01.04.1971
Efri deild: 85. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1455 í B-deild Alþingistíðinda. (1548)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það má nú raunar til sanns vegar færa, að enda þótt ég hafi ekki skilað sérstöku nál., þá geti ég talizt 4. minni hl. í þessu máli, þar sem ég hef ekki skrifað undir hin minnihlutaálitin og flyt nokkrar brtt. við frv. Að hv. menntmn. þessarar virðulegu d. hefur í rauninni klofnað í fjóra hluta um þetta mál, sýnir að mínu viti tvennt: Annars vegar það, að menn hafa býsna mismunandi hugmyndir um það frv. og ágæti þess frv., sem verið er að fjalla um, og hins vegar, að ýmsir eru fremur vantrúaðir á, að þar hafi allt verið skoðað nægilega vel niður í kjölinn, áður en frv. var flutt. En þetta sýnir einnig hitt að mínu viti, að nú á hinum síðustu dögum þingsins í öllu annríkinu veitist þn. ekki það tóm til að gaumgæfa mikils háttar mál, sem nauðsynlegt er, og ég geri fastlega ráð fyrir því, að ef við hefðum haft í menntmn. nokkru rýmri tíma til þess að fjalla um þetta mál, þá hefðu nál. orðið færri en raun varð á, en eins og ég sagði, þá var hér um að ræða verulegan skort á tíma til þess að fjalla um svo mikilsverð mál, eins og þetta raunar er. Ég reyndi eftir föngum að fylgjast með meðferð málsins í n., og ég held, að ég hafi setið flesta eða alla fundi n., sem um málið fjölluðu, nema lokafundinn. Þá stóð þannig á, eins og ekki er óalgengt nú síðustu dagana, að ég var boðaður á tvo nefndarfundi hér í nefndum þessarar virðulegu d. á sama tíma, þar sem annars vegar var menntmn. og hins vegar sjútvn. þessarar d., og þarna varð ég að velja á milli andlegheitanna í menntmn. og efnishyggjunnar í sjútvn., og það fór nú þannig í þetta skiptið, að þá varð efnishyggjan fyrir valinu. Þess vegna er það, að ég hef ekki skilað sérstöku nál., en ætla með fáum orðum að lýsa afstöðu minni til þessa frv.

Ég er samþykkur þeirri meginhugsun frv., að það sé orðið tímabært og æskilegt að auka menntun kennara. Ég met mikils áhuga kennarastéttarinnar, en mér virðist a.m.k. verulegur hluti hennar hafa áhuga á því að gera veg hins gamla og góða kennaraskóla sem mestan og efla með aukinni menntun stöðu kennarastéttarinnar í landinu. Þetta tel ég eðlilegt og æskilegt og er þeirri meginhugsun fylgjandi. Aftur á móti tel ég, að ástæða hefði verið til þess að athuga miklu rækilegar en gert hefur verið, hvort það hafi verið rétta leiðin að taka þetta stóra stökk nú og ákveða, að allt kennaranám skuli fært upp á háskólastig í einu vetfangi. Og þó tel ég alveg sérstaklega, að ekki hafi verið færð fyrir því nein viðhlítandi eða fullgild rök, hvers vegna rétt var þá að stofna nýjan kennaraháskóla, en ekki að fara hina leiðina, sem margir hafa bent á, að efla heldur þá deild við Háskóla Íslands, sem veitir kennaraefnum menntun. Ég get ekki séð, að enn þá hafi í rauninni komið fram fullgild rök fyrir því að fara þessa leið, en það er hins vegar rétt, sem fram hefur komið, m.a. hjá hv. form. menntmn. og frsm. 1. minni hl., að fordæmi eru að vísu fyrir því, a.m.k. eitt, að sérstakur háskóli hafi verið stofnaður, viðskiptaháskóli, sem síðar eftir mjög skamman tíma þótti rétt og eðlilegt að sameina Háskóla Íslands, og ég spái því nú, að sú geti einnig orðið þróunin í þessu efni. Og mér þætti ekki ólíklegt, að reynslan sýndi það, að það væri ekki aðeins á ýmsan hátt ódýrara, heldur einnig á marga lund heppilegra, og kæmi m.a. í veg fyrir það, sem gæti verið óneitanlega nokkur hætta á og mér sýnist, að sum ákvæði frv. bjóði heim, þ.e. þeirri hættu, að kennaraháskólinn verði í sumum efnum eins konar annars flokks háskóli og ekki e.t.v. að öllu leyti sambærilegur við Háskóla Íslands eða þá deild Háskóla Íslands, sem veitir kennaraefnum menntun.

