01.04.1971
Neðri deild: 80. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

296. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs nú vegna grg. félags landeigenda við Svartá, sem birt hefur verið opinberlega og a.m.k. sumum hv. þm. hefur borizt, en landeigendafélag þetta gerir þá kröfu, að eftirtalin atriði verði tekin til greina við afgreiðslu þessa frv., og þau atriði eru svo talin í 6 liðum.

Ég vil af þessu tilefni segja það, að ef það á fyrir mér að liggja að annast framkvæmd þessarar löggjafar, þá verða öll þessi atriði, sem þar eru talin upp, tekin til greina, áður en virkjunarframkvæmdir mundu hefjast. Þetta leiðir af þessu frv., ef að l. verður, sjálfu, þar sem segir í 4. gr., að ríkisstj. sé heimilað að festa kaup á vatnsréttindum á vatnasvæði Svartár og landsréttindum í þágu Svartárvirkjunar, en áður en til þess kemur, þarf að semja við aðila um landsréttindi og um vatnsréttindi. Það leiðir svo einnig af ákvæðum þessara l., að ef einhverjir hagsmunir eru skertir, þá á að koma fullt verð fyrir það, ef til þess kæmi, að rétt þætti að beita eignarnámsheimild, sem hér er. En önnur atriði en vatnsréttindi og landsréttindi eru fiskræktarsjónarmið, sem fram eru sett í þessum liðum landeigendafélagsins. Sú stefna er mörkuð hér á Alþ., að jafnframt virkjunarframkvæmdum gerðu menn sér mjög mikið far um að sinna fiskræktarsjóðnum.

Hér voru á síðasta þingi afgreidd l. um lax- og silungsveiði, og þar var tekjuöflun í fiskræktarsjóð ákveðinn tiltekinn hluti af virkjunarframkvæmdum. Það mátti að vísu mjög deila um það, hvort þetta væri eðlileg fjáröflun til fiskræktar, því að horfur eru nú á, að stærstu virkjanirnar hér á landi verði í vötnum, sem enginn fiskur hefur verið í — í jökulvötnum. Og því skyldi þá vera tekinn tiltekinn hluti af kostnaði slíkra virkjana til fiskræktar í öðrum vötnum? Samt sem áður var þetta samþykkt og engum mótmælum hreyft og þessi stefna mörkuð.

Auðvitað hefði alveg eins mátt segja, að tiltekinn hundraðshluti af virkjunarframkvæmdum færi til heilbrigðismála eins og það færi til fiskræktar. Hins vegar hefur fiskræktin sennilega verið tengdari þessu í hugum manna, vegna þess að sumar árnar eru miklar veiðiár, og þá er þetta samtengt, en í öðrum ám, eins og við erum að virkja núna, t.d. Tungnaá og Þjórsá, er engin veiði, og þá held ég, að þetta séu virkjanir, sem ekki eru í neinum tengslum við fiskrækt. En þetta hefur nú verið gert svona, og hér í Reykjavík t.d. í sambandi við Elliðaárvirkjanirnar þá vitum við það, að frá öndverðu hefur verið sýndur alveg sérstakur áhugi á því af hálfu Rafmagnsveitu Reykjavíkur að stuðla að aukinni fiskrækt og hefur hún gefið mjög gott fordæmi að þessu leyti. Auðvitað geta bændur sýnt fram á fiskræktarmöguleika í Svartá, og yrði niðurstaðan sú, að fiskræktarmöguleikar yrðu skertir og þeir yrðu fyrir tjóni, sem hægt væri að sýna fram á, þá ber einnig að greiða það tjón, og það eru bein ákvæði í vatnalögum um það. Ég endurtek þess vegna, ef það er í mínum verkahring að annast framkvæmd þessara laga — og ég tel það skylt hverjum, sem ætti að annast framkvæmd laganna, að taka verður öll þessi atriði frá landeigendafélaginu til greina í samningagerðum við þá, áður en til virkjunarframkvæmda kemur.