19.03.1971
Efri deild: 70. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (1569)

281. mál, almannatryggingar

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég tel enga ástæðu til þess að leyna því, að ég ræddi við hv. stjórnarandstæðinga um það í gær að reyna að koma þessu máli til n. í dag, en var þá ekki kunnugt um það, að þm. öllum mun vera boðið til að skoða hér nýbyggingu, sem verið er að taka í notkun, þannig að ég get ekki krafizt þess, að það samkomulag gildi, sem ég taldi, að hefði verið gert í gær, og gert var óvitandi um þessi efni, þ.e. að málið fari til n., þar sem ég veit, að allmargir munu vilja taka þátt í þessum umr. Ég vildi því eindregið mælast til þess við hæstv. forseta, að eftir að framsöguræðu minni lýkur, sem ég skal reyna að hafa sem stytzta, þá verði umr. frestað í von um það, að málið komist til n. á mánudag og nm., sem málið fer væntanlega til, kynni sér þá málið betur í millitíðinni. Ég hef um það ljósprentuð gögn, sem ég get látið n. beggja deilda í té, en það er eindregin ósk mín, að n. beggja d. vinni að þessu máli, þannig að framgangur þess megi verða tryggður á þessu þingi, þótt með einhverjum breytingum kunni að verða, því að höfuðatriðið hlýtur þó að vera, að málið nái fram að ganga. Það eru sem sé eindregin tilmæli mín, að n. beggja d., sem væntanlega verða heilbr.- og félmn., ræði málin sameiginlega og vinni úr þeim þannig, að frv. þurfi ekki að ganga á milli deilda.

Hinn 28. maí 1970 skipaði heilbr.- og trmrn. nefnd til þess að endurskoða gildandi lög um almannatryggingar. Nefndinni var falið að hafa samráð og samstarf við þá einstaklinga og félagasamtök, sem hér eiga hlut að máli, og skyldi hún skila áliti svo fljótt sem unnt væri og eigi síðar en svo, að hægt yrði að leggja niðurstöður hennar fram á næsta reglulegu Alþ. þar á eftir, eins og hér er gert. Í nefndina voru skipaðir í byrjun eftirtaldir menn: Björgvin Guðmundsson deildarstjóri, Guðjón Hansen tryggingafræðingur, Ólafur Björnsson prófessor, Sigurður Ingimundarson forstjóri og Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri, sem þá gegndi ásamt sínu starfi í félmrn. einnig ráðuneytisstjórastarfi í heilbr.- og trmrn., og var hann jafnframt skipaður formaður nefndarinnar og var það til loka nefndarstarfsins.

Hinn 1. sept. s.l., þegar nýr ráðuneytisstjóri tók við heilbr.- og trmrn., bættist Páll Sigurðsson, núv. ráðuneytisstjóri þar, einnig í nefndina. Ég taldi nauðsynlegt, að þetta kæmi fram nú þegar, þar sem nokkur brenglun hefur orðið á frásögnum um, hverjir ættu sæti í nefndinni.

Ég skal reyna að stytta mál mitt sem mest og draga aðeins út þá liði, sem teljast til nýjunga í frv., og láta þar við sitja án þess að ræða málið almennt, en til þess gefst væntanlega tækifæri í framhaldsumræðum um málið. Áður en ræddar verða breytingar, sem gerðar eru á einstökum gr. til leiðréttingar, verður stuttlega skýrt frá þeim heildarbreytingum, sem gerðar hafa verið:

1. Frv. gerir ráð fyrir, að allar bætur almannatrygginga hækki um 20% frá því, sem nú er. Þó er gert ráð fyrir, að barnalífeyrir verði hækkaður um 40% og fæðingarstyrkur um rúmlega 13%, en ekki er gert ráð fyrir hækkun fjölskyldubóta.

2. Lágmark elli- og örorkulífeyris er áætlað samkv. frv. 70 560 kr., en þó er gert ráð fyrir því, að ávallt komi til uppbót á þennan lífeyri, ef viðkomandi lífeyrisþegi er tekjulaus, og sú hækkun nemi þeirri upphæð, að heildartekjur lífeyrisþega, heildarlágmarkstekjur lífeyrisþega, verði 84 þús. kr. á ári. Lífeyrisupphæð til hjóna verði með sama hætti ekki lægri en 151 200 kr.

3. Þá er lagt til, að barnalífeyrisaldur verði hækkaður úr 16 árum í 17 ár og barnalífeyrir verði greiddur með barni látinnar móður, hvort sem hún var gift eða ógift og án tillits til efnahags eða annarra ástæðna.

