31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

281. mál, almannatryggingar

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Í útvarpsumr., sem fram fóru hér á hv. Alþ. hinn 29. apríl í fyrra, gerði ég grein fyrir þróun kaupmáttar tryggingabóta s.l. áratug gagnvart algengustu matvörum og sýndi fram á, hversu stórlega hann hefði hrapað. T.d. dugði mánaðarellilífeyrir árið 1960 fyrir 326.6 kg af nýjum fiski, en í fyrra fyrir 138.4 kg, mánaðarfjölskyldubætur með fjórum börnum fyrir 257.4 kg af fiski 1960, en fyrir 62.4 kg í fyrravor. Svipuðu máli gegndi um fjölmargar aðrar nauðsynlegustu matvörur, kjöt, mjólk, smjör, smjörlíki, kartöflur, kaffi o.fl. Augu almennings voru mjög greinilega að opnast fyrir því, hversu hrapallega hafði verið að þessum málum staðið á undanförnum árum, og því var almennt afar illa tekið, að Sjálfstfl. og Alþfl. fengust ekki til að hækka ellilífeyrinn um meira en 6 kr. á dag, samtímis því, sem þeir hækkuðu söluskatt úr 7.5% í 11 %, en yfir stóð ein gjöfulasta vertíð í sögu þjóðarinnar. Alþfl. hafði í áratug tekið þátt í því með Sjálfstfl. að vinna hvers kyns hervirki gegn kjörum hinna lægstlaunuðu í þjóðfélaginu, svo sem með kaupbindingum, gengislækkunum, vísitöluskerðingum og með umbyltingu skattkerfisins í þá átt að stórauka óbeina skatta á kostnað barnafjölskyldna og elli- og örorkulífeyrisþega samtímis því, að fésýslumenn fögnuðu auknu frelsi til umsvifa og álagningar og hvers kyns gróðasöfnunar. Gagnvart öllum þessum aðgerðum í þágu Sjálfstfl. og þeirra, sem betur mega sín í þjóðfélaginu en óbreyttir launamenn, hafði Alþfl. jafnan treyst á það, að hann ætti gamlan og góðan bjarghring til þess að fleyta sér á í gegnum kosningar, þar sem væri trú kjósenda á umhyggju hans fyrir almannatryggingum og varðgæzlu um stöðugt aukið gildi tryggingabóta.

En í fyrravor voru augu almennings farin að opnast fyrir þeirri staðreynd, að hver, sem leitaði afreka Alþfl. í mynd árlega aukins kaupmáttar tryggingabóta, kom að tómum kofunum. Það duldist ekki lengur, að íhaldsþjónustan náði einnig til trygginganna. Kaupmáttur bótanna hafði farið lækkandi ár frá ári og var þá fokið í flest skjól um réttlætingu fyrir þátttöku í hvers kyns hermdarverkum viðreisnarstjórnarinnar gegn launafólki. Því nær sem dró bæjarstjórnarkosningum, þeim mun áþreifanlegar varð forustulið Alþfl. vart við þennan dóm, og nú voru góð ráð dýr. Þegar svo var komið, að í stað þess, að það hafði dugað Alþfl. að nefna orðið almannatryggingar til þess að fá jafnvel óánægðustu fylgismenn sína til þess að slá striki yfir ávirðingar flokksins, þá var frammistaða Alþfl. í tryggingamálum orðin ein aðalávirðing hans. Björgunarbeltið gamla, sem forustan hafði trúað á, að héldi flotmagni sínu, þó að ekkert væri fyrir það gert, hafði nú minna flotmagn en ekki neitt og var farið að draga Alþfl. í kaf. Nú voru góð ráð dýr. Það var ekkert hægt að gera til úrbóta úr því, sem komið var, en það var hægt að gefa loforð, og rétt áður en kjósendur fóru inn í kjörklefana, gat Alþýðublaðið skýrt frá því með fimm dálka fyrirsögn í tveimur línum með mynd af hæstv. félmrh., að hann hefði skipað nefnd til þess að endurskoða tryggingalöggjöfina: Eggert lætur endurskoða tryggingarnar stóð þar með risastöfum. Eins og menn muna, var kosið til bæjar- og sveitarstjórna 31. maí 1970, en ef menn lesa upphaf aths. með því frv., sem hér liggur fyrir og er getið í kosningahræðslu Alþfl. fyrir bæjarstjórnarkosningarnar síðustu og nú fætt í kosningahræðslu Alþfl. fyrir alþingiskosningarnar á sumri komanda, þá segir þar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með bréfi, dags. 28. mal 1970, skipaði heilbr.- og trmrh. nefnd til að endurskoða gildandi lög um almannatryggingar.“ Nokkrum línum neðar segir: „... skyldi hún skila áliti svo fljótt sem unnt er ...“

Séu menn þeirrar skoðunar, að þetta mjög svo síðbúna fyrirheit Alþfl. og loforð um bót og betrun hafi í kosningunum haft einhver áhrif í þá átt að draga úr afleiðingunum af athafnaleysi og vanrækslu hans í tryggingamálum undanfarinn áratug, þá verða menn að eftirláta það ímynduninni að meta það, hversu lágt hefði orðið gengi Alþfl., ef það hefði ekki komið fram þremur dögum fyrir kosningar. Svo mikið reyndist fallið þrátt fyrir þessa virðingarverðu tilraun hæstv. ráðh. flokki sínum til bjargar.

