjáreign, og það er búið að ákveða það, að ekki megi nema hluti af skattfrjálsu hlutafé eða arði koma úr einu og sama félagi. Þetta er auðvitað allt til bóta, ég viðurkenni það — allt til bóta.

Ég held, að hæstv. fjmrh. hafi mælzt til þess hér við 1. umr. — mér heyrðist það a.m.k., ég hef nú ekki haft tök á því að fletta því upp — við nefndina að gera a.m.k. ekki breytingar, sem máli skipta. Ef þetta er rangt með farið, þá verður það leiðrétt. En ég held, að stjórnarliðar hafi nokkuð farið eftir þessu, því að meginmálið stendur þarna eftir, sem manni virðist, að hitt sé einhvers konar umbúðir utan um, en skattfrelsi arðs af hlutafé sé það, sem þetta frv. stefnir að fyrst og fremst. Hæstv. fjmrh. viðurkenndi líka, að hér væri aðeins fjallað um þátt af stóru vandamáli, endurskoðunin þyrfti að halda áfram og hún þyrfti að vera tilbúin, áður en til álagningar fyrir árið 1972 kemur. Og það er einmitt nákvæmlega þetta, sem einnig er okkar skoðun. Ég tel mig líka vera að vinna í anda þess, sem hæstv. fjmrh. var þarna að lofa, þegar ég mæli nú fyrir þeirri málsmeðferð að vísa þessu frv. frá og til endurathugunar með þeim rökum, sem ég hef verið að reyna að gera grein fyrir.

Verkaskipting ríkisins og sveitarfélaganna er hluti af þessu vandamáli, og við höfum oft heyrt menn úr öllum flokkum lýsa þeirri þörf, sem á því er, að taka þær reglur til endurskoðunar. Því þetta þarf allt að athuga í heild, eins og hæstv. fjmrh. sagði.

Annað meginatriðið, sem embættismannanefndinni var falið að vinna að, var að gera skattkerfið einfaldara. Ég held, að þá einföldun sé erfitt að finna í þessu frv., sem hér um ræðir, enda minnir mig, að hæstv. fjmrh. viðurkenndi það við 1. umr., að svo væri ekki. Það er eitt af því, sem er eftir, þ.e. að einfalda þessar reglur. En mér sýnist þvert á móti, að þetta frv. miði að því að gera skattkerfið enn þá margbrotnara en það þó er nú — áður en til þessarar lagasetningar kemur. Því að nú nægir ekki lengur að hafa eina skattareglu um félög; nú skulu þær vera tvær. Nú eru félögin ýmist A-félög eða B-félög og skulu skattleggjast með mismunandi hætti eftir því, hvort félagsformið þau velja. Það eru annars vegar félög, sem myndað hafa arðjöfnunarsjóð. Þau mega einungis verja honum til arðgreiðslu eða til að mæta tapi af rekstri á næstu fimm árum, eftir að féð var lagt í sjóðinn. Sé fé úr arðjöfnunarsjóði varið til annarra nota, þá á að telja það með öðrum skattskyldum tekjum félagsins á því ári, sem það er til ráðstöfunar. Ef framlag í arðjöfnunarsjóð hefur ekki verið notað samkvæmt 1. mgr. A-liðs 6. gr. frv. á næstu fimm árum, eftir að féð var lagt í sjóðinn, skal það teljast að 4/5 hlutum með öðrum skattskyldum tekjum félagsins á sjötta ári, en 1/5 hluti leggjast við höfuðstólinn. Hins vegar eru svo B-félög. Það eru félög, sem hafa notfært sér heimild 2. mgr. B-liðs 17. gr. og hafa myndað varasjóð af skattfrjálsum framlögum. Ef þau ráðstafa honum til annars en þess að mæta tapi af rekstri félagsins, þá skal telja þá fjárhæð að viðbættum tuttugu af hundraði til skattskyldra tekna á því ári. M.a. telst það annars konar ráðstöfun á fé varasjóðs samkvæmt framansögðu, ef félag ver einhverju af eignum sínum með þeim hætti, sem nánar er lýst í gr.

