01.04.1971
Efri deild: 85. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Frsm. 2. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Eins og þegar hefur nú fram komið, var því víðs fjarri, að menntmn. gæti sameinazt um eitt nál. Þau eru þrjú og brtt. frá fjórða nefndarhlutanum. Það gæti þá bent til þess, að í n. hefði ríkt takmörkuð hrifning af því, sem hér stendur til að gera. Ég hygg nú að sú ályktun sé ekki fjarri lagi.

Ég stend ásamt hv. 2. þm. Austf. að nál. á þskj. 749 og vil nú leitast við að skýra afstöðu okkar. Eins og fram kemur á nefndu þskj., höfum við reynt að kynna okkur þetta mál eftir föngum. Bæði höfum við átt þess kost á fundum menntmn. að hitta einn af höfundum frv., skólastjóra kennaraskólans, og nokkra af forvígismönnum nemendasamtakanna í kennaraskólanum. Við höfum þó ekki látið sitja við þessa athugun, heldur höfum við utan þessara funda átt mörg samtöl við ýmsa menn, sem láta sig skipta þessi mál og framkvæmd þeirra varðar öðrum fremur — menn úr ýmsum kennarastéttum, barnakennara, kennara við skóla, sem ná yfir allt skyldustigið, framhaldsskólakennara og háskólakennara. Við þessa athugun höfum við látið sannfærast um það, að sú meginstefna, sem frv. boðar, sé rétt. Það er því samkv. okkar áliti rétt, að kennaramenntun sé á háskólastigi. Vaxandi fjöldi íslenzku þjóðarinnar lýkur nú stúdentsprófi eða hliðstæðu námi, og sá hluti þjóðarinnar, sem velst til að kenna ungmennum og börnum, á að vera úr þeim hópi. Þau störf eru að okkar dómi svo þýðingarmikil, að menntun til þeirra ber að vanda kannske öðrum störfum fremur.

Sú lagasetning, sem hér um ræðir, er spor í þessa átt. Síðan málið var til meðferðar í Nd. og afgreitt þaðan, hafa tvær umsagnir um það borizt, sem vert er að athuga. Önnur þeirra er frá n., sem rektor Háskóla Íslands skipaði hinn 5. f. m. til þess, eins og þar segir, , að gefa umsögn um frv. til Kennaraháskóla Íslands.“ Í n. voru fjórir prófessorar og einn lektor, og urðu þeir sammála um umsögn, sem m.a. hefur verið birt í blöðum og við nm. menntmn. Ed. höfum fengið í hendur. En niðurstaða hennar er svofelld:

„Þeirri stefnu ber að fagna, sem lýsir sér í frv. til I. um Kennaraháskóla Íslands, að bæta menntunarskilyrði þeirra, sem óska að búa sig undir kennarastarf. Nefndinni virðist þó, að óljóst sé kveðið á um nokkur atriði, sem verða að teljast mikilvæg fyrir tilhögun kennaramenntunar og árangur af starfi kennaraháskóla. Málið er í heild svo þýðingarmikið, að ýmis veigamikil atriði þarf að kanna betur, áður en frv. er lögfest. Nefndin leggur því til, að frv. til l. um Kennaraháskóla Íslands verði tekið til endurskoðunar á þann hátt, sem hinu háa Alþ. og hæstv. menntmrh. þykir viðeigandi.“

Þetta álit er dagsett 17. marz og undirskrifað, eins og ég sagði, af fjórum prófessorum og kennara eða lektor. Áður en ég ræði þetta álit nokkuð frekar, langar mig til þess að minna á álitsgerð um sama efni, sem ráðstefna Félags háskólamenntaðra kennara sendi frá sér um þetta mál þann 21. f. m., en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðstefnan fagnar þeirri meginhugsun frv., að auka þurfi menntun kennarastéttarinnar. Hins vegar telur ráðstefnan ýmis framkvæmdaatriði frv. orka tvímælis. Með tilliti til mikilvægis þessa máls þarf að kanna slík atriði nánar, áður en frv. væri lögfest. Það væri því mikið fljótræði að samþykkja frv. á því Alþ., sem nú situr, án þess að slík endurskoðun fari fram.“

