03.02.1971
Neðri deild: 42. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur nýskipan kennaranáms á Íslandi verið mjög á dagskrá, og er það í samræmi við það, sem hefur verið og er að gerast í nálægum löndum. Hefur þetta átt sér stað, þótt gildandi löggjöf um Kennaraskóla Íslands sé tiltölulega nýleg eða frá árinu 1963. Sú löggjöf hafði verið vandlega undirbúin, og voru með henni gerðar gagngerðar breytingar á kennaraskólanum. Meginbreytingarnar voru þær, að kennaraskólinn var gerður að stúdentask5la, þ.e. að loknu kennaranámi gátu menn haldið áfram námi í kennaraskólanum og lokið stúdentsprófi. Áður hafði verið starfrækt við skólann sérstök stúdentadeild, þar sem stúdentum var gefinn kostur á að búa sig undir kennarapróf. Fram að 1963 hafði kennaranámið verið það, sem kalla mætti lokuð námsbraut. Ef unglingur, sem lokið hafði landsprófi 16 ára að aldri, ákvað að ganga í kennaraskólann, var þar um að ræða fjögurra ára nám, sem lauk með kennaraprófi. Um framhaldsnám að loknu kennaraprófi, er veitti aðgang að háskólanámi, hafði ekki verið að ræða. Á þessu varð nú sú breyting, að kennaraskólinn hóf starfrækslu deildar, sem leiddi til stúdentsprófs og opnaði nemendum þannig leið að háskólanámi. Auk þess var komið á fót framhaldsdeildum við kennaraskólann á sérsviðum kennaramenntunarinnar. Deildunum fyrir þá stúdenta, sem vildu taka kennarapróf, var haldið áfram. Námstími í þeim deildum var síðan lengdur úr einu ári í tvö. Þá var og gerð mikilvæg breyting á inntökuskilyrðum í kennaraskólann. Áður höfðu inntökuskilyrði verið landspróf, en aðsókn að kennaraskólanum hafði löngum verið fremur dræm, svo að oft var talið eðlilegt að veita undanþágu frá kröfunum um landspróf til þess, að 1. bekkur yrði hæfilega fjölmennur og ekki væri hætta á óeðlilegum kennaraskorti.

Með lögunum frá 1963 var gagnfræðingum með vissa lágmarkseinkunn veittur inngönguréttur í kennaraskólann. Jafnframt var námsefni kennaraskólans breytt að ýmsu leyti í samræmi við þessar breytingar á skipulagi hans og hlutverki. Reynsla næstu ára varð sú, að nemendum í kennaraskólanum fjölgaði stórkostlega og örar en líklega hefur átt sér stað um nokkurn annan íslenzkan skóla á jafnstuttu árabili. 1960 höfðu nemendur verið 137, 1965 voru þeir orðnir 397, 1969 voru þeir komnir upp í 954, en á yfirstandandi skólaári eru þeir 826, og er fækkunin nú væntanlega afleiðing þess, að á síðasta hausti tóku gildi ný ákvæði um námstíma auk þess, sem einkunnamörk gagnfræðinga til inngöngu í skólann voru hækkuð.

Árið 1962 var tekinn í notkun fyrsti áfangi nýrrar kennaraskólabyggingar. Byggingarnefnd hafði verið skipuð vorið 195Í, en framkvæmdir hófust ekki fyrr en vorið 1958, þegar menntmrn. féllst á till. meiri hl. byggingarnefndar um teikningu. Stærð hússins þá var miðuð við þann nemendafjölda, sem verið hafði í kennaraskólanum undanfarinn áratug, en enginn lét sér þá detta í hug, að verða mundi jafnstórkostleg breyting á og raun hefur borið vitni. Hefur því orðið að nota gamla kennaraskólahúsið áfram og kennsla kennaraskólans orðið að fara fram á enn fleiri stöðum en í nýju og gömlu kennaraskólabyggingunni og alls staðar því miður verið of þröngt um hana, þar eð nemendafjöldinn hefur meira en sexfaldazt á einum áratug.