Hér er ekki um neina einföldun á skattalögum að ræða. Alveg þvert á móti. Hér er verið að taka upp heilan flokk, þ.e. fjölga flokkunum, sem til athugunar koma, þegar talið er fram til skatts. Það er því alveg ljóst, að það er mjög lítill hluti — mjög óverulegur hluti — af því verkefni, sem vinna átti, sem nokkuð er farið að snerta á. Og ég held, að það sé bara til hins verra að fara að tína út svona skekkla og setja lög um þá, meðan allt hitt bíður. Þess vegna höfum við líka flutt rökst. dagskrá, sem prentuð er á þskj. 762 og hljóðar þannig, með leyfi forseta:

Ed. Alþ. telur nauðsynlegt, að fram fari hið allra fyrsta heildarendurskoðun á öllum lögboðnum álögum, hvort heldur þau renna til ríkisins, sveitarfélaga, stofnana eða sjóða, og álítur því óeðlilegt, að einstakir, takmarkaðir þættir skattamálanna, eins og tekju- og eignarskattur fyrirtækja, séu teknir til afgreiðslu fyrr en þeirri endurskoðun er lokið, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Sömu menn og standa að nál. á þskj. 762 flytja tvær brtt. á sérstöku þskj. 763. Það er við 29. gr. frv. Gr. orðist eins og þar segir:

„53. gr. laganna orðist svo:

Nú breytist framfærsluvísitala til hækkunar eða lækkunar frá því, sem hún var að meðaltali árið 1964, og skal þá hækka eða lækka þær fjárhæðir, sem um ræðir í 4. gr., A-lið 13. gr., 14. gr. og 16. gr., svo og þrepin í skattstiga þeim, sem um ræðir í 25. gr., í réttu hlutfalli við það.“

Fyrir þessari till. tel ég ekki þurfa langa framsögu. Í gildandi skattalögum er fjmrh. veitt heimild til þess að ákveða skattvísitölu hverju sinni. Miklar umr. hafa þráfaldlega orðið um það hér á hv. Alþ., að þessi skattvísitala væri ekki í samræmi við hækkun framfærsluvísitölu og þar af leiðandi hækkun á framfærslukostnaði, en þá teljum við, að þessi skattvísitala verði að vera til þess, að jafnvægi haldist milli tekjuöflunar, framfærslukostnaðar og skatta. Nú hefur verið lögð til sú breyting í 29. gr., að í stað þess, að fjmrh. ákveði þessa skattvísitölu miðað við gildandi lög, skuli það vera Alþ., sem ákveður hana í fjárlögum hvert ár — í fyrsta sinn í fjárlögum fyrir árið 1972. Tilgangurinn með þessari breytingu hlýtur að vera sá, að Alþ. geri sér grein fyrir því við setningu fjárlaga, hversu miklar ríkistekjurnar af þessari tekjuöflun þurfi að vera á næsta ári, og skattvísitölunni verði hagað eftir því. Við teljum hins vegar réttara og í meira samræmi við eðli málsins, að skattvísitalan haldist í hendur við framfærsluvísitöluna, þannig að fólk geti gert sér grein fyrir því nokkurn veginn, hverjir skattar þess verða. T.d. hlýtur það að hafa veruleg áhrif á samninga um kaup og kjör hverju sinni, hverjir skattarnir verða á næsta tímabili. Og það hlýtur að auka enn óvissuna, sem um þessi mál ríkir, ef það er eins og nú háð mati meiri hluta Alþ. hverju sinni, hver sú skattvísitala skuli vera. Þess vegna er nú þessi brtt. fram borin. Ég hygg, að hún skýri sig algerlega sjálf, og ég ætla ekki að eyða tíma þdm. í það að hafa fyrir henni frekari framsögu, nema sérstakt tilefni gefist hér í umr.

Ég vona, að mér hafi tekizt að gera hv. þdm. það skiljanlegt, hvað það er, sem fyrir okkur vakir með flutningi rökstuddrar dagskrár á þskj. 762 og brtt. á þskj. 763. Ég viðurkenni, að umræða um skattamálin og frv. til laga um breytingar á þeim hefði þurft betri undirbúning frá minni hendi en ég hef haft tíma til að eyða í það, en við það verður að sitja. Ég segi, eins og allir segja hér nú — vegna þess, hvernig til háttar með störf Alþ., hef ég ekki getað eytt frekari tíma til þess að skoða þetta mál en raun ber vitni.