Báðar þessar álitsgerðir og raunar flest þau álit, sem um málið hafa verið birt, telja, að hér sé farið inn á rétta braut, en á það bent, að vegna framkvæmdarinnar væri rétt að láta lögfestingu frv. bíða. Ég hef reynt að gera mér grein fyrir því, hvaða ákvæði það eru, sem þessir tveir hópar, annars vegar fulltrúar Háskóla Íslands og hins vegar fulltrúar Félags háskólamenntaðra kennara, hafa mestar áhyggjur af varðandi framkvæmd l., og virðist mér það vera einkum tvennt — annars vegar staða kennaranámsins í menntakerfinu og hins vegar tengsl kennaraháskólans og Háskóla Íslands, tvær vissulega mjög svo þýðingarmiklar hliðar þessa máls.

Í umsögn Háskóla Íslands eða n., sem starfaði að málinu á vegum Háskóla Íslands, er á það bent, að hagkvæmara sé bæði fjárhagslega og menntunarlega, að kennarastúdentar í greinum, þar sem miklar kröfur eru gerðar til nemenda, ættu aðgang að báðum háskólunum, og frá því skýrt, að mörg dæmi um slík tengsl og samstarf megi finna víða erlendis.

Sama hugsun kemur fram í þeirri till. Félags háskólamenntaðra kennara, að kennsla í ýmsum kennslugreinum, sem taldar eru upp í 7. gr. frv., skuli fara fram í Háskóla Íslands, ef það þyki hagkvæmara, og víða sjást merki um þessa hugsun í álitsgerðinni, sbr. brtt. við 11. gr., þar sem lagt er til, að heimilt sé að ráða kennara að hluta til starfa við Háskóla Íslands og að hluta við Kennaraháskóla Íslands. Um þessi atriði hafa nú verið fluttar brtt. af hv. 5. þm. Reykn., og mun ég kannske koma að þeim nokkrum orðum síðar í þessari ræðu. Um hitt atriðið, stöðu Kennaraháskóla Íslands og manna, sem þaðan útskrifast, í menntakerfi þjóðarinnar, er t.d. fjallað í aths. ráðstefnunnar við 5. gr., þar sem þeir gera að till. sinni, að skipuleggja skuli námið sem a.m.k. þriggja ára nám, og enn fremur í aths. um 1. gr., þar sem þeir vilja fella niður þá takmörkun, að próf frá kennaraháskólanum skuli aðeins veita réttindi til að kenna og leiðbeina ungmennum á skyldunámsstigi.

Frá því að ég leit þetta frv. fyrst augum hefur mér fundizt ósamræmi í því að stofna háskóla, sem ekki veitti hin æðstu réttindi í viðkomandi grein. Mér finnst það óeðlilegt og ekki í samræmi við þá málvenju, sem hér hefur tíðkazt. Þegar við höfum talað um háskóla, þá höfum við alltaf átt við það, sem á erlendu máli er kallað „universitet“, sem veitir æðstu menntun í viðkomandi menntagrein. Sá háskóli, sem hér á að stofna, gerir það ekki. Samkv. ákvæðum þeim, sem ég vitnaði til í 1. gr. frv., á hann aðeins að veita réttindi til að leiðbeina og kenna ungmennum á skyldunámsstigi. Ég held því, að það sé ofureðlilegt, að þrátt fyrir þetta nafnabrengl, sem ég skal ekki gera frekar að umtalsefni, sé það eðlilegt, að þessi námsbraut sé felld inn í menntakerfið. Ég er ekki tilbúinn til að benda á heppilegustu leiðir til þess, sem til greina koma. Félag háskólamenntaðra kennara hefur fyrir sitt leyti bent á nokkur atriði, sem auka mundu þessi tengsl.

