22.10.1970
Neðri deild: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

19. mál, veiting ríkisborgararéttar

Dómsmrh. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Með þessu frv. er lagt til, að tíu tilgreindum einstaklingum verði veittur íslenzkur ríkisborgararéttur. Um einn þeirra, þann fyrsta í töluröðinni, gildir þó samkv. frv. það, að hann skuli öðlast réttinn 23. okt. 1971, en þá mun hann hafa fullnægt skilyrði um tímalengd búsetu í samræmi við þær reglur eða þau skilyrði allshn. beggja þd., sem vitnað er til í aths. með frv.

Frv. um veitingu ríkisborgararéttar eru flutt á hverju þingi. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þetta frv. Hv. þm. er kunnugt um þær reglur, sem allshn. þd. hafa sett sér, sem að sjálfsögðu þó ekki binda þær, þar sem rétturinn er veittur með lögum hverju sinni. En ég vil aðeins bæta því við, að í rn. eru til athugunar nokkrar umsóknir og berast e.t.v. fleiri, og ef að vanda lætur, má búast við því, að þn., sem um málið fjalla, muni þá fá till. um fleiri aðila til viðbótar þeim, sem þegar eru í frv. Ég legg svo til, hæstv. forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.