22.03.1971
Efri deild: 71. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1573)

281. mál, almannatryggingar

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Þeir tveir hv. þm., sem rætt hafa um þetta mál, eftir að hæstv. ráðh. flutti framsöguræðu sína fyrir því, hafa vikið að ýmsum mikilvægum atriðum, sem ég er í stórum dráttum sammála, og get ég þess vegna stytt mál mitt nokkuð með tilliti til þess, sem þeir hafa sagt um ein og önnur atriði frv. Hv. 11. þm. Reykv. byrjaði mál sitt á því að lesa hér yfir þingheimi ákaflega fallega ályktun frá ungum framsóknarmönnum, sem þeir höfðu gert hér alveg nýlega. Mér datt nú í hug, þegar næsti ræðumaður var hv. 4. þm. Norðurl. e., að það hefði eiginlega staðið honum nær að lesa þessa ágætu ályktun, en það er nú sama hver það gerði. Þetta var ályktun af því tagi, að það geta allir undir hana tekið, jafnvel rosknir framsóknarmenn líka.

Hæstv. ríkisstj. er býsna dugleg að unga út frv. nú síðustu dagana. Það hefur verið margsinnis tilkynnt þm., að ætlunin er sú að ljúka þingi fyrir páska, svo að það er nú orðinn býsna skammur tími til stefnu að afgreiða allan þann sæg mála — eða eitthvað verulegt af þeim — og það jafnvel stórmála, sem drífur nú daglega á borð hv. þm. og þá alveg sérstaklega frá hæstv. ríkisstj. Ég gerði mér það til dundurs hér fáeinar mínútur í dag að telja saman þau frv., sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt á borð þm., ný frv. núna síðan 10. marz eða síðustu 12 dagana, og mér taldist svo til, að það væru 21 þingmál, og kann þó vel að vera, að ég hafi ekki talið allt. En þetta er lágmarkstala þeirra stjfrv. — og þáltill. mun þar vera ein að vísu — sem lögð hafa verið á borð þm. núna síðustu 12 dagana. Og síðan er alþm. ætlað að taka þessi sum hver stóru mál til meðferðar og fjalla um þau á þeim skamma tíma, sem eftir er af þinghaldinu.

Eitt þessara stóru mála, sem kemur nú svo seint á þingtíma, er það frv. til l. um almannatryggingar, sem hér er nú til umr. Það hefur ekki dulizt neinum, að af hálfu þeirra hv. Alþfl.-manna var hér að fæðast allmyndarlegt afkvæmi, og held ég, að það hafi a.m.k. verið skýrt frá því í þremur blöðum Alþýðublaðsins með svo að segja heimsstyrjaldarletri hverju sinni, að þetta frv. væri nú á leiðinni og hv. þm. Sigurður Ingimundarson ætlaði að halda um það ræðu á einhverjum Alþfl.-fundi, og síðan, að hann væri búinn að halda um það ræðu. Þá kom álíka stór fyrirsögn — ekki var hún nú stærri — um það, að nú mundi hæstv. félmrh. leggja málið fyrir, og síðan kom að sjálfsögðu fréttin um það, að hann hefði haldið sína ræðu um málið. Þetta er nú allt gott og blessað, ekki sízt þegar um stórmál er að ræða, en eins og þegar hefur verið bent á, þá bendir margt í þessum málatilbúnaði og þá alveg sérstaklega af hálfu þeirra hv. Alþfl.-manna til þess, að þetta sé málið, sem eigi að fleyta Alþfl. yfir brim og boða komandi kosninga. Það, sem ég vil gera aths. við, er sitt af hverju, en áður en ég vík að því, vil ég taka það fram, að ég mun ekki eyða tíma hv. þm. í það að fjalla um þær breytingar, sem gerðar eru með þessu frv. á gildandi l. um almannatryggingar. Ég hygg, að það sé rett, sem hér hefur komið fram, að þær breytingar yfirleitt, ekki aðeins þær hækkanir út af fyrir sig, sem gera skal á ýmsum bótum, heldur ýmsar aðrar breytingar, eru yfirleitt til bóta. Úr því skal ekkert dregið, og ég hef í sjálfu sér ekki aths. að gera við hinar einstöku breytingar nema varðandi það, sem áður hefur nú verið gagnrýnt hér, og ég mun koma að síðar, þ.e. gildistöku þessara breytinga.

