02.04.1971
Neðri deild: 83. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

19. mál, veiting ríkisborgararéttar

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. til l. um veitingu ríkisborgararéttar liggur nú fyrir þessari hv. d. til 3. umr. Á milli umr. hefur allshn. enn ákveðið að bera fram till. um fleiri útlendinga, sem hljóta skuli íslenzkan ríkisborgararétt, en voru í frv. upphaflega. Sumt af því hefur verið ákveðið á nefndarfundi og sumt utan funda, en mun allt hafa fengið venjulega athugun og yfirleitt vera í samræmi við þær reglur, sem upp hafa verið teknar um skilyrði fyrir því að geta öðlazt íslenzkan ríkisborgararétt. Má þó vera, að um suma þá, sem hér er um að ræða, orki nokkuð tvímælis, hvort þar eru uppfyllt fyllilega skilyrðin, sérstaklega að því er varðar lengd dvalartíma hér á landi, en þá mun yfirleitt ekki vanta mikið upp á þann tíma, sem tilskilinn er samkv. þeim reglum, sem settar voru fram á sínum tíma um þetta efni. Ég ætla því ekki að gera aths. við þessar brtt., enda stend ég að þeim ásamt öðrum allshnm., en hitt vil ég segja, að ég hygg, að það væri rétt að endurskoða reglurnar, sem settar hafa verið um skilyrðin fyrir því að verða íslenzkur ríkisborgari. Það er nokkuð langt, síðan þær voru settar og því er náttúrlega ekki að neita, að þetta er nokkuð mikill fjöldi manna, sem fær þennan rétt á ári hverju. Ég gæti trúað því, að á undanförnum tveimur áratugum væri það nokkuð mikið á 2. þús. manns, sem hefur fengið ríkisborgararétt með lögum og frá ýmsum löndum. En þetta er nú almenn aths. varðandi framtíðina.

Þetta frv. um ríkisborgararétt er nú, eins og ég sagði, til 3. umr., en ef þær brtt., sem n. hefur borið fram um að bæta við frv. nýjum ríkisborgurum, verða samþykktar, þarf málið að fara aftur til Nd. Ég geri ekki ráð fyrir því, að það muni í sjálfu sér vera nein andstaða gegn því að afgreiða frv. eins og það nú liggur fyrir með þeim nöfnum, sem þar hafa verið tekin inn, og málið ætti því að geta gengið greiðlega gegnum þingið, ef ekki hefði komið fram við 2. umr. brtt., sem gerir í raun og veru þetta frv. að nýju máli — og það ágreiningsmáli — hér í þinginu. Ég vil eins og hv. síðasti ræðumaður beina því til hv. flm. brtt., sem hér liggur fyrir og tekin var aftur við 2. umr., hvort þeir geti ekki hugsað sér það að taka hana aftur. Það er ekki verið að fara fram á, að þeir breyti neitt skoðun sinni, en þeir taki hana aftur með tilliti til þess, að nú er orðið mjög áliðið þings og um þetta mál geti orðið töluvert miklar umr. bæði hér í d. og einnig í Ed. og er þá vandséð, að aðalefni frv., þ.e. veiting ríkisborgararéttarins, geti náð fram á þeim stutta tíma, sem eftir er af þingi.

Önnur ástæða, sem mér finnst vera til þess, að þeir ættu að geta hugsað sér að taka þessa till. aftur, er sú, að eftir því, sem upplýst hefur verið, hefur verið starfandi stjórnskipuð n. við endurskoðun nafnalaganna frá 1925 og sú n. mun þegar hafa skilað till., sem sennilega eru til athugunar í rn., og þessar till. virðast einhverjir þm. hafa séð eða vera kunnugir efni þeirra, t.d. 1. flm. brtt., sem hér er um að ræða við 2. gr. Mér sýnist, en vera má, að mér missýnist um það, að þessi till., brtt. við 2. gr. l., sé í raun og veru fram komin sem fyrsta skref í þá átt að afnema nafnalögin frá 1925 og íslenzkan nafnasið. Ef það fer svo, að útlendingum verði leyft að gerast hér ríkisborgarar með erlendum nöfnum, þá eru það í sjálfu sér nothæf rök gegn því að meina Íslendingum að bera íslenzk ættarnöfn, a.m.k. mundi einhverjum þykja það nothæf rök. Ég verð að segja það líka eins og fleiri hafa sagt, að ég efast um, að það sé framkvæmanlegt, sem í brtt. stendur, að leyfa hinum nýju ríkisborgurum að bera erlend nöfn — þeim, sem borgararéttinn fá, og ætla svo að taka þennan rétt af börnum þeirra. Ég efast um, að það reynist framkvæmanlegt, því að ég held, að það verði spurt, eins og einhver maður spurði um daginn: Hvers eiga börnin að gjalda? Þegar búið er að leyfa feðrum þeirra að vera íslenzkir ríkisborgarar með útlendum nöfnum, hví skyldi þá ekki einnig leyfa börnunum að halda nöfnum feðra sinna og mæðra. Þessi rök, held ég, að hljóti að koma fram á sínum tíma.

