22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1429)

179. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Hér hafa orðið talsverðar umr. um brtt. frá hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal, um samstarfsnefndir í Áburðarverksmiðjunni. Ég vil af þessu tilefni alveg sérstaklega taka það fram, að ég tel þetta góða og gagnlega till. og mun fylgja henni. Það er rétt, sem fram kom hjá hv. þm., að um atvinnulýðræði hefur verið rætt hér á landi, þ. á m. innan stjórnmálaflokkanna líklega allra meira og minna; og ég hygg, að það sé rétt, sem hann segir, að þessi hugmynd eigi hljómgrunn innan allra stjórnmálaflokkanna og ég vil taka það fram í þessu sambandi, að innan Framsfl. hafa þessi mál verið rædd, og óhætt er að segja, að hugmyndin um atvinnulýðræði á þar mikinn hljómgrunn. Eitt form þessa atvinnulýðræðis, sem er að vísu ákaflega víðtækt hugtak, eru þess háttar samstarfsnefndir stjórnar og starfsmanna, sem hér er gerð till. um. Það má náttúrlega segja, að hér sé um að ræða mjög óbrotið form atvinnulýðræðis, en hins vegar er ekki óeðlilegt, að þegar við erum að feta okkur áfram í þessum efnum, þá sé farið inn á þessa leið. Ég vildi lýsa stuðningi mínum við þessa till. í öllum meginatriðum.

Hér hafa orðið deilur um það, hvort rétt sé að lögfesta ákvæði um samstarfsnefndir eða ekki, og af því tilefni vil ég taka það fram, að út af fyrir sig tel ég ekki nauðsynlegt og ekki rétt að fara að lögfesta í almennum lögum slíkar samstarfsnefndir í fyrirtækjum. En hins vegar finnst mér það mjög eðlilegt, að í löggjöf um atvinnufyrirtæki ríkisins séu ákvæði um þess háttar samstarfsnefndir, og þess vegna er ég fylgjandi þeirri till., sem hér hefur komið fram hjá hv. 5. þm. Vesturl., og ég geri talsverðan greinarmun á því, hvort um er að ræða löggjöf af þessu tagi eða almenna löggjöf um samstarfsnefndir í atvinnufyrirtækjum, sem þá mundi gilda um öll fyrirtæki. Á þessu vil ég gera skýran greinarmun — ekki sízt eftir að hafa hlýtt hér á ræðu hæstv. landbrh., sem annars virtist vera fylgjandi því, að samstarfsnefndir yrðu teknar upp í ríkisfyrirtækjunum, a.m.k. í Áburðarverksmiðjunni, og benti á, að vilji væri fyrir því í stjórn verksmiðjunnar, að svo mætti verða. En ég vildi alveg sérstaklega fyrir mitt leyti taka undir þessa till. og lýsa stuðningi mínum við hana.