En það, sem ég vildi þá fyrst gera aths. við, er, hvernig að þessu máli hefur verið staðið, hvernig að því hefur verið unnið. Það er skýrt frá því, að sex menn hafi unnið að undirbúningi þessa frv. í um það bil eitt ár. Tveir þeirra manna, sem að málinu hafa unnið, eru ráðuneytisstjórar í þeim rn., sem þarna eiga fyrst og fremst hlut að máli og um að fjalla, og er á engan hátt ástæða til að gagnrýna það, að þeir hafa verið í nefndinni. Þriðji nefndarmaður er sérfróður maður um tryggingamál og að allra dómi einhver hinn hæfasti maður, sem við höfum á að skipa í þeim efnum, og er sízt ástæða til að gagnrýna það, að hann hafi átt sæti í nefndinni. Síðan kemur einn fulltrúi Sjálfstfl., ágætur maður og hagfræðingur, en maður, sem ég veit ekki til, að hafi neitt sérstaklega kynnt sér tryggingamál. Og síðan koma tveir fulltrúar, hvorki meira né minna en tveir fulltrúar hv. Alþfl. í þessari sex manna nefnd. Það þarf ekki að leita lengra. Það er að sjálfsögðu enginn í þessari nefnd, sem á nokkurn hátt getur talizt fulltrúi þeirra stjórnarandstöðuflokka, sem nú eiga að afgreiða þetta stóra mál á hálfum mánuði eða svo á allra mesta annatíma þingsins. Það datt engum þeirra, sem að þessari nefndarskipun stóðu, í hug, að því er virðist, að það væri ástæða til, að þeir ættu fulltrúa í þessari undirbúningsnefnd. Þar var heldur enginn fulltrúi lífeyris- og bótaþega — enginn, sem hægt var að nefna sem sérstakan fulltrúa þessara aðila. Það var engin kona í nefndinni, og þannig mætti lengi telja. Þessi nefnd, sem ég gagnrýni að þessu leyti fyrir það, hvernig hún er til komin og þá að sjálfsögðu hæstv. ríkisstj. og hæstv. fyrrv. félmrh. fyrir skipan hennar, hefur unnið að undirbúningi málsins nú í eitt ár, en auðsjáanlega — bæði er það þegar komið fram og ég mun koma nokkuð að því hér á eftir — þó haft of skamman tíma til þess að vinna sitt verk, eins og raunar einn nefndarmanna undirstrikar allsterklega í sínu séráliti og það m.a.s. sá nefndarmaður, sem að öllum hinum ólöstuðum hefur tvímælalaust mest vit á þessum hlutum. En þessi nefnd hefur starfað í heilt ár og þó auðsjáanlega skort tíma til að vinna verk sitt eins vel og skyldi og eins og hún hefði jafnvel eða a.m.k. sumir nefndarmenn hefðu viljað, en svo á Alþ. að taka við málinu, þessu mjög svo fjölþætta og sérhæfða máli að sumu leyti, og afgreiða það hér á fáeinum dögum eða jafnvel dagstundu. Þetta er ástæða til að gagnrýna, bæði nefndarskipunina og hvernig að Alþ. er búið að þessu leyti og þá alveg sérstaklega, þegar það er haft í huga, að í þessari endurskoðunarnefnd var enginn, sem taldi það sitt verkefni að skýra til að mynda stjórnarandstöðuflokkunum frá því, sem væri að gerast í þessu efni.