Hin nýja löggjöf um Kennaraskóla Íslands var samþ. shlj. á Alþ. 1963, og töldu þá yfirleitt allir stjórnmálamenn, kennarar og kennaraefni, að með þeirri löggjöf væru stigin ótviræð framfaraspor. Enginn spáði því þá, að í kjölfar þessarar nýju löggjafar og byggingar hins nýja kennaraskólahúss mundi leiða jafngífurlega fjölgun á kennaranemum og raun hefur borið vitni um. Í stað þess að áður brautskráðust tæplega nógu margir kennarar til þess að fullnægja fyrirsjáanlegri kennaraþörf, er nú svo komið, að miklu fleiri nemendur stunda kennaranám en fengið geta kennarastöður á næstu árum.

Auðvitað verður aldrei fullyrt um það með algerri vissu, hverjar ástæður hafi legið til hinnar mjög auknu sóknar í kennaraskólann. Sennilegast þykir mér þó, að skýringarnar séu tvær. Hin fyrri er sú, að með breytingu kennaraskólans í stúdentaskóla voru möguleikar þeirra, sem í kennaraskólann gengu, stórlega auknir til hvers konar framhaldsnáms. Síðari skýringin, sem að mínu viti er meginskýringin á hinum aukna nemendafjölda í kennaraskólanum, er sú, að inngönguskilyrði í skólann voru rýmkuð með því að heimila gagnfræðingum að hefja kennaranám. Urðu gagnfræðingar í kennaraskólanum fljótlega fleiri en landsprófsmenn. Nú á þessum vetri eru hvorki meira né minna en tveir af hverjum þremur nemendum kennaraskólans gagnfræðingar. Ef sams konar inntökuskilyrðum hefði verið haldið við kennaraskólann og giltu áður og gilda enn um menntaskólana, hefði aldrei komið til þeirrar gífurlegu fjölgunar kennaranema, sem átt hefur sér stað.

Á undanförnum árum hefur verið augljóst, að við svo búið mætti ekki standa. Annaðhvort yrði að halda kennaranáminu óbreyttu og byggja í skyndi yfir hinn vaxandi nemendafjölda eða gerbreyta kennaranáminu, gera meiri menntunarkröfur til þeirra, sem námið hæfu, og stórauka námið frá því, sem verið hefur. En líklegt mætti þá telja, að kennaranemum mundi í framtíðinni fækka verulega og ætti þá að endurskoða fyrirætlanir um byggingarframkvæmdir í samræmi við það. Niðurstaðan hefur orðið að velja síðari kostinn. Hygg ég, að mér sé óhætt að fullyrða, að um það sé meginþorri kennarastéttarinnar og kennaranema sammála, að sú stefna sé rétt, og vona ég, að hér á Alþ. verði menn einnig á þeirri skoðun, að svo sé, enda er þetta sú stefna, sem farin hefur verið eða er verið að fara í menntunarmálum kennarastéttarinnar í öllum nálægum löndum.

Í samræmi við þetta skipaði menntmrn. 4. júli 1969 nefnd til þess að endurskoða löggjöfina um Kennaraskóla Íslands og gera till. um nýskipan kennaranámsins. Var ætlazt til, að nefndin lyki störfum innan eins árs, enda voru allir sammála um, að hraða yrði ákvörðunum til úrlausnar á þeim vanda, sem augljóslega hafði skapazt. Í nefndina voru skipaðir þeir Andri Ísaksson, forstöðumaður Skólarannsókna, Ármann Snævarr háskólarektor, Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri, Broddi Jóhannesson skólastjóri, og var hann formaður nefndarinnar, og Skúli Þorsteinsson, formaður Sambands ísl. barnakennara. Áður en nefndin hóf störf sín, tók Magnús Már Lárusson núv. háskólarektor sæti Ármanns Snævars í nefndinni. Enn fremur var Sveinbjörn Björnsson jarðeðlisfræðingur skipaður varamaður Andra Ísakssonar, er var fjarverandi fram á mitt sumar 1970, en eftir heimkomu Andra starfaði varamaður hans áfram í nefndinni. Frá 1. júlí s.l. að telja sat Pálmi Bjarnason í nefndinni sem fulltrúi Samtaka ísl. kennaranema. Í byrjun þessa árs var Loftur Guttormsson kennari ráðinn ritari nefndarinnar.

