22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

179. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég gat ekki verið viðstaddur í landbn., þegar þetta mál var þar afgreitt, en kem hér upp til þess hvort tveggja að lýsa stuðningi mínum við frv. til laga um Áburðarverksmiðjuna og einnig stuðningi við þær brtt., sem komið hafa fram við frv. og hér hafa verið ræddar. Ég vil sérstaklega vegna till. þeirra hv. þm. Þórarins Þórarinssonar og Sigurvins Einarssonar minna á, að nú fer fram mikil endurskipulagning á Áburðarverksmiðjunni og endurbygging, og það er alveg sérstök ástæða til, þegar svo stendur á, að hafa einmitt vara á þessum málum; það eru áreiðanlega engar ásakanir í garð Áburðarverksmiðjunnar í þessum efnum. Það verður að segjast, að sem verksmiðjulóð eða sem verksmiðjustaður hefur hún að ýmsu leyti verið til fyrirmyndar, hvað allan þrifnað bæði innan húss og utan áhrærir, um aðbúnað og annað slíkt. Þó að menn séu hins vegar búnir að sjá hinn brúna reyk í allmörg ár stíga upp af verksmiðjunni, þá hafa menn sjálfsagt ekki gert sér grein fyrir, að í þessum reyk lægi jafnmikil mengunarhætta og nú hefur verið upplýst, og tel ég víst, að forráðamönnum Áburðarverksmiðjunnar hafi heldur ekki verið það ljóst og því hafi hann nú fengið óheftur að streyma út í andrúmsloftið öll þessi ár, en vonandi er sem sé, að á því verði endir og þess verði einnig sérstaklega gætt nú, þegar verið er að byggja mikið við verksmiðjuna, að þessi hættumerki séu einmitt höfð í huga og komið í veg fyrir í tíma, að þar hljótist vandi af.

Varðandi till. hv. 5. þm. Vesturl. vil ég segja það, að ég er henni fylgjandi. Ég vil hins vegar taka það fram, að það hefur yfirleitt verið afstaða verkalýðshreyfingarinnar hér, að slík mál sem þessi — hið svokallaða atvinnulýðræði og samstarfsnefndir á vinnustöðum, sem að vísu hefur verið rætt nokkuð í verkalýðsfélögunum, en ekki mikið að gert enn, sem komið er — ætti að taka upp á samningsgrundvelli milli aðila. Það hefur einnig verið stefna verkalýðshreyfingarinnar hér í nágrannalöndunum, en þó engan veginn þannig, að útilokaður væri sá möguleiki, að löggjafinn léti málið til sín taka — síður en svo. Þessi almenna afstaða markast fyrst og fremst og einvörðungu af því, að það verður að segjast, að það er reynsla verkalýðshreyfingarinnar, að þegar löggjafinn ætlar að fara að skipa málum hennar, þá eru honum oft hræðilega mislagðar hendur. Það er þessi ótti, sem ræður því, að verkalýðshreyfingin hefur ekki verið á því fyrst og fremst, að þessum málum ætti að skipa eftir leiðum löggjafans.

Það hefur verið minnzt hér á og vitnað í skýrslu fimm manna, sem fóru á ráðstefnu í Noregi í vetur, sem fjallaði einmitt um mál skyld þessum, og lesnir upp úr henni kaflar, sem eru taldir renna stoðum undir, að ekki eigi að festa þau ákvæði í lögum um Áburðarverksmiðjuna, sem hér er gerð till. um varðandi samstarfsnefnd. Ég vil aðeins geta þess, að þessi skýrsla er samin af fimm mönnum. Þar af eru tveir, sem voru frá verkalýðshreyfingunni, en hinir frá samtökum atvinnurekenda og ríkisstj. Þessi skýrsla lá fyrir á fundi í miðstjórn Alþýðusambandsins nú fyrir mjög stuttu síðan. Þar var lítillega ræddur sá kafli, sem hér var lesið upp úr áðan. Á þessum fundi kom fram mjög áberandi, að einmitt var afdráttarlaust talað um samningsleiðina og ekki annað og jafnvel, að löggjafarleiðin gæti orðið til trafala þessum málum, og einnig var eindregið látið í ljósi af nokkrum fundarmönnum, að ekki bæri að taka svo einstrengingslega afstöðu gegn því, að löggjafinn fjalli um þessi mál eins og þarna kemur fram. Enda trúi ég nú, að fulltrúar atvinnurekendasamtakanna eigi þarna miklu stærri hlut að máli en þeir tveir menn, sem voru frá verkalýðshreyfingunni. Það var einmitt getið um það hér — hæstv. landbrh. gerði það í ræðu áðan að einn af þessum mönnum, flokksbróðir hv. 4. landsk., hefði talið það eðlilegra að hafa þetta frjálst, en ekki lögbundið, og þá hefur hinn líka í sama flokki og þeir væntanlega einnig lítið svo á. Ég hef rætt þessi mál við hann, og einmitt á þessum fundi bar ekkert í milli, en hins vegar sagði hann, að það hefði verið sótt mjög fast af hálfu fulltrúa atvinnurekendasamtakanna að hafa þessa túlkun mjög afdráttarlausa.

