05.04.1971
Neðri deild: 87. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (1557)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti.

Þessi hv. þd. sendi þetta frv. um Kennaraháskóla Íslands til hv. Ed. með shlj. atkv. á sínum tíma. Hv. Ed. hefur gert fáeinar smávægilegar breyt. á frv. Mikilvægasta breyt. er sú, að tekið yrði upp ákvæði í frv. um, að þessi l. skuli endurskoðuð eigi síðar en að tveim árum liðnum frá gildistöku þeirra. Má raunar segja, að þetta hefði verið unnt að gera, þó að ekki væri beint ákvæði um það tekið í frv. Það er eðlilegt, að fram fari endurskoðun á nokkurra ára fresti á löggjöf eins og þeirri, sem hér er um að ræða, en það ætti ekki að saka að hafa slíkt ákvæði um það í frv., að l. skuli endurskoða eftir tvö ár.

Þá voru tekin inn í frv. í hv. Ed. ákvæði um það, að skipa skuli dómnefnd til þess að dæma um hæfi umsækjenda í prófessorsstöður eða dósentsstöður. Ákvæði voru um þetta í upphaflega frv. Þau voru tekin út hér í þessari hv. d., en Ed. hefur bætt þeim inn í aftur.

Þá var í þriðja lagi gerð nokkur breyting á ákvæðunum um nemendaráð. Í upphaflega frv., eins og það var sent til hv. Ed., stóð, að um kosningar í nemendaráð og framkvæmd þeirra skuli ákveðið í reglugerð og nemendaráð setji sér reglur um skipan, starfssvið og starfshætti, og skulu þær hafa samþykki meiri hluta nemenda í leynilegri atkvgr. Þessi ákvæði felldi hv. Ed. niður.

Aðrar breytingar, sem hv. Ed. gerði, eru svo smávægilegar, að ég sé ekki ástæðu til þess að láta þeirra getið sérstaklega, en þetta eru meginbreytingarnar, sem hv. Ed. gerði á frv.