11.11.1970
Neðri deild: 16. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

75. mál, sauðfjárbaðanir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vildi nú bara aðeins taka svari norðlenzkra bænda. Mér finnst hv. þm. gera heldur litið úr þeim, er hann telur þá fylgjast illa með þingmálum, þar sem hann heldur því fram, að þeir hafi nú ekki reiknað með því eða vitað nokkuð um það, hvort þetta frv. mundi verða að lögum eða hvort líklegt væri, að það yrði að lögum. Ég held . . . (Gripið fram í.) Nei, þeir gera ekki ráð fyrir, að ráðh. hafi löggjafarvald, en norðlenzkir bændur gera ráð fyrir því, að mál, sem er flutt og vitað er, að ekki er ágreiningsmál eins og þetta, og sérfræðingar, sem leitað hefur verið til eru samþykkir, verði samþ., og ég er alveg viss um það, að eyfirzkir bændur hafa gert ráð fyrir því, að þetta frv. yrði samþ. En hvort þeir eru búnir að baða, það ætla ég ekkert að þrátta um við hv. þm. Ég geri ekki ráð fyrir því, að hann skrökvi því, að einhverjir bændur hér fyrir norðan séu búnir að baða. Það væri líka alveg ástæðulaust, en ég reikna með, að þeir séu fáir. En um þetta er nú ástæðulaust að þrátta. Till. verður athuguð og væntanlega samþ., ef hún verður talin vera til bóta fyrir frv., en væntanlega felld eða dregin til baka, ef ástæðulaust er að bæta henni þarna við.