04.02.1971
Neðri deild: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja mikið þessar umr. og ekki endurtaka það, sem ég sagði á síðasta fundi. En nú sé ég, að hæstv, ráðh. er farinn úr d., og var hann þó hér fyrir skömmu. (Forseti: Forseti á von á því, að ráðh. komi hér að vörmu spori. Hann hefur verið hér við í allan dag.) Já, það er einmitt það. Ég sé, að hann er ekki hérna núna.

Ég kvaddi mér hljóðs að þessu sinni til þess einkum að vekja athygli hæstv. ráðh. á málsatriðum, og er erfitt að gera það, ef hann er ekki viðstaddur. En e.t.v. kemur það til greina að fresta umr. (Forseti: Það hefur verið gerð ráðstöfun til þess að láta ráðh. vita, að þm. óski eftir því, að hann sé viðstaddur.) Það eru kannske fleiri á mælendaskrá. (Forseti: Nei, það eru ekki fleiri á mælendaskrá.) Mundi þess vera von, herra forseti, að ráðh. kæmi hér, áður en langt um líður? (Forseti: Ég geri alveg ráð fyrir því. Ég var búinn að senda eftir ráðh. til að láta hann vita. Hann er kominn, ráðh., svo að við getum haldið áfram umr.)

Þegar ég talaði í gær í þessu máli, gerði ég tilraun til þess að grennslast eftir skoðun hæstv. ráðh. á nokkrum atriðum og óska upplýsinga frá honum. Ég heyrði ekki, að ráðh. svaraði þessu neitt, þegar hann talaði hér í gær, og vil ég út af fyrir sig ekki átelja það eða lýsa neinni óánægju út af því, vegna þess að þessar spurningar eða eftirgrennslanir, sem fram komu í ræðu minni, voru nokkuð almenns eðlis um skólamál og a.m.k. sumar þeirra snertu ekki beinlínis það frv., sem hér liggur fyrir. En hæstv. ráðh. komst svo að orði, þegar hann talaði hér í gær, að þeir, sem tóku til máls á fundinum í gær, hefðu lýst yfir fylgi sínu við þetta frv., sem hér liggur fyrir, að vísu með nokkrum fyrirvara. Ég vil láta það koma fram, að ég held, að hér sé um nokkurn misskilning að ræða hjá hæstv. ráðh. Ég fyrir mitt leyti lýsti ekki yfir fylgi við þetta frv., og ég er ekki viss um, að aðrir hafi gert það heldur. Hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, sem ræddi hér málið í gær, talaði aðallega eins og í dag um nauðsyn á endurskoðun framhaldsskólakerfisins og nauðsyn á að tryggja kennslu í framhaldsskólum, og hann sagði í dag, að það að tryggja kennslu í framhaldsskólum þyrfti að afgreiða í sambandi við þetta mál. Og þá sýnist mér, að það sé varla hægt með það sjónarmið í huga að fylgja þessu frv., eins og það liggur hér fyrir. Hv. 6. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, virtist mér í gær tala á móti þessu frv., því að hann var því fremur fylgjandi, að stofnuð yrði sérstök deild í Háskóla Íslands en að stofnaður yrði sérstakur kennaraháskóli, eða þannig skildi ég hann. Hv. 1. þm. Vestf., sem einnig talaði, bar fram ákveðnar fsp. um viss atriði, sem svarað var. Núna á fundinum í dag hafa nokkrir þm. tekið til máls, sem ekki tóku til máls í gær, og mér hafa heyrzt þeir allir vera í nokkrum vafa um það, að þetta frv. væri rétt upp byggt, og a.m.k. hafa þeir talið, að það væri mjög vafasamt, að nokkur tök væru á að afgreiða það á þessu þingi, og ég veitti því athygli, að meðal þeirra voru tveir þm. úr Sjálfstfl., þ.e. þeim þingmeirihl., sem styður ríkisstj.

Ég vil því benda hæstv. ráðh. á, að mér virðist, að í þessum umr. komi ekki fram neitt ótvirætt fylgi hér í hv. d. við þetta frv. — a.m.k. ekki svo, að það verði afgreitt á þessu þingi. Enda er það nú mála sannast, að tíminn er orðinn nokkuð stuttur. Ef frv. átti að ná fram að ganga, má segja, að það sé flutt í ótíma eða of seint. En það hefur verið sagt frá því og haft eftir hæstv. forsrh. í útvarpi í gær, að ætlunin væri að ljúka þingi fyrir páska.

Það var nú sérstaklega þetta, sem ég vildi vekja athygli á, hvernig þessar umr. hafa verið og hvað þar hefur komið fram með tilliti til frv. og afstöðu til þess. Hitt hefur mér skilizt á hæstv. ráðh., að hann teldi málið aðkallandi því að það væru vandræði í kennaraskólanum. Ég skal ekki draga úr því, að það megi til sanns vegar færa. En þau vandræði eru húsnæðislegs eðlis. Ég hef látið mér detta í hug, að það væri réttara, þó að það samrýmist ekki þessu frv., að bæta úr þessu á annan hátt, þ.e. að losa kennaraskólann við verulegan fjölda af þeim nemendum, sem hann nú hlýtur að taka á móti, og veita þeim aðgang að háskólanum og þá sérstaklega stúdentum, sem stunda nám í kennaraskólanum og raunar fleiri, og ég sé ekki í fljótu bragði, þó að vera megi, að ég sannfærist um það síðar, að það sé ástæða til þess að vera að leggja kennaraskólann niður. Mér sýnist, að hann geti starfað áfram að því að mennta kennara, sem eigi að starfa á vissu skólastigi, jafnframt því, sem séð er fyrir meiri menntun fyrir þá, sem eiga að kenna bæði í efri bekkjum skyldunámsstigsins, þ.e. í gagnfræðaskólum, sem nú eru, og í öðrum æðri skólum. Ég held, að það sé alveg eins auðvelt að leysa málið á þann hátt og það væri meira í samræmi við raunveruleikann og þörfina að gera það.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta mál, en það, sem ég nú hef sagt og sagði í gær, vil ég biðja hv. n. að taka til athugunar.