31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1570 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

281. mál, almannatryggingar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er vafalaust megintilgangur trygginga í nútímaþjóðfélögum, að hinir verst settu í þjóðfélaginu búi við viðunandi lágmarkslífskjör. En ef við lítum á tryggingalöggjöfina íslenzku, eins og hún er nú, þá hygg ég, að við verðum flestir sammála um það, að það sé fjarri því, að íslenzka tryggingalöggjöfin fullnægi á nokkurn sómasamlegan hátt þessu hlutverki.

Það var einhver, sem sagði það hér áðan í umræðum, að þetta frv. væri hugsað sem kosningaföt fyrir ríkisstj. Ég get nú illa ímyndað mér, að hún ætli að klæðast svona flíkum fyrir kosningar. Þetta verða ekki skjólgóð kosningaföt. (Gripið fram í: Hún hefur ekkert annað.) Ja, hvernig verður hún þá? Ég held, að ef við eigum að líkja þessu við föt, þá er bara eitt dæmi í öllum heimsbókmenntunum, sem við getum gripið til; það eru nýju fötin keisarans. Þetta eru nýju fötin keisarans, og þannig ætlar hæstv. ríkisstj. að skarta fyrir kjósendum, að því er varðar tryggingarnar; og verði þeim það að góðu. Ég held, að þessar flíkur skýli henni ekki fremur en nýju fötin keisarans gerðu, þegar barnið sá hátignina stíga fram í sínum nýju klæðum. Ég held, að þó að ýmislegt sé til umbóta á tryggingakerfinu samkv. ákvæðum þessa frv., þá sé það öruggt mál, að þær umbótatill. séu alls ófullnægjandi. Þær snerta engin grundvallaratriði tryggingamálanna, en eru svona lappar; það eru settar harla mislitar bætur á gamalt fat. Ég man eftir því, þegar ég var strákur í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, og við gáfum þar út blað, sem hét Skólapilturinn, að það var eitt af skólaskáldunum, sem orti þessa vísu, sem ekki hefur getað farið úr hug mér og skaut upp kollinum núna einmitt í sambandi við þetta mál:

Ósköp og skelfing er það ljótt

á afar gömlu fati

að bæta svart með grárri bót

gengur næst gati.

Og þær fara ekki mikið betur á tryggingalöggjöfinni í heild sumar bæturnar, sem þarna er slett á flíkina upphaflegu. Þetta er eins og að bæta svart með grárri bót og ófullnægjandi með öllu.

Jónas Guðmundsson; fyrrv. ráðuneytisstjóri í félmrn. og fyrrv. alþm. Alþfl., lét þau fleygu orð frá sér fara nýlega í blaðagrein, sem m.a. birtist í Morgunblaðinu og hefði nú raunar átt að birtast í Alþýðublaðinu líka, finnst mér — ef hún hefur ekki gert það, þá eru það einhver mistök — að það væri nánast guðlast að tala um velferðarþjóðfélag á Íslandi og það væri vafasamt, að það væri hægt að tala hér um framfærsluþjóðfélag. Þessi ummæli um almannatryggingarnar á Íslandi hefðu sómt sér ákaflega vel í stjórnarblaðinu, Alþýðublaðinu, því að þessi ummæli eru sönn. Þau er engin fyndni og ekkert háð; þau eru sannleikur. Þetta er dómur hans um ástand tryggingamálanna á Íslandi í fyllstu alvöru. Það er ekkert verið að yfirdrífa í þessu. Margsinnis hefur það verið sagt og endurtekið, að það sé nú eiginlega engin stéttaskipting á Íslandi. Hér sé mikið jafnaðarþjóðfélag; það séu eiginlega engir ríkir og engir fátækir. Fátækt sé ekki til á Íslandi. En þetta eru ekki nándar nærri eins sönn orð og þau, sem Jónas Guðmundsson sagði og ég hafði eftir honum hér áðan. Þetta er ekki rétt. Það er bæði til auður í einstakra manna eign og ömurleg fátækt á Íslandi því miður — fátækt, sem tryggingakerfið bætir ekki úr á neinn viðunandi hátt.

