01.04.1971
Efri deild: 85. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1544)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Frsm. 1. minni hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og nál. þau, sem útbýtt hefur verið frá menntmn., bera með sér, þá hefur n. afgreitt málið — að vísu ekki orðið alveg sammála um afgreiðslu þess, en það kemur þó fram, að meiri hl. n. styður það, að málið nái fram að ganga í einhverri mynd. Nú er hér sömu sögu að segja um þetta frv. eins og ýmis önnur, sem verið hafa til afgreiðslu í háttv. d. og menntmn. hefur fjallað um síðustu daga, að sá tími, sem n. og d. raunar þá líka hafa haft til athugunar á málinu, hefur verið allt of skammur, þannig að á þessu verður meiri fljótaafgreiðsla en æskilegt væri. Ég dreg enga dul á það, þó að ég ásamt tveimur öðrum hv. nm. standi að nál. okkar á þskj. 717, að í sjálfu sér hefði ég talið mjög æskilegt, að málið yrði í heild betur undirbúið en það er. Hins vegar gerðum við okkur ljóst, að með tilliti til aðstæðna í kennaraskólanum, eins og þær eru nú, væri hætta á meira eða minna öngþveiti í málefnum skólans á komandi hausti, og töldum við það slíkan ábyrgðarhluta að taka þá afstöðu, að málinu bæri að fresta til næsta hausts, að við höfum farið þá leiðina að mæla með samþykkt frv. — að vísu með fáeinum brtt., sem ekki geta talizt mikilvægar, en ég get í örstuttu máli gert grein fyrir þeim. Þær eru á þskj. 718.

Það er í fyrsta lagi varðandi 12. gr. frv. Gert var ráð fyrir því í hinu upphaflega frv., að varðandi stöðuveitingar við kennaraháskólann yrði svipaður háttur hafður á eins og nú er við Háskóla Íslands, þ.e. að sérstök dómnefnd yrði skipuð til þess að dæma um hæfni umsækjenda og mætti engum umsækjanda veita embætti — þau embætti, sem þessi skipan tók til, — nema meiri hl. dómnefndar teldi viðkomandi hæfan til þess að gegna embættinu. Sú breyting var gerð á í háttv. Nd., að í stað þess, að sérstök dómnefnd yrði skipuð, þá yrði það skólaráð, sem um þetta fjallaði. Vel má vera, að það hafi ekki verið hv. menntmn. Nd. að kenna, heldur misskilningi hjá þeim, sem bjuggu þessa brtt. undir prentun, en svo illa tókst til,.að ákvæði 12. gr. um dómnefndina höfðu ekki verið felld burtu, þannig að hún var óskapnaður, eins og hún hefur verið prentuð hér á þskj. 577. Þess vegna varð undir öllum kringumstæðum að breyta þessu, og menntmn. Ed. hefur litið þannig á, að rétt sé að færa þetta í sitt upprunalega form, þ.e. að það sé sérstök dómnefnd, sem um þetta fjallar, en ekki skólaráð. Mér finnst eðlilegt, að um skipan í embætti við kennaraháskólann gildi svipaðar reglur og við Háskóla Íslands. Vera má að vísu, að það mundi leiða til nokkurs sparnaðar að fela skólaráði þetta, en óeðlilegt mundi okkur þykja í Háskóla Íslands, ef sá háttur væri hafður á þar, þannig að það væri háskólaráð, sem ætti að gefa umsögn um hæfni umsækjenda. Því gæti verið svo varið, að enginn ætti sæti í háskólaráði, sem hefðiskilyrði til þess að dæma um hæfni umsækjenda í einstakar stöður. Ég segi nú ekki, að þetta mundi vera alveg hliðstætt við kennaraháskólann, en mér finnst eðlilegt að hafa þarna sama hátt á. Álitamál getur verið, hvort rétt sé að gera ráð fyrir því, að þetta gildi einnig um lektorsstöður. Ég hafði nú hugsað mér að athuga það við 3. umr., hvort rétt væri að fella það niður úr heimildarákvæði 12. gr., er hún hefur verið færð í sitt upphaflega form, en n. er a.m.k. þeirrar skoðunar, að þetta eigi við prófessora og dósenta. En eins og háttv. form. menntmn. Nd. hefur bent mér á, er sá galli á þessari afgreiðslu menntmn. Ed. á þessu máli, að okkur hefur sézt yfir, að þá þarf að breyta ákvæðum til bráðabirgða í 24. gr. frv. frá því, sem nú er, þ.e. að fella niður úr þeirri gr. það, sem enn stendur þar um dómnefndina. Vil ég leyfa mér að leggja hér fram skrifl. brtt. um þetta efni og mælast til þess við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða fyrir henni, þar sem hún er skrifleg og of seint fram komin, en hér er í rauninni einvörðungu um leiðréttingu að ræða.

