22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Um þetta frv. um kennaraháskóla hefur verið mjög mikið og ítarlega fjallað í n. þessarar hv. d. og kallaðir þar til mjög margir utanaðkomandi aðilar. Ég vildi byrja á því að minna menn á, að ég hygg, að alþm. afgreiði aldrei veigamikið mál svo, að þeir hafi ekki einhvern fyrirvara í huga sínum um það, að það kunni að reynast svo, að þessum hlutum þurfi að breyta. Og því veigameiri sem breytingarnar eru, sem við gerum með frv., því meiri ástæða er til að ætla, að það geti vafizt einhver atriði fyrir mönnum. Ég vil því biðja menn um að virða það menntmn.-mönnum til betri vegar og hreinskilni, að þeir tíunda þessi atriði, sem fyrir þeim hafa vafizt og vefjast e.t.v. enn þá, en samt sem áður vil ég biðja menn að leggja meiri áherzlu á það, sem við höfum getað orðið sammála um og jákvætt er.

Ég skil vel sterka löngun hv. 6. þm. Reykv. til að komast í einvígi við hæstv. menntmrh. og rifja upp gamlar deilur þeirra, en þeir mega ekki gera allt of mikið af því. Það, sem um var að ræða í byrjun orðaskipta þeirra á milli, voru réttindi núverandi nemenda og þeirra, sem hafa hið eldra kennarapróf. Ég hygg, að það hafi verið og sé vilji allra aðila, að þeir, sem nú eru í kennaraskólanum, og þeir, sem lokið hafa kennaraprófi samkv. núgildandi lögum, eigi, þegar kerfinu verður breytt, að njóta fyllsta réttar til áframhaldandi menntunar og áframbaldandi prófa, ef þeim þóknast svo, og það, sem hefur gerzt, er það, að menntmn. hefur í samvinnu við höfunda frv. breytt ákvæðum um þetta til þess að gera þetta skýrara og ótvíræðara.

Ég get alveg tekið undir það með hv. 6. þm. Reykv., að það er mjög veigamikið mál, hvort þessi kennaraháskóli á að vera sjálfstæður háskóli eða deild úr Háskóla Íslands. Þetta mál var rætt á mörgum fundum, þ. á m. að viðstöddum rektor Háskóla Íslands, og það hafði töluverð áhrif a.m.k. á mig, þegar rektor Háskóla Íslands benti á, að sá skóli væri nú einmitt á því þroska- og vaxtarstigi, að hann mætti illa við því að taka að sér miklu fleiri verkefni en hann þegar hefði í höndum í allra næstu framtíð. Það má líka minna á það, að það var einu sinni stofnaður hér háskóli, Viðskiptaháskóli Íslands. En af því að reynslan sýndi það, eftir að sá skóli hafði starfað á háskólagrundvelli nokkurn tíma, að eðlilegra væri að sameina hann Háskóla Íslands, þá var það gert. Þarna eru viss fordæmi, sem gefa okkur ástæðu til þess að ætla, að komi í ljós síðar, að þessi ákvörðun Alþ. reynist röng sem sé, að kennaraháskólinn skuli vera sjálfstæð stofnun, þá eru vissulega möguleikar á því að breyta því og leiðrétta það síðar.

Varðandi það, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði, þá hefur verið lýst hér yfir, að von sé á frv. um réttindi kennara, en það sé einmitt í undirbúningi. En ég vil taka undir orð hans um það, að vonandi verði þá skýrari og betri ákvæði um réttindi kennara en nú eru í gildi. Og ég vil einnig taka undir það, sem hann sagði, að það muni vera eðlilegt á næstu árum, eftir því sem menntaskólarnir vaxa og þeir taka upp meiri deildaskiptingu, m.ö.o. fjölbreyttari kennslu, að þar komi til skjalanna eins konar kennaradeildir, þannig að undirbúningsnám fyrir kennaraháskólann geti á vissan hátt beinlínis hafizt á einhverjum stigum í einhverjum menntaskólanna.

Ég vil að lokum leggja áherzlu á, að þau atriði, sem við höfum enn vissar efasemdir um, eru vissulega mikilvæg, en um hin stóru meginatriði þessa frv. hefur eltir ítarlega meðferð náðst þó nokkuð mikið samkomulag, sem ég met mikils og sem ég vænti, að verði til þess, að frv. verði samþ. — ekki bara í þessari d., heldur einnig í hinni d., og mál þetta verði skjótlega að veruleika. Það mun án efa þurfa að gera breytingar á þessum l., eftir að nokkur reynsla hefur fengizt, en það verður heldur ekkert einsdæmi, þegar að því kemur.