Þetta, sem hér hefur verið nefnt, mætti þá skoðast sem rökstuðningur fyrir því, að lögfestingu frv. bæri að fresta. Á hinn bóginn er það vitað, að meðal ýmissa manna í kennarastétt og líka þeirra, sem ákveðið hafa að gera kennslu að ævistarfi, er mjög mikill áhugi ríkjandi fyrir því, að breyting sú, er í frv. felst, nái sem fyrst fram að ganga og það helzt strax. Á það er einnig bent, eins og hv. frsm. 1. minni hl. kom hér að, að aðstæður allar í kennaraskólanum séu nú slíkar, að starfsemi hans í núverandi mynd geti vart haldið áfram. Því sé breytinga þörf. Við höfum heyrt einhverjar raddir um það, að loforð hæstv. menntmrh. um lagasetningu á þessu þingi sé fengið. Slíkar raddir met ég lítils, því að enn þá er það þó svo, að Alþ. setur l., þó að vera megi, að einstökum ráðh. hætti til að gleyma því stundum. En hvernig sem því er farið, þá má ætla með einum hætti eða öðrum, að ýmsar vonir hafi vaknað um úrbætur í málefnum kennaranema.

Ég skal ekki ræða hér að þessu sinni sérstaklega um ástandið í kennaraskólanum. Ég hef gert það áður hér á hv. Alþ. og endurtek það ekki, en læt aðeins duga að segja það, að við svo búið getur ekki staðið, að 950 nemendur hafist við í húsakynnum, sem eru ætluð fyrir 250 manns. Auk þess vantar alla sérkennsluaðstöðu, íþróttaaðstöðu o.s.frv., o.s.frv. — má ég segja. Það getur því ekkert hlé orðið hér á byggingaframkvæmdum, þó að nafni skólans sé breytt. Það verður að halda áfram því byggingastarfi, sem hafið var fyrir um það bil áratug, rúmum áratug, og lítið hefur miðað í seinni tíð. Og sparnaðar, held ég, að menn þurfi ekki að vænta af þessari breytingu. Nýi skólinn mun þurfa marga prófessora, dósenta og lektora auk annarra starfsmanna, og enginn vafi er á því, að hér er ráðizt í kostnaðarsamt fyrirtæki. Næga kennara þurfum við að hafa, og engin takmörk getum við viðurkennt fyrir fjölda þeirra — önnur en þörfina.

Okkur hv. 2. þm. Austf. hefur komið til hugar, að unnt sé að samræma þau tvö meginsjónarmið, sem ég hef reynt að draga hér fram og flestir hafa látið uppi á annan hvorn veginn, þegar mál þetta hefur borið á góma. Annars vegar er það sjónarmið, að auka þurfi menntun kennara og lyfta henni á hærra stig, uppfylla þannig vonir þeirra, sem horft hafa til þessarar lausnar vonaraugum, og svo sjónarmið hinna, sem enda þótt þeir játi því, að frv. horfi til bóta, telja flestir, að framkvæmdin verði misheppnuð, sé frv. samþ. óbreytt. Þess vegna er till. okkar, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., að skylt skuli að endurskoða það eigi síðar en tveimur árum eftir að lögin öðlast gildi. Við það mundi vinnast, að við þessa endurskoðun, sem margir vilja, að fari fram, væri hægt að hafa hliðsjón af þeirri reynslu, sem fengist hefði á allt að tveggja ára starfsferli hins nýja skóla. Það er vissulega ekki lítils virði. Mér finnst fullkomlega eðlilegt, að Alþ. viðurkenni, að svo viðamikil lagasetning, sem hér um ræðir, með óteljandi nýmælum og frávikum frá troðnum slóðum, þurfi ekki að vera fullkomleikinn holdi klæddur. Þvert á móti er raunar æskilegt, að slík endurskoðun fari fram — ekki bara á þessum l., heldur á fjölda annarra l., sem Alþ. afgreiðir hverju sinni og þá ekki sízt, þegar afgreiðsluhættir eru með því móti, sem nú tíðkast hér síðustu dagana og hv. form. okkar í menntmn. þessarar d. gerði svo vel grein fyrir hér áðan, og undirstrika ég hvert orð, sem hann sagði um það.