Ég las við 2. umr. upp úr ræðum, sem fluttar voru á Alþ. á árunum 1951 og 1952 um 2. gr. þessa frv., þegar hún var sett í lög. Nú eru gerðar tilraunir til þess að afnema hana og breyta henni. Ég las ekki eina ræðu, heldur tvær. Ég las kafla úr ræðu eftir þáv. form. allshn. þessarar d., sem flutti till. um íslenzku nöfnin, og ég las úr ræðu eftir þáv. menntmrh., sem var þessu máli fylgjandi. Og ég gerði þetta vegna þess, að í þessum ræðum voru mjög skýr rök í þessu máli, sem tekin voru gild þá og eru enn gild — hin sömu rök. Ég tók hérna með mér upp á borðið Alþingistíðindi B-deild frá 1925, og sé ég, að hv. 2. þm. Vestf. þykir nú nóg um, ef ég fer að lesa upp úr þeim. En ég ætla nú ekki að gera það, heldur aðeins minna á það, að þar eru ræður um þessi mál, sem hv. þm. og fleiri hefðu gott af að lesa.

Árið 1913 voru hér fyrst sett nafnalög, að ég ætla, og með þeim nafnalögum var eiginlega lagður grundvöllur að upptöku íslenzkra ættarnafna hér á landi, og sett var á laggirnar, ef ég man rétt, n. til þess að gera till. um íslenzk ættarnöfn, og þessi nafnanefnd skilaði áliti, sem var mjög umrætt á sínum tíma, þar sem gerðar voru till. um það, hvernig íslenzk ættarnöfn ættu að vera. Á þessum tíma frá 19l3 og fram yfir 1920 var töluvert um það, að íslenzk ættarnöfn voru tekin upp. En árið 1923 var það, að ég ætla, sem Bjarni Jónsson frá Vogi flutti frv. til nýrra nafnalaga og endurflutti síðan árið 1925. Það var frv. Bjarna frá Vogi að miklu leyti óbreytt, sem þá var samþ. og eru gildandi nafnalög hér á landi. Hann var frumkvöðull og forustumaður þessa máls. Og í þessum Alþingistíðindum hér eru enn athyglisverðar ræður um þetta.

Annar þingskörungur og þjóðkunnur maður, sem þá talaði í þessu máli, þá ungur maður og nýkominn á þing, Tryggvi Þórhallsson, gerði grein fyrir því, hvers vegna hann væri sammála Bjarna frá Vogi og vildi ekki hafa hér ættarnöfn. Hann færði fram ýmis rök fyrir því, og ein þeirra raka, sem mér þóttu sérstaklega athyglisverð, voru þau, að hann taldi, að íslenzkri ættfræði stafaði mikil hætta af því, ef ættarnöfn yrðu hér algeng. Hann taldi sem og fleiri gera, að hér á Íslandi væru alveg sérstök skilyrði til þess að stunda ættfræði sem vísindagrein, og benti á það til sérstakrar umhugsunar, að fyrsta bókin, sem rituð hefði verið á íslenzka tungu, fjallaði að verulegu leyti um ættfræði. Og nú er það svo á vorum tímum, að einnig mannfræðingar og læknar eru farnir að hafa sérstakan áhuga á ættfræðinni og sér í lagi hinni íslenzku ættfræði, vegna þess að með aðstoð ættfræðinnar er hægt að uppgötva mannfræðileg og heilsufræðileg sannindi. En því er ég að tala um nafnalögin frá 1925 og um ættfræðina, að ég held, eins og ég sagði áðan, að ef þessi till. yrði samþ., sem hér liggur fyrir, þá væri verið að stiga fyrsta skrefið í þá átt að innleiða ættarnafnasið að nýju á Íslandi — þennan sið, sem til stóð að innleiða með nafnalögunum 19l3, en síðan var ákveðið með nafnalögunum frá 1925 að standa gegn, að innleiddur yrði. Það getur vel verið, að þeir, sem vilja halda við íslenzkum nafnasið — og ég hygg, að það sé enn sem komið er nokkuð mikill meiri hl. þjóðarinnar — lúti í lægra haldi, þegar tímar liða. Það getur vel verið, að þeir Íúti í lægra haldi, sem vilja vernda íslenzka tungu, að það verði fleiri en hv. 2. þm. Vestf., sem kallar slíkt íhald, og veit ég raunar ekki, hvort það var það, sem hann var að kalla íhald, en hann var eitthvað að tala um íhald í því sambandi, enda er hann talinn íhaldsmaður. En það getur verið, að á komandi tímum verði það einhverjir, sem telja það íhald að vilja vernda íslenzka tungu og íslenzkt þjóðerni. Því miður getur það vel farið svo. En ég vona nú, að það verði ekki.

