19.11.1970
Neðri deild: 21. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

75. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og um var talað við 2. umr. þessa máls, þá hefur landbn. skotið á fundi til að athuga tvær brtt., sem komu fram við frv. á þskj. 119. Landbn. taldi sig ekki geta stutt þessar till., og er það afstaða n. í heild, þó að einstakir menn í n. leggi til, að þær verði samþ. Till. eru svo hljóðandi:

1. Við 1. gr. Í stað orðanna „1. nóv.“ komi: 20. okt.

2. Á eftir 2. gr. komi svofellt ákvæði til bráðabirgða: Þeir, sem hafa lokið böðun sauðfjár á þessum vetri (1970–1971), áður en lög þessi öðlast gildi, skulu undanþegnir skyldu til sauðfjárböðunar veturinn 1971–1972 samkvæmt ákvæði 1. gr. laga þessara.

Persónulega lít ég svo á, að fyrri brtt. um það að færa ákvæðið um böðunartímann um 10 daga hafi ekki nein áhrif hvorki til góðs né ills og sé því meinlaust að samþykkja þá brtt. Hins vegar er allt öðru máli að gegna um hina till., þar sem gert er ráð fyrir því, að einstakir menn, sem kunna að hafa baðað, áður en lög þessi öðlast gildi, þurfi ekki að baða á næsta ári, þegar allsherjarböðun fer fram. Það brýtur algerlega í bág við tilgang þeirra laga, sem nú gilda um sauðfjárbaðanir, sem sé þann, að böðun fari alls staðar fram á sama vetri um allt land. Þess vegna er ég eindregið á móti því, að seinni liður þessara brtt. verði samþykktur.