Ég vil benda á til samanburðar í þessu tilviki, að þegar Alþ. afgreiddi l. um Lífeyrissjóð bænda, var svipað ákvæði lögfest. Þar var um nýjung að ræða, sem allir voru í grundvallaratriðum sammála um, að koma þyrfti, en einnig þar greindi menn á um framkvæmdina. Þá var þessi leið valin að endurskoða lögin eftir tiltekinn tíma, lög ákveða það, og ég held, að það geti verið skynsamlegt víðar. Lífeyrissjóður bænda er hið merkasta mál, ég skal fúslega viðurkenna það, og hann er fyrsta tilraun Alþ. til að skipa lífeyrissjóðsmálum manna, sem ekki eru launþegar, þannig að þeir geti notið þeirra hlunninda, sem eftirlaun úr lífeyrissjóðum veita. En einnig hér erum við að fjalla um þýðingarmikið mál, þ.e. hvernig hagað skuli menntun þeirra, sem eiga að kenna yngstu nemendunum. Þeirra starf er kannske öllu mikilvægast, því að lengi býr að fyrstu gerð.

Hv. menntmn. Nd. hafði þetta frv. alllengi til endurskoðunar og athugaði það rækilega. Árangur þeirrar athugunar eru margar og viðamiklar breyt., sem að dómi þeirra, sem ég hef rætt við um málið, eru til mikilla bóta flestar og sumar raunar alveg nauðsynlegar eins og t.d. sú breyt., sem gerð var á 4. gr. varðandi rétt þeirra, sem lokið hafa prófi frá kennaraskólanum, til þess að bæta við sig námi í kennaraháskólanum og ljúka þaðan embættisprófi, eins og segir í gr. Við yfirlestur á þessu atriði sýndist mér raunar, að heitið „embættispróf“ hefði hv. Nd. fellt niður í öðru sambandi, þ.e. í sambandi við 10. gr. Ég veit ekki, hvort hér er um svo verulegt ósamræmi að ræða, að breyta þurfi; það verður nú vafalaust athugað milli umr. En hvað sem því liður, þá var nauðsynlegt að tryggja stöðu þeirra, sem lokið hafa prófi frá kennaraskólanum í sinni núverandi mynd, og tengja þá við þá menntabraut, sem hér er ákvörðuð.

Ég held, að það sé ástæða til þess að taka það fram, að ég er sammála, og ég held við í 2. minni hl. báðir, a.m.k. er ég það, þeim brtt., sem hv. frsm. 1. minni hl. var að gera hér grein fyrir, enda athuguðum við nm. allir þau atriði, og ég held, að við séum allir samþykkir þeim; þáð mun atkvgr. sýna.

Ýmsir telja, að þetta frv. hefði ekki átt að afgreiða á þessu þ., eins og ég hef áður sagt, heldur skoðast t.d. af mþn. til næsta hausts, líkt og farið verður með frv. um grunnskóla, frv. um íþróttaskóla og raunar fleiri frv. þessu skyld. Ég held einnig, að þeir, sem mest berjast fyrir framgangi þessa máls og mestra hagsmuna telja sig eiga að gæta, mundu ekki hafa þurft að sjá eftir því, þótt sú málsmeðferð hefði verið viðhöfð. En ég skil stöðuna svo, að stjórnarflokkarnir hv. hafi afráðið að knýja fram úrslit málsins nú á þessu þ., og í ljósi þess höfum við, ég og hv. 2. þm. Austf., afráðið að standa ekki í vegi fyrir því, að svo geti orðið, en viljum gera tilraun til þess að tryggja, að l. fái endurskoðun eftir hæfilegan reynslutíma, sem eftir okkar mati eru tvö skólaár. Því er brtt. á þskj. 749 flutt, og ég vona, að hv. þdm. geti sameinazt um hana, og ég sé ástæðu til þess að þakka hv. 10. þm. Reykv. fyrirhugaðan stuðning við hana.