Frv. gerir ráð fyrir gerbreytingu kennaramenntunarinnar frá því, sem verið hefur, og skal, ég nú í fáum orðum gera grein fyrir helztu grundvallaratriðunum í þeirri nýskipan kennaranámsins, sem frv. gerir ráð fyrir.

Kennaranámið á að taka við af stúdentsprófi eða ígildi þess. Námið verði skipulagt sem þriggja ára nám á háskólastigi. Nafn Kennaraskóla Íslands breytist í Kennaraháskóla Íslands. Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands skulu hafa vissa samvinnu og verkaskiptingu til þess að forðast tvíverknað. Kennaraefni öðlast eins og nú réttindi til kennslu á skyldunámsstigi, og er námskjarninn miðaður við það. Námskjarninn tekur til um það bil helmings af kennaranáminu. Telst þar til stofn uppeldisgreinanna og greinar skyldunáms aðrar en valgreinar kennaraefnis. Auk þess sérhæfa kennaraefni sig í tveimur valgreinum, og skulu þær vera kennslugreinar á skyldustigi. Þá velur kennaraefni eitt af þremur uppeldisfræðilegum sérsviðum, kennslu á barnastigi með megináherzlu á byrjendakennslu, kennslu á unglingastigi og kennslu afbrigðilegra barna. Um það bil 1/3 hluta náms skal varið til efnislegra valgreina og 1/6 til uppeldisfræðilegs sérsviðs. Heimilt er að halda allt að 9 mánaða námskeið á uppeldisfræðilegu sérsviði, þegar fé er veitt til þess á fjárlögum. Svarar nám þetta til námskeiða í framhaldsdeild kennaraskólans á undanförnum árum, nema hvað hér er beinu ákvæði breytt í heimildarákvæði, en þessi breyting er gerð vegna þess, að vænta má, að Háskóli Íslands taki við öðrum námsgreinum á stigi framhaldsdeilda í framtíðinni.

Fyrirhugað er, að verklega námið verði eigi skemmra en 12 vikur, og skulu þær teknar af námstímanum óskiptum. Námsgreinum skólans er skipt í 5 skorir. Nýliðum skal heimil ráðning í kennarastarf, og njóta þeir umsjónar og leiðsagnar um tveggja vetra skeið. Síðan ljúka þeir embættisprófi kennara og hljóta þá full starfsréttindi. Til náms skulu þeir verja 2–4 vikum hvort árið. Þeim skal eigi heimilt að kenna fleiri stundir á viku að viðbættum námsstundum en nemur skyldustundafjölda kennara á fyrsta ári. Skulu þeim vera reiknuð laun, sem leystu þeir af hendi fulla kennslu. Kennaraefnum er skylt að taka þátt í almennum framleiðslu- og þjónustustörfum eða vinna á uppeldisstofnun eigi skemur en 4 mánuði á námstímanum.

Rektor kennaraháskólans skal kjörinn úr hópi fastra kennara til fjögurra ára. Hann má endurkjósa einu sinni án lotuskila. Fulltrúar nemenda taka sæti í skólastjórn, en nemendaráð hefur verið við kennaraskólann undanfarin þrjú ár. Skólastjórn verður óbreytt frá því, sem nú er, þ.e. rektor og fastir kennarar ásamt skólastjóra Æfinga- og tilraunaskólans, að viðbættum tilnefndum fulltrúum nemenda. Skólaráð er rektor til aðstoðar. Í því er einn fulltrúi frá hverri skor skólans af hálfu fastakennara, einn af hálfu lausráðinna kennara og þrír af hálfu nemendaráðs. Rektor stjórnar fundum skólaráðs.

Skólanefnd kennaraháskólans er menntmrh. til ráðuneytis í málefnum kennaraháskólans. Hún er skipuð fulltrúum stofnana og samtaka skólamanna.

Fastir kennarar skólans eru prófessorar, dósentar og lektorar. Dómnefnd skal fjalla um hæfni umsækjenda um stöðu prófessora og dósenta. Starfsliðið er að öðru leyti í samræmi við það, sem fjárveitingar til Kennaraskóla Íslands hafa heimilað á undanförnum árum.

