02.04.1971
Efri deild: 88. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

296. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um virkjun Svartár í Skagafirði hefur náð samþykki í Nd. án þess, að nokkur ágreiningur, að heitið gæti, væri um málið þar, og þess vegna vildi ég mega vona, að samstaða gæti orðið um málið hér í Ed., þannig að frv. gæti orðið að lögum, þó að nú liði senn að þinglokum, og ég verð að viðurkenna það, að að því leyti er málatilbúnaðurinn ekki eins og vera skyldi af minni hálfu.

Þetta frv. er í svipuðu formi og tíðkazt hefur í svipuðum tilfellum, og vitna ég þar sérstaklega til frv., sem nú er orðið að l., um virkjun Lagarfoss. Þetta eru heimildarlög um, að ríkisstj. sé heimilt að fela Rafmagnsveitum ríkisins að virkja Svartá í Skagafirði við Reykjafoss í allt að 5500 hestafla raforkuveri og leggja þaðan aðalorkuveitu til — Sauðárkróks til tengingar þar við veitukerfi Norðurl. v. Svo eru lántökuheimildir til ríkissjóðs í 2. gr. og ákvæði um að fella niður aðflutningsgjöld, sem venja hefur verið í slíkum málum, og síðan er í 4. gr. ákvæði um það, að ríkisstj. sé heimilt að festa kaup á vatnsréttindum á vatnasvæði Svartár og landsréttindum í þágu Svartárvirkjunar, ef viðunandi kjör fást, eða taka þau eignarnámi að öðrum kosti. Um þetta gilda ákvæði 54. og 55. gr. vatnalaga, ef til þess kemur. En þar er einmitt ákvæði um það, að semja skuli við landeigendur og hins vegar, ef samningar ekki takast, gæti komið til eignarnáms, en þá á þeim grundvelli, að sannanlegt tjón verði bætt. Í sambandi við þessa gr. vil ég alveg sérstaklega víkja að því, að í grg. félags landeigenda við Svartá í Lýtingsstaðahreppi vegna fram komins frv. á Alþ. um virkjun Reykjafoss í Svartá, sem mér hefur verið send og birt hefur verið opinberlega, stendur svo, að landeigendafélagið geri skilyrðislausa kröfu um, að eftirtalin atriði verði tekin til greina við afgreiðslu þessa frv.:

Í fyrsta lagi verði gerður skriflegur samningur milli væntanlegrar stjórnar virkjunar við Reykjafoss og félags landeigenda við Svartá.

Í öðru lagi samþykki virkjunarstjórn að taka til greina allar sannanlegar skaðabótakröfur landeigenda að Svartá vegna virkjunar Svartár við Reykjafoss, áhrif hennar á fiskræktarmöguleika í ánni, meðan á byggingu stendur svo og starfrækslu í framtíðinni, bæði eftir samkomulagi og mati. Þetta er að sjálfsögðu atriði, sem verður tekið til greina, ef þetta frv. verður að l. Þá verður næsta skrefið í því að hefja samningagerð við landeigendurna, bæði um vatnsréttindi og landsréttindi og um fiskræktarmálin.