Það frv., sem hér liggur fyrir, hefur þannig orðið til með allsérstæðum hætti og ber þess nokkur merki. Þegar síðast var skipuð nefnd til þess að endurskoða tryggingalöggjöfina, starfaði hún að endurskoðuninni í tvö og hálft ár. Sá tími, sem nefndin hefur haft til umráða nú, er að mínum dómi allt of stuttur, og það álit kemur reyndar fram hjá einum nefndarmanna — þeim, sem hvað mesta þekkingu hefur á þeim málum, sem endurskoðunin fjallar um. Þótt til mikils hafi verið ætlazt af nefndarmönnum, sem hafa haft þessi mál til endurskoðunar í um það bil 9 mánuði, þá er þó til enn meira ætlazt af hv. alþm. að eiga að kynna sér málið til hlítar, taka endanlegar ákvarðanir og afgreiða frv. á síðustu dögum þingsins, þegar annir vegna afgreiðslu annarra mála eru með þeim hætti, að þm. komast naumast yfir að lesa þau plögg, sem útbýtt er. Endurskoðun tryggingalöggjafarinnar er mikilsverðara mál en svo, að slík vinnubrögð séu sæmandi, og kemur þar enn til, að stjórnarandstöðuflokkarnir hafa enga aðild fengið að nefndinni, sem að endurskoðuninni hefur unnið, en til þess er ætlazt, að þeir setji sig inn í málið frá grunni á örfáum dögum og afgreiði það.

Sá háttur hefur verið tekinn upp í vaxandi mæli, að fulltrúar frá stjórnarandstöðunni hafa fengið aðstöðu til þess að fylgjast með endurskoðun laga og athugun mála, t.d. má nefna EFTA-málið og skattalögin. Slíkir starfshættir auðvelda öll vinnubrögð í þinginu, þegar málin koma þar til afgreiðslu, og þannig hefði að sjálfsögðu einnig átt að standa að endurskoðun tryggingalaganna, ekki sízt þegar svo skammur tími gefst til afgreiðslu þess hér í þinginu. Í þessum vinnubrögðum felst vissulega ekki mikil virðing fyrir hlutverki Alþ. og rétti og skyldu þm. til þess að kanna til hlítar þau mál, sem tekin eru til meðferðar og hafa raunveruleg áhrif á afgreiðslu þeirra. Það er ljóst, að undirbúningur þessa frv. er mjög svo ófullnægjandi. Ýmsar till. hafa komið fram hér á hv. Alþ., síðan tryggingalöggjöfin var endurskoðuð síðast, án þess að fást afgreiddar. Engar umsagnir fylgja frá nefndinni um þessi mál á svipaðan hátt og gert var við síðustu endurskoðun. Á veigamiklum þáttum er ekki tekið, en frv. lagt fram fyrir Alþ. síðustu daga þingsins og afgreiðsla frv. í Ed. sýnir ljóslega, að ekki er til þess ætlazt, að þingið geri annað en samþykkja það, sem nefndin leggur til. Afgreiðslan hér á hv. Alþ. er nánast formsatriði. Það er sannast að segja alvarlegt íhugunarefni, hve lengi hv. alþm. ætla að láta bjóða sér slík hlutverk og slík vinnubrögð, eins og hér eru viðhöfð í veigamiklum málum. Þetta frv. nýtur þess, að hér er um að ræða, jafnvel þótt engar lagfæringar fáist á frv., nokkrar endurbætur í málum, sem hvað mest þörf hefur verið á úrbótum í nú um langt skeið og því fullur vilji fyrir hendi til þess, að frv. verði afgreitt fyrir þinglok, þótt vissulega hefði þurft að gefast tími til ítarlegri endurskoðunar og úrbóta.

