22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (1433)

179. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið hér við, þegar umr. um þetta mál hófst í hv. d., en þar sem nokkuð hefur verið vitnað til þeirrar skýrslu, sem ég meðal annarra undirritaði, þegar ég sat þessa umræddu ráðstefnu í Ósló, sem vitnað hefur verið til, sem annar fulltrúi ASÍ, þá vil ég aðeins undirstrika þau lokaorð, sem koma fram í skýrslunni og eru megintillaga þátttakendanna í ráðstefnunni. Og þar er fyrst og fremst og aðallega skýrt frá, að heildarsamtökin, sem áttu fulltrúa í þessari ráðstefnu, komu sér saman um að stofna n. til þess að gera drög að málefnasamningi um samstarfsnefndir. Þetta voru sem sé fulltrúar ASÍ og fulltrúar Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambandsins — eða sem sé stærstu aðilarnir, sem gera svokallaða frjálsa samninga á vinnumarkaðinum. Persónulega hef ég alltaf litið þannig á, að á nokkuð annan veg þyrfti að líta á ríkisfyrirtæki, opinber fyrirtæki og reyndar bæjarfyrirtæki líka. Og vegna þeirra umr., sem hafa orðið um þessa brtt. frá hv. þm. Benedikt Gröndal, þá er ég í sjálfu sér ekkert hræddur um, að það sé verið að spilla fyrir með því að samþykkja þessa till.

Ég tek nokkuð undir skoðanir hv. 2. landsk. þm. á því, að ef þessi till., eins og hún er þarna, yrði felld, þá mætti lesa úr því afstöðu Alþ. gagnvart málinu; ég skal viðurkenna það. Hins vegar hefði mátt afgreiða hana líka á þann veg að vísa henni til ríkisstj. með mjög jákvæðum undirtektum, því að ég tel, að það sé ekki síður þörf á því, að málefnasamningur verði gerður milli hins opinbera og t.d. BSRB varðandi slíkar n. En nú er, eins og hefur komið fram, um sérstöðu þessa fyrirtækis að ræða, og það er einmitt vegna þess, sem ég hef borið nokkurn ugg í brjósti vegna samþykktar þessarar till. Þarna er um blandað starfslið að ræða bæði opinbera starfsmenn og svo starfsfólk, sem er úr þó nokkuð mörgum verkalýðsfélögum, má ég segja. Og það, sem ég hef aðallega verið að hugsa um í sambandi við þessa brtt., er, hvernig ætti að skipa samstarfsnefndina af hálfu starfsfólksins. Hverjir eiga að velja þessa þrjá aðila? Er það eitthvert eitt verkalýðsfélag eða þrjú stærstu verkalýðsfélögin? Eiga það að vera aðilar frá þeim félögum, sem gera svokallaða frjálsa samninga? Eða eiga hinir opinberu aðilar að eiga þarna líka aðild að, sem ég tel sjálfsagt? Eða er þarna eitthvert traust og gott starfsmannafélag, sem getur tekið þetta að sér, og mundi það þá verða viðurkennt af verkalýðsfélögunum, sem gera samningana? Það er aðallega þetta, sem ég hef horft á og hef þess vegna talið, að gagnvart slíkum fyrirtækjum sem öðrum á hinum frjálsa vinnumarkaði, sem þetta er á nokkurn hátt, þyrfti að gera slíka málefnasamninga.

Ég hef aldrei verið hræddur við það hins vegar, að ríkisvaldið hefði afskipti af þessu máli og aðstoðaði, eins og ég tók fram í þeim umr., sem urðu hér um Sementsverksmiðjuna um daginn. Ég lagði það sjálfur til hér á Alþ. fyrir 10 árum, að það einmitt beitti sér fyrir að kanna starfsgrundvöll slíkra n. og reyndi að koma aðilum vinnumarkaðarins saman til þess að gera slíkan málefnasamning. Því miður hefur lítið út úr því komið, þótt ég vænti þess, að af þessu geti orðið á næstunni. Það er mikill og vaxandi skilningur beggja aðila á nauðsyn þessa, og með því að vitna til þessarar ágætu skýrslu — og í henni koma fram mínar skoðanir eins og annarra þeirra, sem tóku þátt í þessari ferð — þá mun ég auðvitað stuðla að því, að svo geti orðið.

En eins og ég segi, tel ég ekki, að þetta geti skaðað málið sjálft, þó að þessi till. verði samþ. Hins vegar hefði ég viljað, að það yrði gengið á undan með slíkar samþykktir í opinberum fyrirtækjum eða bæjarfyrirtækjum, þar sem um hreina aðild opinberra starfsmanna er að ræða annars vegar, því að í þessu tilfelli geta vissulega komið upp vandamál. Ég hefði t.d. talið, að vegna þess að fyrir hv. Ed. liggur frv. um almennar tryggingar, hefði það verið alveg tilvalið, að þingið hefði t.d. sett inn ákvæði um Tryggingastofnun ríkisins. Þar væri samstarfsnefnd, og þá gæti annar aðilinn verið forstjóri og tveir aðilar tryggingaráðs, en svo þrír aðilar á móti frá starfsfólkinu. Sjálfsagt verður fyrir Alþ. að samþykkja slíka till. En ég hefði persónulega óskað, að séu menn ekki almennt á því, að þetta geti skaðað málefnið sjálft, hefði till. þessari verið vísað til ríkisstj. með ósk um það, að samtökin, BSRB og ríkisvaldið, tækju upp samninga um málefnasamning um samstarfsnefndir, sem síðan gæti leitt til þess, að slíkar n. yrðu settar upp ekki aðeins í opinberum fyrirtækjum, heldur hálfopinberum líka. Ég mun með hliðsjón af þessu ekki greiða atkv. um till.