01.04.1971
Neðri deild: 80. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

296. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er rétt, eins og fram kom í hinni hófsamlegu framsöguræðu hv. 4. þm. Norðurl. v., að þ. hafa borizt erindi varðandi þessa virkjun, m.a. bréf félags landeiganda við Svartá í Lýtingsstaðahreppi, sem hæstv. forsrh. vék nú að. Hann lýsti yfir, að ef það kæmi í hans hlut að framkvæma slíka virkjun eða standa að framkvæmd hennar sem ráðh., þá mundi hann fullnægja öllum þeim skilyrðum, sem landeigendafélagið setti.

Þetta eru vitanlega heimildarlög og það er rétt, að allir samningar yrðu að komast á hreint, áður en heimildarlögin yrðu framkvæmd; og er það í sjálfu sér mikil trygging. En sum af skilyrðunum eru þess eðlis, að það gæti orðið mikið vafamál, hvort hægt væri að verða við þeim. Ég gríp hér t.d., með leyfi hæstv. forseta, ofan í 2. efnislið í grg. félags landeigenda við Svartá, þar sem segir, að virkjunarstjórnin samþykki að taka til greina allar sannanlegar skaðabótakröfur landeigenda við Svartá vegna virkjunar Svartár við Reykjafoss og áhrifa hennar á fiskræktarmöguleika í ánni, meðan á byggingu stendur, svo og starfrækslu í framtíðinni, og bæti eftir samkomulagi og mati. Þarna er um atriði að ræða, sem ákaflega erfitt verður að meta til fjár, áður en virkjunarframkvæmdir hefjast, og ég held, að allir renni blint í sjóinn með það, hvaða upphæðir þarna væru í raun og veru til umr. Líkt er að segja um 3. liðinn, þar sem segir, að virkjunarstjórnin ábyrgist, að vatnsþrýstingur í göngum að túrbínu sé innan þeirra marka, sem sérfræðingar telji skaðlausan fiskseiðum. Er hægt að ábyrgjast þetta, að þrýstingur í afrennslisgöngunum verði minni en svo, að fiskseiði þoli hann? Fer það ekki nokkuð eftir virkjunaraðstöðunni þarna? Mér er það ekki alveg ljóst, og ég held þannig, að þarna séu meðal skilyrðanna hlutir, sem ákaflega torvelt sé að segja fyrir fram um, hvort hægt sé að fullnægja. Þá segir enn fremur í 4. lið, að tryggt sé, að jafnan sé nægilegt vatnsmagn í fiskvegi þeim, sem verið sé að byggja og starfrækja við Reykjafoss. Það má vera, að það verði komið í ljós, áður en í virkjunarframkvæmdir er ráðizt, og þá ræðst fram úr því, en vissulega er vatnsrennslið misjafnt og getur verið mikið stundum og lítið á öðrum tíma og þannig mjög erfitt að tryggja, að alltaf sé nægilegt vatnsmagn í þeim fiskvegi, sem þarna yrði byggður.

En ég bendi á þetta, sem allt gefur okkur vísbendingu um það, að risin séu samtök í þessu héraði líkt og hjá þeim Þingeyingum í sambandi við vatnsaflsvirkjun, og hefur orðið mikill styrr af, en einmitt var hér á hv. Alþ. fyrir skömmu fullyrt, að ekkert slíkt gæti þarna komið til greina. Mér virðist þessi grg. félags landeigenda við Svartá benda í þá átt, að samtök séu þegar mynduð og kröfur hafðar uppi, og enn fremur hefur borizt bréf þarna úr héraði, þar sem mér virðist nú vera kominn mikill hiti í þetta mál, og þar er látið svo sem mikil verðmæti fari forgörðum, ef af virkjun verði. Hvort sem það er nú ýkt eða ekki, þá er svo mikið vist, að slíkar raddir eru til heima í héraði og hafa látið þegar til sín heyra með bréfum til alþm., en mig brestur kunnugleika til að mynda mér skoðun um, hvort þetta er ýkjulaust og hófsamlega fram sett, en þarna eru sem sé bændur í héraði, sem telja mjög nærri sér höggvið og sínum hagsmunum, ef af þessari virkjunarframkvæmd verður. Það er upplýst af hv. frsm., að þetta sé tiltölulega lítil virkjun, sem ekki bætir úr raforkuþörf héraðsins lengur en í 5–7 ár, og er þá enn þá meira álitamál, hvort eigi að halla sér að þessari lausn raforkumála fyrir þessi héruð, fyrst þetta er til svo skamms tíma, einkanlega ef það kostaði alvarlegar innanhéraðsdeilur, að þessi á, sem er tiltölulega góð veiðiá, verði virkjuð, eða þegar verði reynt að leita annarra möguleika. Ég efa það stórlega, að nokkurn tíma hefði verið ráðizt í byrjunarframkvæmdir við Laxá, ef menn hefði órað fyrir því, hvílík alda óánægju og ófriðar risi innan héraðs út af því máli. Og það mál getur því sannanlega orðið okkur til varnaðar.

