22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Menntmn. hefur á þskj. 578 gert þrjár viðbótarbrtt. við lögin. Fyrsta till. er um það, að einn af undirliðunum, sem fjalla um inntökuskilyrði, skuli hljóða svo:

„Nemandi skal eigi haldinn neinum kvilla, er öðrum geti að meini orðið og hamli skólavist að dómi skólastjórnar.“

N. taldi, að fyrra orðalag á þessu væri öllu verra en þetta, en vill vanda það sem bezt, því að þetta geta oft verið mjög viðkvæm mál, sem, skólastjórn mundi þurfa að úrskurða. En stórmál er þetta ekki.

Önnur till. er um það, að á eftir orðunum „12 vikur“ í III. lið 6. gr. komi orðin: „hið minnsta“. Hér er um töluvert efnisatriði að ræða. Eftir því sem höfundar frv. skýra frá, þá er ein mesta breytingin, sem gerð er í því, sú, að raunhæf kennsla, þ.e. æfingakennsla nemenda, er aukin til mikilla muna og henni ætlaðar 12 vikur. Samt sem áður hefur ýmsum mönnum bæði innan menntmn. og utan þótt sem 12 vikna æfingakennsla væri það allra minnsta hugsanlega og þyrfti raunverulega að verða meiri. Form. n., sem samdi frv., skýrði hins vegar svo frá, að erfitt væri að auka þann tíma, sem samkv. l. á að nota til æfingakennslu, án þess að um leið þurfi að skerða eitthvað af öðru námi. Þess vegna varð niðurstaðan sú að setja í l., að æfingakennslan skuli vera 12 vikur hið minnsta, og þýðir þetta í raun og veru, að skólastjórninni verða gefnir þarna möguleikar til breytinga, ef hún sér sér fært að gera einhverjar tilfærslur í náminu, en í þessari gr., 6. gr., er í mjög stórum dráttum gerð grein fyrir því, hvernig nám nemenda við kennaraháskólann á að skiptast á höfuðsviðum.

Þriðja brtt. er leiðrétting og þarf ekki frekari skýringa.