Lítum bara á það, hvort það muni vera aðeins örfáir einstaklingar á Íslandi, sem búa við fátækt. Það væri ánægjulegt, ef svo væri, og þá væri hægt að bæta úr því, ef þeir væru bara fáir. En tökum þá bara verkamannastéttina. Ef ein fyrirvinna er í fjölskyldu og á að framfæra hana á 15 þús. kr. mánaðarlaunum, sem hann fær fyrir að vinna 8 stundir á dag alla virka daga, þá fullyrði ég, að þar er ekki búið við auðsæld; þar er fátæktin nálægt garði. Það getur ekki hjá því farið, hversu vel sem á er haldið. Og það gildir um nálega alla verkalýðsstéttina, almenna verkafólkið, verkamenn og verkakonur, iðnverkafólkið. Og þetta gildir um fleiri stéttir. Láglaunaverzlunarfólkið er þarna lítið eða ekki betur sett. Og þarna er um mikinn fjölda að ræða, sem áreiðanlega býr neðan við mörk fátæktar. En það eru til fleiri, sem sannanlega búa við ekki aðeins fátækt, heldur nánast að segja örbirgð. Og það er tvímælalaust gamla fólkið og öryrkjarnir, því að því er ætlað að lifa af tæpum 5 þús. kr. á mánuði. Hvað segið þið um það alþm.? Kunnum við þá list? Getum við ætlað nokkrum að framfleyta sér á 5 þús. kr. á mánuði? Ég held það ekki. Ég held, að við skiljum lítið í því, hvernig það gerist. Væri það nokkuð úr vegi, að við hugleiddum, við hvaða lífskjör ekkjur og einstæðar mæður búa? Það sama gildir um fjöldamarga einstaklinga í þjóðfélaginu og allir þeir, sem ég nú hef nefnt — það eru nokkrir tugir þúsunda manna — búa við fátækt og sumir við örbirgð, sem er alveg ástæðulaust í okkar auðuga þjóðfélagi — þjóðfélagi, sem opinberar alþjóðlegar skýrslur segja um, að hér búi þjóð, sem sé ein af 10–12 tekjuhæstu í heiminum miðað við mann. Þar er um misskiptingu að ræða. Margir hafa langt umfram það, sem þeir hala nokkra þörf fyrir, og aðrir hafa hvorki til hnífs né skeiðar. En það er þetta, sem á að laga. Það er þetta, sem á að breyta. Þetta á að fyrirbyggja með fullkominni tryggingalöggjöf og slíka tryggingalöggjöf höfum við full efni á að hafa í gildi hjá okkur.

Þetta, sem ég nú hef sagt, sýnir það og sannar, að það var mikilla umbóta þörf varðandi tryggingalöggjöfina. Það var þörf á að gerbreyta henni og fullkomna hana. Endurskoðun hefur að vísu farið fram. Lagt er til að bæta um ýmislegt smálegt, en samt eru umbæturnar með öllu ófullnægjandi. Það hefur víst verið ætlun hæstv. ríkisstj. að láta það ekki fara úr böndum, hvernig tryggingalöggjöfinni yrði breytt, því að um það var vandlega séð, að nálægt endurskoðunarverkinu kæmu engir aðrir en útvaldir trúnaðarmenn stjórnarflokkanna, Sjálfstfl. og Alþfl., og svo með þeim ráðuneytisstjóri í rn. Eru nú tryggingamál þess eðlis, að það séu líkur til þess, að það hefði nokkurt tjón hlotizt af því, þó að menn úr öðrum stjórnmálaflokkum hefðu komið nálægt endurskoðuninni? Ég held ekki. Ég held, að það sé enginn grundvöllur fyrir því að líta á þetta mál sem þröngt flokksmál, sem eingöngu trúnaðarmenn stjórnarflokkanna eigi að fjalla um, þegar verið er að hugleiða og móta umbætur á slíkri viðtækri löggjöf, sem snertir meiri hluta þjóðarinnar. Ég held, að það hefði verið hyggilegra líka upp á afgreiðslu málsins á hv. Alþ. að láta framkvæma þessa endurskoðun á hlutlausum breiðum grundvelli með þátttöku allra stjórnmálaflokkanna á Alþ. En hér var líka bent á það, að það hefði ekki verið úr vegi, að fulltrúar frá Sambandi ísl. sveitarfélaga hefðu komið þar nálægt. En það var ekki heldur gert. Það var of rúmt. Eða skyldi nokkrum manni hafa dottið önnur eins fjarstæða í hug og það, að einhverjir fulltrúar fyrir öryrkja eða aldrað fólk eða einhverja tegund lífeyrisþega hefðu átt að taka þátt í endurskoðuninni, þ.e. þeir, sem eiga fyrst og fremst að búa við löggjöfina? Ég hefði talið, að það hefði verið full ástæða til að athuga, ef ekki var hægt að trúa neinum úr stjórnarandstöðuliðinu fyrir að taka þátt í endurskoðuninni, hvort ekki hefði mátt velja einhverja fulltrúa frá þeim, sem við tryggingarnar eiga að búa. En það var ekki heldur gert. Það voru bara hálaunamenn úr „stjórnarapparatinu“, sem nutu þess trúnaðar að framkvæma þessa endurskoðun — að vísu mætir og ágætir menn, en þeir hafa lítil skilyrði til þess að líta á málið frá sjónarmiði þeirra tryggðu, sem tryggingalöggjöfin ætti að veita fullkomnast öryggið.