Það er margt, sem hefur auðsjáanlega ekki unnizt tími til að gera í sambandi við heildarendurskoðun á þessum mikilvæga lagabálki, og ég get ekki varizt þeirri hugsun, að þetta mál hafi næstum því hálfendurskoðað verið tekið úr höndum nefndar og fleygt hér inn á Alþ. á síðustu dögum þingsins, af því að þetta á að verða einhvers konar björgunarakkeri fyrir Alþfl. í komandi kosningum. Að því er varðar sjálfa nefndarskipunina, er ekki við hæstv. núv. félmrh. að sakast, en hann ber hins vegar ábyrgð á flutningi málsins og verður að svara til saka, að því er það snertir, ef um sakir væri að ræða, sem ég tel vissar vera. Og þar sem hann hefur nú nýlega tekið við stjórn þessara mála og er nú tiltölulega ungur maður af stjórnmálamanni og ráðh. að vera, þá vil ég beina því til hans, að hann hugleiði það vel, hvort það sé skynsamlegt, svona þegar til lengdar lætur fyrir Alþfl. og fyrir hann sem ráðh. félagsmála að líta á þessa stofnun, eins og Alþfl. virðist hafa gert frá upphafi, í mjög ríkum mæli sem einhvers konar sérstofnun sína, sem hann í rauninni ætti og gæti ráðskazt með nokkurn veginn einn og án þess helzt, að aðrir kæmust þar teljandi að í sambandi við meðferð þeirra mála. Og ég vona, að hann láti ekki á sannast þessari stofnun, að hún verði skírð upp, eins og sumir hafa nú verið að bera sér í munn, að í stað þess að heita hinu virðulega heiti Tryggingastofnun ríkisins yrði hún kölluð í framtíðinni Velferðarstofnun aldraðra krata, eins og ég hef heyrt gerðar till. um. Því miður hefur ekki unnizt tími til eða verið lögð næg vinna í það að endurskoða þetta mál í heild, og eins og ég áðan sagði, ber álitsgerð eða sérálit Guðjóns Hansens þess glöggt vitni, að slík endurskoðun hefur ekki farið fram, en sú álitsgerð er birt hér aftan við frv., og það eru eins og þegar hefur verið bent á að nokkru ýmis ákvæði í þessu frv. og í aths. við það, sem bera vott um slíka fljótaskrift, að það er naumast sæmandi að leggja slíkt fljótaskriftarmál fyrir Alþ. sem stjfrv.

Fljótt á litið verður ekki annað sagt en þær hækkanir, sem lagt er til, að gerðar verði á lífeyristryggingum, séu allverulegar. Þegar ég segi fljótt á litið, þá á ég við, að ef allt væri með felldu, ef ætlunin væri, að þessi lög næðu fram að ganga nú þegar, og ef gert væri þá jafnframt ráð fyrir, að það ákvæði, sem gildir sem hækkunarákvæði, eins konar vísitöluákvæði, ætti jafnframt að taka gildi nú þegar, þá væri þarna um allverulegt og býsna myndarlegt skref að ræða í sambandi við hækkun á ýmsum bótum. Og það er ástæða til að vekja athygli á því út af fyrir sig, að ég hygg, að það sé staðreynd, að hvað þetta atriði snertir, þá tók frv. verulegum stakkaskiptum frá því, sem n. hafði eða meiri hl. n. hafði skilað af sér eftir því, sem maður vissi bezt, og eftir því, sem jafnvel stóð til að leggja þetta mál fyrir. Og vissulega er ástæða til fyrir þá, sem hvað eftir annað hafa flutt till. um hækkanir á lífeyrisbótum, að fagna því, að frv. felur í sér verulegar hækkanir. Og raunar kann það að virðast í fljótu bragði dálítið einkennilegt, að hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkar standa nú að frv., sem felur í sér svipaðar og að sumu leyti allmiklu meiri hækkanir jafnvel en till. voru gerðar um í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna síðast, og þá voru þær till. frá okkur Alþb.-mönnum og — ef ég man rétt — fleiri stjórnarandstæðingum kolfelldar og margsagt m.a. í málgögnum hv. Alþfl., að þetta væru algerlega óraunhæfar till. og fjarstæða og annað eftir því.

En það er nú svo, að þó að hæstv. núv. ríkisstj. flytji nú till. um hækkanir, sem eru í sumum greinum að nafninu til meiri en hún felldi núna skömmu fyrir áramótin, þá fylgir óneitanlega töluvert meinlegur böggull þessu skammrifi, og það er sá böggull, sem þegar hefur verið bent á af fyrri ræðumönnum hér í dag, að þetta frv. allt er í rauninni ávísun á framtíðina. Það á ekki að koma á einn eða neinn hátt til framkvæmda fyrr en um næstu áramót. Og þegar það er haft í huga, að það er nærri ár eða 9 mánuðir, sem eiga að líða, þar til þetta frv. kemur til framkvæmda, þá lækkar nú töluvert á því risið, því að hér er í rauninni um að ræða — og sérstaklega með tilliti til þess, að kosningar eiga að fara fram og enginn veit, hver stjórnar þessu landi eftir þær kosningar — eitthvað svipað og stundum hendir einstaklinga og jafnvel fyrirtæki, sem þurfa að bjarga sér í bili með því að gefa út ávísun og í bezta lagi biðja viðtakanda að framvísa ekki ávísuninni fyrr en eftir tiltekinn tíma, af því að þeir ætla þá að biðja vin eða kunningja að bjarga fjármálunum og hafa lokið þeirri björgunarstarfsemi á einhvern hátt, þegar að skuldadögunum kemur. Það er sem sé næsta ríkisstj., sem á að glíma við þann vanda að afla fjár til þess að fjármagna þetta mál, og þá fer nú heldur að lækka á því risið, eins og ég áðan sagði.

