27.10.1970
Efri deild: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

24. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. gat um, að þegar stofnlánadeildin tók til starfa, voru skuldir þeirra sjóða, sem deildin tók við af, 33 millj. kr. En þess vil ég geta um leið, að þá hafði núv. hæstv. landbrh. farið með yfirstjórn þessara mála tvö undanfarin ár, en í árslok 1959 var sú eign, sem sjóðirnir áttu, 101 millj. 940 þús. kr., sem á þeim tíma var ekki svo lítil upphæð. Þannig lækkaði á tveimur fyrstu árunum, sem hæstv. ráðh. fór með stjórn þessara mála, eignin niður í mínus 33 millj. kr., af því að það var ekkert gert til þess að hjálpa þessum sjóðum, eins og jafnan hafði átt sér stað áður.

Í grg. þessa frv. segir, að gjaldabyrði bændastéttarinnar sé þegar það mikil, að ekki sé á það bætandi, og þetta er alveg rétt. Og þetta fannst okkur framsóknarmönnum, þegar stofnlánadeildarskatturinn var á þá lagður árið 1962. Við höfum líka oft og mörgum sinnum borið fram frv. um það að fella niður þetta gjald, en stjórnarliðið með hæstv. landbrh. í broddi fylkingar hefur verndað þessa skattlagningu af miklu kappi. Hæstv. ráðh. fyrirskipaði einnig á sama tíma Búnaðarbankanum að lána bændum aldrei nema út á eina framkvæmd á ári, og bændastéttin hefur á þessu tímabili verið eina stéttin í landinu, sem hefur búið við fjárfestingarfjötra — fjárfestingareftirlit. Og um leið og skatturinn var á lagður, hækkuðu líka vextir af lánunum um 60–70% frá því, sem áður hafði verið. Þá var því haldið fram af hæstv. landbrh., að það skipti engu máli, hvað bændur borguðu í vexti, því að vextirnir færu inn í verðlagið, og það væru neytendurnir, sem borguðu vextina.

Ég vil minna á það, að lengst af á þessu tímabili hafa bændur ekki borið úr býtum þau laun, sem þeim hafa verið ætluð, og á það vantaði 128 þús. kr. árið, sem leið — 128 þús. kr. eða 10 þús. kr. á mánuði hverjum á árinu, svo að þessi kenning hæstv. ráðh. hefur farið á annan veg en hann hélt fram eins og ýmislegt fleira. Það má líka með sanni segja, að kjör stofnlánadeildarinnar, þegar tillit er tekið til vaxtagreiðslna og skattsins, sem á bændur er lagður, séu hvergi hliðstæð í landinu, því að umreikni maður það í vexti af þeim lánum, sem hafa verið í útlánum, eru það nálægt 12% vextir eða líkt og okurvextir voru hjá lánabröskurum hér á landi fyrir nokkrum árum. Á þetta vil ég minna að gefnu tilefni, um leið og ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir það, að augu hans og eyru eru að opnast fyrir þeim sannindum og rökfærslum, sem við framsóknarmenn og bændur landsins og bændasamtökin hafa haldið fram á undanförnum árum. Þetta frv. ber vitni um aukinn skilning á þessu sviði. Hér er gert ráð fyrir, að stofnlánadeildarskatti verði aflétt á 15 árum, þ. e. á árinu 1975 til — og með — ársins 1990.

Á það vil ég einnig minna, að í því lífeyrissjóðsfrv., sem fram er komið á Alþ., er svo ráð fyrir gert, að iðgjöld bænda smáhækki á fjórum árum, en ekki á 15 árum, þannig að áður en nokkur lækkun á sér stað í stofnlánadeildargjaldi, borga bændur fullt iðgjald í Lífeyrissjóðinn strax eftir 4 ár. Hér þarf að finna leið til að brúa bilið þarna á milli. Mþn. Búnaðarþings gerði ráð fyrir því, að skatti þessum yrði aflétt á árunum frá 1974–1986, þ. e. á 12 árum. Þennan tíma tel ég viðráðanlegri fyrir bændur, og hann er líka í samræmi við þann tíma, sem stofnlánadeildinni er ætlað að inna vissar skyldur af hendi til Lífeyrissjóðsins. Það er líka svo ráð fyrir gert, að stofnlánadeildin fái allt að 10% af tekjum Lífeyrissjóðs að láni og Lífeyrissjóðurinn allur verði ávaxtaður í Búnaðarbanka Íslands og útibúum hans. Ég skal ekki að svo komnu ræða um þessa ráðstöfun, en fljótt á litið finnst mér, að bændasamtökin sjálf gætu séð um og annazt starfrækslu Lífeyrissjóðsins og e. t. v. stofnlánadeildarinnar einnig.

Þá gerir frv. þetta ráð fyrir, að samhliða skattinum á bændum verði fellt niður mótframlag ríkissjóðs og gjaldið á útsöluverði landbúnaðarafurða. Ég tel það vel farið, að forsvarsmenn stofnlánadeildarinnar telja sér nú fært að afla deildinni fjár á annan hátt, þar sem aldrei hefur mátt skerða þessar tekjur um svo mikið sem einn eyri að undanförnu, nema því aðeins að eiga það á hættu, að hreinn voði væri fram undan. En þessar tekjur stofnlánadeildarinnar voru samkv. reikningi Búnaðarbanka Íslands fyrir árið 1969 kr. 50 897 901.60 kr., þar af gjaldið frá bændum rúmar 20 millj. kr. Mér finnst, að í þessu felist sú viðurkenning, að stofnlánadeildin hafi ekki þurft alltaf á þessum tekjum að halda. Og ég fæ ekki séð, að skyldulánin frá Lífeyrissjóði bænda nemi, a. m. k. fyrst í stað, þeirri upphæð, sem hér um ræðir. Ég held, að það sé útilokað mál. Sé það svo, að stofnlánadeildin hafi að mestu umráð yfir Lífeyrissjóði bænda, finnst mér fjarri lagi annað en bændur fái verulegan úthlutunarrétt á lánum þeim, sem veitt verða úr Stofnlánadeild landbúnaðarins, á meðan þeir fá þessi mál ekki alveg í sínar hendur. En ég vona, að það geti orðið samkomulag um þetta frv. og á því geti fengizt leiðréttingar til að brúa það bil, sem ég nefndi áðan, og ég vil fagna því, að hæstv. ráðh. og það lið, sem hann hefur á að skipa, er nú komið á þá skoðun, sem við framsóknarmenn höfum verið á að undanförnu, og við teljum, að þessi skattur hafi verið ranglátur og að í ljós komi með þessu frv., að hann hafi að mestu verið óþarfur.