04.02.1971
Neðri deild: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1406 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Frv. þetta um Kennaraháskóla Íslands hefur nú þegar verið allmikið rætt hér við 1. umr. málsins. Það er enda ekki að undra. Hér er um gerbyltingu á kennaranáminu að ræða og mál, sem er vandasamt í mörgum greinum, að ég hygg. Í þessum umr. hafa komið fram nokkrar efasemdir um það, hvort nauðsynlegt sé að krefjast háskólanáms — tveggja ára framhaldsnáms til kennslu á hinum lægstu stigum skólakerfisins. Ég vil ekki draga dul á það, að á þessu stigi bærast með mér ýmsar slíkar efasemdir um þetta frv. Þess vegna tek ég undir það, sem hér hefur verið lagt til, að frv. fái betri skoðun en unnt væri hér á hv. Alþ., ef ætti að afgreiða það þegar á þessu þingi. Ég hygg, að frv. sé það vandasamt í ýmsum atriðum, að ástæða sé til þess fyrir hv. Alþ. að skoða það gaumgæfilega, og það má vera, að þegar þeirri skoðun er lokið, verði allir á einu máli og væri það vel.

Ég sé ekki ástæðu til þess, að ég fari hér að ræða einstaka þætti essa frv. sem þegar hafa verið gerðir að umtalsefni. Í rauninni er orsök þess, að ég kvaddi mér hér hljóðs, aðeins smávægilegt atriði, sem ég vildi vekja aðeins athygli á, áður en frv. færi til n. Í 24. gr. frv., sem er ákvæði til bráðabirgða, er gert ráð fyrir því, að nemendur, aðrir en stúdentar, sem skráðir voru í Kennaraskóla Íslands haustið 1969 eða fyrr, ljúki sínu námi eftir hinu gamla kerfi. Hins vegar er um það rætt í aths. við frv., að þeir nemendur, sem hófu nám í Kennaraskóla Íslands á s.l. hausti, skuli ljúka námi eftir hinu breytta kerfi, nái þetta frv. fram að ganga. Þar er og frá því greint, að þessum nemendum hafi verið gert það ljóst, er þeir sóttu um nám í skólanum, að þessi breyting kynni að verða yfirvofandi.

Nú vil ég greina frá því, að eftir því sem mér er frá sagt, geti þarna eitthvað verið málum blandað í einstökum tilvikum. Það er nokkuð langt síðan maður utan af landi, sem á dóttur í kennaraskólanum, sem hóf þar nám á s.l. hausti í undirbúningsdeild handavinnudeildar, bað mig að athuga, hvað hæft væri í því, hvort um breytta skipan á þessari deild yrði að ræða. Hann kvaðst hafa leitað eftir því, þegar sótt var um skólavist fyrir þennan nemanda, hvort þetta nám yrði lengt, en eins og kunnugt er, er það tveggja vetra undirbúningsnám, eins og nú er, og tveir vetur í handavinnudeild. Hann kveðst hafa fengið neikvæð svör, og þessi stúlka hafi hafið nám á grundvelli þess. Eftir að skólinn hafði starfað í 4–6 vikur, hafi nemendur verið kallaðir fyrir kennara og þeim tjáð, að svo kynni að fara, að þetta nám yrði lengt og þeir yrðu þá að gangast undir það, ef þeir vildu ljúka námi í þessari grein. Í fyrsta lagi óska ég eftir upplýsingum um, hvort það sé að fullu rétt, sem fram kemur í aths. frv., eða hvort hér sé um rangt mál að ræða, sem ég flyt hér eftir upplýsingum þessa manns, sem um þetta hefur talað við mig.

Í annan stað, ef svo fer, að frv. þetta verði afgreitt á þessu þingi, vil ég beina því til þeirrar hv. n., sem það fær til meðferðar, hv. menntmn., að hún taki það til athugunar, hvort ekki sé unnt að láta þá nemendur Kennaraskóla Íslands, sem á s.l. hausti hófu þar nám, ljúka því eftir hinu gamla kerfi. Það er ljóst t.d. með nemanda slíkan sem þann, sem ég nefndi, sem hefur nám í undirbúningsdeild handavinnudeildar Kennaraskóla Íslands, sem samtals er fjögurra vetra nám, án þess að hann hafi vitað, að þessu námskerfi væri breytt á námstímabilinu, þannig að það verði ekki lengur fjögurra vetra nám, heldur sjö vetra nám plús tveggja ára framhalds- og þjálfunarnám, áður en viðkomandi nemandi á þess kost að vera skipaður í embætti, að það kynni að hafa haft áhrif á námsval hans, ef honum hefði verið þetta ljóst. Nú geri ég hins vegar ráð fyrir því, ef nægar umsóknir berast ekki frá þeim kennurum, sem lokið hafa embættisprófi eftir þessu frv., þ.e. tveggja ára framhaldsnámi til viðbótar þriggja ára háskólanámi, að reka muni að því, að teknir verði til starfa þeir, sem minni réttindi hafa. Þrátt fyrir það vil ég samt ætla, að rétt væri að gefa þeim nemendum, sem nú eru í skólanum, kost á því að ljúka sínu námi eftir hinu gamla skipulagi.

Þetta var nú það atriði, sem ég hafði hug á að minnast hér á umfram þau, sem hér hafa borið á góma. Ég skal ekki lengja þessar umr. með því að fara að ræða frv. að öðru leyti neitt sem heitir, en vil þó ítreka það, að þegar um slíka gerbyltingu kennaranámsins er að ræða, að þeir, sem eftir hinu gamla skipulagi ljúka kennaranámi, eiga að réttu lagi ekki kost á því að ganga inn í hinn nýja kennaraháskóla, þá hygg ég, að þörf sé á því að gefa hv. alþm. nokkurt tóm til þess að hugleiða þau atriði öll, sem grípa inn í þetta frv.