Ég get vissulega tekið undir það, sem þegar hefur verið lögð rík áherzla á af ræðumönnum hér á undan, að það hefði margt mælt með því, að þetta frv. hefði verið látið bíða, afgreiðsla á þessu hefði verið látin bíða og ekki knúin fram nú, heldur hefði málið verið athugað áfram til næsta þings og á næsta þingi og þá í sérstökum tengslum við þau skólamálafrv. önnur og þá alveg sérstaklega grunnskólafrv., sem þetta snertir óneitanlega á marga lund. Og ef tóm hefði gefizt til að kanna þetta mál nánar, þá hefði og verið ástæða til að athuga, hvert verður samband — eða tengsl — hins fyrirhugaða kennaraháskóla við þá skóla aðra, sem útskrifa kennaraefni — útskrifa væntanlega kennara á ýmsum sérsviðum. Þar á ég ekki fyrst og fremst við Háskóla Íslands, þó að hann útskrifi kennara til að kenna á gagnfræðastigi m.a., heldur á ég þar ekki sízt við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, við Íþróttakennaraskóla Íslands og aðra skóla, sem undirbúa menn undir kennslu á sérsviðum. Þá hefði og verið að mínu viti ástæða til að taka til sérstakrar athugunar í sambandi við kennaraskóla eða skólamál þeirra skóla allra, sem koma til með að mennta kennara, hvar sé fyrirhugað, að væntanlegir kennarar við iðnskóla landsins hljóti sína menntun. Það er ekki lítið atriði, og ég fæ ekki séð, að að því máli hafi verið hugað á fullnægjandi hátt. Þar er vissulega um að ræða sérhæfða kennslu að sumu leyti, en að öðru leyti að vísu er þar um að ræða kennslu í almennum greinum. Ég hygg, að þetta sé eitt af mörgu, sem hefði verið ástæða til að huga nánar að, ef tóm hefði gefizt til.

Hins vegar er það rétt, sem fram hefur komið, að svo lítur út, sem til hreinna vandræða horfi, ef þetta mál verður stöðvað nú, þar sem ég veit ekki betur en þegar jafnvel fyrir alllöngu síðan hafi allur undirbúningur undir kennaranám á næstunni verið við það miðaður, að þetta frv. næði fram að ganga. Það er að vísu ástæða til að spyrja, hvort rétt sé af Alþ. að láta að vissu leyti beygja sig á þann hátt, að ráðh. ásamt skólayfirvöldum taki þá ákvörðun að miða allt við það, að væntanlegt frv. nái fram að ganga, en þó hlýtur það að sjálfsögðu að hafa nokkur áhrif á afstöðu manna, þegar svo er komið, að stöðvun frv. kann að valda verulegri röskun og jafnvel öngþveiti við skólahald svo mikilvægs skóla, sem kennaraskólinn óneitanlega er.

Ég hef ekki sízt af þessum sökum tekið þá ákvörðun að nokkuð vandlega íhuguðu máli að fylgja þessu frv., en gera þó tilraun til þess að fá þar fram nokkrar breytingar, sem nær allar miða að því að auka tengsl kennaraháskólans og Háskóla Íslands og reyna eftir því, sem hægt er með lagasetningu, að koma í veg fyrir það, að svo fari, sem mér þykir nokkur hætta á, að litið verði á kennaraháskólann sem nokkurs konar 2. flokks háskóla og námið þar verði ekki að öllu leyti sambærilegt við jafnlangt nám í Háskóla Íslands. Þetta tel ég ástæðu til að reyna að forðast frá upphafi, og m.a. með það fyrir augum eru till. mínar á þskj. 754 fluttar. Þó er fyrsta till. nokkuð annars eðlis. Hún er við 3. gr. frv., og er þar lagt til, að 2. og 3. tölul. þeirrar gr., sem fjallar um nemendaráð, falli niður. En þessir tveir liðir hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta: „2. Um kosningar í nemendaráð og framkvæmd þeirra skal ákveðið í reglugerð.“ „3. Nemendaráð setur sér reglur um skipan, starfssvið og starfshætti. Skulu þær háðar samþykki meiri hluta nemenda í leynilegrí atkvæðagreiðslu.“

