22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

179. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er ósköp lítið, sem ég þarf um þetta að segja. Mér finnst, að hv. þm., sem talað hafa hér, hafi ekki gert sér alveg grein fyrir því, að takmarkið næst, þótt þessi till. væri dregin til baka, og það væri vitanlega það eðlilegasta úr því, sem komið er, því að fyrir hv. flm. hefur vitanlega það eitt vakað að koma þessari samstarfsnefnd á í Áburðarverksmiðjunni, sem hér um ræðir. Nú hefur verið tekið undir það, sem ég sagði hér áðan, að vinnuandinn í Áburðarverksmiðjunni er sérstaklega góður og sízt ástæða til þess þar að koma á samstarfsnefnd með lögfestingu. Það var spurt að því hér áðan, hvers vegna þetta hefði ekki verið gert fyrr, þ.e. að koma á samstarfsnefnd í Áburðarverksmiðjunni, sem búin er að starfa í 16 ár. Það hefur ekki verið óskað eftir því fyrr, og eins og hér hefur verið sagt af svo mörgum, hefur ekki verið bein ástæða til þess, vegna þess að þarna hafa ekki verið neinir alvarlegir árekstrar á milli starfsfólksins og ráðamannanna. Þess vegna hefur það ekki verið gert.

En það var sagt hér áðan, að það væri sérstaklega hentugt að byrja á þessum stað með lögfestingu vegna þess, hvað þarna væri góður andi ríkjandi. Og mér finnst þetta ekki eiginlega alveg rökrétt. Mér finnst það ekki rökrétt að velja þann stað til lögfestingar, sem sízt hefur þörf fyrir þetta og býðst til þess að koma þessu á með frjálsu samkomulagi. Ég hefði heldur viljað snúa því við og segja: Þessi vinnustaður hefur verið til fyrirmyndar, og hann skal vera áfram til fyrirmyndar með því að vera fyrsti staðurinn, sem kemur á samstarfsnefnd með frjálsu fyrirkomulagi, þó að á þeim stað þurfi sízt að lögfesta. Þessi vinnustaður ætti að vera til fyrirmyndar á þennan hátt. En út af fyrir sig vil ég ekki gera þetta að kappsmáli, vegna þess að það er ástæðulítið, en vinnubrögðin eru ekki með eðlilegum hætti að lögfesta slíkt, þar sem þess gerist ekki þörf. Og enda þótt hv. 2. landsk. þm. hafi sagt það hér áðan, að það væri á engan hátt verið að stefna þessu að forráðamönnum Áburðarverksmiðjunnar og það fælist ekkert vantraust til þeirra í því að lögfesta þetta, þá er ég ekki grunlaus um það, að þeim finnist á vissan hátt að sér vegið óverðskuldað. Ég er ekki grunlaus um það.

Það hefur verið sagt, að það væri ekki gott, ef Alþ. felldi þessa till., vegna þess að þá mætti túlka það svo, að Alþ. væri yfirleitt á móti því að koma samstarfsnefndum á. Í fyrsta lagi teldi ég enga þörf á því að láta atkv. fara fram um till., eftir að yfirlýsing stjórnar Áburðarverksmiðjunnar liggur fyrir. Og í öðru lagi er það svo, að þeir, sem greiða atkv. á móti till., gera það með því að vísa til bréfs stjórnar Áburðarverksmiðjunnar og þess, að samstarfsmenn hjá Áburðarverksmiðjunni komist af, hvað sem um þessa till. verður. Og ég vil benda á það í sambandi við það, sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði hér áðan, að þessi till. snertir aðeins l. um Áburðarverksmiðjuna, en ekki Sementsverksmiðjuna. Ef um það væri að ræða að greiða atkv. um slíka till., sem snerti sementsverksmiðjulögin, og stjórn Sementsverksmiðjunnar lýsir sig ekki fúsa til að beita sér fyrir samstarfsnefnd þar, þá er ég reiðubúinn til þess að greiða atkv. með slíkri till., vegna þess að ég er því fylgjandi, að samstarfsnefndir sem þessar komist á í fyrirtækjunum. Ég tel, að það geti haft góð áhrif á vinnubrögðin og þann anda, sem þarf að ríkja á milli forráðamannanna og starfsfólksins.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að segja fleira um þetta. Mér skilst, að allir hv. dm. séu því fylgjandi að koma slíku atvinnulýðræði á, sem hér um ræðir, og þeir séu allir því fylgjandi að koma á samstarfsnefndum, en það lítur út fyrir, að okkur greini á um leiðir. Sumir okkar vilja láta frjálst samkomulag ráða, þar sem því verður við komið. En aðrir vilja lögfesta, hvort sem hægt er að ná sama árangrí með frjálsu samkomulagi eða ekki. Og það er þar, sem skilur á milli.