30.03.1971
Efri deild: 80. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1540 í B-deild Alþingistíðinda. (1590)

281. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég mun nú ekki fara að tefja umr. á þessu stigi vegna þeirra miklu umr., sem urðu við 2. umr., en við nánari yfirlestur var mér bent á, að það var prentvilla á tveimur stöðum í frv., sem mér þótti rétt að leiðrétta, svo að óyggjandi væri. Við 35. gr. á að standa 276 264.00 kr. í staðinn fyrir 276 263.00 kr. Síðan er við 72. gr. skökk tilvitnun. Til þess að hafa 1. málsl. þeirrar gr. óyggjandi varð það að samkomulagi í samráði við hæstv. ráðh. að umorða þetta, og ég ætla að leyfa mér að lesa, hvernig ég legg til, að hún orðist. Ég hafði talað við nm. sér í lagi, því að tíminn var það naumur, að ég gat ekki náð saman fundi, og ég veit, að þeir eru þessu meðmæltir, og það liggur þá á hreinu, að við úrskurð yfirvalds um meðlag með börnum er tilvitnun í 14. gr., en í frv. stóð í 16. gr., þannig að það fer ekki á milli mála, að það á að greiða það frá og með 17 ára aldri. Orðalagið verður þá á þessa leið:

„Mæður, sem fá úrskurð yfirvalds um meðlag með börnum sínum, geta án tillits til þess, hvort þær ganga í hjónaband eða ekki, snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins með úrskurðinn og fengið meðlagið greitt þar, þó innan þeirra takmarka, er 14. gr. setur um fjárhag og aldur barna.“

Herra forseti. Þessi brtt. er sett fram skriflega, og bið ég forseta að leita afbrigða, þar sem ekki vannst tími til að dreifa henni vegna skamms tíma milli umr.