Um fiskræktarmálin vil ég segja það, að ef virkjun truflar á engan hátt fiskrækt í einhverri á, þá ber náttúrlega slíkri virkjun engin skylda til þess að gera laxastiga, því að þarna er verið að gera laxastiga, hvort eð er, þó að virkjunarframkvæmd sé þarna engin, eins og fram hefur komið opinberlega. Hitt er svo annað mál, að það hefur alltaf verið mikill vilji og jákvæð viðhorf yfirleitt hjá þeim, sem hafa haft með virkjunarmálin að gera, til að aðstoða við fiskræktina. Þar nefni ég t.d. Rafmagnsveitu Reykjavíkur, sem hefur haft góða forgöngu um laxrækt í Elliðaánum um langan aldur, eins og alkunnugt er. Og í öðru lagi vil ég vitna til þeirrar stefnu, sem má segja, að mótuð hafi verið á Alþ. með l. um lax- og silungsveiði, sem afgreidd voru í fyrra, en samkv. þeirri löggjöf á að stofna fiskræktarsjóð til stuðnings fiskrækt og fiskeldi í landinu. Og svo eru taldar tekjur sjóðsins, og þar er m.a. einn liður: 3% af óskírum tekjum vatnsaflsstöðva í landinu, sem selja orku til almennings. Þetta gat auðvitað orkað mjög mikið tvímælis, hvort slíkur sjóður ætti að fá tekjur frá vatnsaflsstöðvum — vissulega ef þær eru í nánum tengslum við fiskræktina, en vegna hvers frá vatnsaflsstöðvum, þar sem engin fiskrækt hefur verið og ekki líklegt, að verði, og meðal þeirra eru okkar stærstu virkjanir eins og í Þjórsá og í Tungnaá, sem nú er verið að vinna að, 210 MW verður Búrfellsvirkjunin, 310 MW verður virkjunin í Tungnaá við Sigöldu og 300 MW við Sigöldu og Hrauneyjafoss. Þarna hefur aldrei verið um neina fiskrækt að ræða. Það hefði alveg eins með jafngóðum rökum verið hægt að segja: Við skulum taka svo og svo mikið af brúttótekjum þessara stöðva og leggja það t.d. í heilbrigðismál — til þess að byggja barnaspítala, elliheimili eða einhverjar slíkar stofnanir, sem þjóðin hefur mikla þörf fyrir. Það eru í raun og veru ekki meiri tengsl milli þessara virkjana og laxræktar eða fiskræktar en virkjananna og áðurgreindra mannúðarmála. Engu að síður var þessi stefna mörkuð þarna, og varð ekki ágreiningur um þetta að öðru leyti, ef ég man rétt. En ég held, að þetta hafi upphaflega verið eitthvað hærri prósenta, en það skiptir ekki aðalmáli. Hér kemur fram, að aðaltekjurnar eða verulegar tekjur — ég get ekki borið það saman — í fiskræktarsjóð eiga að koma frá vatnsaflsvirkjunum og jafnvel þeim, þar sem virkjuð etu vatnsföll, þar sem engin fiskrækt hefur verið eða er fiskgengd.

Ég tel þess vegna alveg sjálfsagt að reyna að greiða sem allra mest fyrir því í sambandi við samninga um Svartárvirkjun, ef frv. þetta verður að l., að hugað verði vel að fiskræktarmálunum, og ég hefði viljað segja, að jafnvel þó að ekki væri um að ræða neina skyldu til þess, eins og ég benti á áðan, þá mundi ég telja, að það væri rétt að styðja bændurna eftir föngum í þessum fiskræktarmálum þeirra. En menn mega náttúrlega ekki ganga út frá því sem gefnu, að virkjanir taki að sér að greiða allan kostnað af fiskræktarframkvæmdum eins og laxastigum og öðru slíku, ef engin skylda er til þess og virkjunin sjálf hefur engin áhrif í þá átt að gera aðstöðuna að neinu leyti verri til fiskræktarinnar.

En ef það á að liggja fyrir mér að fjalla um framkvæmd þessara mála, þá mundi ég vilja ganga langt til móts við bændur umfram það, sem teldist lagaleg skylda í þessu eða er auðvitað lagaleg skylda, þ.e. að gera samkv. þessum l. og vatnalögum við þá samninga, áður en framkvæmdir hefjast, og bæta þeim allt það tjón, sem þeir kynnu að verða fyrir. Finnst mér mjög eðlilegt, að undir þetta heyri fiskræktin, eins og reyndar hefur verið viðurkennt, og ég minni á það hér nú, að í hinni illvígu Laxárdeilu hefur Laxárvirkjunarstjórn fallizt á að bera kostnað af laxastiga eða kostnað af því að koma laxinum frá Brúum og upp fyrir, ef það á sínum tíma telst þá ekki raska of mikið hinu eðlilega jafnvægi í nátt;írunni og vera þannig náttúruspjöll, en um það verður fjallað af sérfræðingum, sem eiga að rannsaka það mál, áður en til kasta kemur, en lax hefur, eins og kunnugt er, aldrei verið fyrir ofan Brúar, en þar er mikil önnur fiskgengd eins og kunnugt er þeim, sem til þekkja þarna. Og hvernig þeim fisktegundum, sem þar eru, bæði urriðanum í Laxárdalnum og bleikjunni í Mývatni, líkar sambúðin við laxinn, ef til kemur, skal ósagt um látið, og einnig hafa sérfræðingar eins og Finnur Guðmundsson fuglalræðingur upplýst, að það séu mjög þekkt fyrirbrigði erlendis, að ef laxi er hleypt upp í vötn eins og Mývatn við svipaðar kringumstæður, þá hendi það oft, að laxinn gangi alls ekki úr vatninu, en verði bara vatnafiskur, en þau atriði þarf að athuga sérstaklega og koma ekki þessu máli við.