Það eru ýmis atriði í sambandi við þetta frv., sem koma til athugunar. Því er haldið fram mjög eindregið af ýmsum þeim kennurum, sem ég hef átt tal við um þetta mál, að það sé mikill misskilningur og útbreiddur misskilningur hjá ýmsum, að það þurfi minni menntun til að kenna yngri aldursflokkunum en þeim eldri á skyldunámsstigum. Og einn skólastjóri sagði við mig, að stúdentar, sem hann hefði fengið til stundakennslu, hefðu vel getað kennt eldri árgöngunum, en þeir hefðu alls ekki getað kennt yngri árgöngunum. Þetta kann vel að vera. Ég get ekki rengt þetta. Þetta er það, sem margir skólamenn segja. En það hlýtur þó að vera annars konar undirbúningur, sem þarf, og listin að kenna mjög ungum nemendum er ekki eingöngu sú að kunna námsefnið, heldur nánast að kunna að kenna það. Og einn aðalgallinn, sem mér finnst á þessu fyrirhugaða háskólanámi, þriggja ára námi, er sá, að ekki skuli vera varið nema 12 vikum á þessum þremur árum til verklegs undirbúnings. Það finnst mér hljóta að koma til endurskoðunar, ef ekki fyrr, þá eftir tvö ár, ef till. okkar hv. 2. þm. Austf. verður samþ. Ég innti skólastjóra kennaraskólans eftir þessu, hvort hann áliti þessa kennslu næga. Hann hafði vissar efasemdir um það, að hún væri næg, viðurkenndi það, eða ég skildi hann svo. Hann benti okkur á það, að annað nám þyrfti að taka svo mikinn tíma, að ekki yrði tími til þess að verja nema 12 vikum á þrem árum í verklegt nám. Þetta tel ég galla, og ég held, að þetta sé eitt af þeim atriðum, sem þarf að líta á.

Annað atriði, sem við höfum oft heyrt nefnt sem varhugavert við þessa breytingu, er það, að þegar allir kennarar eru orðnir háskólamenntaðir, þá muni enn þá færri fást til að kenna í hinum dreifðu byggðum en vilja þó nú gera það. Ég er ekki fyrir mitt leyti svo ákaflega hræddur við þetta. Ég held, að kennaraskortur dreifbýlis stafi ekki fyrst og fremst af því, að það séu svo fáir menn í þjóðfélaginu, sem hafi réttindi til að kenna. Ég dreg þessa ályktun af því, að í kennaraskólanum nú í vetur munu vera ámóta margir nemendur og allir kennarar í landinu eru eða rúm 900. Ég held, að það hljóti því að vera eitthvað annað, sem veldur því, að kennarar fást ekki í dreifbýlið, og það verði að leita annarra ráða til þess að fá þá þangað. Ég get vel ímyndað mér, að það, sem mestu ráði um þetta, sé starfsaðstaða, sem þeir telja ófullkomna í dreifbýlinu, og hana fái þeir betri hér í þéttbýlinu. Það má vel hugsa sér, að staðaruppbót eða launakjör gætu ráðið þarna einhverju um. Ég skal ekki fella dóm um það, en það verður auðvitað ekki til framdráttar kennaraliðinu, eða fjölgunar kennaraliðinu í landinu að hafa kennaraskóla, sem útskrifar fjölda manns, sem aldrei hafa ætlað sér að leggja kennslu fyrir sig. Ég held, að ef þessi tilhögun verður upp tekin, að háskólabraut verði stofnuð fyrir kennara, þá geti það orðið til þess og verði til þess, að þangað fari þeir fyrst og fremst, sem ætla að leggja fyrir sig kennslu, hafi áhuga á henni og vilji raunverulega læra til þess að geta orðið kennarar.

