06.04.1971
Neðri deild: 90. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (1565)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að tefja ykkur lengi hér. Menn eru nú orðnir þreyttir á þingsetunni, en mig langaði til að spyrja hæstv. menntmrh. nokkurra spurninga. Að sjálfsögðu eru hæstv. ráðh. ekki skyldugur til að svara. Ég hef ekki talað um þetta við hann áður, en langar aðeins til að spyrja um það, hvort áætlun hafi verið gerð um fjárhagsleg áhrif þessarar lagabreytingar á rekstur kennaraskólans, m.a. hvað áætlað er, að þessir væntanlegu prófessorar og dósentar kenni marga tíma á viku í framtíðinni, hvort það eigi að vera hliðstætt kennsluskyldu prófessora í háskólanum eða hvort kennslustundir eigi að vera óbreyttar frá því, sem verið hefur. Í öðru lagi langar mig til að spyrja, hvort nokkur áætlun hafi verið gerð um þær launabreytingar, sem af þessu leiða, eða fjölgun kennara, ef um færri kennslustundir væri að ræða hjá hverjum kennara, og hversu mikilli fjárhæð það mundi nema. Það er í sjálfu sér ekki nema eðlilegt, ef á að breyta l. um rekstur einhverrar stofnunar, að menn geri sér ljóst í byrjun, hver fjárhagsáhrif slíkt hafi. Ég talaði nokkur orð við 1. umr. þessa máls og benti þá á það eða lét í ljósi þá skoðun, að ég teldi, að þessar kröfur væru óþarflega miklar, þessi langa skólaseta fyrir kennara, sem ætlaði sér að kenna börnum. Ég hef ekki breytt um skoðun í því efni, því að það ræður ekki úrslitum um hæfni barnakennarans, hversu langt nám kennarinn hefur stundað, heldur er það hans eigin skapgerð og lagni við að kenna börnunum. Það þarf ekki að vera svo ýkjamikil þekking til að kenna börnum að lesa, skrifa og reikna, heldur þarf það að vera hæfileikinn til að kenna, þannig að ég lét það þá í ljós, að ég liti svo á, að það mundi vera að mörgu leyti hagfelldara að hafa þetta tvö stig. Við vitum það, að margir af okkar beztu kennurum hafa ekki verið neinir afburðanámsmenn, og við vitum það einnig, að meðal þeirra fáu vísindamanna, sem Íslendingar hafa átt, hafa ýmsir þeirra ekki verið neinir framúrskarandi námsmenn, en þeir höfðu bara hæfileika í þessa átt. Það má nefna menn eins og Finsen og Þorvald Thoroddsen og slíka menn. Þeir voru ekki neinir framúrskarandi námsmenn, en þeir höfðu þessa hæfileika í þessa átt.

Það líður nú að kosningum og satt að segja veit enginn fyrir víst, hvað við tekur. Ég held því, að það væri á margan hátt hagkvæmara að geyma að afgreiða þetta mál þar til eftir kosningar. Vera má, að það verði sami menntmrh. Þá er hægt að leysa þessi mál skólakerfisins öll í einu lagi. Grunnskólafrv. á að geyma. Ef það kemur annar menntmrh., þá er ekkert ólíklegt, að hann vilji hafa eitthvað að segja um þessi mál og því engu lakara, að það sé ekki búið að samþykkja þetta frv. Fyrir mér vakir ekki að gera kennaraskólanum eða kennaraliði hans á nokkurn hátt ógreiða, og ég hef ekki heyrt það á nokkrum manni, að hann óski þess. Ég hygg, að það vilji allir kennaraskólanum vel, og það er skóli, sem hefur haft gott orð á sér. Hitt er annað mál, að það hefur ekki verið búið á réttan hátt að honum með því að leyfa þessa ótakmörkuðu aðsókn. Það er sama, hvaða skóli það væri. Það getur enginn skóli búið við það. Nú er það svo, að ef þetta frv. verður samþykkt, þá á að gera stúdentspróf að inntökuskilyrði, þannig að það eru nú ekki líkur til, að það gerði nein ósköp til, þó að frv. yrði ekki samþ. nú og ekki yrðu teknir nýir nemendur að hausti. Vitanlega getur skólinn ekki tekið við jafnmörgum nemendum og hann hefur haft í vetur, og það verða þá einhverjar leiðir færar fyrir þessa menn, sem taka stúdentspróf nú, þó að þeir fari ekki í kennaraskólann endilega í haust. Og meiningin er nú að lofa þeim að stunda nám áfram við svipuð skilyrði, skilst mér, þ.e. þeim, sem komnir eru í skólann, og ljúka þar námi, þannig að það ætti ekki að breyta miklu, þó að frv. væri ekki endanlega samþykkt núna. Það eru þessar ástæður m.a., sem valda því, að ég hef gerzt meðflytjandi að því að fresta málinu eða vísa því frá dagskránni. Og ég hygg, að skólakerfi okkar sé orðið ískyggilega dýrt og það væri sannarlega þörf á að nota sem mesta hagsýni í því.

Mér hefur ofboðið þessi eyðsla á öllum sviðum, sem nú er, og ég efast um, að ráðamenn þjóðfélagsins geri sér það fyllilega ljóst, hvort þetta er óhætt eða ekki. Það var gott ár í fyrra. Það var mikill afli og alveg stórkostlegar verðhækkanir á útflutningsvörum okkar, en það er engin vissa fyrir, að svo verði áfram og m.a.s. takmarkaðar líkur fyrir, að aflinn verði nærri eins mikill. Við höfðum eftir atvikum haft tiltölulega frjálsar hendur með fjárhag s.l. ár og svona í byrjun þessa árs a.m.k., en það er engin sönnun fyrir, að svo verði. Nú er gert ráð fyrir stórkostlegri launahækkun að ári, og þá eiga tryggingaútgjöld að hækka og skattar í sambandi við það og annað slíkt, þannig að ég held, að það sé siglt dálítið óvarlega í fjármálunum, svo að ekki sé meira sagt. Má vera, ef byrinn verður hagstæður, að það gangi allt vei, en ef byrinn breytist, þá getur orðið erfitt um siglinguna, þannig að ég held, að það yrði á engan hátt neikvætt, þó að við frestuðum að afgreiða þetta. En vafalaust er þetta mál — svona bak við tjöldin — ákveðið endanlega, svo að það hefur ekki endanlega mikið að segja, þó að maður ræði þetta lengi.