05.04.1971
Neðri deild: 88. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það hefur verið gerð breyting á frv. um Kennaraháskóla Íslands í Ed., og málið verður nú til einnar umr. af því tilefni. Við höfum leyft okkur, þrír þm., einmitt með tilliti til þessarar breytingar, sem gerð var í Ed., að flytja á þskj. 813 dálitla brtt. enn við frv. Hún er þess eðlis, að endurskoðunin, sem gert er ráð fyrir, að fari fram eftir tvö ár, skuli miðast við það, að kennaraháskóli eða kennaraskóli verði á Akureyri. Þessi till. er m.a. fram borin vegna þess, að í vetur hafa orðið miklar umr. um það efni hér í hv. Alþ., að rétt sé að dreifa ríkisstofnunum meira en gert hefur verið, og sérstaklega hefur verið um það rætt, að nauðsynlegt væri að fara að hyggja að því að dreifa skólastofnunum, m.a. sérgreinaskólunum, meira um landið en verið hefur, og ég hygg, að þarna sé einmitt að vakna skilningur á hv. Alþ. á þessu mjög svo mikilsverða máli, sem raunar hefur verið rætt hér á Alþ. allmörg ár, en þó við allt of daufar undirtektir þangað til í vetur, að maður verður var við, að nokkur skilningur sé að vakna á þessu efni.

Það hefur verið skoðun mín lengi og margra fleiri, að fullkomin ástæða sé til að efla Akureyri meira á sviði skólamálanna — sem skólabæ - en verið hefur. Að vísu er þar allmyndarlegur vísir að skólabæ nú þegar, sem menntaskólinn er aðalstofninn í, en hins vegar vantar nokkuð mikið á, að Akureyri geti talizt sá skólabær, sem bærinn gæti verið, og ég held, að við ættum einmitt að hyggja að því í sambandi við nýjar skólastofnanir, að þeim verði valinn staður utan Reykjavíkur og þá einna helzt á Akureyri, þar sem þessi vísir að skólabæ er þegar fyrir. Það er einmitt með tilliti til þessa, sem þessi brtt. er fram komin, og ég vænti þess, þó að ég ætli ekki að hafa um það öllu fleiri orð eða rökstyðja þetta mál frekar, vegna þess að ég hef gert það svo oft áður við önnur tækifæri hér í hv. d., að þessi till. fái stuðning hér í hv. Nd. og það leiði til þess, að kennaraháskólanum í framtíðinni verði valinn staður á Akureyri eða kennaramenntun a.m.k., eins og einnig er gert ráð fyrir í till., af einhverju tagi verði á Akureyri.