Aukin áherzla skal lögð á rannsóknarstörf í uppeldisgreinum og grunnvísindum þeirra, einkum félagsfræði. Til þess að svo megi verða, skal komið á fót við kennaraháskólann rannsóknarstofnun uppeldismála. Þar verða sérfræðingum falin uppeldisfræðileg rannsóknarefni og þeim búin aðstaða til frjálsrar fræðimennsku. Sérfræðingarnir verða að stofni til kennarar við kennaraháskólann og Háskóla Íslands.

Þetta eru meginatriði þeirrar nýskipunar kennaranámsins, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Ef stúdentar eru teknir til þriggja ára kennaranáms haustið 1971, en það yrði hægt, ef frv. er samþ. á þessu þingi, mundi fyrsti árgangurinn ljúka kennaraprófi vorið 1974, en embættisprófi kennara 1976. Fyrsti árgangurinn, sem velur þá leið, sem nú er fær um framhaldsdeildir gagnfræðaskólanna, mun væntanlega ekki ljúka kennaraprófi fyrr en vorið 1977, því að allar horfur eru á, að sá hluti af árgangi gagnfræðinga og landsprófsmanna, er hug hafi haft á kennaranámi haustið 1969, þ.e. í fyrra, þegar framhaldsdeildirnar tóku til starfa, hafi óskipt sótt beint í 1. bekk kennaraskólans. Reynslan verður að líkindum sú, að árgangurinn frá haustinu 1970 verður hinn fyrsti, er velur þessa leið til kennaraprófs. Embættisprófi kennara mun þessi hópur geta lokið 1979.

Í grg. frv. er gerður ítarlegur samanburður á fyrirhugaðri kennaramenntun samkv. ákvæðum frv. og kennaramenntuninni í nálægum löndum. Skal vikið að nokkrum aðalatriðum í því sambandi.

Nú er svo komið, að í nálægum löndum er yfirleitt krafizt sömu undirbúningsmenntunar til kennaranáms og háskólanáms. Í nálægum löndum helja kennaraefni yfirleitt námið á tímabilinu frá 18–20 ára aldurs, og er algengt, að aldursmarkið sé 19 ár. Nú verða menntaskólanemar á Íslandi yfirleitt stúdentar um 20 ára aldur, en samkv. þeim breytingum á skólakerfinu, sem fyrirhugaðar eru í frv. um skólakerfi og grunnskóla, mun aldur stúdenta hér lækka í 19 ár. Á hinum Norðurlöndunum hefur stúdentspróf ýmist verið gert að inntökuskilyrði í almennt kennaranám eða slíkt er fyrirhugað. Norðmenn hafa að vísu ekki lögfest þá skipun enn. Hún er þó ráðgerð í lagafrv., sem lagt var fyrir Stórþingið 1968, en hefur ekki verið samþykkt enn. Þá er þess að geta, að í Svíþjóð er nemendum úr félagsfræðideildum svonefndra fagskóla auk stúdenta heimilað að búa sig undir kennslu í 7, 8 og 9 ára bekkjum barnaskóla. Þeir kennaranemar eru því ári yngri en stúdentar. Í Danmörku er kennaranám á háskólastigi 3 1/2–4 ára nám, en heimilt að veita undanþágu til þess, að kennaraprófi verði lokið fyrr eða síðar á námsferlinum. Í kennaraskólum í Finnlandi er námstími kennara við 7–12 ára bekki stofnskólans 3–4 ár. Til kennslu 13–15 ára unglinga er krafizt háskólanáms. Í Noregi hefur kennaraskólum verið leyft með sérstökum heimildarlögum að lengja nám stúdenta úr tveimur árum í þrjú, og munu a.m.k. 7 af 17 kennaraskólum Noregs hafa notað sér heimildina á s.l. ári. Í Svíþjóð er námstími kennara í yngstu deild skólastigsins 21/2 ár, í miðdeild þess 3 og í efstu deild 4, og skal það nám stundað í háskóla. Í Svíþjóð og Finnlandi hefur kennaraskólunum ekki enn verið breytt í kennaraháskóla eða þeir tengdir háskólum landanna, en að því er stefnt í báðum þessum löndum.