Í öðru lagi flytur menntmn. á þskj. 718 brtt. við 19. gr. frv. þess efnis, að fræðslustjóri Reykjavíkurborgar eigi sæti í stjórn Æfingaskólans við kennaraháskólann, eins og það verður kallað eftirleiðis, þar sem hér er um að ræða hluta af fræðslukerfi borgarinnar. Má telja þetta eðlilegt, og vænti ég þess, þó að það séu aðeins þrír þm., sem standa að þessu áliti, að um það sé ekki ágreiningur í n. Til álita gæti komið að breyta 22. gr. frv. til samræmis við þetta, en hún fjallar um æfingar í barna- og gagnfræðaskólum á höfuðborgarsvæðinu. Við töldum það þó ekki svo mikilvægt, að við tækjum það inn í okkar till.

Þriðja brtt., sem við flytjum, er aðeins til leiðréttingar.

Eins og ég sagði, þá tel ég, að helzt til mikill flýtir hafi verið á afgreiðslu þessa máls. Hér er vissulega um mikilvægt spor að ræða, þar sem ákvarðað er, að sú fræðsla, sem kennaraskólinn hefur veitt, verði eftirleiðis færð á háskólastig. Það er mín skoðun, að svo hljóti hvort eð er að verða í framtíðinni og raunar því betra, því fyrr sem slíkt spor er tekið, þ.e. að færa þessa fræðslu á háskólastig. En eðlilega kemur það sjónarmið til álita í þessu sambandi, hvort ekki sé þá eðlilegt, að kennaraháskólinn heyri framvegis undir háskólann annaðhvort sem sjálfstæð deild eða í tengslum við heimspekideild háskólans. Mér er kunnugt um það, að háskólinn er ekki við slíku búinn. En rétt er að vekja á því athygli þeirra hv. dm., sem kann nú að finnast, hvað sem öllu öðru líður, að slík breyting sé varla tímabær, að fordæmi er fyrir því, að stofnun hliðstæðri kennaraháskólanum hefur verið komið á fót. Það var þegar Viðskiptaháskóli Íslands var stofnaður á sínum tíma löngu fyrir stríð. Síðan var hann að vísu innlimaður í lagadeild háskólans, eins og kunnugt er, en við erum það illa settir, að við höfum aðeins þetta eina orð „háskóli“, sem nær yfir bæði „höjskole“ á Norðurlandamálum, sem eru stofnanir hliðstæðar kennaraháskólanum, og „universitet“, sem þær stofnanir eru kallaðar, sem eru hliðstæðar Háskóla Íslands. Rétt er að hafa þetta í huga.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að orðlengja um þetta mál, en vil geta þess, að ég mun styðja þá brtt., sem flutt er af þeim hv. nm. á þskj. 749, þar sem kveðið er svo á, að l. skuli endurskoðuð eigi síðar en að tveimur árum liðnum frá gildistöku þeirra. Þessi till. finnst mér eðlileg, og leiðir það í rauninni þegar af því, sem ég hef sagt, að helzt til mikill flýtir hefur verið á afgreiðslu þessa máls, þannig að ég mun fyrir mitt leyti greiða þessu atkv.

Á þskj. 754 hefur hv. 5. þm. Reykn. lagt fram nokkrar brtt. Þar er lagt til, að nánari tengsl verði á milli kennaraháskólans og háskólans en í frv. felast. Ég vil síður en svo taka afstöðu gegn slíkum hugmyndum, en ekki mundi ég nú samt treystast til þess að greiða atkv. með þessum brtt., nema fyrir lægi álit og afstaða háskólamanna til þeirra. Það má vel vera, að slík afstaða mundi verða jákvæð, en tími hefur ekki gefizt til þess að vísa þessu máli til umsagnar háskólaráðs og fá fram afstöðu þess til málsins. Varðandi 2. brtt. hv. þm., en samkv. henni mundi málið ekki verða eins bundið og nú er, þá vil ég alls ekki mæla gegn þeirri till. Mér finnst, að margt mæli með henni, en eftir upplýsingum, sem ég hef fengið, mun stjórn kennaraskólans vera þessu andvíg, en slíkt verður auðvitað engan veginn bindandi fyrir hv. dm.

Flest af þessu, sem ég hef sagt, stendur í rauninni fyrir eigin reikning, þannig að þeir hv. meðnm., sem undir nál. hafa skrifað með mér, eru engan veginn bundnir af því. En ég vænti þess, hvernig sem fer með þær brtt., sem fram hafa verið lagðar, að niðurstaða málsins verði þó sú, að það verði afgreitt í þessari hv. deild.