Ég hef þá gert grein fyrir öðrum efnislið í kröfum bændanna, þ.e. að virkjunarstjórn samþykki að taka til greina allar sannanlegar skaðabótakröfur landeigenda að Svartá vegna virkjunar Svartár við Reykjafoss, áhrif hennar á fiskræktarmöguleika í ánni, meðan á byggingu stendur svo og starfrækslu í framtíðinni, og bæta eftir samkomulagi og mati. Þetta tel ég, að felist í sjálfu frv. og ákvæðum vatnalaga, að skylt sé að taka til greina.

Þriðja atriðið er, að virkjunarstjórn ábyrgist að vatnsþrýstingur í göngum að túrbínu sé innan þeirra marka, sem sérfræðingar telja skaðlausan fiskseiðum. Að sjálfsögðu er rétt, ef mögulegt er, að verða við tilmælum, eins og hérna eru borin fram. Hvort þetta tekst, veit ég ekki, og þó að báðir aðilar séu af vilja gerðir, þá er náttúrlega hugsanlegt, að aðstæður séu þannig, að það náist ekki samkomulag og þyki ekki rétt að fara í eignarnám o.s.frv. En þetta vil ég fallast á, að sé reynt eftir föngum að verða við og vona, að hindranir verði ekki á því, að það sé hægt að útbúa túrbínu, eins og hér er óskað eftir.

Í fjórða lagi vilja landeigendur, að tryggt sé, að jafnan sé nægilegt vatnsmagn í fiskvegi þeim, sem verið er að byggja og starfrækja við Reykjafoss. Það er að sjálfsögðu algerlega nauðsynlegt að gera þetta, því að ef það er ekki, þá væri til lítils eða einskis að vera að byggja hann, og þá verður annað hvort að víkja, stiginn eða virkjunin.

Í fimmta lagi skal virkjunarstjórn láta framlengja fiskveg um Reykjafoss þannig, að hann nái upp fyrir lón það, sem myndast við stíflugarð virkjunarinnar, og setji járngrind í ána ofan lónsins undir yfirumsjón veiðimálastjóra eða sjái um aðra þá framkvæmd, sem samkomulag kynni að nást um. Ég skil þetta svo, að þeir vilji með þessu forðast það, að laxinn gangi upp í lónið og stöðvist þar og þess vegna þurfi að gera fiskveginn þannig, að hann fari upp fyrir lónið sjálft, og hindra það, að hann komist inn í lónið. Þetta er sjálfsagt mjög eðlilegt frá þeirra sjónarmiði og rétt að íhuga þetta vel. Ég veit ekkert, hvað í þessu felst, hve mikinn kostnað þetta hefur í för með sér, en að sjálfsögðu er slíkt atriði eins og þetta eitt af þeim, sem ber að taka til greina við samningsgerðina og reyna að komast að samkomulagi um.

Í sjötta lagi skal virkjunarstjórn viðhafa sérstakt hreinlæti í nágrenni virkjunarstaðarins, meðan á byggingu stendur og allan starfstíma raforkuversins, og skal veiðimálastjóri hafa úrskurðarvald þar um. Ég held nú sannast að segja, að þeir, sem staðið hafa að vatnsaflsvirkjunum hér á landi, verði ekki sakaðir um sóðaskap í kringum sín mannvirki. Þvert á mótí held ég, að mér sé óhætt að fullyrða, að almenningur hafi tekið eftir því, hversu yfirleitt er vel gengið frá slíkum mannvirkjum og umhverfi þeirra. Ég tel þess vegna af þessum sökum, að það sé engu að kvíða í þessum efnum í sambandi við virkjun Svartár og það sé óhætt að fullyrða, að fyrir fram sé full samstaða á milli væntanlegrar virkjunarstjórnar og landeigenda.

Þá eru talin þessi atriði, sem landeigendurnir vildu setja fram, að tekið yrði tillit til við afgreiðslu frv., og ég tel, að með þeim yfirlýsingum, sem ég nú hef gefið, verði þeim öllum fullnægt. Í því felst að vísu ekki endanlegt álit mitt á því, að samkomulag náist og það takist að gera samninga, ef miklar kröfur eru gerðar, sem erfitt er að verða við. Hér er um atriði að ræða eins og t.d. það, hvort semst um hluti, sem eru umfram lagaskyldu, hvort bæta eigi allt tjónið o.s.frv. Það get ég ekki fullyrt nú, en ég mundi vilja vinna að því, ef hófs er gætt í kröfugerðum. Af þessum sökum vona ég, að það þurfi ekki að skapast neinn ágreiningur um afgreiðslu frv. vegna þessarar grg. félags landeigenda við Svartá í Lýtingsstaðahreppi.

