31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1578 í B-deild Alþingistíðinda. (1603)

281. mál, almannatryggingar

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Umr. þessum er nú senn að verða lokið, áður en málið fer til hv. heilbr.- og félmn. Ég ætla þó að leyfa mér að fara um það örfáum orðum. Umr. þær, sem hér hafa farið fram, hafa frekar einkennzt af rabbtón að mínum dómi en markvissum ádeilum á frv. og efni þess, því að margt má um þessi mál segja og að sjálfsögðu margar till. flytja eða ræða um og bera í munn sér fram yfir það, sem drepið er á í þessu frv.

Það virðist vera augljóst að verið hafi full ástæða til að láta endurskoða þessi l., ef dæma má eftir 80. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að ekki færri en 18 l. falli úr gildi við samþykkt þess. Þá er ekki heldur hægt að mæla gegn því, að til þessarar endurskoðunar hafi valizt hinir mætustu menn. Að vísu var að því vikið hér áðan, að gjarnan hefði fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga mátt vera í þessari endurskoðunarnefnd, enda mála sannast, að sveitarfélögin hafa ákaflega mikið um mál þessi að segja og þau mæða þungt á þeim á margan veg. En eins og segir í aths., þar sem getið er helztu breyt., er því ekki að neita, að þær horfa yfirleitt til bóta miðað við þá löggjöf, sem í gildi er nú. Það er þá fyrst 20% hækkunin. Annað má nefna, að ekkjubætur eru hækkaðar, gert ráð fyrir heimild til greiðslu mæðralauna til fósturmóður o.fl. Þessi atriði eru talin í 12 liðum, sem öll eða flest horfa til mikilla bóta. Að vísu er lagt til í þessu frv. — og það er atriði, sem nokkuð er um deilt — að hreppasjúkrasamlögin verði lögð niður, en í staðinn komi sjúkrasamlag í hverju sýslufélagi. Það má vafalaust færa góð og gild rök fyrir þessari breyt. frá almennu tryggingasjónarmiði. Bent er á, að stækkun sjúkrasamlaga frá því, sem nú er, virðist nauðsynleg, að mörg sjúkrasamlaga þeirra, er nú starfa, séu of lítil, sjúkratilfelli séu fá og jafnvel aðeins eitt slíkt tilfelli geti verið fjárhag þeirra um megn, dreifing áhættunnar í smáum tryggingareiningum verði einatt of lítil, markmið allra trygginga sé einmitt það að dreifa áhættunni sem mest eða a.m.k. svo mikið, að iðgjöld þau, sem greiða verður, verði hinum tryggðu bærileg án þess, að fjárhag þeirra sé stefnt í voða. Allt er þetta í góðu gildi miðað við hið almenna tryggingasjónarmið.

Einnig eru hugleiðingar Þórðar Eyjólfssonar, fyrrv. hæstaréttardómara, birtar sem fskj. með frv. og fjalla um það efni, þegar sjúkrasamlög eru sameinuð, hvernig fari þá um eignir þeirra, eignaskiptingu og annað. Að sjálfsögðu eru þær hu leiðingar í góðu gildi, en það þarf meira til. Ég hygg, að um þetta málefni gildi nokkuð svipað og um hugmyndina um sameiningu sveitarfélaga. Því máli erum við ekki ókunnugir hér í hv. d. Það er ýmislegt fleira, sem þarf að taka til greina, en þessar bláköldu staðreyndir, sem nú hefur verið minnzt á. Þess vegna held ég, að það sé ekki hyggilegt að taka svona djúpt í árinni, eins og gert er í frv., þ.e. að skera öll hreppasjúkrasamlög niður við trog. Ég held, að fara þurfi gætilega að við það mál. Ég minnist þess, að fyrir nokkrum árum fór fram könnun á þessum málum um allt land. Mun þá mikill meiri hl. sjúkrasamlagsstjórna hafa lagzt gegn því, að þetta yrði tekið upp sem almenn regla. Hins vegar hefur heimild til þess lengi verið í almannatryggingalöggjöfinni, en mun vera litt notuð. Ég viðurkenni fyllilega þau rök, sem þarna liggja til grundvallar, eða þessa tilhneigingu, en tel þó, að þarna þurfi að finna einhvern milliveg til þess að gera þessi ákvörðun móttækilega fyrir þá, sem henni eiga að lúta.

Það hefur að sjálfsögðu verið talsvert rætt hér um framfærslusjónarmið og tryggingasjónarmið og annað slíkt og að sjálfsögðu eiga ákvæði l. að vera gerð svo úr garði, að framfærslusjónarmiðið sé ekki haft á oddinum — a.m.k. þannig, að áberandi sé. Það hefur verið rætt talsvert mikið um þá erfiðleika, sem einstæðir feður og einstæðar mæður eiga við að búa í þessum efnum. Skal ég sízt úr því draga og ekki nema gott, að ræðumenn beri sér þau efni í munn, einkum ef full og góð meining fylgir. En það hefur aftur minna verið rætt um málefni heimilanna og hjónanna. Þó vita allir, að hjón fá ekki nema 90% hvort um sig af fullum einstaklingslífeyri. Ég veit þó ekki betur, en þau verði að greiða að fullu dvöl sína á hæli, þegar þau eru orðin það öldruð, að þau geta ekki lengur haldið heimili. Þá er krafizt af þeim hvoru um sig fullra gjalda fyrir dvölina þar. Finnst mér, að líka mætti minnast á ástæður þeirra.

Það hefur verið rætt hér um ýmislegt varðandi heppilegri umdæmaskiptingu, t.d. að sjúkrasamlög bæri frekar að miða við læknishéruð en sýslufélög. Einn ræðumanna hafði á orði hér áðan eitthvað í þá átt, að hlutverk sýslufélaga væri nú margfalt minna en áður var, ef ég hef heyrt rétt. Væri þess vegna frekar ástæða til að miða þessi mörk við læknishéruð. Það er nú mála sannast, að mörk sýslufélaga eru yfirleitt í mjög föstum skorðum og því varhugavert að meta það ekki sem skyldi. Einnig er það tvímælalaust, að á sýsluskrifstofurnar og sýslurnar hafa hlaðizt mikil störf á þessu sviði. Sem umboðsmenn trygginganna hafa sýslumenn og þeirra starfsfólk unnið mikið að þessum málum frá upphafi vega. Þau verkefni hafa stöðugt farið vaxandi.

Hitt er svo alveg rétt, að það er ekki sama, hvernig um svona mál fer. Það er allt of mikilvægt til þess, að menn láti sig það litlu eða engu skipta. Þess vegna væri að sjálfsögðu hægt að ræða mikið og margt um þetta frv., og eins og ég hef bent á, stefnir það í rétta átt án þess kannske að marka veruleg kapítulaskipti eða þáttaskil. Það hefur verið talað um falskar ávísanir og sýndarmennsku í þessu efni. Sumir vilja hafa fölsku ávísanirnar eða gúmmítékkana sem hæsta og er það stefna út af fyrir sig, ef því er haldið fram. Ég tel, þegar á allt er litið, að þetta frv. sé miklu meira en sýndarmennska. Það er áfangi á þróunarbraut tryggingamála hér á landi, en í áfangastað er að sjálfsögðu jafnan hægara að dæma um þá leið, sem lögð er að baki, en brekkuna fram undan.