Kennaraskólinn í núverandi mynd er náttúrlega góður, en það er en inn vafi á því, að þar þarf einhverju að breyta. Ég skal ekki lengja þessar umr. frekar. Hér hefur verið útbýtt brtt. frá hv. 5. þm. Reykn., sem mér sýnist eiga að koma til móts við ályktun ráðstefnu Félags háskólamenntaðra kennara, sem áður hefur verið gerð að umtalsefni. Ég tel víst, að þetta sé til nokkurra bóta — a.m.k. til þess fallið að auka tengsl þessara tveggja háskóla. Á því tel ég fulla þörf, en minni þó á það, að sá ræðumaður, sem hér talaði síðastur og er einmitt prófessor við Háskóla Íslands, taldi nokkur tormerki á að samþykkja þessar brtt., án þess að Háskóla Íslands hefði gefizt tækifæri til þess að tjá sig um þær og láta í ljósi álit sitt um þær. Ég gæti vel ímyndað mér, ef til endurskoðunar kemur, eins og við hv. 2. þm. Austf. gerum tillögu um, að þá mundu einmitt þessi atriði vera mjög ofarlega á þeim lista, sem þar kæmi til athugunar. Ég tel það raunar alveg víst, og ég vil nú upplýsa það, að fulltrúar einmitt frá Félagi háskólamenntaðra kennara komu að máli við mig og sýndu mér þessar till. og báðu um stuðning við þær, og ég tjáði þeim, að ég mundi fremur leggja áherzlu á það, að málið í heild fengi fljótlega endurskoðun, eftir að l. hafa tekið gildi, t.d. með þeim hætti, sem hér er lagt til af okkur, og þess vegna sé ég ekki, að ég geti veitt þessum till. stuðning, þó að ég taki það fram, að ég tala hér einungis fyrir mig einan, og ég get vel ímyndað mér, að þær væru til bóta.

Þar að auki vil ég benda á, að það er ekki harkalega neglt fyrir gluggana í þessu frv. Hv. 2. þm. Austf., sem er vanur að fjalla um lagasmíð og hefur átt hlut að því lengi, benti okkur á það t.d. á fundi hv. menntmn., að það væri ekki mjög ákveðið lögfræðilegt orðalag t.d. á 6. gr., sem er svona:

„Ef námsefni Kennaraháskóla Íslands skiptist í 12 hluti og hver hlutur jafngildir um það bil 6 ársvikustundum, skulu hlutföll einstakra greina vera nálægt því, er hér segir ...“

Þetta er nú ekki ýkja ákveðið orðalag, og segir raunar náttúrlega ekki neitt. Hvað á að gera, ef námsefni í kennaraháskólanum skiptist ekki í 12 hluti? Um það segir ekki neitt. Og hv. 5. þm. Reykn. hefur tekið þetta orðalag óbreytt upp og gert svo till. til breytinga á öðrum ákvæðum í gr. Mér sýnist, að til móts við þessar kröfur sé unnt að koma án breytinga á frv.

Nei, ég skal alveg viðurkenna það hér, að þessi ákvörðun um að standa að samþykkt frv. um Kennaraháskóla Íslands hefur orðið mér nokkuð erfið, og ég hefði fremur kosið, að sami háttur hefði verið hafður á um þetta frv. og önnur þau frv. til breytinga á skólakerfi landsmanna, sem nú eru á dagskrá, samin af sömu mönnum meira og minna og í samhengi, þ.e. að þau fengju að fylgjast að. Þess var ekki kostur, og af ástæðum, sem ég hef í þessari stuttu ræðu reynt að gera grein fyrir, þá viljum við þó fremur velja þann kostinn að veita þessu máli brautargengi hér í trausti þess, að það verði fljótlega endurskoðað, en að bregða fyrir það fæti og gera þar með að engu vonir þeirra manna, sem mest hafa mænt á þessa lausn sinna mála.