Það virðist svo sem þeir, sem endurskoðuðu löggjöfina, hafi ekki haft alveg frjálst taumhald, að þeir hafi ekki alveg verið sjálfráðir að því, hvaða grundvallarþætti tryggingamálanna þeir tækju til meðferðar í endurskoðuninni, því að eins og lesið var upp hér áðan, þá kvartar einn nm., sem vann að endurskoðuninni — tvímælalaust sá færasti þeirra, sérfræðingur í tryggingamálum — yfir því, að ekki hafi fengizt aðstaða til að taka til meðferðar mjög þýðingarmikil atriði tryggingamála og þau séu þess vegna utan þessarar endurskoðunar, og telur upp síðan, hvaða svið hann hefði talið æskilegt að fara inn á — mikilsverð tryggingasvið. Það er gefinn hlutur, að þetta hefði n. getað gert, ef hún hefði haft bara frjálsræði til þess. En það hefur einhvers staðar verið kippt í spottann, þannig að þessi mikilsverðu tryggingasvið voru ekki tekin með í endurskoðunina, og tryggingafræðingurinn sá ástæðu til að bera sína umkvörtun fram í sjálfu plagginu varðandi þessi atriði.

Það hefur verið talað um það, að það sé til bóta í þessu frv., að unglingar upp að 17 ára aldri þurfi nú ekki að borga iðgjald. Áður hafði markið verið um 16 ár. Jú, það er óneitanlegt, að þetta er skárra, en er yfirleitt nokkurt vit í því að vera að heimta tryggingaiðgjöld af unglingum, sem eru við nám, sem eru í skóla, hvort sem þeir eru 16, 17, 18 eða 19 ára? Ég sé bara ekki nokkurt vit í því að vera að slíku. Og efast ég um, að þarna eigi nokkurt aldursmark við, a.m.k. innan við tvítugt, heldur sé það bara tekið fram í tryggingalöggjöfinni, að iðgjöld séu ekki tekin af unglingum, sem eru við skólanám. En að láta sig muna um svona og geta samt flaggað með svo lítilli lagfæringu — svo lítilli, eða hundstunga finnur varla, það er það, sem er eiginlega einkennið á þessu öllu saman.

