22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (1426)

179. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þar sem ég á sæti í þeirri n., sem þetta mál var til afgreiðslu í, og ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, vil ég, að það komi fram hér, hvers vegna ég gerði það. Fyrir n. höfðu komið tvær till. um þetta mál, þegar n. var að athuga frv., og það hefur nú verið talað hér fyrir báðum þessum till. Fyrri till. fluttu þeir hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, 4. þm. Reykv., og Sigurvin Einarsson, 1. þm. Vestf., um, að það skuli gerðar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir mengunarhættu af völdum verksmiðjunnar. Ég held, að við eigum að fara svo með allan rekstur, þar sem því verður við komið, og þess vegna mun ég greiða þessari till. hiklaust atkv. Hin till. er frá hv. 5. þm. Vesturl. og er um það að setja á fót samstarfsnefnd hjá starfsliði fyrirtækisins og stjórn þess. Það vill nú svo til, að þó að ég hafi verið undanfarin ár bóndi, þá hef ég verið í þéttbýli mestallt mitt líf og unnið einmitt í stórum fyrirtækjum, og ég er þess fullviss, að oft og tíðum væri hægt að leysa ýmis mál, ef svona samstarfsnefndir væru starfandi hjá þessum fyrirtækjum, sem annars mundu ekki leysast. Ég held, að þetta sé einmitt það, sem koma skal, og mæli því eindregið með því, að þessi till. verði samþ. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta frekar.