Á það hefur þegar verið bent, en ég sé ástæðu til að inna alveg sérstaklega eftir svari við því, hvort það sé ekki rétt skilið og hvort það leiði ekki af eðli þess máls, að frv. á ekki að neinu leyti að taka gildi fyrr en um þessi áramót, að hækkanir á verkamannakaupi, sem verða fram að gildistöku þessa frv., koma ekki til með að hafa áhrif, að það sé í rauninni ekki fyrr en frv. eða l. hafa tekið gildi um næstu áramót, sem það ákvæði fer að hafa áhrif, en ákvæðið er eins konar verðtryggingarákvæði þessa frv. og er gott og gilt út af fyrir sig. Það er ákvæðið í 78. gr., sem þannig hljóðar, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú verður breyting á dagvinnukaupi verkamanna við almenna fiskvinnu, og skal ráðh. þá innan 6 mánaða, að fengnum till. tryggingaráðs, breyta upphæðum bóta samkv. l. þessum og greiðslum samkv. 73. gr. í samræmi við það.“

Það hefur þegar verið um það spurt, og ég ítreka þá spurningu: Er hægt að skilja þetta frv., verði ekki gerð á því breyting, á annan veg en þann, að þetta ákvæði eins og önnur ákvæði frv. taki fyrst gildi frá næstu áramótum og gildi þá ekki um aðrar hækkanir á dagvinnukaupi verkamanna en þær, sem yrðu, eftir að þessi lög hafa tekið gildi. Það er nauðsynlegt að fá þetta alveg skýrt og ákveðið fram, því að það er ljóst, að á þessu veltur í rauninni mjög mikið, hvort frv. er að verulegu leyti pappírsgagn og sýndargagn eða hvort það má telja líkur til, að það geti að allmiklu leyti staðizt og sé þá gert ráð fyrir, að þær verðhækkanir og hækkanir á kaupi, sem kunna að verða til næstu áramóta, verði teknar inn í þetta dæmi. Um þetta er nauðsynlegt að fá bæði skýr svör og — að ég tel — skýr ákvæði, ef einhver vafi þykir leika á um þetta, og það á að sjálfsögðu, ef það er ætlun hæstv. ríkisstj., að svona, eins og ég nefndi nú, skuli með fara, að segjast með skýrum orðum í frv.

Eitt dæmi um þá fljótaskrift, sem hefur ráðið auðsjáanlega allt of mikið ferðinni í sambandi við það að koma þessu frv. fram og að gera við það aths. og nauðsynlegar skýringar, er það, að hvergi er gerð nákvæm grein fyrir því, hvernig þær um það bil 500 millj. kr., sem talið er, að þessi löggjöf komi til með að kosta á ársgrundvelli, komi til með að skiptast á milli þeirra fjögurra aðila, sem eiga að greiða þær eða standa skil á þeim. Þá má e.t.v. segja, að það geti hver og einn reiknað þetta út, þar sem gefið er upp, hver hlutföllin eiga að vera, og það er rétt, en ég hefði hins vegar talið, að það hefði verið full ástæða til þess, að það kæmi alveg skýr og eindregið fram, hvernig þessar 500 millj. kr. koma til með að skiptast í fyrsta lagi á ríkissjóð, í öðru lagi á hina tryggðu, í þriðja lagi á atvinnurekendur og í fjórða lagi á sveitarsjóðina. Ég hef gert tilraun til þess að reikna það út, hvernig þetta kemur til með að skiptast, og það kann að vera, að ég hafi ekki tekið öll atriði þar með í reikninginn, en í fljótu bragði virðist mér, að skiptingin sé á þessa leið, og vek ég þá athygli á því, að þær 85 millj. kr., sem áætlað er, að það kosti Tryggingastofnunina að tryggja öllum 84 þús. kr. lágmark í elli- og örorkulífeyri, skiptist í öðrum hlutföllum en annað fé. Þær skiptast, að því er mér skilst, á milli ríkissjóðs og sveitarfélaga í hlutföllunum 2:3. Ríkissjóður greiðir 3 hluta, en Tryggingastofnunin 2. Eftir því sem ég hef komizt næst, þá skiptast þessar 500 millj. kr. þannig, að ríkissjóður komi til með að greiða um 168 millj. kr., hinir tryggðu skilst mér, að komi til með að greiða um 149 millj. kr., atvinnurekendur kæmu til með að greiða um 65 millj. kr., en sveitarsjóðirnir um 118 millj. kr. Ég þykist vita, að hæstv. ráðh. hafi þessa útreikninga á reiðum höndum eða geti a.m.k. fljótlega aflað sér þeirra, og hann leiðréttir þá væntanlega, ef hér er skakkt með farið.