Ástæðan til þess, að ég legg til, að þessi tvö ákvæði um nemendaráð verði felld niður, er í stuttu máli sú, að ég tel það óeðlilegt og á engan hátt í samræmi við nútímalýðræðishugmyndir í skólamálum, að í löggjöf um kennaraskólann séu sett ákvæði um það, hvernig kosningar í nemendaráð og framkvæmd þeirra skuli fara fram. Ég hygg, að það sé á allan hátt eðlilegra, að um þetta fjalli nemendur sjálfir og setji sér um þetta sínar eigin reglur, en ekki utanaðkomandi aðili, því að ég get ekki skilið annað en sú reglugerð, sem hér er talað um, verði þá sett af menntmrn. Sama gildi raunar um 3. atriðið. Það liggur í augum uppi, að ef þetta yrði fellt niður, þá setur nemendaráð sér sjálft reglur, og ég tel óþarfa, að það standi í l., að þær skuli háðar samþykki meiri hluta nemenda í leynilegri atkvæðagreiðslu.

2. brtt. mín er við 6. gr., en að sumu leyti má segja, að hún sé einna veigamest af þessum brtt. Í stuttu máli fjallar hún um það að rígbinda ekki kennsluna eins mikið og gert virðist með ákvæðum 6. gr., eins og hún er nú, þannig að það séu auknir möguleikar til þess að haga henni eftir því, sem reynslan sýnir, að heppilegast sé, og eftir því, sem nauðsyn krefur, þegar farið er að kenna eftir þessum reglum. Ég held — og á það bendir sú grg., sem allir hv. þm. hafa fengið frá ráðstefnu þeirri, sem Félag háskólamenntaðra kennara hélt um þetta mál — að það sé algerlega rétt ábending hjá þeirri ráðstefnu, að þarna sé um of rígskorðað og ekki gert ráð fyrir fleiri möguleikum, sem þó þurfi að vera fyrir hendi eftir því m.a., hvaða aldursstigi væntanlegir kennarar koma til með að kenna. Það er enginn efi á því, að hér í þéttbýlinu verður nokkur verkaskipting. Það þarf vafalaust nokkuð annað nám til þess að kenna 7–8 ára börnum, svo að dæmi sé tekið, og á hinn bóginn 13–15 ára unglingum. Í síðara tilfellinu verður það vafalaust svo, að kennaraefni telja heppilegt að sérhæfa sig sem fagkennara í ákveðnum greinum, og möguleikar til þess, tel ég, að þurfi að vera í frv., en hér í þessari gr. eins og raunar víða í þessu frv. finnst mér, að óþarflega margt sé með tekið inn í lagafrv., óþarflega mikið rígskorðað af því, sem ætti að vera í reglugerð og ætti að vera auðvelt að breyta eftir því, sem reynslan sýnir, að bezt verði, þegar fram liða stundir. Enn má segja, að þeir kennarar, sem hugsa sér að kenna við litla skóla úti á landsbyggðinni, þurfi e.t.v. nokkuð annars konar nám og meira alhliða en síðasti hluti námsins er, sem hentar aftur betur þeim, sem gera jafnvel frekast ráð fyrir því að sérhæfa sig sem fagkennara við stóra skóla í þéttbýli. Þetta atriði eins og raunar fleira í frv. hefði verið eðlilegast að hafa nokkuð minna rígbundið og ákveða það með reglugerð. En þessi brtt. gerir þetta dálítið rýmra, svo að léttara er að breyta til í náminu á síðari stigum þess en ráð er gert fyrir með ákvæðum frv., eins og það liggur nú fyrir.

3. brtt. mín fjallar um það, að kennsla í tilteknum kennslugreinum, sem þegar eru kenndar við Háskóla Íslands, megi fara fram í Háskóla Íslands, ef það þykir hagkvæmara.