Yfirleitt má segja það, að allar till. um hækkanir bóta séu tvímælalaust ófullnægjandi með öllu, þó að þær ættu að taka gildi í dag, sem er nú ekki. Jú, ellilífeyrir og örorkubætur eiga að hækka á sínum tíma. Það er gefið fyrirheit um það, að þær hækki úr 4900 kr. á mánuði í 5880 — um 20%. Já, hvernig skyldi aldraða fólkinu ganga að framfleyta sér á 5880 kr. á mánuði? Svolítið skár en á 4900, en eins og margvikið hefur verið hér að af öðrum ræðumönnum, þá er engin vissa fyrir því, að kaupmáttur 5880 kr. verði meiri á þeim drottinsdegi, þegar þessi tryggingalöggjöf á að taka gildi í ársbyrjun 1972, en 4900 kr. núna, og það efa ég sannarlega, að það verði um aukinn kaupmátt að ræða á þeim degi. Þegar formönnum stjórnarflokkanna barst í hendur frv. ríkisstj. um tryggingalöggjöfina, þá var þó lausnin ekki þessi. Nei. Þá var gert ráð fyrir því, að ellilífeyrir og örorkubætur hækkuðu um 10%, en það hefur þó einhverjum fundizt það of smátt skammtað, og það er komið upp í 20% miðað við gildistöku að þessu ári liðnu. Þetta er allt of lágt. Ef við ættum að vera með ellilífeyri og örorkubætur eitthvað í námunda við það, sem er í okkar nágrannalöndum — það á íslenzka þjóðfélagið að geta gert, ef það hefur bara sannan skilning á tryggingamálum og tilgangi þeirra — þá þyrfti ellilífeyririnn að vera rétt yfir 10 þús. kr. eða um það bil 2/3 af launum ófaglærðs verkamanns. Þá gætum við fyrst sagt, að við værum með tryggingalöggjöf, sem byggi að gamla fólkinu og öryrkjum með svipuðum hætti og gert er hjá nágrannaþjóðum okkar, og við erum ekki verr settir en svo, að það ættum við að geta gert, og við eigum ekkert minna upp að inna þeirri kynslóð, sem nú er um sjötugt og fæddist um aldamótin síðustu, í íslenzku þjóðfélagi fyrir það verk, sem hún hefur skilað, en nágrannaþjóðir okkar. Hér hefur verið byggt upp þjóðfélag frá grunni úr frumstæðu bændaþjóðfélagi í þróað nútímaþjóðfélag með verkum þessa fólks, og umbunin er þetta í allri velsældinni, sem það hefur lagt grunninn að. Sumir þættir trygginganna eru óbreyttir, aðrir liðir hækka þarna um 13% rúm, ellilífeyririnn og örorkubæturnar um 20% og einn tryggingaþátturinn um 40%. Ég held, að það hefði verið almest þörf á því að hækka ellilífeyrinn og örorkubæturnar meira en nokkurn annan þátt. Um það má kannske deila. Vissulega er full þörf á hækkun á þeim tryggingaþætti, sem hækkaði um 40%, svo að varla er þar heldur um ofrausn að ræða.

Ljótur ljóður finnst mér það á þessu frv., ef það er rétt, sem mér sýnist, að viðbótartrygging aldraðra, sem er verið að móta og koma á fyrir tilstuðlan verkalýðshreyfingarinnar, er eiginlega tekin aftur með þessu frv. Þeir, sem þá fá viðbótartryggingu, fá aftur klipið af, sem því nemur, þannig að þeir standa í sömu sporum. Ég vona, að þetta verði leiðrétt og mundi gleðjast mikið, ef þetta er á misskilningi byggt. En þetta finnst mér ekki ná nokkurri átt. Það var þannig hugsað, að ellilífeyrir aldraðra í verkalýðshreyfingunni væri í viðbót við það, sem tryggingakerfið gæfi á hverjum tíma. Og ef því er rift, þá er tilgangurinn með því samkomulagi við ríkisvaldið orðinn harla lítils virði og raunar tekinn aftur. Ef við svo gerum samanburð við aðra, við launastéttirnar í landinu, og berum hækkun tryggingabótanna saman við þær breytingar, sem hafa orðið í launakerfi opinberra starfsmanna með hæstv. ríkisstj. sem samningsaðila annars vegar við borðið, þá kemur það í ljós, að það eru ekki háar bætur, sem hinir lægstlaunuðu og þeir, sem trygginganna njóta, hafa fengið miðað við þær hækkanir, sem embættismennirnir hafa fengið. Nei, ekki hlutfallsleg hækkun, ekkert í þá átt. Það er hægt að nefna dæmi um það, og það er það almenna, held ég, að hækkun bótanna sé svona 1/30 hluti af hækkun hálaunaðs embættismanns, 1/30 hluti af þeirri hækkun, sem hálaunaður embættismaður hefur fengið. Það eru mörg dæmi þess, að embættismennirnir fengu í sambandi við þessa nýju samninga 30 þús. kr. hækkun á mánaðarlaunin sín, tvenn verkamannslaun brúttó í kauphækkun. Bótaþegunum, ellilífeyris- og örorkulífeyrisþegunum, er ætlað tæpt þúsund í hækkun. Þarna er ójafnt skipt; það verð ég að segja. Og við alþm. erum sjálfir að lagfæra okkar laun og sníðum þar ekkert smátt, skerum ekkert við nögl, af því að við erum að samhæfa okkur því launakerfi, sem ríkisstj. var nýbúin að ganga frá við embættismannastéttirnar. Og um það má deila, hvort við gerðum þar rétt, þ.e. að fella okkur þar inn í kerfið, eins og gert var, en sannarlega má um það deila, og það er ekkert óeðlilegt, að menn beri saman það hækkunarhlutskipti, sem bótaþegarnir fá móts við okkur alþm. Og það er heldur ófagur samanburður. Sumir kynnu kannske að segja, og það hefði verið eðlilegt, að hækkun bótanna í tryggingalöggjöfinni hefði verið eitthvað nálægt meðaltalshækkun embættislauna — eitthvað nálægt því, að það yrði ekki hallað á þá verst settu í lagfæringunni, að það nálgaðist meðaltalið. En það er svo fjarri því. Meðaltalshækkunin er milli 40–50% hjá embættismannakerfinu samkv. samningum ríkisstj. við BSRB. Og það eru hækkanir, sem eiga að koma til framkvæmda strax, en ekki að ári liðnu.