Alþýðublaðið hefur getið þess allmörgum sinnum, síðan þetta frv. var lagt fram, að það marki tímamót í tryggingamálum, þar sem það feli í sér 20% hækkun lífeyrisbóta og 40% hækkun barnalífeyris auk lágmarkslífeyris til tekjulausra, og hefur jafnoft tekið það sérstaklega fram, að í nefndinni, sem undirbjó frv., hafi átt sæti þrír tilteknir menn, sem allir séu í Alþfl. Aðra hefur það ekki nefnt. Nú er það svo, og öllum hv. alþm. er um það kunnugt, að nefndin, þ.e. þessir þrír Alþfl.-menn — aðra tekur víst ekki að nefna — skilaði frv. frá sér á þann veg, að bætur skyldu hækka ekki um 20%, heldur um 10%, og barnalífeyrir ekki um 40%, heldur 20%, svo að þessar tímamótatillögur, sem Alþýðublaðið kallar svo, eru þá alls ekki frá þessari Alþfl.-þrenningu runnar. Hennar till. voru um helmingi minni hækkun. Þegar haft er í huga, hvernig skipun þessarar nefndar er til komin, eins og ég áðan lýsti, og hvers vegna hún skilar af sér einmitt núna, þ.e. að bakgrunnurinn er ekki fyrst og fremst bág afkoma bótaþega, heldur bág staða stjórnarflokkanna í tryggingamálum og þá einkum Alþfl., sem er nú með sinn gamla bjarghring loftlausan, þá virðist ljóst, að nefndin eða þremenningarnir hafa metið stöðu flokkanna á þann veg, að það dygði að hækka bæturnar almennt um 10% og barnalífeyrinn um 20%, en aðrir, sem við till. hafa tekið og kunnugri eru hinu raunverulega ástandi, hafa greinilega annaðhvort talið, að eitthvað skorti á umhyggju þremenninganna fyrir bótaþegum, eða sem miklu líklegra er, að gengi stjórnarflokkanna væri lægra en svo, að þessar litlu bótahækkanir dygðu, og því breytt frv. á þann veg að gera ráð fyrir helmingi meiri hækkun en þessir þrír tilteknu Alþfl.-menn og afgangurinn af nefndinni lögðu til. Um það verður hins vegar ekki sagt með vissu, hvorir þessara aðila, nefndin eða þeir, sem síðar fjölluðu um till. hennar, áður en frv. var lagt fram, fullkomnuðu kosningasvipinn á málinu með ákvæði um, að hæstv. núv. ríkisstj. léti það eftir sér að hækka tryggingabæturnar á pappírnum, en varpaði því yfir á næstu ríkisstj. að sjá um efndirnar eftir næstu áramót.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta ákvæði. Það hefur þegar verið gert af hálfu Alþb. í Ed., en þetta ákvæði er næsta athyglisvert og er nokkuð í samræmi við frammistöðuna í tryggingamálum á undanförnum árum. Alþfl. og Sjálfstfl. hafa s.l. áratug látið tryggingabætur rýrna að verðgildi ár frá ári og fellt allar till. um úrbætur. Loks þegar samstarf þessara flokka hefur varað nærri 12 ár, er kastað inn í þingið nú síðustu dagana, sem það starfar á kjörtímabilinu, till. um bótahækkanir, sem eiga að taka gildi fyrst á næsta ári. Aðalrökin fyrir því, að bótahækkanirnar koma ekki til framkvæmda fyrr en á næsta ári, eru þau, að ekki sé áætlað fé á fjárlögum til að greiða þær. Hvers vegna eru þær upphæðir ekki á fjárlögum? Vegna þess að þessir sömu flokkar felldu sjálfir till. um það við afgreiðslu núgildandi fjárl. Því var þá borið við, að ekki væri unnt að taka þessar upphæðir inn í fjárl., vegna þess að till. nefndarinnar væru ekki komnar fram. Nú er ekki hægt að hækka bæturnar á þessu ári, vegna þess að fjárlög voru samþ. án þess að gera ráð fyrir nokkrum till. frá nefndinni. Því er líka haldið fram, að ekki sé stætt á því að hækka bætur og um leið auka greiðslur sveitarsjóða til trygginganna, eftir að fjárhagsáætlanir hafa verið samþykktar. Hvar var þessi umhyggja fyrir sveitarsjóðunum í fyrra, þegar bæturnar voru hækkaðar um 20%, eftir að Alþfl. fékk stóra skellinn í bæjarstjórnarkosningunum? Og hvar var þá gert ráð fyrir þeirri hækkun í fjárlögum ríkisins? Nei, það rekur sig eitt á annars horn í tilraunum hæstv. ríkisstj. til þess að komast hjá því að bæta nú þegar úr þeirri skerðingu, sem orðið hefur á tryggingabótum undanfarin ár.

