05.04.1971
Neðri deild: 88. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1471 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Frv. til l. um Kennaraháskóla Íslands á þskj. 308 var lagt hér fram fyrir hv. d.; að mig minnir, fyrst í febrúar eða 1. febr. Þetta er ákaflega viðamikið frv. um Kennaraháskóla Íslands og um kennaramenntun og nálgast því að vera bylting frá því, sem nú er. Þetta frv. var nokkuð rætt hér við 1. umr., áður en það fór til menntmn. Ég tók þá ekki til máls, en eftir að ég hafði kynnt mér það dálítið, var ég þó á móti því og gerði ekki sem skyldi í því að lýsa afstöðu minni. Ég tók það þó skýrt fram í þingflokki Framsfl., að ég væri andvígur þessu frv., og ég var ekki einn þeirra, sem greiddi götu þess til Ed., og ég vil minna á nú í upphafi máls míns, að fjöldi þm. eða mjög margir þm. Nd. voru fjarverandi, þegar þessu máli var vísað til Ed., og allir viðstaddir greiddu því ekki atkv., og ég held, að ég fari rétt með það, að í þeim hóp hafi verið a.m.k. einn ráðh.

Það má nú spyrja sem svo, hvers vegna eru nú Nd.- menn að hefja umr. um þetta mál, þegar það er búið að fara til Ed., og það hefur þar verið samþ. að vísu með nokkrum breytingum, sem orsaka það, að það þarf að senda þetta Nd. Hvers vegna eru þm. núna að taka til máls? Hvers vegna eru þeir ekki búnir að því? Og það má vel vera, að svoleiðis spurning eigi rétt á sér, en ég vil, hvað mér sjálfum viðvíkur, hreinlega segja, að frá því að frv. fór úr þessari d., hefur málið allt verið upplýst meira. Ég fylgdist allmikið með umr. í Ed. um málið þar, og í ljósi þeirra umr. og í ljósi þeirra breytinga, sem urðu á frv. þar, langar mig til að segja nokkur orð núna við þessa umr. hér.

Það, sem vefst fyrir mér í sambandi við að samþykkja þetta frv., er þessi spurning: Er nauðsynlegt fyrir okkar fámennu þjóð að krefjast háskólamenntunar til að kenna börnum á aldrinum 6–13 ára? Er nauðsynlegt, að kennararnir séu háskólamenntaðir við að kenna börnunum lestur, skrift og reikning, íslenzku, landafræði og náttúrufræði, svo að eitthvað sé nefnt? Og þá leitar á huga manns þessi spurning: Á að gera sömu menntunarkröfu til allra kennara á skyldunámsstiginu? Mín skoðun er sú, sem betur hefði verið sögð fyrr, þó að það hafi kannske ekki nein áhrif, að svo sé ekki. Ég held, að við höfum ekki ráð á því og þurfum ekki að gera sömu menntunarkröfur til kennara á skyldunámsstiginu og að af þeim sökum þurfi að athuga þetta frv. betur. Það er líka önnur spurning, sem blasir við. Er nauðsynlegt að hafa tvo háskóla á Íslandi? Við erum aðeins 200 þús. manna þjóð. Við þurfum að spara, og við verðum að forðast bruðl í okkar menntakerfi. Og nægir ekki Háskóli Íslands? Við skulum gera okkur það ljóst, að þegar búið er að samþykkja frv. um kennaraháskólann, þá geta aðrir skólar komið á eftir. Við höfum verzlunarskóla hér. Geta ekki upp risið aðilar, sem vilja fá verzlunarháskóla? Við höfum iðnskóla hér víða um land. Er nokkur goðgá að ætla það, að einhverjir vilji fá iðnaðarháskóla? Við erum með hjúkrunarkvennaskóla, og við erum með stýrimannaskóla, og við erum með vélstjóraskóla, og þó að þessir skólar kannske krefjist þess ekki, að það komi sjómannaháskóli eða neitt því um líkt, þá vaknar sú spurning, hvaða menntunarkröfur á að gera til kennara, sem kenna í þessum skólum. Ef þetta frv. verður að l., kenna háskólaborgarar börnum. Á þá að láta viðgangast, að menn með minni menntun kenni aftur í sjómannaskólum, húsmæðraskólum, iðnskólum og tækniskólum?

Ég held, að þetta frv. þurfi meiri umhugsun og það væri hollt að láta það bíða, og ég held persónulega og hef rætt um það við marga skólamenn — og vitna má til umsagna, sem eru þegar komnar um málið — að menntamálin í landinu bíði ekkert tjón af því, þó að þetta frv. verði látið bíða til haustsins. Á sama tíma og frv. um kennaraháskóla var lagt fyrir þingið var lagt fram frv. m.a. um grunnskóla, og hæstv. menntmrh. hefur fallizt á það, að grunnskólafrv. verði látið bíða til næsta hausts. Ég held, að það sé heppilegt, að þessi kennslumál verði skoðuð í heild af löggjafanum og þeirri samkundu, sem kemur saman í haust eftir kosningarnar, sem fram fara núna í júní. Ég get að mörgu leyti vel skilið hæstv. menntmrh., sem vill endilega afgreiða þetta mál. Hann er undir stöðugri smásjá. Það má varla tvísetja hér í skólum þessarar fátæku þjóðar, svo að ráðh. sé ekki skammaður fyrir það. Og það er ósköp eðlilegt, að hann hlaupi nú til og reyni að gera bragarbót á þessum kennslumálum. En ég held, að þrátt fyrir það eigi ekki að flaustra af þessu máli og það eigi að bíða til haustsins, eins og ég hef margtekið fram.

Ég vil ekki lengja þessar umr. frekar en orðið er, en ég leyfi mér ásamt þm. Ágústi Þorvaldssyni, Halldóri Sigurðssyni og Birni Pálssyni að flytja svo hljóðandi till. til rökst. dagskrár á þskj. 876 í málinu: Frv. til l. um Kennaraháskóla Íslands, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna þeirra mótmæla, er fram hafa komið gegn frv. þessu, m.a. frá háskólamenntuðum kennurum, og þar sem frv. í skólamálum, er lögð voru fram jafnhliða frv., verða ekki afgreidd á þessu þingi og samþykkt hefur verið í Ed. að endurskoða l., ef samþykkt yrðu, að tveim árum liðnum, telur Nd. Alþingis betri vinnubrögð að fresta afgreiðslu málsins nú og undirbúa málið betur fyrir næsta Alþingi og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“