02.04.1971
Neðri deild: 83. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

19. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það hefur liðið óvenjulangt á milli umr. um veitingu ríkisborgararéttar. Sá háttur hefur verið hafður á hjá allshn. þingsins, að umsóknir, sem hafa komið á milli umr., hafa verið teknar til greina, ef viðkomandi umsækjendur hafa uppfyllt þau skilyrði og reglur, sem settar eru fyrir veitingu ríkisborgararéttar, og hefur allshn. orðið sammála um að leggja til, að 16 aðilar til viðbótar við þá, sem samþykktir voru við 2. umr., verði nú teknir inn í 1. gr. frv. og þeim verði þar með veittur ríkisborgararéttur, en það eru samkv. brtt. n. 12 umsækjendur á þskj. nr. 715, einn á þskj. nr. 745 og þrír á þskj. nr. 760. Þegar frv. þetta var til umr. við 2. umr., þá var ég því miður ekki viðstaddur, þegar framhaldsumr. fóru fram. Þá tóku til máls tveir hv. þm., sem andmæltu mjög þeirri till., sem ég hef leyft mér ásamt hv. 9. landsk. þm., 3. þm. Vesturl. og 8. landsk. þm. að flytja þess efnis, að 2. gr. frv. orðist þannig:

„Börn þeirra, sem veittur er ríkisborgararéttur með lögum þessum, fá ekki ríkisborgararétt samkv. ákvæðum 6. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. l. nr. 100/1952, nema þau taki upp íslenzkt eiginnafn og kenninafn, samkv. l. um mannanöfn. Barni, sem fæðist, eftir að foreldri þess hefur fengið íslenzkt ríkisfang með lögum, skal gefið íslenzkt eiginnafn, og jafnframt skal það fá íslenzkt kenninafn.“

Það hafa þrír hv. þm. talað gegn þessari till. 1. þm. Norðurl. e. flutti hér langa ræðu og las upp úr 20 ára gamalli ræðu úr Alþingistíðindum, og honum tókst það prýðilega að öðru leyti en því, að honum tókst alls ekki að sannfæra mig um ágæti þeirrar gömlu ræðu. Það breytir ekki efni þessa máls, jafnvel þó að hann hafi fengið liðsstyrk tveggja ágætra manna, 1. þm. Austf. og 2. þm. Norðurl. v., við þessa ágætu lausn, sem Alþ. fann fyrir tæpum 20 árum, og þó að þeir telji nú, að öllu hinu íslenzka nafnkerfi sé gerbreytt og siglt í bráðan voða með samþykki þessarar till. Menn eru mismunandi íhaldssamir á það, sem þeir hafa fengið samþykkt. Jafnvel þó að það hafi verið fyrir 20 árum, vilja þeir halda í það dauðahaldi. Þessi heilaga þrenning, sem hér flutti sínar ræður um þessi efni, má auðvitað hafa sínar skoðanir á hlutunum, en ég breyti ekki minni afstöðu þrátt fyrir það.

Ég sé heldur enga ástæðu til þess að halda hér uppi löngum ræðuhöldum með lestri úr Alþingistíðindum, heldur finnst mér, að ganga eigi hreint til verks, þar sem menn hafa haft þessa till. það lengi — svo er guði fyrir að þakka, en þó alveg sérstaklega forseta Nd., því að hann hefur gengið á snið við þetta frv. og dagskrána nú marga daga í röð. Það hefur ýmist verið fyrsta eða síðasta mál á dagskránni, en honum hefur á meistaralegan hátt tekizt að fara svo í kringum þetta mál, að það hefur ekki komið hér til umr. í marga daga. En nú er loks sú stóra stund upp runnin, að þessir ágætu menn geta talað aftur gegn þessari till. og haldið fast við þá 20 ára venju, að enginn maður megi fá ríkisborgararétt, nema hann leggi niður nafn sitt, og það sé alveg stórkostlegt atriði fyrir hvern og einn, að til þess að fá ríkisborgararétt á Íslandi eigi honum ekki að vera neitt heilagt, — hann á að kasta nafni sínu, og það á að hafa verið með alveg sérstökum sóma, hvernig þessum málum hefur verið fyrir komið. Mig langar að minna þessa hv. þm. á það og kannske ekki síður aðra, að það, sem hefur verið í gildi, er ekki til sóma.