En varðandi þetta tiltekna mál hér vil ég endurtaka það, að ég er fylgjandi þessari till. Ég þekki vel til í Áburðarverksmiðjunni, hef fylgzt þar með málum frá því, að bygging hennar hófst, og átt þátt í öllum samningum, sem þar hafa verið gerðir við verkamenn, og þekki vel til aðstæðna á vinnustaðnum og einnig til afstöðu forráðamanna fyrirtækisins. Ég vil ekki skoða þessa till. — og veit ekki til heldur, að neinn mundi nú gera það — sem einhverja sérstaka ásökun á forráðamenn Áburðarverksmiðjunnar í þessum efnum, þ.e. að það væri ekki kannske alveg sérstök brýn nauðsyn til þess, að slík n. yrði sett á stofn við það fyrirtæki. Ég tel þvert á móti samkv. minni reynslu, að það sé síður en svo vegna afstöðu forráðamanna Áburðarverksmiðjunnar ástæða til að setja svona samstarfsnefnd til þess beinlínis að ráða fram úr einhverjum sérstökum vandamálum, sem þar væru fyrir hendi. Yfirleitt hefur verið mjög lítið um árekstra á þessum vinnustað og svo hefur það verið frá því, að lauk fyrstu samningagerð. Hún var erfið, og þá urðu býsna miklir árekstrar, en eftir að fyrstu samningar voru gerðir við fyrirtækið, hefur verið mjög gott samstarf milli bæði starfsmanna og þeirra verkalýðsfélaga, sem þarna eiga hlut að máli. Einnig sú samþykkt stjórnar Áburðarverksmiðjunnar, sem hér var kynnt áðan, ber það með sér, að stjórnin er viljug til þessa verks.

En eftir að þessi till. er komin fram og Alþ. ekki tekur jákvæða afstöðu til hennar, þá gætu menn farið að spyrja: Hvað er það, sem Alþ. vill í þessum efnum? Er Alþ. andvígt því, að slíkar samstarfsnefndir séu reyndar? Ég held, að þá sé alveg nauðsynlegt, að einmitt eftir að þessi till. er fram komin — það má svo deila um það, hve áríðandi og nauðsynlegt það var, að hún kom fram — þá mundi það að mínum dómi torvelda mjög, að yfirleitt yrði tekið á réttan hátt á þessum málum um samstarfsnefndir og annað, er varðar atvinnulýðræði. Þetta er aðeins einn þáttur þessa stóra máls, en fjarri er nú, að menn séu sammála um alla þætti þess, en hér er um einn þátt að ræða, sem hefur í flestum löndum, að því er ég veit bezt, verið byrjað á. Þetta er eiginlega grunnþáttur, sem verður að byrja á, ef menn ætla að fikra sig áfram eftir vegum atvinnulýðræðis til þess að koma á verulegu atvinnulýðræði.

Ég held einmitt, að þessi vinnustaður, sem hér um ræðir, sé mjög vel til þess fallinn að hefja þetta starf. Eins og ég gat um áðan, þá er ekki þarna um stórvægilega árekstra að ræða. Það er yfirleitt mjög gott andrúmsloft milli forráðamanna og starfsmanna, og það virðist sem forráðamenn séu engan veginn andvígir því, að svona samstarfsnefnd væri komið á laggirnar og þess vegna sé þetta einmitt góður vinnustaður til þess að gera þessa tilraun, mjög góður, og Alþ. eigi að stíga þetta skref. Áreiðanlega er miklu erfiðara að koma svona samstarfsnefndum á, þar sem kannske allt logar í illdeilum á milli starfsmanna og stjórnenda fyrirtækisins. Það má kannske segja, að nauðsynin sé meiri þar, en erfiðleikarnir væru áreiðanlega miklir á að hefja þetta starf. Það má segja það, að það væri auðvitað hægt að koma svona samstarfsnefnd á með samkomulagi milli viðkomandi aðila — beinu samkomulagi. En fyrst og fremst hefur það ekki gerzt, og vafamál er, hvort það yrði gert, nema því aðeins að þessi till. verði samþ., því að verði hún ekki samþykkt, þá teldi ég, að það væri eins konar yfirlýsing Alþ. um það, að það þurfi ekkert að flýta sér í þessum efnum og þau séu svona og svona áríðandi og Alþ. hafi ekki viljað og vilji ekki neitt sérstaklega ýta undir það, að slíkum samstarfsnefndum yrði komið á laggirnar.

Ég vil sem sé ítreka stuðning minn við frv. og báðar þær brtt., sem fram hafa komið.