Á undanförnum árum hefur íslenzka þjóðin búið við hagkvæmar ytri aðstæður, mikinn afla og bætt viðskiptakjör: Verðmætasköpunin hefur aukizt verulega, en hve miklu af auknum afrakstri þjóðarbúsins hefur verið varið til þess að bæta kjör þeirra, sem verst eru staddir í þjóðfélaginu, gamalmenna og öryrkja? Sannleikurinn er því miður sá, að samtímis því, sem þjóðartekjur hafa vaxið, hefur kaupmáttur tryggingabóta gagnvart neyzluvörum lækkað. Þegar haft er í huga, að fullur ellilífeyrir og örorkulífeyrir nemur nú 4529 kr. á mánuði, er ljóst, í hve gífurlegu ósamræmi kjör þess fólks, sem hefur þennan lífeyri sér til lífsframfæris, eru við lífskjör þeirra, sem fulla starfsorku hafa, og það er engin afsökun til fyrir þjóð, sem framleiðir svo mikið á hvern mann sem Íslendingar gera, að ætla að skjóta því enn á frest að bæta hér úr, svo að um munar. Hér er ekki spurning um getu þjóðarinnar, heldur um vilja þeirra, sem ráða. Og það er ástæðulaust að mikla fyrir sér þessar hækkunartill. í frv. Jafnvel brezka íhaldsstjórnin er þessa dagana að hækka ellilífeyrinn um allt að rúmlega 20%.

Þegar ákvörðun á að taka um tryggingabætur, verður að sjálfsögðu að hafa í huga, að ekki hefur verið talið skorta á getu þjóðarinnar að hækka ekki aðeins frá næstu áramótum, heldur frá síðustu áramótum — stórlega laun þeirra ríkisstarfsmanna, sem hæst eru launaðir fyrir, og veruleg hækkun á launum alþm. á að taka gildi á miðju þessu ári, hvað svo sem fjárl. líður. Það var lengst af regla, að tryggingabætur voru látnar fylgja breytingum á launum opinberra starfsmanna og það þarf enga tímamótabreytingu til, að svo verði gert einnig nú. Hæstv. núv. utanrrh., þáv. hæstv. félmrh., sagði hér á hv. Alþ. 24. okt. 1961, með leyfi hæstv. forseta:

„Það hefur verið nokkurn veginn ófrávíkjanleg regla á undanförnum árum, að bótagreiðslur almannatrygginganna hafa verið látnar fylgja launahækkunum, sem orðið hafa ... Nú hefur það einnig orðið nokkurn veginn föst venja, að þessar breytingar hafa verið látnar fylgja þeim breytingum, sem orðið hafa á launum opinberra starfsmanna.“ Og 8. nóv. 1962 sagði hæstv. ráðh. enn fremur, með leyfi hæstv. forseta: „Það hefur verið regla að undanförnu, að bótagreiðslur almannatrygginganna hafa fylgt launum opinberra starfsmanna að þessu leyti, og þó misjafnlega. Stundum hefur þetta verið miðað við elli- og örorkulífeyrinn einan, en stundum hefur þetta verið miðað við allar bótagreiðslur úr tryggingunum.“

Þetta var reglan, að hækkanir á launum opinberra starfsmanna komu sjálfkrafa einnig á bótagreiðslur. Laun opinberra starfsmanna hafa nú verið hækkuð meira en áður hefur þekkzt. Það þarf því ekkert sérstakt tímamótafrv. sem einhverja sérstaka gjöf til bótaþega og þá með þeim annmörkum af hálfu hæstv. ríkisstj., að hún verði ekki afhent fyrr en á næsta ári. Það er ekki nema lágmarkskrafa þeirra, sem eiga að lifa af bótagreiðslum, að þær hækki nú þegar í ekki minna mæli en laun þeirra opinberu starfsmanna, sem hægara hafa átt með að komast af að undanförnu.

Bætur hækkuðu um 5.6% fyrir um það bil ári síðar, um 20% á s.l. sumri og um 8.2% á þessu ári. Það lítur því þannig út, að 20% hækkun elli- og örorkulífeyris þessu til viðbótar sé allnokkur, og sérstaklega er reynt að láta það líta þannig út og mætti ímynda sér, að bæturnar yrðu með þessu orðnar töluvert meira virði en áður var eftir þessa endurskoðun l. og eftir þessa væntanlegu hækkun hafi verið sótt verulega fram á við. En séu bæturnar bornar saman við breytingar á tímakaupi verkafólks frá því, að l. voru síðast endurskoðuð, kemur í ljós, að samkv. fréttabréfi kjararannsóknarnefndar um vísitölu fyrir greitt tímakaup verkamanna er sú vísitala nú 381 miðað við 100, þegar endurskoðunarnefnd hafði 1962 lokið endurskoðun laganna. Ellistyrkurinn var við þá endurskoðun ákveðinn 1523 kr. á mánuði og ætti eftir því að vera í dag 3.81 sinnum 1523 eða 5802 kr. Með þeirri breytingu, 20% hækkun, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að verði um næstu áramót og kallað hefur verið tímamótabreyting, verður almenni ellilífeyririnn 5880 kr. á mánuði. Það hangir því rétt í því, að með 20% hækkun eftir 5.6% hækkunina, eftir 20% hækkunina og 8.2% hækkunina á einu ári nái elli- og örorkulífeyririnn því að fylgja hækkun á tímakaupi verkamanna. Það er nú allt og sumt, og getur þá hver maður séð, hvað haft hefur verið af bótaþegum á því tímabili, sem á milli liggur og það sannar bezt, hvernig tryggingabæturnar hafa verið látnar rýrna ár frá ári s.l. áratug. Hjá þeim sem engar aðrar tekjur hafa, á svo að koma viðbót, heilar 1120 kr. á mánuði, en þegar metnir eru raunverulegir möguleikar til að lifa af þeim hámarksellilaunum, má segja, að það sé bitamunur, en ekki fjár.