Það er sama, hvernig maður veltir þessu fyrir sér. Maður kemst að þeirri niðurstöðu, að lagfæringarnar, sem hérna er gefið fyrirheit um og standa á pappír, séu smávægilegar, hvert sem maður litur til samanburðar. En það, sem er minnst höfðinglegt við þessar umbætur, sem nefndar eru í frv., er það, að núverandi hæstv. ríkisstj. vísar bara á næstu ríkisstj., gefur ávísun á næstu ríkisstj. vegna þessara umbóta. Það er ekki fyrr en á árinu 1972, sem þessar lagfæringar eiga að koma til framkvæmda. Og það rennur mikið vatn til sjávar þangað til. Er ekki innstæða til fyrir þessari ávísun? Kannske það væri ástæða til þess að láta Seðlabankann athuga það, hvort þetta er nú gúmmítékki. Það skyldi þó aldrei vera. Það hefur ekki verið upplýst, svo að ég viti, að nokkur innstæða sé til fyrir þessu. Ég held, að þarna sé um falska ávísun að ræða. Það er ekki vitað til, að ríkissjóður hafi þarna neitt fé til þess að innleysa ávísunina með. Ég slæ því föstu, að þetta sé ekki eins og það ætti að vera.

Það má fyllilega búast við því, að það verði einhverjar breytingar í launamálum á næsta hausti, eftir að verðstöðvunartímabilinu lýkur. Ég gæti ímyndað mér, að þar sem samningar renna út 1. sept. þá væri nýtt kaupgjald samkv. nýjum samningum komið í gildi ekki síðar en 1. okt. 1971, og miðað við þá gerbreytingu, sem orðið hefur fyrir tilstuðlan núv. hæstv. ríkisstj. á launamálum opinberra starfsmanna, ríkisembættismanna, þá má búast við því, að það verði talsverð hækkun á launum verkamanna á næsta hausti. En er þá til fé til þess að bæta lífeyrisþegunum og öðrum bótaþegum almannatrygginganna þá dýrtíð, sem þá heldur innreið sína, og tryggja þeim, að þeirra bætur úr tryggingunum fylgist með hækkuðum launum verkafólks? Nei, það er víst engin von til þess. Það er líka eitt snilldarákvæðið í frv. Frv. gerir alls ekki ráð fyrir því, að bæturnar hækki, þó að laun verkafólks hækki — ekki samtímis.

Mér skilst, að það sé svo haglega um það búið, að ef launahækkun yrði hjá almennu verkafólki 1. okt., þá yrði ekki hækkun á bótum hjá almannatryggingunum fyrr en 6 mánuðum síðar, þ.e. mér reiknast til, að það sé 1. apríl 1972. Þær hækkanir, sem yrðu á almennum launum verkafólks, kæmu ekki bótaþegum trygginganna til góða fyrr en 6 mánuðum síðar miðað við 1. okt., þ.e. 1. apríl 1972. Það er gefið fyrirheit um, að þær hækkanir bóta, sem gert er ráð fyrir í frv., gangi í gildi 1. jan. 1972, en bæturnar fylgi með hækkun á launum verkafólks. Það kemur ekki til mála fyrr en hálfu ári síðar. Þetta finnst mér líka vera lítið höfðinglegt; það verð ég að segja. Því miður tók frv. litlum breytingum í hv. Ed. Það er skýrt frá því í örstuttu nál., að nm., sem endurskoðuðu frv., hafi rætt við heilbr.- og félmn. Ed. og þeir hafi skýrt frá, hvaða breytingar væru á frv., og nm. hafi spurt um fjölmörg atriði, en síðan segir:

