22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

179. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég stend upp, eins og tveir hv. síðustu ræðumenn, til þess að lýsa yfir stuðningi mínum við þær brtt., sem fluttar eru við frv. þetta. Það er í fyrsta lagi brtt. á þskj. 504 frá hv. þm. Þórarni Þórarinssyni og Sigurvin Einarssyni, að þess skuli jafnan gætt, að ekki stafi mengunarhætta af rekstri Áburðarverksmiðjunnar. Ég hygg, að enginn ágreiningur geti orðið um þessa till. Aftur á móti hefur komið upp ágreiningur um till. frá hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal. Í till. er lagt til, að komið verði á samstarfsnefnd við Áburðarverksmiðjuna. Ég hef áður í sambandi við umræður um atvinnulýðræði lýst yfir stuðningi við þessa hugmynd um samstarfsnefndir, en þá var til umræðu Sementsverksmiðja ríkisins. Mér virðist sjálfsagt, að samstarfsnefndum verði komið á, eins og gert er ráð fyrir í till. þessari um samstarfsnefnd við Áburðarverksmiðju ríkisins. Hv. flm. þessarar till., Benedikt Gröndal, var í þeirri n., sem endurskoðaði lögin um Sementsverksmiðjuna, og flutti þar till. um það, að inn í lögin yrði tekið ákvæðið um samstarfsnefnd. Sú till. fékkst ekki samþykkt í þeirri n., og ber að harma það. Og hygg ég, að hann hafi þar fengið að kenna á því, hvernig sú n. var skipuð, þó að hann hafi enn ekki opinberlega kvartað yfir því, hversu ólýðræðislega til hennar var stofnað, en hann átti þar sæti einn Alþfl.-maður með þremur sjálfstæðismönnum, og er ekki ósennilegt, að hann hafi saknað kannske fulltrúa frá öðrum flokkum til þess að styðja sig í þessu máli í n. En það er önnur saga.

Ég stend sem sé upp til þess að lýsa yfir fullum stuðningi við þá till., sem hann flytur varðandi Áburðarverksmiðjuna um samstarfsnefnd þar. Ég tel þetta vera alveg sjálfsagt mál, og mér liggur við að segja, að þetta sé nokkurs konar prófmál á einlægni manna varðandi atvinnulýðræði og það sannist enn, að flokkur sá, sem lagði til þrjá fulltrúa á móti einum fulltrúa Alþfl. í n. til að undirbúa sementsverksmiðjulögin, sé ekki heill í þessu máli. Ég vil nú reyndar segja, að þetta sé táknrænt að fleira leyti en þessu. Mér sýnist, að þörfin á því, að samstarfsnefndum verði komið upp hjá fyrirtækjum — í tilraunaskyni skulum við segja í sambandi við Sementsverksmiðjuna og Áburðarverksmiðjuna — sé mjög mikil og það mein, sem þar er við að stríða, snerti raunar þjóðfélagið sjálft. Það er mjög kvartað undan því, að lítið samband sé milli almennings í landinu og þeirra, sem þjóðfélaginu stjórna. Og almenningi finnst oft, að á skorti lýðræðislegt viðhorf af hálfu þeirra, sem þjóðfélaginu stjórna, gagnvart almenningi. Mér virðist, að hér komi það vandamál fram í hnotskurn, hvort menn eru yfirleitt einlægir í afstöðu sinni til þess að bæta hér um, auka áhrif almennings og þá um leið koma á nánara samstarfi milli þeirra, sem stjórna, og almennings.

Það kom fram, að stjórn Áburðarverksmiðjunnar hefði út af fyrir sig ekkert við það að athuga, þó að komið yrði á samstarfsnefnd í Áburðarverksmiðjunni, og hv. flm. brtt. lagði töluvert mikið upp úr því, og það var full ástæða til. En ég legg þó miklu meira upp úr öðru, og það er það, að þar sem ég þekki til og þar sem við þekkjum báðir mjög vel til — í Sementsverksmiðjunni — er þetta einlægur vilji starfsliðsins þar. Og í því tilfelli legg ég fullt eins mikið, ef ekki meira, upp úr afstöðu og vilja starfsliðsins en stjórnar fyrirtækisins. Ég mæli sem sé eindregið með því, að við samþykkjum þetta frv.