Hvort tveggja er í rauninni jafnókleift að lifa af lágmarks- og hámarksellilífeyrinum, ekki sízt þegar á það er litið, að hæstv. ríkisstj. hefur séð um það, að bótaþegar verði að greiða 11% af þessum upphæðum aftur í ríkissjóð í söluskatt af hverjum matarbita, fatnaði, lyfjum og öðru, sem þeir kaupa. Sú tekjuviðbót, sem gamalt fólk var að gera sér vonir um að fá í l. um eftirlaun aldraðra félagsmanna í verkalýðsfélögum, kemur samkv. ákvæðum þessa frv. til frádráttar hámarksellilífeyri og virðist þá hafa verið til lítils barátta forustumanna verkalýðsfélaganna fyrir því að fá þær greiðslur hækkaðar. Sú upphæð, sem þar fæst, kemur til frádráttar ellilífeyrinum og dregur hann niður í lágmarkið. Sama er að segja t.d. um fjölskyldubætur, sem örorkulífeyrisþegar kunna að fá.

Þær dragast frá örorkulífeyrinum og færa hann niður. Ég get hins vegar fallist á þá hugsun, að ellilífeyrir og örorkulífeyrir séu hærri til þeirra, sem engar tekjur hafa, þótt ávallt sé spurning, hversu langt á að ganga í þá átt að telja til frádráttar hverja krónu, sem með öðrum hætti er fengin. Þessi afstaða mín byggist á því, að ég hef jafnan verið þeirrar skoðunar, að á meðan við stöndum svo aftarlega sem nú og meðan því marki er ekki náð, að nokkurn veginn sé hægt að lifa af tryggingabótum, þá þurfi það fé, sem á hverjum tíma kann að verða varið til tryggingabóta, fyrst og fremst að renna til þeirra, sem engar aðrar tekjur hafa, í stað þess að dreifast um allt tryggingakerfið án tillits til fjárhagsástæðna.

Samkv. frv. er gert ráð fyrir því, að mismunur á hinum almenna elli- og örorkulífeyri og hámarkslífeyri greiðist að 2/5 hlutum af viðkomandi sveitarfélagi og að 3/5 hlutum af Tryggingastofnuninni á sama hátt og nú er gert varðandi uppbætur til þeirra, sem ekki eru taldir geta komizt af án hækkunar. Ég er þeirrar skoðunar, að ýmsar ástæður valdi því, að afnema beri ákvæðin um sérstakar greiðslur sveitarfélaganna á 2/5 hlutum þessara greiðslna, hinna venjulegu uppbóta, sem í gildi hafa verið, og þeirrar sérstöku hækkunar, sem nú er gert ráð fyrir úr 70 560 kr. á ári í 84 þús. kr. á ári, til þeirra, sem engar aðrar tekjur hafa.

Um það hefur oft verið rætt, að ekki megi hafa bætur mismunandi háar til einstakra bótaþega miðað við fjárhag þeirra. Bæturnar megi ekki hafa á sér framfærslusvip. Ég er hins vegar, eins og ég áðan sagði, þeirrar skoðunar, að á meðan almennar bætur duga ekki til lífsframfæris, verði að verja hækkunum á fjárveitingum til bótagreiðslna sérstaklega til þeirra, sem verst eru staddir. Það út af fyrir sig að greiða einum hærri bætur en öðrum setur ekki endilega framfærslusvip á tryggingabæturnar. Það, sem hins vegar gerir það miklu fremur, er þetta fyrirkomulag á greiðslu uppbótanna, að hluti þeirra er greiddur sérstaklega af sveitarsjóði og þeir, sem viðbæturnar þurfa að fá, verða að leita til sveitarfélagsins fyrst, ekki trygginganna, til þess að láta það sækja um hækkunina, og með þau mál fara framfærslufulltrúar á viðkomandi stöðum. Þetta tel ég óviðunandi fyrirkomulag. Þessar uppbætur og þær hækkanir, sem nú á að greiða til viðbótar almennum elli- og örorkulífeyri til þeirra, sem tekjulausir eru, eiga að mínum dómi að greiðast með alveg sama hætti og aðrar bætur. Með því að ætla að haga greiðslu þessarar viðbótar á þennan veg er einnig verið að koma óeðlilega miklum hluta þeirra yfir á sveitarfélögin, og vita þó allir hv. alþm., að ríkisvaldið hefur kreppt mjög að þeim með hvers konar greiðsluskyldu að undanförnu.

