11.11.1970
Neðri deild: 16. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

75. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Varðandi fundarboðun þess fundar, sem tók afstöðu til þessa máls, verð ég að segja það, að það er enginn fastur fundartími í þeirri n. og fundir hafa alltaf verið boðaðir á ýmsum tímum. Svo lengi sem ég hef verið hér á þessu hv. Alþ., hefur enginn haft við það að athuga, hafi fundarboðið komizt til manna, og ég vil ekki taka undir það, að þessi fundarboðun hafi verið þannig, að það sé ekki í alla staði fullkomlega lögmæt afgreiðsla á málinu í n.

Hins vegar er það sjálfsagt að segja það, að þetta er ekki það mál, sem á að geta valdið neinum hita hér í þessari hv. deild, og ég er alveg ásáttur með það, að vilji flm. taka till. aftur til 3. umr., sé þetta athugað á þeim tíma, sem liður á milli 2. og 3. umr. En mín skoðun er sú varðandi þessar brtt., sem hér liggja fyrir, að fyrri brtt. sé meinlaus og það skipti í sjálfu sér ekki máli, hvort ákveðið sé 1. nóv. eða 20. okt. Það er út af fyrir sig ákaflega lítið atriði í þessu efni. Þetta er byrjun böðunartímans, og yfirleitt hafa menn ekki baðað fyrr en í nóvember. Þar sem ég þekki til, álít ég, að bezti tíminn sé að haustinu. Hitt er svo sjálfsagt, að einhverjir hafa baðað fyrr. En ég vil taka undir það, sem hér kom fram áðan, að bændum hlaut að vera ljóst, að þetta frv. lá fyrir, og þess vegna var óvarlegt af þeim að vera að rjúka í að baða fyrr en venjulega, þegar allar líkur voru til að þetta yrði samþ. Ég er ekkert að segja, að það væri alveg sjálfsagt, að það yrði samþ., en allar líkur til þess.

En varðandi þessi ákvæði til bráðabirgða um, að þeir, sem eru þegar búnir að baða, séu undanþegnir böðun á næsta ári, þá held ég, að það sé mjög varhugavert að samþykkja það, því að eitt aðalatriðið við böðun er það, að böðun fari fram samtímis hjá mönnum sem allra mest, til þess að lús eða færilús eða fellilús — og ég tala nú ekki um kláða — berist ekki á milli á þeim tíma, sem annar hefur baðað en hinn ekki. Og ef á að fella niður böðun á einstaka heimilum, sem búin eru að baða, á næsta ári við allsherjarböðun, þá held ég, að það sé mjög varhugavert að leyfa það beint í lögum. Það kann að vera, að það væri skynsamlegt að búa til einhverja undanþágu, sem dýralæknir gæti veitt, ef hann teldi enga hættu stafa af því, að þannig væri á misvíxl böðun eitt árið á þessum stað og annað ár á öðrum.

En ég er sem sé fús til þess, að við athugum þetta í n., áður en til 3. umr. kemur, ef hv. nm. vilja draga till. til baka þangað til.