Í sambandi við þetta atriði, að sveitarsjóðunum virðist vera ætlað að greiða um 118 millj. kr. af þessari upphæð, þá væri einnig fróðlegt að fá um það upplýsingar, hvort hæstv. ríkisstj. telji, að hagur sveitarsjóða sé almennt það góður eða svo vel sé fyrir tekjustofnum þeirra séð, að það sé sérstaklega auðvelt fyrir þá að standa undir þessum stórauknu fjárframlögum, án þess að neitt verði gert í tekjustofnamálum sveitarfélaganna. Ég veit ekki betur en það sé jafnvel von á öðru frv. um skattamál, sem eftir því, sem maður veit bezt, kæmi til með að þjarma jafnvel enn meir að sveitarfélögum í sambandi við möguleika þeirra til skattheimtu aðra en þá að hækka þá skattheimtuna á einstaklingunum, sem mörgum þykir a.m.k. allvíða vera orðin nógu þung fyrir. Það væri fróðlegt að frétta um það hjá hæstv. ráðh., hvort það sé litið þannig á af hæstv. ríkisstj., að það sé tiltölulega auðvelt fyrir sveitarsjóðina að snara þessum fjármunum út, segjum á næsta ári, án þess að þeir fái möguleika til þess að afla sér tekna með öðrum bætti en þeim, sem nú er þeim einn eftirskilinn samkv. þeim l., sem í gildi eru.

Ég mun ekki fara langt út í þá sálma að ræða um einstök atriði þessa frv., en þar sem ég kem ekki til með að eiga sæti í þeirri n., sem málið fer til, þykir mér þó ástæða til að nefna hér nokkur atriði, sem að mínum dómi og okkar Alþb.-manna hefði verið ástæða og væri ástæða til að breyta í sambandi við tryggingalöggjöfina og allsherjarendurskoðun hennar.

Það fyrsta, sem ég vil nefna af einstökum atriðum og virðist a.m.k. hvergi koma fram í aths. við frv., að um hafi verið rætt, er, að við teljum, að það sé eðlilegt, að sjúkrasamlögin, en ekki bæjarfógetar, annist umboðsstörf fyrir tryggingarnar, og alveg sérstaklega tel ég, að þetta sé eðlilegt fyrirkomulag og heppilegt, eftir að sú breyting verður gerð samkv. þessu frv., sem ég er algerlega fylgjandi, þ.e. að hreppasjúkrasamlögin verða lögð niður, en sýslusjúkrasamlög taka við. Það hefur að okkar dómi verið að ýmsu leyti óheppilegt, að sýslumenn og. bæjarfógetar annist þessi umboðsstörf fyrir Tryggingastofnun ríkisins, eins og alls staðar hefur verið og er utan Reykjavíkur. Það hefur a.m.k. þótt brenna við, að starfsemi eða innheimtuháttur sumra þeirra sýslumanna og bæjarfógeta, sem hlut eiga að máli, hafi mótazt nokkuð mikið, ef svo má segja, af innheimtusjónarmiðunum einum. Það er hins vegar eðlilegt og sjálfsagt, að ef bótaþegar telja sig beitta misrétti í sambandi við einhver atriði, að því er varðar framkvæmd almannatrygginga, þá eiga þeir að geta leitað til hinna löglærðu manna, sýslumanna og bæjarfógeta, um aðstoð, og það á að vera hægt að leita til þeirra að mínum dómi sem hlutlausra aðila, en það er naumast fyrir hendi, þegar þeir eru sjálfir umboðsmenn trygginganna. Ég hygg því, að það væri full ástæða til þess að athuga það, hvort ekki væri rétt og eðlilegt að gera þá breytingu, allveigamiklu breytingu að vísu, að sjúkrasamlögin, einkum nú eftir að þau stækka verulega og þeim fækkar, annist þessi umboðsstörf, en ekki sýslumenn og bæjarfógetar.