Samkv. aths. með frv. er áætlað, að hækkun úr almennum lífeyri í hámarkslífeyri til tekjulausra muni kosta tryggingarnar 85 millj. kr. á ári. Af þessari upphæð eiga sveitarfélögin að greiða sérstaklega 2/5 hluta eða 34 millj. kr. og síðan sín 18% af hinum hlutanum eins og af öllum öðrum útgjöldum lífeyristrygginganna eða rúmlega 9 millj. kr., þ.e. sveitarfélögin eiga samkv. þessu að greiða rúmlega 43 millj. kr. af þeim 85 millj. kr., sem áætlað er, að sérstök hækkun almenns lífeyris til tekjulausra kosti eða ríflega 50% kostnaðar við aðalskrautfjöður þessa frv., þótt í l. sé almennt gert ráð fyrir, að sveitarfélög greiði 18% af útgjöldum lífeyristrygginga.

Í umsögn stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga um þetta frv., þar sem lögð er rík áherzla á getuleysi sveitarfélaganna til að taka á sig aukin útgjöld vegna ákvæða þessa frv., kemur ekki fram, að menn geri sér grein fyrir fjárhagslegum áhrifum á hlut sveitarfélaganna í greiðslum vegna þess sérstaka ákvæðis að telja hækkunina úr almennum lífeyri í sérstakan lífeyri til tekjulausra sem uppbót, sem greidd er að 2/5 hlutum af sveitarfélögunum. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga telur, að samþykkt frv. muni hafa í för með sér tæplega 100 millj. kr. hækkun á framlagi sveitarfélaganna auk hækkunar til sjúkrasamlaga, en mér sýnist, að hækkunin verði um 118 millj. kr. vegna þessarar tilhögunar, að þessi sérstaka hækkun lífeyris til tekjulausra — en það er talið það atriði, sem mest gildi hafi í frv. — er látin lenda á sveitarfélögunum í svo ríkum mæli, að þá viðbót eiga sveitarfélögin að greiða að helmingi, þótt hlutur sveitarfélaga í greiðslum lífeyristrygginga hafi verið 18%. Ég tel, að auk þess, sem hér er sérstaklega gengið hart að sveitarfélögunum til þess að létta byrðinni af öðrum, sem greiða kostnað við almannatryggingarnar og þá einkum af ríkissjóði, þá komi fleira til, sem valdi því að fella eigi algerlega niður ákvæðið um, að sveitarsjóðir greiði 2/5 hluta uppbóta á elli- og örorkulífeyri.

Ég minntist áðan á, að þessi tilhögun setur þann framfærslusvip á þessar greiðslur, sem alls ekki á eða þarf að eiga sér stað um greiðslur almannatrygginga. Auk þess veldur þetta ákvæði því, að engin trygging er fyrir því, að allir bótaþegar búi raunverulega við sama rétt til uppbóta, sem heimilt er að greiða fram yfir skylduna til að hækka lífeyri í 84 þús. kr., ef um engar aðrar tekjur er að ræða. Í grg. með till. til þál. um endurskoðun l. um almannatryggingar, sem við fluttum nokkrir þm. Alþb. á síðasta þingi, segir svo um þetta sérstaka atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„Sé um greiðslu uppbóta á elli- eða örorkulífeyri að ræða skv. núgildandi lögum, þurfa að vera fyrir hendi till. viðkomandi sveitarstjórnar varðandi hvern einstakan bótaþega, en sveitarfélagið greiðir 2/5 hluta af hækkuninni, en Tryggingastofnun ríkisins 3/5 hluta. Á árunum 1964–1967 að báðum meðtöldum námu hækkanir á ellilífeyri að meðaltali um 5.1% af heildarupphæð ellilífeyris sömu ára, en hækkun örorkulífeyris um 6.7% af heildargreiðslu örorkulífeyris.