4. brtt. mín við 8. gr. fjallar um það, að inn komi í frv. ný gr., sem á að gera þeim mönnum, sem hafa tekið lokapróf frá Kennaraháskóla Íslands, kleift að stunda nám við Háskóla Íslands til þess að ljúka þaðan B.A.- eða B.S.-prófi og námið frá kennaraháskólanum verði metið sem ákveðinn hluti þessa náms, B.A.- eða B.S.-náms við háskólann, eftir ákvæðum, sem reglugerð setti um það efni. Þetta er einnig atriði, sem Félag háskólamenntaðra kennara hefur lagt áherzlu á í sínum till., og ég sé ekki betur en það sé á allan hátt eðlilegt og æskilegt, að þeir, sem lokið hafa prófi frá kennaraháskólanum, eigi þess kost, að þeir þurfi skemmri tíma til framhaldsnáms til B.A.-prófs og B.S.-prófs við Háskóla Íslands, ef þeir hyggjast ná þeim prófum og auka þar með möguleika sína til þess að kenna við gagnfræðaskóla og æðri skóla.

5. brtt. mín er við 9. gr., og það má segja, að þar sé um að ræða nokkuð almennt orðalag, en þar segir svo: „Gerðar skulu svipaðar kröfur til nemenda og um námsefni í Kennaraháskóla og gerðar eru til nemenda í Háskóla Íslands í jafnlöngu námi.“ Með þessu er í rauninni fyrst og fremst reynt að undirstrika það, að hér þurfi frá upphafi að reyna að hafa sem mest jafnræði á m.a. til þess að auka möguleikana á samstarfi þessara tveggja skóla og ekki síður hinu að koma í veg fyrir það, að litið yrði með réttu eða röngu á kennaraháskólann sem 2. flokks háskóla á einn eða annan hátt.

6. og síðasta brtt. mín við 11. gr. er enn um aukin tengsl milli kennaraháskóla og Háskóla Íslands, þar sem lagt er til, að heimilt sé að ráða kennara að hluta til starfa við Háskóla Íslands og að hluta við Kennaraháskóla Íslands. Það er svo með þessar till., að vitanlega hefði verið æskilegt að hafa lengri tíma til þess að fjalla um þær í menntmn., og þá alveg sérstaklega, þar sem þær snerta Háskóla Íslands margar hverjar, hefði verið æskilegt að ræða þær við háskólayfirvöld. Það hef ég að vísu ekki gert, en hins vegar orðað till. allar þannig, að þarna eru möguleikar opnaðir. Háskólinn er hvergi skyldaður til eins eða neins, en aðeins er um heimildarákvæði að ræða og um það talað, að þannig megi koma hlutunum fyrir, ef það þætti hagkvæmara. Hér er því ekki um neina þvingun að ræða í garð Háskóla Íslands, en opnað fyrir þeim möguleikum, að um aukið samstarf þessara tveggja háskóla verði að ræða, meðan þeir eru tveir, en ekki einn, eins og ég gæti trúað, að yrði nú framtíðarþróunin.

Ég skal nú láta þessum orðum mínum lokið, en vil þó aðeins áður en ég hverf héðan úr ræðustólnum, minnast á þær brtt. aðrar, sem hér eru fram komnar. Brtt. þær, sem hv. 1. minni hl. menntmn. flytur, eru að mínum dómi allar til bóta, og ég er þeim fylgjandi og tel alveg sérstaklega, að 1, brtt., tölul. a og b, sé eðlileg breyting og sjálfsögð. Ég mun einnig fylgja þeirri brtt., sem hv. 2. minni hl. menntmn. leggur hér fram, þ.e. að það skuli sett inn í 25. gr. l., að þessi nýju lög um kennaraháskóla skuli endurskoðuð eigi síðar en að tveimur árum liðnum frá gildistöku þeirra. Ég tel þetta eðlilegt af þeim ástæðum, sem ég hef þegar sagt, að strax og nokkur reynsla væri komin á þessa nýju skipan, yrði það lögum samkv. skylt að endurskoða l. í ljósi hinnar fengnu reynslu og breyta þá því, sem í ljós hefur komið, að æskilegt og nauðsynlegt sé að breyta eða betur megi fara.

Að svo mæltu vil ég vænta þess, að hv. d. taki til athugunar þær ábendingar, sem ég hef nú gert í sambandi við brtt. á þskj. 754, og geti eftir atvikum fallizt á, að þær séu til bóta, og samþykkt þær.