Þá vil ég eindregið taka undir það, sem fram kemur einnig í séráliti Guðjóns Hansens, að það er orðin full þörf á því að koma hér upp sérstökum tryggingadómstól til þess m.a. að flýta fyrir þeim málum, sem nauðsynlegt og eðlilegt er, að heyrðu undir slíkan dómstól. Ég hef ekki um það fleiri orð, en geri ráð fyrir, að bæði að því er tekur til þessa ákvæðis og nokkurra fleiri, komi ég til með að flytja eða standa að brtt. við þetta frv.

Að nokkrum einstökum gr. skal ég víkja stuttlega. Í 12. gr. segir — ef ég hef ekki misskilið hana — að mér skilst, að ekki skuli greiddur örorkulífeyrir manni, sem hefur misst starfsorku vegna veikinda, nema örorkan sé 75% eða þar yfir. En hins vegar skilst mér, að heimilt sé að greiða örorkulífeyri, ef örorkan nær 50%, þegar hún er af völdum slysa. Það er aðeins spurning um það, á hverju það byggist að gera þarna svona ákveðinn greinarmun á eftir því, af hvaða tilefni örorkan er til komin.

Í sambandi við 14. gr. virðist — og það er, ef ég ekki misskil hana, eitt af sýnishornum um fljótaskrift í sambandi við þetta mál — hafa fallið niður að gera ráð fyrir því, að faðir geti notið barnalífeyris frá tryggingunum, ef móðir er dáin. En það virðist hins vegar samkv. öðru ákvæði, að það sé stefnan með frv., að þannig verki þetta, að það sé ekki aðeins um að ræða móður, ef faðirinn hefur látizt. Þetta er ástæða til að n. taki til athugunar, hvort það hafi ekki verið ætlunin með frv., að þetta væri gagnkvæmt.

Þá vil ég víkja að því og beina því sérstaklega til n., sem fær þetta mál til meðferðar, hvort það sé eðlilegt hlutfall og á hverju það í rauninni byggist, sem sagt er í 15. g:., þar sem fjallað er um mæðralaun, að árleg mæðralaun með einu barni séu — þau eru, að ég tel, alveg furðulega lág — 6 þús. kr. rúmar. Hins vegar eru þau með tveimur börnum 33 600 kr. og með þremur börnum eða fleiri 67 200 kr. Þetta held ég, að ætti að taka til athugunar m.a. með það í huga, að alloft er það a.m.k. þannig, að móðirin með eina barnið er e.t.v. vegalitla stúlkan og ógifta stúlkan, sem á oft og tíðum í töluverðum erfiðleikum með að sjá fyrir barni sínu. Og í fljótu bragði sýnist manni, að það sé óeðlilegt að gera þarna svona gífurlega mikinn mun á einu og tveimur börnum. Mig langar aðeins til að beina þeirri spurningu til n., hvort ekki væri sanngjarnara, að mæðralaun með einu barni næðu til að mynda allt að helmingi þess, sem ætlunin er að greiða með tveimur börnum.

Þá tel ég ástæðu til að gera aths. við eða skjóta því til n., að í 16. gr. er kveðið svo á, að fæðingarstyrkur skuli vera 14 700 kr. Þetta er nokkur hækkun frá því, sem verið hefur, og er skýrt frá því, ef ég man rétt í aths., að hér sé miðað við það, sem greitt er á fæðingarheimilinu við Landsspítalann, og ef svo er, að þarna er miðað við daggjöld, eins og þau eru nú í dag á fæðingardeild Landsspítalans, þá sýnist mér, að miklu einfaldara sé og eðlilegra, að ákvæðið væri á þá lund að miða þessar greiðslur til að mynda við daggjöldin á fæðingardeild Landsspítalans, eins og þau verða á hverjum tíma, en ekki festa þarna þá greiðslu, sem nú gildir og verður vafalaust orðin allt önnur og hærri eftir tiltölulega skamman tíma.

Það hefur þegar verið rætt um það — ég hygg, að það hafi verið hv. 4. þm. Norðurl. e., sem kom inn á ákvæðið um greiðsluna um þann lágmarksellilífeyri, ef svo má komast að orði, sem þeim mönnum skal tryggður samkv. þessu frv., sem ekki hafa neinar aðrar tekjur en ellilífeyrir — að lágmarksellilífeyrir verði aldrei lægri en 84 þús. kr. á einstakling á ári. Það er tvennt, sem er ástæða til að vekja athygli á í sambandi við þetta ákvæði, sem vissulega er þó til bóta frá þeirri hörmung, sem verið hefur, að því er tekur til lágmarksellilífeyris. Annað er það, að hér er í þessu tilfelli sveitarfélag skyldað til að greiða 2/5 þeirrar fjárhæðar, sem til þarf til að bæta upp þetta lágmark ellilífeyris, og það er sennilega, ef þessi leið er farin, lögð sú sönnunarbyrði, skilst mér, á einstaklinginn, að hann sanni það, að hann hafi ekki aðrar tekjur eða hverjar lágmarkstekjur hans eru,— ef hann á að eiga þess kost að fá þennan viðbótarellilífeyri. Ég held, að það sé ástæða til að taka þetta til nýrrar athugunar og m.a. velta fyrir sér þeirri spurningu, hvort ekki á að hætta að krefja sveitarfélögin um þetta, hvort það á ekki að setja þau ákvæði í lög, að þennan mismun eigi Tryggingastofnunin að greiða að fullu, því að þarna finnst mér eða er ég hræddur um, að þeim, sem verða að sækja um þennan viðbótarellilífeyri og þurfa að sanna með einhverjum hætti, að þeir hafi ekki aðrar tekjur, finnist, að það séu eins og einhverjar leifar af framfærslufyrirkomulaginu, sem yfirleitt er þó búið, sem betur fer, að kippa út úr þessu tryggingakerfi. Það er ekki mikið um það, að það lykti lengur af hinu gamla framfærslusjónarmiði, en það er ekki laust við, að einmitt þetta ákvæði hér, sem ég hef nefnt, minni á a.m.k. þetta gamla framfærslufyrirkomulag.

Ég skal nú mjög fara að stytta mál mitt. Það eru ýmis önnur atriði, sem ástæða er til að koma með brtt. við, en ég skal ekki við þessa umr. fara nánar út í þá sálma. Eins og ég áður sagði, þá hefði þetta frv. verið nokkuð myndarlegt skref í þessa átt í sambandi við tryggingalöggjöf okkar, ef ætlunin hefði verið að framkvæma það nú þegar miðað við það verðlag og kaupgjald, sem nú gildir í landinu. En þegar höfð er hliðsjón af þeim tveimur atriðum, að frv. á ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót, og vitað er, að á því tímabili hljóta að verða bæði verulegar verðhækkanir og vafalítið einnig verulegar kauphækkanir á almennu verkamannakaupi, fer glansinn nokkuð mikið að fara af þessu frv. Það skulu svo vera mín lokaorð að inna hæstv. félmrh. eftir því, hvaða skilning hann og þeir, sem sömdu þetta frv., leggja í það atriði, hvort þær hækkanir á verkamannakaupi, sem verða fram að gildistöku þessara l., eigi að skilja á þá leið, að þær verði teknar með í sambandi við ákvæðið í 78. gr., eins konar vísitöluákvæði í 78. gr., eða hvort sá skilningur er réttur, sem mér finnst eðlilegt að leggja í þetta frv., að ákvæðið um þetta vísitöluákvæði, ef svo má kalla það, komi ekki heldur til framkvæmda fyrr en um næstu áramót og bótaþegar eigi þá ekki von á þeim leiðréttingum eða hliðstæðum leiðréttingum við það, sem verkamannakaup kann að hækka á tímabilinu fram að gildistöku l. Mér virðist, að þetta skipti verulegu máli, og ef það er meiningin að taka eigi tillit til þessara kauphækkana, hugsanlegu og líklegu kauphækkana, þá eigi ákvæði um það að koma inn í l., svo að ekki sé neitt vafamál þar um.