Orsakir þess, að heimildir til hækkunar á þessum lífeyrisbótum eru ekki að fullu notaðar, svo að á skortir t.d. varðandi ellilífeyri árið 1967 ríflega 20 millj. kr., verða naumast raktar til þess, að fyrir þörfum bótaþega á þessum hækkunum hafi verið að fullu séð. Annars vegar mun koma til skortur fjölmargra bótaþega á vitneskju um heimildir til þessarar hækkunar bóta og hins vegar tregða sveitarstjórna til þess að mæla með hækkunum vegna kostnaðarhluta sveitarsjóðs. Það er t.d. eftirtektarvert, að í sumum umdæmum eru engar slíkar hækkanir greiddar árum saman.

Ákvæði núgildandi laga eru miðuð við, að yfirvöld viðkomandi sveitarfélaga hafi nánasta vitneskju um hag þeirra bótaþega, sem sækja um hækkun elli- og örorkulífeyris og þá gert ráð fyrir, að greiðsla sveitarfélagsins á hluta af hækkun bótanna verði til aðhalds.

Það er skoðun flm. þessarar þáltill., að mjög skorti á alla upplýsingastarfsemi um rétt hinna tryggðu og ýmsir elli- og örorkulífeyrisþegar missi af rétti sínum til hækkunar bóta vegna skorts á vitneskju um heimildarákvæði laganna. Enn fremur verður naumast talið eðlilegt, að mismunandi afstaða einstakra sveitarstjórna til þess að mæla með hækkunum og óhjákvæmileg tregða við að auka útgjöld sveitarsjóðanna ráði því, hverjir bótaþegar njóti hækkana og hverjir ekki. Það er því till. flm., að athugað verði, hvort ekki er rétt að gera hér skipulagsbreytingu á, þannig að felld verði niður ákvæði um, að sveitarfélög greiði 2/5 hluta hækkana á elli- og örorkulífeyri, en Tryggingastofnunin greiði slíkar hækkanir að fullu. Jafnframt verði stóraukin upplýsingastarfsemi í því skyni að kynna hinum tryggðu rétt sinn, samtímis því að Tryggingastofnunin afli sér í ríkara mæli en nú upplýsinga um hag bótaþega, til þess að unnt sé að auka þann þátt í tryggingastarfseminni, að upphæðir bóta séu miðaðar við fjárhagsástæður bótaþega, þannig að við ákveðnar fjárhagsástæður sé fyrir hendi réttur til sérstakra bóta og til viðbótargreiðslna við grunnbætur.“

Ég tel, að þessi rök öll séu fyrir hendi enn og fella beri niður ákvæðið um greiðslu sveitarfélaga á 2/5 hlutum af uppbót á lífeyri. Ég ætla ekki við 1. umr. málsins að fjalla frekar um einstök ákvæði eða gr. frv. Í Ed. voru af hálfu Alþb. fluttar margar brtt. við frv., sem sjálfsagt verða endurfluttar í þessari hv. d. og þá gerð nánari grein fyrir þeim. Í sambandi við einstök atriði frv. vil ég aðeins minna á þá þáltill., sem ég áðan nefndi og flutt var um næstsíðustu áramót. Þar voru taldar upp ýmsar breytingar á l., sem lagt var til, að nefndinni yrði falið að kanna — atriði, sem sum hafa verið tekin til greina nú eins og það, að Tryggingastofnuninni verði gert að skyldu að annast skipulega upplýsingastarfsemi til að kynna almenningi rétt sinn svo og að barnalífeyrir verði greiddur með barni látinnar móður og enn fremur verði veitt heimild til að greiða örorkustyrk vegna öryrkja undir 16 ára aldri. Ýmis atriði, sem gerðar voru till. um af okkar hálfu, hafa hins vegar ekki verið tekin til greina, eins og t.d. heimild til greiðslu barnalífeyris, ef móðir er öryrki, heimild til greiðslu mæðralauna, fjölskyldubóta og barnalífeyris með börnum til 18 ára aldurs, greiðsla barnalífeyris, ef faðir sætir gæzlu- eða refsivist, greiðsla hærri hluta lyfjakostnaðar og læknishjálpar til elli- og örorkulífeyrisþega en annarra, greiðsla hluta af kostnaði við tannlækningar, ákvæði um, að iðgjaldagreiðslur hefjist fyrst við 18 ára aldur, ákvæði um, að sjúkrasamlög annist umboðsstörf fyrir Tryggingastofnunina, en ekki sýslumenn og bæjarfógetar, ákvæði um stofnun sérstaks tryggingadómstóls. Öll þessi atriði og nokkur fleiri voru tekin fyrir í till. þeirri til þál., sem við þm. Alþb. fluttum á síðasta þingi.