Það er töluvert talað um það, að það sé tilfinningamál fyrir útlenda menn, sem hér gerast ríkisborgarar, að fá að halda nafni sínu. Í öðru orðinu er svo talað um, að það eigi ekki að gera þetta mál að tilfinningamáli. Það má vel vera, að sumum útlendingum, sem ekki geta fengið borgararéttinn án þess að skipta um nafn, þyki það slæmt. Ég þekki það ekki; ég þekki engan slíkan. En ég hef einnig heyrt dæmi um útlendinga, sem gjarnan hafa viljað breyta nafni sínu og gera það íslenzkt sín vegna og barna sinna. Hins vegar er það auðvitað svo, að þeir, sem framkvæma þessi lög, verða að gera það með gát, og ég er nú þeirrar skoðunar, að kvenmannsnafnið, sem hv. 2. þm. Vestf. nefndi hér áðan, lúti lögmálum íslenzkrar tungu, og það eru sum útlend nöfn, sem lúta lögmálum íslenzkrar tungu svo að segja óbreytt, og þá er hægt að leyfa þau. Á Íslandi er fjöldi nafna, sem upphaflega voru útlend, en þau eru orðin íslenzk, og þau lúta lögmáli tungunnar. En það er aðalákvæði nafnalaganna frá 1925 um þetta mál, að ekki mega menn bera önnur nöfn en þau, sem rétt eru að lögum íslenzkrar tungu. Gert er ráð fyrir því, að prestar hafi eftirlit með því, að þessum ákvæðum sé fylgt, og rísi ágreiningur um nafn, þá skeri heimspekideild háskólans úr.

Í 6. gr. nafnalaganna voru ákvæði um það, að gefin skyldi út skrá samkv. till. heimspekideildar háskólans yfir þau mannanöfn, sem nú eru uppi, en bönnuð skulu samkv. l. þessum, og skrá þessi skuli send öllum prestum landsins. Skrána átti að gefa út á 10 ára fresti að lokinni útgáfu hins almenna manntals. Ég er hræddur um, að hér hafi orðið misbrestur á, að þessi skrá hafi verið gefin út, eins og lög áskilja, og ég er alveg þeirrar skoðunar, að það hafi verið ástæða til þess að endurskoða þessi lög frá Í925, en hitt er allt annað mál, ef á að fara að setja lög, sem ganga í þveröfuga stefnu við það, sem ákveðið var1925.

En ég kem að því aftur, sem ég hvarf frá áðan. Menn segja, að það sé tilfinningamál fyrir suma útlenda menn að þurfa að vinna það til þess að fá ríkisborgararétt að taka upp íslenzkt nafn. En hafa hv. þm. og aðrir hugsað út í það, hvað Íslendingar verða að gera erlendis? Það eru þúsundir Íslendinga búsettar erlendis — menn sem fæddir eru á Íslandi eða afkomendur þeirra. Og yfirleitt hefur þetta fólk orðið að semja sig að nafnasiðum þess lands, þar sem það hefur tekið sér búsetu, þó að þar frá séu einstaka undantekningar. Það eru einstaka Íslendingar í öðrum löndum, sem nefna sig sínu íslenzka nafni óbreyttu og rita það þannig. Ég held ekki, að það sé neitt erfiðara fyrir útlendinga, sem hingað koma og vilja gerast ríkisborgarar, að breyta sínum nöfnum til samræmis við það, sem tíðkast á þessu landi, en það er fyrir þúsundir Íslendinga, sem hafa breytt nöfnum sínum í öðrum löndum.

Ég skal nú ekki hafa öllu fleiri orð um þetta mál, en ég vil enn á ný beina því til hv. flm. brtt. við 2. gr., hvort þeir geti ekki hugsað sér að taka till. aftur. Ef þeir gera það, þá er málið orðið, eins og það var í öndverðu — frv. um að veita nokkrum,tugum nafngreindra erlendra manna íslenzkan ríkisborgararétt, sem ekki er út af fyrir sig ágreiningur um og deilumálið er þá úr sögunni. En á næsta þingi fá þeir, sem þar sitja, væntanlega tækifæri til þess að fjalla um nafnalöggjöfina samkv. þeim till., sem væntanlega koma frá hinni stjórnskipuðu nefnd, bæði um nafnalögin frá 1925 og þessa 2. gr., sem verið hefur í l. um ríkisborgararétt undanfarin 20 ár. Og ég held, að þegar farið er að tala um þessi nafnalög í heild, þá skýrist þetta betur fyrir okkur öllum, sem hér er um að ræða og um er deilt í sambandi við 2. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir.