02.04.1971
Efri deild: 88. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar ég varð við þeim tilmælum hv. 10. þm. Reykv. og form. menntmn. að taka brtt. mínar aftur til 3. umr. við 2. umr. þessa máls, þá gerði ég mér að vísu vonir um, að þrátt fyrir allt gæfist tóm til þess að fjalla um till. í menntmn., og ég geri fastlega ráð fyrir, að það hafi einnig verið ætlun hv. 10. þm. Reykv., form. n., ef þess hefði verið kostur. Það hefur ekki tekizt, en allt um það þakka ég form. menntmn. fyrir þá viðleitni hans að fá eðlilega og rétta aðila til þess að fjalla um þessar till. Ég skal ekki endurtaka í rauninni neitt af því, sem ég sagði um till. við 2. umr. málsins, en í tilefni af ræðu hv. 10. þm. Reykv. vil ég þó taka fram fáein atriði.

Í sambandi við afstöðu skólastjóra kennaraskólans til 1. brtt. minnar um það, að fellt skuli niður úr lögum um Kennaraháskóla Íslands ákvæði um það hvernig nemendur eigi að haga kosningu, þá vil ég aðeins segja, að skólastjóri, sá ágæti maður, virðist leggja einhverja áherzlu á að fá þessi ákvæði inn í lög, af því að hann er ekki alls kostar ánægður með það fyrirkomulag, sem nú er hjá nemendum á þessum kosningum. En ég er þeirrar skoðunar að það sé eðlilegra og að ýmsu leyti heppilegra fyrir þann ágæta mann og reynda skólamann skólastjóra kennaraskólans, að hafa áhrif á það mál á annan hátt en með beinu lagaboði. Þetta er mín skoðun, og hún hefur sízt breytzt við þær upplýsingar, sem hér hafa komið fram, þ.e. að það sé óheppilegt að binda slíkt eins og þetta í lög.

Að því er snertir 2. brtt. mína, sem skólastjóri kennaraskólans berst einnig á móti, þá vil ég aðeins segja það, að þar eins og víðar í frv. finnst mér gæta of mikið tilhneigingar til þess að rígbinda í lögum þá námstilhögun, sem skólastjórinn og aðrir þeir, sem sömdu frv., telja nú við aðstæður, eins og þær eru, eðlilegar og heppilegar. Ég hefði haldið, að þróunin í skólamálum okkar — og þá einnig að því er snertir þennan skóla — sé það ör, að það sé einmitt óheppilegt að rígbinda námstilhögun í lögum, eins og mér þykir of mikið um í þessu frv. Og þá alveg sérstaklega í 6. gr., sem ég hef leyft mér að flytja brtt. við. Ég tel því, að öll þau rök, sem áður hafa verið færð fram fyrir því, að það sé óheppilegt að rígbinda það, eins og gert er hér í frv., standi fyllilega óhögguð.

Hv. 10. þm. Reykv. benti mér á það í sambandi við 3. og 4. brtt. mína, að í 1. gr. frv. til laga um kennaraháskóla sé vikið að því sama, sem brtt. mínar nr. 3 og 4 fjalla um, þ.e. samstarf á milli Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. En í þessari 1. gr. segir um þetta efni: „Skylt er Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands að skipta með sér verkefnum og viðurkenna sambærilegar námseiningar eða námsþætti hvors annars til þess að forðast tvíverknað.“ Brtt. mínar fjalla hins vegar um það, að kennsla í ákveðnum greinum, sem kenna ber eða ætlazt er til, að kenndar verði við kennaraháskólann, megi fara fram í Háskóla Íslands, ef það þykir hagkvæmara, og 4. gr. fjallar einnig um tiltekið nánara samband milli þessara tveggja háskóla. Ég get eftir atvikum fallizt á það að draga þessar tvær till. til baka með hliðsjón af því ákvæði 1. gr. frv., sem ég hef nú lesið, og með þeim skilningi, sem hv. 10. þm. Reykv. lagði áherzlu á, og ég ítreka, að í þessum ákvæðum 1. gr. felist í raun sama innihald og í brtt. mínum nr. 3 og 4 á þskj. 754. Að þessu athuguðu og með því að leggja áherzlu á þetta atriði tek ég aftur þessar tvær brtt. mínar nr. 3 og 4 á þskj. 754.

Þá skýrði hv. 10. þm. Reykv. frá því, að hann — og ég hygg einnig skólastjóri kennaraskólans legðust á móti 5. brtt. minni um það, að gerðar skuli svipaðar kröfur til nemenda og um námsefni í kennaraháskóla og gerðar eru til nemenda í Háskóla Íslands í jafnlöngu námi. Ég ætla ekki að endurtaka það, sem ég sagði um þetta atriði við 2. umr. málsins, en sé ekki ástæðu til þess að taka neitt aftur af því, og ég tel eðlilegt, að þessi till. verði samþ.

Um 6. till. mína við 11. gr. gegnir sama máli, að ég sé ekki, að færð hafi verið hin minnstu rök fram gegn því, sem ég tel í mörgum tilfellum geta verið hagkvæmnisatriði, að heimilt sé að ráða kennara að hluta til starfa við kennaraháskólann og að hluta við Háskóla Íslands. Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál, nema sérstakt tilefni gefist til, en vil vænta þess, að þær fjórar brtt., sem eftir standa af þeim sex, sem ég hef flutt á þskj. 754, megi ná fram að ganga.