4. Gert er ráð fyrir, að ekkjubætur verði greiddar í 6 mánuði í stað þriggja nú, ef ekkja er barnlaus, og í 12 mánuði til viðbótar í stað 9 mánaða nú, ef hún hefur fyrir barni að sjá.

5. Það er gert ráð fyrir heimild til greiðslu mæðralauna til fósturmæðra, sem ekki er í núgildandi lögum.

6. Samkv. gildandi lögum er aðalreglan sú, að bótaréttur samkv. ákvæðum almannatryggingalaga um lífeyristryggingu er bundinn við íslenzkan ríkisborgararétt. Lagt er til í frv., að fallið verði frá þessari kröfu, en þess í stað verði bótaréttur bundinn við lögheimili á Íslandi, en ellilífeyrir verði samt greiddur, þó að bótaþegi sé búsettur erlendis. Á móti þessu er gert ráð fyrir, að fjárhæð lífeyris skuli vera í hlutfalli við dvalartíma á Íslandi á gjaldskyldualdri. Lágmark dvalartíma til réttinda verði 3 ár, en full réttindi fáist eftir 40 ára dvöl. Þannig veitir skemmri dvalartími en 3 ár engin réttindi til greiðslu, en 20 ára réttindatímabil veitir rétt til hálfs lífeyris. Þessar breytingar eru lagðar til til samræmis við reglur þeirra þjóða, sem íslendingar hafa mest samskipti við, og munu þær auðvelda Íslendingum samskipti við þessar þjóðir í tryggingamálum.

7. Heimildir til veitingar örorkustyrkja eru rýmkaðar frá því, sem nú er í lögum. Gert er ráð fyrir, að veita megi styrki vegna sérstaks aukakostnaðar, sem rekja má til örorku, enda þótt viðkomandi hafi eðlileg og venjuleg laun, og enn fremur, að styrki megi veita vegna bæklunar eða vanþroska barna innan 16 ára aldurs, ef um er að ræða mikil útgjöld foreldra vegna umönnunar og annars. Hér er um að ræða gerbreytingu frá því, sem er í núgildandi lögum, þar sem hvergi hefur verið hægt að liðsinna foreldrum vegna þessara barna, en eins og kunnugt er, er auk þeirrar fyrirhafnar, sem foreldrar hafa vegna barnanna, oft um veruleg fjárútlát að ræða, sem af þessu stafa.

8. Það er lagt til, að sjúkrasamlögum sé fækkað mjög verulega og hreppasjúkrasamlög verði lögð niður, en í staðinn komi sjúkrasamlög í hverju sýslufélagi. Verða þá framvegis í landinu aðeins kaupstaðar- og sýslusjúkrasamlög, og er því gert ráð fyrir, að í framtíðinni verði sjúkrasamlögin 38 að tölu í stað 223, eins og þau eru nú. Reynslan af hreppasamlögunum er fyrir löngu orðin sú, að þau séu of lítil tryggingareining, og var með breytingu almannatryggingalaga nr. 83 frá 1967 lagt til, að sjúkratrygging sjúkrasamlaganna yrði falin héraðssamlögum, en auðsætt er, að stíga verður skrefið til fulls og gera ráð fyrir hinum stærri tryggingareiningum, eins og hér er lagt til, og er raunar vafasamt, hvort ekki verður nauðsynlegt að gera ráð fyrir frekari samruna sjúkrasamlaganna í framtíðinni.

9. Skömmu áður en fyrrgreind breyting var gerð á almannatryggingalögunum, þ.e. árið 1967, sem m.a. fól í sér, að meginhluti ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla var lagður undir sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins, höfðu verið samþykkt lög um fávitastofnanir nr. 53 frá 1967, og var þar gert ráð fyrir því, að fávitaframfærslan væri áfram á vegum ríkis og sveitarfélaga. Í þessu lagafrv. er gert ráð fyrir að afnema að fullu ríkisframfærslu fávita, en dvöl þeirra í heilbrigðisstofnun verði kostuð af sjúkratryggingunum á sama hátt og vist annarra samlagsmanna á hælum og þá af sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins.

10. Það er gert ráð fyrir, að greiðsluskylda sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins verði enn aukin, hvað snertir vistun sjúklinga á erlendum sjúkrahúsum — allt undir sama eftirliti og gert er ráð fyrir í núgildandi lögum, en með þeirri breytingu, sem hér er lögð til, er gert ráð fyrir, að einnig verði greiddur kostnaður við dvöl, lyf og læknishjálp, sem er nauðsynleg erlendis að lokinni sjúkrahúsvist.