„Meiri hl. n. mælir með samþykkt frv., en einstakir nm. áskilja sér þó rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma.“ Þar með búið.

Og þær eru ekkert margar brtt., sem þeir sáu ástæðu til þess að aðhyllast, en þær voru bornar fram í Ed. margar og sumar veigamiklar, en fundu fæstar náð fyrir augum meiri hl. Ekki að tala um, að hlustað væri á neinar till. til hækkunar á bótunum almennt, t.d. að því er snerti ellilífeyri og örorkubætur, eða á till. til þess að fyrirbyggja, að ellilífeyrir aldraðra hyrfi sem viðbótarlífeyrir, en sú till. var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ný nýtur elli- eða örorkulífeyrisþegi bóta samkv. lögum um eftirlaun til aldraðra í stéttarfélögum, og skulu þau laun hans þá ekki skerða rétt hans til framangreindrar hækkunar.“

Eftir því sem ég veit bezt, var þessi sjálfsagða till. felld og þykir mér það mjög miður, því að þar er í raun og veru verið að svíkjast undan skuldbindingum, sem hæstv. ríkisstj. hefur þó áður á sig tekið. Þetta átti að vera viðbótartrygging og á að vera það.

Ég hef áður vikið að því, hversu fáránlegt mér þykir að fella till. eins og þessa: „Nemendur 17–20 ára, sem stunda nám eigi skemur en 6 mánuði á ári, eru einnig undanþegnir gjaldskyldu.“ Þetta fékkst ekki fram. Eða sjálfsögð till. eins og þetta — a.m.k. hefði mátt ætla, að einhverjir dreifbýlismenn úr stjórnarliðinu hefðu viljað á hana hlusta. Hún er svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú er hérað sjúkrahúss- og læknislaust, og skal þá Tryggingastofnun ríkisins greiða nauðsynlegan ferðakostnað fyrir sjúklinga og barnshafandi konur.“ Eftir því sem ég veit bezt, fékkst till. ekki samþykkt. Þetta hefði þó verið óumdeilanlegt sanngirnismál, þegar svo stóð á eins og í till. sagði, að hérað væri sjúkrahúss- og læknislaust og í ekkert hús að venda annað en taka á sig flutning sennilega til Reykjavíkur. Eða þá till. um það, að þeir, sem gert hafa sjómennsku að ævistarfi og stundað sjómennsku í 35 ár eða lengur, skyldu öðlast fullan rétt til lífeyris, þegar þeir næðu sextugsaldri, og ef maður hefði stundað sjómennsku sem aðalstarf í 40 ár, fengi hann tvöfaldan ellilífeyri, þegar hann yrði sextugur. Í þessari till. var einnig lagt til, að fullur ellilífeyrir yrði einnig greiddur ekkjum, þegar þær yrðu sextugar. Þessi till. hefur fengið hljómgrunn; og hún verður ekki stöðvuð til lengdar, en það hefði verið sómi að því fyrir Alþ. að líta nú til sjómannastéttarinnar á þennan hátt, sem kostaði ekki of fjár að samþykkja, að þeir fengju ellilífeyri fyrr en aðrir samkv. tryggingakerfinu — 7 árum fyrr, því að þeir eru flestir slitnir menn, áður en þeir eru orðnir sextugir og hafa þar að auki unnið slík þjóðnytjastörf, að þetta væri ekki of mikil umbun, við meiri háska en flestir aðrir fjarri heimilum sínum, og má fleira til telja sem rök, sem öllum er augljóst: Nei, þessi till. var hvorki tekin með af endurskoðunarnefndinni né á hana fallizt, þegar hún var borin fram í hv. Ed., né heldur á hugmyndina um tryggingadómstól, sem virðist þó hafa vakað í hug endurskoðunarnefndarinnar líka, en var lögð til hliðar. Það er hugmynd, sem áreiðanlega verður samþ. fyrr eða síðar, og ég veit ekki, hvort það hefði þurft að kosta nokkurt fé, en mér skilst þó, að hún hafi verið felld líka.