Ekki dettur mér í hug að halda því fram, að við eigum að hverfa frá öllum vatnsvirkjunum, þó að einhverjar óánægjuraddir heyrist út af því, að það verði hróflað við þúfu eða steini í landareign í sambandi við virkjun, og vissulega verður að lita á virkjunarþörfina og þann vanda, sem leystur er með virkjunarframkvæmdum, og horfast þá jafnvel í augu við og meta það, sem mælir með og á móti, en við getum ekki látið það fram hjá okkur fara, þegar aðvörunarraddir heyrast, við verðum að taka þær til athugunar og kynna okkur þær og hvetja alla, sem hlut eiga að máli og kunnugir eru staðháttum þarna, til að hugsa vel um þetta mál, áður en nokkru er slegið föstu um þessa virkjun. Ég taldi þess vegna rétt það, sem mér hefur borizt til eyrna um þetta, og ég sé, að þarna er jafnvel þegar risin alda, sem byggist á sterkri andstöðu við virkjunarmálið heima í héraði: Hversu almennar þær raddir eru, veit ég ekki heldur, hér eru menn, sem áreiðanlega vita gjörla um það. En það má ekki fara fram hjá þm., að vandamál eru þarna að rísa, sem hillir undir, og sum þeirra geta verið anzi torveld úrlausnar, þó að ekki væri önnur en þau að leysa og fullar sættir tækjust með því að verða við öllum kröfum landeigendafélagsins í Lýtingsstaðahreppi. Það er áreiðanlegt, að það að fullnægja þessum sex skilyrðum hlýtur undir öllum kringumstæðum að kosta mikið fé, því að mat á veiðimöguleikum getur orðið t.d. anzi hátt og örðugt að gera ráðstafanir, sem eiga að tryggja þarna nægilegt vatnsmagn alltaf og það, að þrýstingur sé ekki í afrennslisgöngum virkjunarinnar — stíflunnar — meiri en svo að fisk seiði þoli. Þetta eru allt saman atriði, sem ég hygg, að sé erfitt um að segja, hversu mikið fjármagn kosti og hverju þurfi til að kosta í framkvæmdartilhögun til þess, að fullnægt verði.

Ég tek enga afstöðu til málsins sjálfs að svo komnu, en tel, að við höfum fengið ærið tilefni til umhugsunar um það, hvort þessi virkjun leysi þann vanda, sem leysa verður í þessum héruðum, og hvort ekki sé réttara að leita annarra leiða. Ég man eftir því fyrir mörgum árum, að þá var þetta mál hér á Alþ. til umr., og það hefur verið það oftar en einu sinni, en þá hélt ég því fram, að því miður gerðu menn það að allt of miklu metnaðarmáli, hvar aflstöðin væri reist, því að vitanlega má mönnum á hinum ýmsu stöðum á landinu standa alveg á sama, hvar aflstöðin er, ef þeir geta fengið raforku á hagkvæmustu verði úr fjarlægum héruðum og nægilega örugga til að flytja hana úr fjarlægð. Ef þetta hvort tveggja er leyst, þá skiptir þetta engu máli, hvort aflstöðin er innan héraðs eða ekki.