Ég ætla aðeins að segja frá einni umsókn. Ungri konu var veittur ríkisborgararéttur, og hún hafði ekki gert sér grein fyrir því, að hún þyrfti að skipta um nafn. Þegar kom að þeirri stóru stund, að hún þurfti að skipta um nafn, þá þótti henni vænna um nafnið sitt en ríkisborgararéttinn, en þó sérstaklega vænna um nafnið hennar ömmu sinnar, svo að hún vildi fremur sleppa því að verða íslenzkur ríkisborgari. Nú vill svo til, að þessi kona var fædd á Íslandi og átti íslenzkan föður. Þegar hún er á unglingsárum, flytur faðir hennar til Danmerkur og gerist þar danskur ríkisborgari, en unga stúlkan flytur til Íslands eitthvað 17–18 ára, og nú hafði hún glatað ríkisfangi sínu vegna þess, að faðir hennar var danskur ríkisborgari. Hún giftist íslenzkum manni, og hún á börn, en móðir hennar var dönsk, og hún var skírð í höfuðið á ömmu sinni, sem hét því ókristilega nafni Lúsía — með essi m.a.s. — og var Ásgeirsdóttir. En hún fær bara alls ekki ríkisborgararétt. Hún getur fengið hann, þó að hún sé Ásgeirsdóttir, en hún fær ekki ríkisborgararéttinn, af því að hún heitir Lúsía. Nú þætti mér gaman að spyrja eina vígða manninn á Alþ., sem er meðlimur í þessari heilögu þrenningu, sem talaði hér í þessu máli, hvort hann og hans starfsbræður hafi ekki skírt mörg börn óíslenzkara nafni en þessu. Ég veit, að prestar hafa skírt þessu nafni og einnig nafninu Lúsinda, og ég veit ekki hvað og hvað. Ég skal ekki segja um þennan ágæta vin okkar og eina prest, sem hér er. Það getur vel verið, að hann einn hafi hreinan skjöld í þessum efnum. En flestir íslenzkir prestar hafa skírt íslenzk börn nöfnum, sem hindra erlenda menn í að fá ríkisborgararétt, ef þeir bera þau.

Ég las ræðu hv. 1. þm. Austf. Þar segir hann, að brtt. okkar, þessara fjögurra, sem flutt er á þskj. 628, fái ekki staðizt og við séum að miða till. við frv., sem ekki sé orðið að lögum og mannanafnanefndin hefur samið, en okkar till. er í fullu samræmi við gildandi nafnalög. Hver er munurinn á því að leyfa manni, sem er erlendur ríkisborgari og fær réttindi til að vera íslenzkur ríkisborgari, að halda nafni sínu, og því að gera börnum hans, sem fæðast, eftir að hann fær íslenzkan ríkisborgararétt, skylt að bera íslenzkt eiginnafn og taka sér íslenzkt kenninafn? Hver er munurinn á því að skipa pabbanum ekki að taka upp íslenzkt kenninafn og því að láta barn hans taka það upp, þannig að þetta brjóti ekki þá hefð eða það nafnkerfi, sem við viljum allir og erum allir sammála um að halda í? Það er aðeins verið að játa þeirri staðreynd, að það sé ósanngjarnt að krefjast þessarar nafnbreytingar. Það er mjög táknrænt fyrir það dæmi, sem ég nefndi áðan, að þessi ágæta kona, sem ég nefni á systur, sem heitir Kristín, en hún giftist í Þýzkalandi og er búsett þar. Hún má auðvitað halda sínu nafni þar.

Mér finnst þetta vera furðuleg þröngsýni og þrákelkni að halda svona í þessa 20 ára gömlu samþykkt, sem var þá gerð að óskaplega miklu tilfinningamáli hér á Alþ. Það er rétt eins og verið sé að umturna íslenzkum nafnalögum, ef þetta kemst á. Og ég vil mjög gjarnan láta reyna á þetta. Auðvitað verða allir að taka því, hvort þeir verða í meiri hl. eða minni hl., hvort hér eru í meiri hl. í hv. þd. menn, sem vilja halda í þetta gamla kerfi, þennan 20 ára gamla óskapnað, sem Alþ. þá setti, eða hvort það eru frjálslyndari menn, sem nú skipa meiri hl. þessarar hv. þd., sem vilja játa þeirri staðreynd, að þetta hefur reynzt illa í framkvæmd. Ég hygg, að það sé ástæðulaust með öllu að eyða tíma þingsins í að lesa upp gamlar ræður, því að ég hygg, að þm. séu almennt það ákveðnir í skoðunum og hugsun, að þeir geti alveg tekið afstöðu til þessa máls, þó að bara sé miðað við líðandi stund.