Að öðru leyti er lítið um frv. að segja annað en það, að í 6. gr. er tekið svipað ákvæði og var í l. um virkjun Lagarfoss, þ.e. að óski sveitarstjórnir á Norðurl. v. að gerast eignaraðilar að Svartárvirkjun og öðrum orkuverum á orkusvæðinu, er ráðh. heimilt að gera samninga þar um fyrir hönd Rafmagnsveitna ríkisins. Hérna er sett fram ósk um eignaraðild sveitarfélaganna. Ég aðhyllist mjög þá skoðun, að það geti verið heppilegt, að sveitarfélögin eigi aðild að vatnsaflsvirkjunum. Upphaflega var það nú svo, að þau áttu víða frumkvæði að vatnsaflsvirkjununum, en hér stendur líka þannig sérstaklega á, að á vegum sýslunefnda Húnavatns og Skagafjarðarsýslna ásamt Sauðárkrókskaupstað hefur nú í nokkur ár verið starfandi raforkumálanefnd. Sveitarfélögin þarna hafa þess vegna haft frumkvæði í að koma þessu máli fram, og á vegum þessarar raforkumálanefndar hefur ráðgjafarfyrirtækið Virkir h.f. hannað virkjun í Svartá við Reykjafoss í Skagafirði, og orkumálastjórnin hefur í öllum aðalatriðum fallizt á þá hönnun, sem fyrir liggur.

Það hefur komið fram, að sumum finnst lítið til virkjunar eins og Svartárvirkjunar koma og hæðast að smæð hennar. En ég er ekki viss um, að fólkinu, sem á að njóta þessarar virkjunar, komi til hugar að hæðast að smæð svona virkjunar, því að hér er um að ræða 3500 KW virkjun. Gönguskarðsárvirkjunin, sem hefur verið virkjuð og menn hafa notið, að ég hygg, góðs af í Skagafirði, er 1064 KW virkjun. Laxárvatnsvirkjun, sem þarna er líka, er 464 KW, svo að vatnsaflsvirkjanir þarna á svæðinu eru 1528 KW. Dísilstöðvar framleiða alls 3500 KW, og þá sjá menn strax í hendi sér, að það svæði er ekki vel sett, þar sem vatnsaflsvirkjanir framleiða 1500 KW, en dísilstöðvar 3500 KW. En Svartárvirkjunin er, eins og ég sagði áðan, 3500 KW, og er gert ráð fyrir að koma þarna til hjálpar og fullnægja svæðinu um tiltekið árabil. Ég get líka getið þess, að Skeiðsfossvirkjun, sem er eign Siglufjarðarkaupstaðar, er að stærð 3200 KW og hún hefur vissulega gert mikið gagn á þeim tíma, sem hún hefur verið rekin. Nú er svo komið, að Skeiðsfossvirkjunin er fullnýtt og á Siglufirði er dísilstöð 1000 KW að stærð, en Siglfirðingar, sem eiga þessa virkjun, áforma að stækka Skeiðsfossvirkjunina.

Það er rétt, að þar sem þannig háttar til, að hægt er að koma við stórvirkjunum, þá veita þær ódýrari orku en minni virkjanirnar, en við erum bara þannig settir, að á sumum stöðum getum við ekki ráðizt í stórvirkjanir. Í framtíðinni kann það að verða svo, að veitukerfi landsins verði meira eða minna tengt saman, en það getur orðið nokkuð langt að bíða þess, og það verður að hagnýta vegna þarfa fólksins úti í hinum dreifðu byggðum þá möguleika, sem beztir eru fyrir hendi til smávirkjana, meðan ekki er völ á öðru. Verði þetta frv. að lögum, þarf að ganga í þessa samningagerð, sem ég talaði um áðan. Það þarf líka að undirbúa fjáröflun til framkvæmdanna og ganga endanlega frá hönnuninni, sem hins vegar er mikið til lokið. Og þetta tekur allt nokkurn tíma. Þess vegna tel ég mér ekki fært að fullyrða á þessu stigi málsins, hvenær virkjunarframkvæmdir gætu hafizt, en það er auðvitað fyrst hægt að ganga af alvöru í samningagerðina við ýmsa aðila, hefja fjárhagslegan undirbúning og kanna fjáröflunarleiðir, þegar stjórnin hefur fengið þá heimild, sem veitt er með þessum lögum. Þess vegna væri mér það mjög kært, að frv. gæti, eins og nú er komið, náð fram að ganga í þessari hv. d.

Ég vildi svo mega leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.