Hér var á það bent af einum eða fleiri ræðumönnum í kvöld, að það hefði átt að bæta við skyldu til þess að sjá um tannlækningar á kostnað trygginganna, og víst hefði það verið mikilsvert menningaratriði, að slíkt hefði verið tekið inn í tryggingarnar. En svo var borin fram líka takmarkaðri till. um þetta á þá Íund, að tannlækningar yrðu að 1/4 hlutum greiddar, þegar þær teljast bein heilsufarsleg nauðsyn — auðvitað að dómi sérfræðinga, lækna. Þetta væri þó skref í áttina, væri veruleg umbót á löggjöfinni og æskilegt, að hún hefði fengizt samþykkt. En ég held, að hún hafi líka verið felld.

Það, að frv. eigi ekki að ganga í gildi fyrr en i. jan. 1972, er furðulegt. Til hvers er verið að bera það fram? Hver skilur það? Hver getur skýrt það? Það er ekki til þess að sýnast. Það er til þess að afhjúpa sig sekan um svívirðilegt athæfi og ekkert annað. Að vera að flagga með því, að þeir séu að samþykkja umbætur á tryggingalöggjöfinni, en svo eigi hún að leggjast í geymslu niðri í skúffu eða uppi á hillu marga mánuði án Þess, að nokkur maður fái nokkurn eyri af þessum lögfestu umbótum. Það verða engin kosningaplögg úr þessu. Ef þeir hafa ekki annað til að skýla sér í kosningunum, hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsmenn, þá koma þeir fram fyrir kjósendur sem striplingar. Ákvæðið, sem ýmsir hafa minnzt á í umr. um gamla fólkið, sem er neytt til þess að fara á sveitina, er ákvæði, sem ég ráðlegg hæstv. ríkisstj. að nema burt úr frv., því að þeir vita vafalaust ekki, hvaða alda rís út af þessu eina atriði. Það er einmitt enn þá lifandi í vitund gamla fólksins á Íslandi, hvað það þýddi að fara „á sveitina“ og yrði þeirri mynd brugðið upp nú fyrir fólki, að ef það eigi að geta fengið greiðslur til þess að dvelja á elliheimili, þá verði það að fara á sveitina til þess. Þetta mun opna blóðuga und í brjósti margra, þegar þeim verður það kunnugt. Og það er ég alveg viss um, að þetta eitt, þótt ekkert væri annað við þetta frv., mun verða til þess, að það verður ekki mikið skjól að þessu frv. sem kosningafötum.

Ég vil að sjálfsögðu þakka gráu bæturnar á svörtu fötin, því að svo kalla ég þær umbætur, sem í þessu frv. felast, en ég held, að þær ættu að vera samlitari fötunum og þær ættu að skýla betur götunum, sem blöstu við á tryggingalöggjöfinni og göptu við allra sjónum. Ég treysti því, að sú n., sem fær málið til meðferðar í þessari hv. d., loki ekki alveg eins augum og eyrum fyrir þeirri umbótaþörf, sem er augljós varðandi þetta frv., og taki betur á til þess að lagfæra það en gert var í Ed. Það er ekki takandi í mál að hampa þessu frv. sem umbótum á tryggingalöggjöfinni. Til þess gengur það allt of skammt á öllum sviðum, og það er hlálegt að breyta ekki lokaákvæðinu um gildistökuna. Auðvitað ætti þetta frv. að enda á hinu hefðbundna: „Lög þessi taka þegar gildi“, og það hefur engum, sem tryggingabóta eiga að njóta, dottið annað í hug en það, að afgreiddi Alþ. breytingar á tryggingalöggjöfinni, þá tækju þær gildi þegar í stað. Þó væri hægt að hugsa sér sem varatill., að löggjöfin tæki gildi 1. júlí, á miðju þessu ári eða til þrautavara, að löggjöfin tæki gildi 1. sept., þegar hrollvekjan skellur yfir, sem Ólafur Björnsson hefur lýst fyrir okkur.