04.02.1971
Neðri deild: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (1524)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru nú aðeins fáein orð út af ræðu hæstv. ráðh. Ég vil fyrst koma að því, sem ráðh. sagði núna síðast um sérgreinakennara og bekkjakennara á því skólastigi, sem í hinu nýja frv. er kallað grunnskóli, sem hann hlýtur að miða við. Hann sagði, að það væri almenn regla, og endurtók það, að kennarar á þessu stigi kenndu heilum bekkjum, þ.e. kenndu námsgreinarnar í heilum bekkjum. Ég vil leyfa mér að draga í efa, að svo sé. Ég veit ekki betur en nú sé byrjað að kenna tungumál, bæði dönsku og ensku, þegar að loknu barnaprófi og í einstaka skólum, jafnvel áður en barnaprófi er lokið, og það hlýtur að verða gert ráð fyrir sérkennurum til slíkrar kennslu. Nú er gert ráð fyrir í frv., að nemendur séu í skyldunámsskóla til 16 ára aldurs, en það yrði þá væntanlega í 4–5 ár, sem þörf er á sérgreinakennurum á þessu stigi. Þess vegna held ég, að það sé ofmælt hjá hæstv. ráðh., að bekkjakennararnir eða bekkjakennslan teljist það almenna á þessu 9 ára skólastigi.

Mér virðist hæstv. ráðh. vera farinn að ruglast dálítið í þjóðfélagslegum hugtökum. Ég hef heyrt það í viðtölum, sem hann hefur átt við útvarpið undanfarið, að hann á orðið mjög erfitt með að gera greinarmun á hægrí og vinstri í stjórnmálum. Nú heyrist mér, að hann sé í þann veginn að lenda í sömu erfiðleikum, að því er varðar hugtökin íhald og frjálslyndi. Ég veit hvernig á því stendur. Ég dreg þessa ályktun af því m.a., að við, hv. 3. þm. Norðurl. v., Björn Pálsson, og ég, tókum, að því er mér virtist, nokkuð svipaða afstöðu til ýmissa atriða í því frv., sem hæstv. ráðh. flytur, að því leyti sem við tókum afstöðu, en afstöðu annars okkar kallar hæstv. ráðh. íhald og hina frjálslyndi, og sýnir þetta sömu örðugleikana hjá hæstv. ráðh., að því er hugtökin varðar.

Ég held, að það sé ekki hægt að halda því fram, að þegar verið er að tala um háskóla og stúdentspróf, þá sé verið að tala um eitthvert nútímafyrirbrigði í menntamálum. Stúdentsmenntun og stúdentspróf eru ekkert nútímafyrirbrigði — ekki háskólar heldur. Þetta eru margra alda gömul fyrirbrigði. Þau eru a.m.k. ekki yngri en frá ofanverðum miðöldum. En í ýmsum nútímahugmyndum kemur það hins vegar fram, að þetta kerfi sé ekki að öllu leyti við hæfi nýrra tíma, og eitt af því, sem ég var að reyna að fræðast um af hæstv. ráðh., voru skoðanir hans á nútímalegum kenningum í þessum efnum, hvort hann hefði hugleitt þær og hvað hann áliti um þær. Hann kallaði þetta líka íhald. Ég get nú ekki annað séð en það sé a.m.k. ekki frjálslyndi, sem hæstv. ráðh. og aðrir, sem kunna að vera sama sinnis og hann, halda hér fast fram, að ekki skuli leyfa fólki að kenna börnum að draga til stafs, nema það hafi eftir skyldunámið lokið 7 ára námi í æðri skólum, þ. á m. þremur árum í háskóla. Mér finnst þetta ekki vera frjálslyndi; mér finnst þetta þvert á móti vera einstrengingslegt.