11. Það er einnig gert ráð fyrir, að heimilt verði, að sjúkratryggingadeild taki þátt í kostnaði, sem verður verulegur vegna veikinda eða slysa utan sjúkrasamlagssvæða, sem viðkomandi sjúkrasamlag er ekki skyldugt til að greiða. Er m.a. hafður í huga kostnaður, sem fólk, sem er á ferðalögum eða í styttri dvöl erlendis, verður fyrir, þar sem það er ekki sjúkratryggt.

12. Samkv. gildandi lögum fellur niður lífeyrir bótaþega, ef hann dvelst lengur en einn mánuð á stofnun, þar sem sjúkratryggingar greiða fyrir hann. Í lagafrv. er gert ráð fyrir, að lífeyririnn falli niður, þegar víst er meira en 4 mánuðir á síðustu 24 mánuðum.

13. Allmiklar endurbætur eru gerðar á slysatryggingakafla laganna frá gildandi l. Þannig er í núgildandi l. ekki gert ráð fyrir, að slysatryggingar geti tekið til almennra heimilisstarfa, en í frv. er gert ráð fyrir, að heimild verði til að tryggja slík störf, ef þess er óskað í skattframtali. Á sama hátt eru greiðslur slysatrygginga vegna ýmiss konar aukakostnaðar vegna slysa, svo sem ferðakostnaðar, verulega auknar og fjölmörg ákvæði í sambandi við slysabætur eru í frv. gerð ítarlegri og skýrari en þau eru í gildandi lögum.

14. Í núgildandi l. er gert ráð fyrir, að bótaréttur falli niður, þegar ástand það, sem bótaréttur er byggður á, stafar af ofdrykkju eða deyfilyfjaneyzlu. Lagt er til, að fallið verði frá þessu sviptingarákvæði, sem hefur verið í gildandi l., enda gert ráð fyrir því, að hlutaðeigandi fari þá að fullu að læknisráðum og sinni fyrirmælum um þátttöku í þeirri starfsþjálfun og meðferð, sem stuðlað gæti að bættri afkomu hans og búið hann undir nýtt starf eða breytingu á lífsháttum sínum. Tryggingastofnun ríkisins hefur gert að tilhlutan n. áætlun um hækkanir þær, sem leiða mundi af fyrirhuguðum lagabreytingum, á útgjöldum lífeyristrygginga, og er áætlunin þannig:

1. 20% hækkun lífeyristrygginga annarra en fjölskyldubóta, fæðingarstyrks og barnalífeyris, 290 millj. kr.

2. Hækkun fæðingarstyrks úr 13 þús. kr., sem hann er nú, í 14 700 kr., 6.5 millj. kr.

3. Barnalífeyrir: 40% hækkun á gildandi ákvæði, 24 millj. kr. Vegna fráfalls móður, sbr. 14. gr., 9 millj. kr. Vegna aldurshækkunar til 17 ára aldurs, sbr. 14. gr., 20 millj. kr.

4. Bótahækkun til ekkna samkv. 17. gr. frv., 4.5 millj. kr.

5. Breyting á ekkjulífeyri samkv. 18. gr., 15 millj. kr.

6. Lágmarkstrygging 84 þús. kr. árstekna elli- og örorkubótaþega, 85 millj. kr.

Þetta er því samtals 454 millj. kr.

Þess ber að gæta og rétt er að undirstrika, að áætlunin samkv. lið 6 um lágmarkstekjur elli- og örorkulífeyrisþega er ekki byggð á traustum grunni, og verður ávallt áætlun, þar sem fyrir fram er nánast útilokað að reikna út, hve mikill fjöldi manna kemur þarna undir, en liðurinn er í þessari áætlun áætlaður 85 millj. kr. Og eins er ákaflega erfitt að gera tæmandi áætlanir um heimildir um mæðralaun til fósturmæðra o.s.frv., og það verður þess vegna á sama hátt að taka þessar tölur með fyrirvara.

Ég læt svo þetta nægja sem framsögu fyrir málinu að þessu sinni, en ítreka það, að þegar 1. umr. málsins lýkur, væntanlega á mánudag, þá vinni n. beggja d. að skoðun málsins, þannig að hraða megi framgöngu þess sem allra mest, og ég hef hér undir höndum plögg, sem gætu veitt ýmsar upplýsingar, sem n. þörfnuðust, og er reiðubúinn að láta þær af hendi, ef menn telja það nauðsynlegt. En ég ítreka óskir mínar vegna þess, sem við vissum ekki í gær, þegar við vorum að ræða um, hvernig haga skyldi umr. málsins, og vil ég því nú ganga til móts við þá, sem um það ræddu við mig, með því að fresta umr. nú, en halda þeim áfram n.k. mánudag.