Þótt ég hafi áðan rakið aðdragandann að því frv., sem hér liggur fyrir, og deilt á meðferð málsins og frammistöðu stjórnarflokkanna í tryggingamálum, þá er vissulega ástæða til þess að fagna því, þegar sýnd er viðleitni í þá átt, þótt seint sé, að reyna að stöðvast á þeirri braut, að tryggingabætur rýrni stöðugt að verðgildi, eins og átt hefur sér stað í verulegum mæli s.l. áratug. Enda þótt sá stóri annmarki sé á frv., að það á ekki að taka gildi fyrr en á næsta ári, er vissulega ástæða til þess að fagna þeim endurbótum, sem í frv. felast t.d. varðandi barnalífeyri, frá því, sem í gildi er nú, eftir að um alllangt skeið hefur hallað undan fæti um verðgildi tryggingabóta í stöðugt vaxandi dýrtíð undanfarin ár.

Ég er að vísu þeirrar skoðunar, að þjóð, sem framleiðir svo mikil verðmæti á hvern þjóðfélagsþegn sem Íslendingar, eigi að gera miklu meiri kröfur til sín í tryggingamálum og um bætt kjör aldraðra og öryrkja en þetta frv. gerir ráð fyrir. Þrátt fyrir svo miklar þjóðartekjur befur jafnan verið viðkvæðið, að fé skorti til þess, að við gætum boðið mannsæmandi kjör því fólki, sem lagði þó grunninn að þeim lífskjörum, sem þeir búa við í dag, sem geta unnið og lagt á sig langan vinnudag til að afla sér lífsviðurværis. Þótt litið sé fram hjá þeirri grundvallarstefnu hæstv. núv. ríkisstj., sem þó veldur mestu um að gera þeim, sem sterkastir eru í þjóðfélaginu, sem bezt kleift að ná til sín sem gróða sem allra mestu af verðmætasköpuninni án þess, að hugsað sé um, hver verður hlutur þeirra, sem minna mega sín og koma ekki til greina í þeirri villtu samkeppni af ýmsum ástæðum, þótt þessu sé sleppt og einungis litið á ráðstöfun ríkisteknanna, eins og þær eru á hverjum tíma, þá er raunin sú, að framlag til tryggingamála, framlag til þess að gera ný átök í málefnum aldraðra og öryrkja og annarra bótaþega, eru látin mæta afgangi. Þegar búið er að veita fé til þess að auðvelda flestum öðrum þjóðfélagsþegnum að njóta lífsins gæða, t.d. með betri vegum og ýmsum framkvæmdum, þá fyrst er spurt, hvort nokkur afgangur kunni að vera til tryggingamála.

Þess vegna er niðurstaðan sú, að þegar enn stendur eitthvert lengsta góðæristímabil í sögu þjóðarinnar, að því er varðar fiskafla og afurðaverð, þá er gamalmennum og öryrkjum ætlað á næsta ári eftir samþykkt þessa frv., sem jafnvel hefur verið kallað tímamótafrv., að standa svo til í sömu sporum og við upphaf þessara góðæra og búa við lífeyri, sem er hróplega fjarri því að nægja til lífsframfæris, jafnvel þótt miðað sé við hámarksgreiðslu, sem byggð er á því, að um engar aðrar tekjur sé að ræða. Sá hámarkslífeyrir er t.d. aðeins um 58% af því, sem heimilt er að greiða hv. alþm. í húsnæðiskostnað einan. Þetta viðhorf verður að breytast. Ef þjóðin á að láta nokkuð eftir sér, þá er það það að búa ellilífeyrisþegum og örorkulífeyrisþegum þau kjör, að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af lífsafkomu sinni. Í stað þess að láta jafnan allar aðrar framkvæmdir og ráðstafanir sitja í fyrirrúmi og athuga síðan, þegar bezt lætur, hvort eitthvað er afgangs til úrbóta í tryggingamálum, þá verður að láta aðra hluti í þjóðfélaginu aðlaga sig þeirri ákvörðun, að elli- og örorkulífeyrisþegar geti lifað af lífeyri sínum, og þeir, sem ráða málum þjóðarinnar, verða að miða ákvarðanir sínar í öðrum málum við það, að þessu marki verði náð á tilteknum stuttum tíma. Því miður hafa ákvarðanir um bótahækkanir undanfarið miðazt við það eitt að láta bæturnar ekki rýrna um of í örri verðbólgu, en ekkert hefur miðað að því marki, að bætur dugi til lífsframfæris. Það frv., sem hér liggur fyrir, gerir því miður ekki ráð fyrir öllu meira en því að bæta upp rýrnun bóta á undanförnum árum — árum einhverra mestu framleiðsluuppgripa í sögu þjóðarinnar, árum, sem vissulega hafa gefið þjóðinni sérstakt tækifæri til þess að ná því marki, sem ég áðan nefndi. Hér er spurningin ekki um getu þjóðarinnar, heldur um vilja þeirra, sem ráða.