Eins og ég gat um áðan, er endurskoðun kennaralöggjafarinnar í Noregi enn ekki lokið, en á hinum Norðurlöndunum, þ.e. Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð, hefur ný löggjöf verið sett á síðari helmingi s.l. áratugs. Ný löggjöf í Svíþjóð tók gildi 1968 og í Danmörku og Finnlandi 1969. Hin nýja löggjöf Dana, Finna og Svía og lagafrv., sem er til meðferðar í Noregi, þykja sjá mjög vel fyrir menntun kennara, en kerfi það, sem gert er ráð fyrir, að tekið verði upp hér á landi, er í meginatriðum hliðstætt því kerfi, sem nú er verið að taka upp á hinum Norðurlöndunum.

Í Englandi og Skotlandi er kennaranám þrjú ár hið skemmsta, en í Þýzkalandi gilda engar allsherjarreglur um kennaramenntunina, þar eð skólamál eru þar ekki verkefni ríkisvalds Sambandslýðveldisins, heldur í höndum stjórna hinna einstöku landshluta eða fylkja. Kennaramenntun er yfirleitt á háskólastigi og veitir réttindi til kennslu í 9 ára skóla. Lágmarksnámstími er þrjú ár, en til viðbótar honum er kennaraefni ráðið í starf í tvö til fjögur ár, nýtur þá jafnframt umsjónar og leiðsagnar og lýkur að því loknu síðari hluta embættisprófs.

Í Bandaríkjunum er kennaramenntunin einnig breytileg eftir landshlutum eða fylkjum. Í meiri hluta fylkjanna er lágmarksnámstími kennaraefna fjögur ár að loknum svonefndum „high school“, en honum ljúka menn 17–18 ára. Í nokkrum fylkjanna er þó námstíminn 5 ár. Er stefnt að því að lengja námið í þeim fylkjum, er hafa fjögurra ára kennaramenntun frá 17–18 ára aldri. Að loknu fjögurra ára stofnnámi skulu kennaraefni hljóta verklega og kennslufræðilega þjálfun um eins árs skeið.

Að síðustu er rétt að fara nokkrum orðum um áhrif þau, sem samþykkt þessa frv. mundi hafa á kostnað ríkisins af kennaramenntun. Við áætlun kostnaðar við framkvæmd hinnar nýju skipunar verður að sjálfsögðu að miða við áætlun um stærð árganga og meðalfjölda kenndra stunda á viku. En eðlilegt er að miða áætlunarstærð árganganna við það, hver kennaraþörf á skyldunámsstigi er talin munu verða í framtíðinni. Í grg. frv. er meðalfjöldi í árgangi áætlaður 100 nemendur og meðalfjöldi kenndra stunda á viku 24, en bekkjardeildir í árgangi 7. Telja höfundar frv. fullvíst, að þessi nemendafjöldi fullnægi kennaraþörfinni á skyldunámsstiginu næsta áratug. Kennaralaun á ári eru samkv. þessu áætluð 11.7 millj. kr. Önnur laun eru áætluð 0.8 millj. kr., en prófkostnaður 0.3 millj. kr. Annar kostnaður er áætlaður 1.6 millj. kr. og viðhald 1 millj. kr. Er þá heildarkostnaður áætlaður árlega 15.4 millj. kr. Til samanburðar má geta þess, að í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er rekstrarkostnaður kennaraskólans áætlaður 34.6 millj. kr. Vegna áætlaðrar mikillar fækkunar kennaranema mun kostnaðurinn við kennaramenntunina lækka mjög verulega í heild, en hins vegar verður hann að sjálfsögðu mun hærri á nemanda en nú á sér stað, enda eðlilegt miðað við það, að námið breytist úr námi á menntaskólastigi eða framhaldsskólastigi í nám á háskólastigi.

Meginstefna sú, sem þetta frv. byggir á, hefur ekki aðeins eindreginn stuðning kennaraskólans, heldur einnig íslenzkra kennarasamtaka. Málið hefur verið rætt ítarlega á ýmsum vettvangi í heilt ár, og ættu því grundvallarbreytingarnar, sem gert er ráð fyrir, ekki að vera ókunnar þeim, sem láta sig kennaramenntunina nokkru skipta. Þess vegna vona ég, að hið háa Alþingi treysti sér til þess að afgreiða þetta frv. nú þegar á þessu þingi, til þess að nýmælin geti komið til framkvæmda þegar næsta haust.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.